Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Bjarni smalamaður

Úr Wikiheimild

Það var einu sinni ríkur bóndi á bæ; hann var mjög fjárríkur og hélt smala. Einu sinni vantaði alla sauðina bóndans. Hann fær so menn af öðrum bæjum að leita með smalanum og er leitað í heila viku og þeir finnast hvurgi so það er hætt að leita og hugsar bóndi að það hafi einhvur stolið þeim. So einu sinni segir smali að hann ætli einn að fara að leita að sauðunum og þurfi ekki að undrast um sig þó hann verði lengi í þessu ferðalagi, og fær so nesti og nýja skó og fer so á stað og gengur so lengi. Og þá dettur yfir þoka so hann villist nú, so hann tekur það ráð fyrir að setast niður þangað til léttir upp þokunni og þá situr hann fram á einni fjallsbrún. Hann gengur fram á hana og sér þar niðrí einn stóran dal; hann sá þar einn bæ og rýkur á hönum og fannst honum það viðarlykt. Hann heldur þar heim og kemur þar að kvöldi, klappar upp á dyr; það kemur drengur til dyra með ljós í hendinni. Smalinn biður hann að skila hvort hann megi vera. Drengur fer inn, kemur aftur og segir hann megi vera. So fara þeir inn. Þegar hann kemur í baðstofu sér hann í öðrum enda kall og kellingu bæði mjög óféleg, en á hinum sér hann vefstað og kvenmann að vefa og lízt honum vel á hana, en mjög liggur illa á henni. Hann heilsar; þau taka valla undir. So þegar hann er lengi búinn að standa á gólfinu þá segir kelling við stúlkuna að hún skuli vísa hönum á rúmið hjá vefstaðnum, hann eigi að liggja þar. Hún gerir það so smalinn fer í rúmið. Síðan fer kelling ofan, kemur aftur með fullan ask af graut og fær það gestinum. Þegar kelling [er farin] til kallsins segir stúlkan við hann: „Varaðu þig, maður, að éta grautinn.“ So hann gefur nokkuð af því hundinum og þá dettur hann í svefn. So fer maðurinn að sofa, en hún segir við hann: „Vertú var um þig í nótt því drepinn muntu verða eins og aðrir.“ Hann læzt so fara að sofa og hrýtur mikið og þá eru kall og kelling að segja að grauturinn hafi hrifið á hann Bjarna, og þegar sé búið að hátta og slökka þá sé bezt að fara að drepa hann, hnífurinn sé upp á búrbita síðan hann Jón hafi verið drepinn, en trogið sé í eldhúsdyrunum. En hún skuli koma að hræra í blóðinu þegar hún heyri hann hljóða upp. So er farið að sofa og slökkt ljósið. En þegar góð stund er liðin heyrir hann að kall og kelling fara fram. Bjarni hefur með sér hníf, heldur á hönum í lófanum. So finnur Bjarni að hann er tekinn og borinn fram og lagður niður og þá sér hann að strákurinn sem kom til dyra heldur á ljósi. Meðan kallinn er að teygja sig eftir hnífnum upp á búrbita sprettur Bjarni upp og rekur hnífinn á kaf í brjóstið á hönum so kall rekur upp ógurlegt hljóð og drepst. En þá kemur kelling skjöktandi með hríslu, en henni verður bilt við þegar hún sér kallinn dauðan, so Bjarni atlar að gera henni sama, en hún biður hann að gefa sér líf. Hann lofar henni því með því móti að hún svíki sig ekki. Hún lofar því, fær hönum so fullan kistil af peningum og segir að hann skuli eiga það fyrir það að hann hafi gefið sér líf, hún fari að búa með bróður sínum sem sé hér í dalnum. Stúlkan biður hann fyrir hvurn mun að koma sér og drengnum héðan í burtu, hún vilji ekki ala hann upp hjá þessu illþýði. Bjarni spyr hana að hvurnin hún hafi komizt hingað. Hún segir að hún hafi komizt hingað soleiðis að hún hafi verið að smala hjá foreldrum sínum og hafi hún villzt og setzt so niður og sofnað af því hún hefði bæði verið syfjuð og þreytt, og hún hefði vaknað við það að kallinn var að bera sig heim að þessum bæ og hafi hún verið vanfær og drengurinn sé á áttunda árinu og það sé síðan hún hafi komið hingað. Hann segir við kellingu að ef hún sé búin að drepa nokkuð af sauðunum þá vilji hann fá sauði fyrir. Kelling lætur það eftir. So fer hann og stúlkan og drengurinn að smala og er mikið féð. Hann tekur so sína sauði og nokkuð af sauðum kellingar fyrir þá sem kelling var búin að drepa. Hann biður kellingu að láta sig fá einn hest; hún gerir það. So lætur Bjarni stúlkuna og drenginn ríða, en gengur sjálfur og heldur á stað og heldur so heim til húsbónda síns og verður mesti fagnaðarfundur. Húsbændur hans hugsuðu að hann væri dauður. Þegar hann er búinn að afhvílast þá biður hann húsbónda sinn að lofa sér að fara með stúlkuna til foreldra hennar; hönum er lofað það. So ferðast hann með hana þangað og verða foreldrar hennar hlessa að sjá hana lifandi; höfðu þau aldrei séð glaðan dag síðan hún hvarf. Hún biður foreldra sína að borga hönum það vel og þau gera það. So fer hann aftur til baka til húsbænda sinna, en þessi stúlka giftist manninum sem hún átti barnið með. En Bjarni keypti sér væna jörð og varð sterkríkur og fékk síðan dóttur húsbónda síns og fór að búa á jörðinni sem hann keypti og lifðu bæði vel og lengi. – Og endar svo þessi saga.