Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Bræðurnir, fjallbúinn og smaladrengur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Bræðurnir, fjallbúinn og smaladrengur

Svo er sagt að einn tíma tóku tveir bræður arf eftir foreldra sína; þeir höfðu félagsbú og skiptu ei með sér. Einu sinni sem oftar fóru þeir til fiskikaupa tveir saman og smaladrengur þeirra hinn þriði. Leið þeirra lá yfir heiði nokkura mikla. Þeir áðu einhvers staðar á heiðinni; þeir sjá mann ganga ofan úr fjalli því er þar var skammt frá þeim; hann var mikill vexti; hann stefnir þangað til sem þeir bræður lágu og ber hann brátt að; ekki heilsar hann þeim, en biður þá leggja af við sig það er þeir hafi meðferðis. Þeir bræður neita því skjótt. Útilegumaður kvaðst þá mundu láta höndur skipta og réð þegar á þá; hafði hann þá brátt undir og mælti síðan: „Ég hefi ekki kníf á mér, en þið búið ef til vill betur.“ Leitar hann nú á þeim og finnur á öðrum þeirra kníf í skeiðum; hann tekur í skeiðarnar með tönnunum. Þetta sér hestadrengur þeirra bræðra; þrífur hann nú upp klaufhamar, hleypur að útilegumanni með reiddan hamarinn og setur klaufirnar af öllu afli í enni honum; varð höggið svo mikið að klaufirnar sukku og lét útilegumaður þar líf sitt, en hafði fé ekki. Þeir bræður launuðu svo drengnum lífgjöf að þeir gáfu honum allt sitt fé eftir sinn dag því þeir voru menn barnlausir.