Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Bjarni Sveinsson og Salvör systir hans
Bjarni Sveinsson og Salvör systir hans
Maður hét Sveinn. Hann var bóndi norður í Skagafirði. Kvæntur var hann, en ekki er þess getið hvað kona hans hét. Sveinn var maður vel efnaður. Hann átti tvö börn sem sagan nefnir. Hét sonur hans Bjarni, en Salvör dóttir. Þau vóru tvíburar og unntust mjög. Þau voru þá um tvítugt er þessi saga gjörðist.
Eitt vor um Jónsmessu fóru margir Skagfirðingar á grasafjall. Sveinn bóndi ætlaði líka að láta Bjarna son sinn fara. En þegar Salvör heyrði það vildi hún líka fara. Foreldrar hennar vildu það ei, en létu þó loks til leiðast fyrir bænastað hennar. Áttu nú bæði systkinin að fara á grasafjallið. En nóttina áður en þau fóru dreymdi Svein bónda að hann þóttist eiga fugla tvo hvíta og þótti honum mjög vænt um fuglana. Þóttist hann nú missa kvenfuglinn og saknaði hans mjög. Sveinn réði svo draum sinn að hann mundi nú bráðum missa dóttur sína og fékk það honum áhyggju mikillar. Vildi hann nú ei að hún færi á grasafjallið, en hún linnti ekki fyrr en hún fékk að fara. Fóru þau nú systkinin og segir ekki af ferðum þeirra. Gengu þau hinn fyrsta dag og tíndu grös eins og aðrir. En um nóttina varð Salvöru snögglega illt og gat hún ekki farið með fólkinu. Varð þá Bjarni eftir hjá systur sinni. Liðu svo þrír dagar að Salvöru þyngdi einatt og var Bjarni hjá henni. En hinn fjórða daginn fékk hann annan mann til að vera hjá systur sinni og gekk einsamall frá tjaldinu. Þegar hann hafði tekið grös í tínupoka sinn settist hann undir stein einn mikinn og studdi hönd undir kinn. Var hann að hugsa um sýki systur sinnar og var mjög hugsjúkur og áhyggjufullur.
En er hann hafði þar litla stund setið heyrir hann dyn mikinn. Litast hann þá um og sér hvar tveir menn koma ríðandi. Þeir riðu mikinn og stefndu að Bjarna. Reið annar þeirra rauðum hesti og var hann á rauðum klæðum. Hinn var á dökkum klæðum og reið brúnum hesti. Þeir stigu af baki við steininn og heilsa Bjarna með nafni. Spurði þá rauðklæddi maðurinn hvað að honum gengi. Bjarni vildi ekki segja það. Hinn rauðklæddi maður segir að hann muni ei hafa verra af því þó hann segi sér það. Bjarni segir honum þá frá sýki systur sinnar. Segir hann að nú ætli samferðamennirnir að fara að fara heim, „og má ég þá verða hér einn eftir hjá systur minni og veit ég ei nær hún deyr í höndum mínum“. „Bágt áttu Bjarni,“ segir hinn rauðklæddi maður, „og vorkenni ég þér þetta. En viltu nú ekki gefa mér systur þína?“ „Nei,“ segir Bjarni, „það má ég ekki. Ég veit engin deili á þér og ei veit ég hvaðan þú ert. Eða hvaðan ertu?“ „Þig varðar ekki um það,“ segir rauðklæddi maðurinn. Tekur hann þá upp hjá sér gullroðnar silfurdósir og var steinn í lokinu, og segir: „Viltu ekki selja mér systur þína fyrir dós þessa?“ „Nei,·“ segir Bjarni, „Ég gef þér hana aldrei hvað sem þú býður.“ „Jæja,“ segir maðurinn, „þiggðu samt dósina af mér til minnis um það að þú hafir fundið mann á fjöllunum.“ Tekur Bjarni við dósinni og þakkar honum gjöfina. Kveðja þá aðkomumennirnir Bjarna og ríða burtu, en Bjarni fer heim að tjaldinu. Um morguninn fara samferðamenn hans heim og er hann þá einn eftir hjá systur sinni. Var hann nú mjög hræddur um að hinir ókunnu menn mundu stela systur sinni og þorði ei að sofna. Vakir nú Bjarni þann dag allan, en um nóttina sækir mjög svefn á hann og leggur hann sig niður hjá systur sinni. Spennir hann þá greipar um hana miðja og ætlar að ei skuli hún verða svo burtu numin að hann verði ekki var við. Sofnar Bjarni nú fast. En er hann vaknar er systir hans öll á burt. Verður hann nú angraður mjög og leitar þann dag allan, en finnur hana ei. Tekur hann sig nú upp og ríður heim um nóttina og segir tíðindi. „Þetta grunaði mig snemma,“ segir Sveinn, „dregur æ nokkuð til þess sem verða vill.“ Var þá safnað saman mönnum og leitað vandlega, en Salvör fannst eigi að heldur. Þótti mönnum þetta skaði mikill því stúlkan var efnileg og allra manna hugljúfi.
