Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Bóndadóttir og kjólmaður

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Bóndadóttir og kjólmaður

Það var eitt sinn að í Austfjörðum bjó bóndi, hann átti eina dóttur, – að einn aðfangadag ætlaði fólk til kirkju um kvöldið eins og þá var siður til. Bóndadóttur ætlaði einnig að fara, en er hún var ferðbúin varð henni bráðlega illt svo að hún settist kyr. Kerling og drengur urðu eftir hjá henni. Þessi kerling hafði fóstrað bóndadóttur. Nú líður þar til bóndadóttur tekur bækur til lestrar, en er hún var setzt niður nærri glugga þá sýnist kerlingu sem hún hlusti eftir einhverju við gluggann. Hún fór svo að lesa, en er hún var búin að því spyr kerlingin hana að hvert nokkur hafi komið á gluggann áðan, hin segir nei.

Nú bar ei neitt til tíðinda fyr en á næstu jólanótt, þá ætlaði bóndadóttur sem fyrri til kirkju, en það fór á sömu leið, hún varð vesöl og settist aftur kyr. Þau sömu urðu líka heima, nefnilega fóstra hennar og drengurinn. Nú leið þar til þau háttuðu, en bóndadóttur fer fram og kemur inn aftur með sinn bezta fatnað og segist ætla að klæða sig í föt þau er hún hefði farið í til messunnar. Meðan hún klæðir sig sofnar kerlingin, en þegar hún var búin að því gekk hún fram og þá sofnaði drengurinn. Nú sváfu þau um nóttina, en um morguninn sást bóndadóttur hvergi. Um daginn kom bóndi heim og allt fólkið frá messunni við illar fréttir er dóttir hans var horfin. Hann fer að leita og fær sér menn að til þess, en hún fannst ei að heldur og ekkert merki til neinnar slóðar nema skammt frá vallargarðinum sýndist eins og riðið hefði verið skaflajárnuðum hesti. Nú hætti bóndi leitinni með söknuði að missa dóttur sína.

Nú er þar frá að segja að þriðja haust frá þessu hvarf allt fé bónda þessa og var lengi leitað, en ekkert fannst af því. Þá fékk bóndi tvo bændasyni þar í grennd til leitar á fjöll upp og gjörði þá út til langrar útivistar. Þeir gengu í afréttina og um hana lengi, en urðu einskis varir þangað til einn dag gekk að með dimmviðri og vissu þeir eigi hvað þeir fóru. Þeim virtist þeir vera komnir í dal nokkurn. Þeir ganga eftir honum þangað til þeir sjá bæ reisuglegan. Þeir ganga að honum; þar vóru dyr í hálfa gátt. Þeir ganga inn í dyrnar og vóru þar tveir kvenmenn fyrir. Þeir heilsa þeim og biðja þær að skila inn um næturgistingu; þeir fá hana. Svo eru þeir leiddir inn í baðstofu og færðir úr snjófötunum í hennar enda af þessum sömu kvenmönnum. Eftir það segja þær þeim að setjast þar innar á rúm og leggjast í það; þeir gjörðu svo. Nú lágu þeir þar, en er dimma tók þá koma tólf karlmenn inn. Þá fara tólf kvenmenn að draga af þeim snjóklæðin. Nú var aðkomumönnum færður matur eins og líka þessum tólf karlmönnum. Þegar þeir eru mettir er lokið upp húsi í innri enda á baðstofu; þar kemur út maður á kjól með bækur til lestrar. Þetta var húsbóndinn. Þeir þakka honum greiðann; hann tekur því glaðlega. Nú vóru þeir hríðtepptir í þrjá daga og bar ei neitt til tíðinda fyr en fjórða morguninn er hríðarupprof. Þá kemur þessi kjólmaður til þeirra og býður þeim að koma út með sér. Sýndi hann þeim öll híbýli sín og eigur allar, en er hann er búinn að því sýnir hann þeim svefnherbergi sitt. Þar sjá þeir bóndadóttir halda á barni; þeir heilsa henni. Kjólmaðurinn segist hafa misst konu sína og ekki hafa getað fellt sig við neina aðra en þessa. „Hjá mér er líka fé það er þið leitið að og hef ég valdið hvarfi þess, en nú skuluð þið fara með það heim aftur til bónda. Nú skal ég ljá ykkur mann til fylgdar þar til þið eruð vissir um ykkur heim. En nú ætla eg að biðja ykkur að koma hingað til mín aftur því kvenmenn þeir er hafa þjónað ykkur hér eru dætur mínar og hafa fest á ykkur huga sinn með ástartilfinningu.“ Þeir lofa því. Nú afhenti hann þeim féð og margt frá sér af fénaði líka, en þegar þeir kveðja hann sendir hann bónda föður hennar bréf og peningapyngju mjög stóra.

Þeir fóru nú af stað með fylgdarmanninum; hann fór með þeim þangað sem þeir þekktu sig. Nú komast þeir heim að bæ bónda; þá var komið kvöld. Annar þeirra fer upp á glugga og heyrði að bóndi var að tala um raunir sínar í þessu bága ástandi hans, að sér hefði orðið það að senda mennina til fjárleita, mundu þeir hafa orðið úti og væri [hann] valdur að þeim óhöppum. Í sama bili kallaði leitarmaðurinn á gluggann og brá bóndi skjótt við að ganga til dyra og fagnaði komumönnum vel. Nú fóru þeir að hýsa féð, en húsin rúmuðu það ekki svo þeir þurftu að hýsa sumt í bæjarhúsum. Bóndi fylgdi leitarmönnum til baðstofu og greiddu þeir honum þá af hendi sjóðinn og bréf það er þeir höfðu til meðferðar. Glaðnaði yfir bónda er hann las bréfið og vissi að dóttur sinni liði vel. Um nóttina gistu leitarmenn hjá bónda og fóru daginn eftir heim til sín. Þegar áliðið var vetrar seldu þeir muni sína, og voru það veiðarfæri, skip og margt annað. En sumardagsnóttina fyrstu hvurfu þeir báðir og hugðu menn að þeir hefðu farið til prestsins aftur.