Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Bjarni leitarmaður og fjallbúarnir

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Bjarni leitarmaður og fjallbúarnir

Einu sinni fóru margir menn á fjallið og skiptu sér eins og plagar að vera. Tveir þeir frískustu áttu að fara í lengstu leitir. So fara hvur frá öðrum, so eru þeir komnir í lengstu leitir. Þá sjá þeir stóran kindahóp. Þá segir Jón við Bjarna þeir megi ekki sleppa þessum hóp. Þeir fara á stað og elta það æðilangan veg og var Jón langt á undan Bjarna og Bjarni sér klettaskoru og þar fara kindurnar inn í og Jón á eftir. Þegar Bjarni kemur í klettaskoruna þá sér hann hvurgi Jón né kindurnar, með því líka var komin dimma. Hann sér að það er dalur og rennur lækur í miðjum dalnum; hann gengur með fjallbrúninni austan megin og finnur skúta og liggur í hönum um nóttina. Um morguninn gengur hann á stað innar eftir dalnum; þá sér hann fé, kýr og hross, og þá er komið kvöld. Þá kemur hann að háum garði sem nær yfrum dalinn; hann sér þar hvurgi hlið á nema þar sem lækurinn rennur. Þegar hann er kominn yfir garðinn þá sér hann sex bæi, þrjá hvorumegin læksins. Hann fer að næsta kotinu; hann lemur þar á dyr. Karl kemur til dyranna. Hann biður hann að lofa sér að vera; hann segist ekki eiga húsaráð. Hann biður hann að skila í bæinn; hann fer inn og kemur aftur og segir hann megi vera. Hann fer inn og sér þar tvo kallmenn og er annar mjög gamall að sjá, og kerlingu og stúlku. Hann heilsar og er stuttlega tekið undir; hönum er hvorki boðið þurrt né vott. So loksins fór kerling fram og kemur inn með skál með keti; þar er mannshönd ofan á og hann þekkir að höndin er af Jóni. Hönum bregður heldur en ekki við í brún og hann étur sauðaket sem þar er undir. Svo þegar farið er að hátta þá segir stúlkan hann skuli vera var um sig í nótt, það eigi að drepa hann og skuli hann flýta sín í burtu og hann skuli taka hérna skjóttu hestana í dalnum. Hann segist einhvurn tíma skuli muna henni það ef hann komist lífs úr dalnum. So hleypur hann þangað til að hann kemur að þessum hrossahóp; þá tekur hann þennan skjótta hest og hnýtir upp í hann snæri og ríður slíkt sem af tekur þangað til að hann kemur að þessum skúta; þá rekur hann hestinn til baka og felur sig í skútanum og hleður kekkjum fyrir dyrnar. So heyrir hann mannaskvaldur og eru að segja að þarna hafi mannskrattinn sleppt hestinum; hann hafi líklega farið ofan í pyttinn. So heyrir hann að þeir fara. So þegar bjart er þá fer hann á stað í mesta flýtir og fram í byggð og segir upp alla sögu. So fær hann marga menn og alla með byssur og fer með þá í þennan dal. Þá koma þeir að þessu koti; þá skjóta þeir þessa kalla og kerlinguna, en ekki stúlkuna. Hún sagði þeim að þeir hefðu drepið alla fjallmennina og sýndi þeim brunn sem þeir settu þá ofan í. Þeir taka allt sem þeir áttu og stúlkuna og fóru með það fram í sveit. Hún segir þeim að hún hafi verið að smala hjá foreldrum sínum og þá hafi þessir fantar stolið sér. So giftist hann stúlkunni og átti allan auðinn sem hann sótti í dalinn. Og endar so þessi saga.