Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Brynjólfur biskup og útilegumennirnir í Otkelsveri

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Í tíð biskups Brynjólfs Sveinssonar þegar hann var eitt sinn á vísitatiuferð og var á ferð með mönnum sínum hjá Arnarfellsjökli sá hann reyk og fann á liðnum degi bæ sem ekki sást fyrr en þeir komu að honum því grjóthóll var fyrir ofan bæinn og bærinn stóð við læk. Þegar þeir komu að bænum voru fjórir menn í honum, tveir feðgar og tvær mæðgur; og voru feðgarnir háttaðir, en ruku strax hálfklæddir á fætur þegar mennirnir komu að bænum. Feðgarnir stukku upp á grjóthólinn og vörðu sig með grjóti, en urðu ofurliði bornir, handteknir og drepnir, en mæðgurnar voru teknar og fluttar til byggða. Hjónin voru systkini og höfðu eignazt barn saman og flúðu því í óbyggðir á hest og hryssu; og á leiðinni fundu þau eina kvígu sem var með kálfi og átti griðung, og út af þeim ólu þau upp nautgripi, en stálu engu fé. Hesta áttu þau fimm og fór maðurinn í kaupstað á hverju sumri á Djúpavog. Þau voru þar í sextán ár og hét bóndinn og sonurinn Otkell, en mæðgurnar Margrétar.

Gömul kona í Hrunamannahrepp sem dó 1829 og var yfir áttatíu ára, hún hafði komið í grasaferð á þennan stað og sá þar tætturnar undir Arnarfellsjökli og er það pláðs enn kallað Otkelsver og er þar votlent og nóg gras til slægna og beitar.