Líður nú til þess Bjarni er þrítugur að aldri. Var hann þá kvongaður og farinn að búa. Eitt haust vantaði sauðamann hans féð allt og leitaði hann þess þrjá daga, en fann ei. Segir þá Bjarni konu sinni að búa til vikunesti handa sér og skó góða; því hann kvaðst ætla að leita kinda sinna. Foreldrar Bjarna lifðu þá enn og báðu þau hann að fara ekki. En hann sagði þau skyldu vera óhrædd og vona ekki eftir sér fyrr en að viku liðinni. Eftir það fór hann og gekk nú samfleytt í þrjú dægur. Kom hann þá að hellisskúta einum og svaf þar.
Þegar hann vaknaði var komin niðmyrkursþoka. Samt hélt hann af stað og villtist hann nú skjótt. Gekk hann þá til þess er hann kom í dal einn allmikinn. Þá var liðið á dag. Þokulaust var niður í dalnum. Þegar hann kom niður í dalinn sá hann þar bæ mikinn og reisulegan. Þangað fór hann. Sér hann þar karla og konur við slátt á engi fyrir utan túnið. Gengur hann þar að sem konurnar eru; þær voru þrjár og var ein þeirra tíguglegri en hinar. Hann heilsar þeim og spyr hvort hann muni fá að vera þar um nóttina. Þær segja allar já og fer ein þeirra heim með honum að bænum. Það var ung stúlka og ofur lagleg. Það var eins og Bjarna sýndist hún lík systur sinni þeirri er hann hafði misst á grasafjallinu forðum. Rifjaðist þá allur sá atburður upp fyrir honum og varð hann mjög angraður með sjálfum sér, en lét þó stúlkuna ekki veða vara við það. Koma þau nú heim og leiðir stúlkan Bjarna inn í bæinn. Voru þar stór hús og falleg. Koma þau nú í herbergi eitt rúmgott og vel vandað. Þar fær stúlkan Bjarna stól og biður hann bíða sín. Hleypur hún þá út, en kemur að vörmu spori inn aftur og setur mat og vín á borð fyrir Bjarna. Snæðir hann síðan, en að því búnu biður stúlkan hann ganga til hvílu. Fylgir hún honum nú í hús eitt lítið og er þar sæng upp búin. Háttar nú Bjarni og dregur stúlkan af honum vosklæði, býður honum síðan góðar nætur og fer burtu. Hugsar hann nú um hvar hann muni vera og hvernig á því muni standa að þessi stúlka hafi svo rifjað upp fyrir sér harma sína og skilur ekki í því. Út frá þessum hugsunum sofnar hann, en vaknar við það að hann heyrir söng uppi yfir sér. Heyrir hann að á loftinu uppi yfir rúminu hans er verið að lesa eins og títt er í sveitum. Sungu þar margir, karlar og konur, og bar þó ein rödd af hinum. Þessi rödd vakti algjörlega upp harma Bjarna því þar þóttist hann þekkja hljóð Salvarar systur sinnar. Var hann nú nokkra stund að hugsa um þetta, en síðan sofnaði hann aftur og vissi ei fyrr en litla stúlkan sem hafði þjónað honum til sængur um kvöldið vakti hann. Kom hún þá með góð klæði og bað hann fara í þau; því hún sagði að hann mundi verða þar um daginn því það var sunnudagur. Fer þá stúlkan út.
