Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Drepinn útilegumaður

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Drepinn útilegumaður

Það var litlu eftir reykjar- eða eldharðindin er hófust vorið 1783 að þrír menn úr Biskupstungum riðu á fjöll norður í eftirleit um haust, bændur tveir Jón og Nikulás; ynglingur einn var hinn þriðji er Bjarni Sveinsson hét. Jón var við aldur og vanur eftirreiðum, hafði og verið allgildur fyrir sér og harðgjör. Þeir riðu langt, allt undir jökla norður. Sáu þeir þar þá fjóra menn á reið og stefndu að þeim. Jón bað félaga sína þá aftur að hverfa sem hvatast. Leitótt var mjög þar þeir riðu. Sveitarmenn höfðu tvo hesta hver, allfráa og riðu sem mest. En er svo hafði gengið um langa hríð sáu þeir einn mann hleypa eftir sér á vindóttum hesti, með birkilurk í hendi. Sá Jón að hann mundi vilja finna þá, og steig af hesti. Þá útilegumaður kom að þeim stökk hann af hestinum og laust á hönd Nikulási með lurkinum og varð honum ónýt höndin, en Jón hljóp undir aðkomumann og áttu þeir ei langt fang áður Jón varð efri, því Bjarni sló hefting að fótum hans, en Jón skipaði honum að skera á hásinar honum. Orgaði útilegumaður þá afar hátt og hótaði að ganga aftur og drepa Jón ef hann vildi drepa sig. Jón svaraði öngu, greip kníf úr ermi sinni og skar hann á háls og vann allhroðalega að, því hann brauzt um fast á meðan – og furðaði Bjarna hvað hreystilega Jón lá á honum ofan. Meðan vildi Bjarni taka hest hans er hann hafði af hlaupið með uppi tauminn, en Bjarni náði honum ei, og fór hann stökk til baka aftur með gneggi miklu. Jón setti höfuð útilegumannsins við þjó honum og kvaðst ætla að nú mundi hann ei aftur ganga. Maður þessi var á skinnbol og vissi loðnan inn. Tók Jón af honum kníf stóran og bað förunauta sína að hvata sem mest undan, því egi væri örvænt nema hinir er þeir sáu til mundi að þeim koma, mundu leitin hafa tafið fyrir þeim. Tóku þeir þá reið mikla og allt til byggða. Það sagði Bjarni að öngu sæi hann Jóni bregða við starf þetta; lék og orð á að drepið mundi hann áður hafa fleiri útilegumenn í eftirleitum sínum. En ríkt lagði hann á við Bjarna að hann segði þetta öngum. En Bjarni sagði sögu þessa gamall kunningja sínum af hljóði er hann hafði kvongazt og bjó norður í landi á Fossum í Fossárdal er fram liggur af Svartárdal í Húnaþingi.