En á meðan Bjarni var að klæða sig kom inn til hans piltur dálítill. Hann var á grænum klæðiskjól og að öllu vel búinn. Sveinninn heilsar Bjarna og er mjög ræðinn við hann. „Hvað ertu að fara?“ segir pilturinn. „Ég er að svipast að fé,“ segir Bjarni. „Ekki hef ég orðið var við það hérna í dalnum,“ segir pilturinn. „Þú verður hér kyrr hjá okkur í dag því hann faðir minn ætlar að messa,“ segir hann. Í þessu kemur stúlkan inn og segir: „Sveinn, vertu ekki að neinu bulli við manninn.“ Ber þá stúlkan á borð fyrir Bjarna. En þegar hann var búinn að snæða fer hún út. Sér hann þá fjölda fólks vera að koma og tekur nú sveinninn í hönd honum og leiðir hann út í kirkjuna og vísar honum í sæti. Litast Bjarni nú um og þekkir hann þá rauðklædda manninn við hliðina á sér sem komið hafði til hans á fjöllunum. En það sá hann var presturinn sem þá var á dökku klæðunum. Margir voru í kirkjunni og voru flestir karlmennirnir illilegir og stórir. Sumir þeirra voru í sauðsvörtum klæðum prjónuðum. Tekur þá Bjarni upp dósina góðu og býður sessunaut sínum í nefið og þá hann það. Í framkirkjunni sér Bjarni konu eina tíguglega búna og þóttist hann þekkja þar systur sína. Þau horfðu hvort á annað og var eins og hún ýmist brosti eða gréti þegar hún sá hann. Þóttist hann nú sjá hvernig öllu var háttað og að hann var kominn til systur sinnar. Leið nú messan og fór embættisgjörðin ágætlega fram. Eftir blessanina tekur pilturinn í hönd Bjarna og leiðir hann út. En þegar þeir koma út fyrir dyrnar situr þar karl einn gamall og illilegur. Hann bregður fæti fyrir Bjarna svo hann dettur. Hleypur þá pilturinn inn í kirkjuna að rauðklædda manninum og sækir hann. Rauðklæddi maðurinn tók þá til karlsins og dustaði hann til, en pilturinn fór með Bjarna í bæinn.
Að litlum tíma liðnum koma þeir rauðklæddi maðurinn og bláklæddi maðurinn. Þeir heilsa Bjarna vingjarnlega og spyrja hvort hann þekki sig. Hann sagði að svo væri og var nú heldur fár við; því margt rifjaðist nú upp fyrir honum. En í þessu kemur inn konan sem hann sá í kirkjunni og hélt að væri systir sín. Hún hljóp í faðminn á Bjarna og segir: „Í faðmlögum vorum við í móðurlífi, grátandi var ég þaðan tekin og nú kem ég hlæjandi aftur í faðm þinn, bróðir.“ Heilsast þau nú og verður þar fagnaðarfundur. Sagði hann henni þá allt sem við hafði borið í Skagafirði síðan hún hvarf. Þá segir rauðklæddi maðurinn: „Ég tók systur þína, Bjarni, úr faðmi þínum forðum og gifti hana þessum bláklædda manni. Hann er sonur minn og prestur okkar dalbúa, en ég er hér sýslumaður. Nú tók ég fé þitt og villti þig hingað svo þið gætuð fundizt systkinin og sagt hvort öðru sögu ykkar síðan þið skilduð. Á morgun skal ég fylgja þér og fá þér fé þitt, en vertu hér í nótt og talaðu við systur þína.“ Bjarni gjörir nú þetta.
Um morguninn fer hann og kveður systur sína með mörgum tárum. Rauðklæddi maðurinn fer nú með honum og reka þeir féð saman. Bláklæddi maðurinn var og með þeim og fylgdu þeir honum ofan undir byggð. Þar skilja þeir og mæltu til vináttu hvor af öðrum Segir þá dökkklæddi maðurinn að hann ætli sér að senda eftir honum í vor og skuli hann þá vera ferðbúinn um fardagana; „skaltu búa hjá oss í dalnum“. – Kemur nú Bjarni heim og segir konu sinni og foreldrum ferðasögu sína og fyrirætlan, en biður þau leyna því. Líður nú fram að fardögum; þá koma menn þrír með hesta Bjarna. Fór hann um nóttina með allt sitt bú, karl og kerlingu, konu og börn. Koma þau nú í dalinn og varð þar fagnaðarfundur. Þar bjó Bjarni lengi. En þegar hann var gamall orðinn fór hann aftur til Skagafjarðar. Sagði hann þá þessa sögu og dó síðan í góðri elli.