Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Einar á Brúnastöðum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Einar á Brúnastöðum

Í Tungusveit í Skagafirði, á bæ þeim er Brúnastaðir heita, var eitt sinn sem oftar vinnumaður sem Einar hét, vænn maður og vel að sér um margt og mæltu það sumir að hann væri margvís. Hann hafði róið suður marga vetur fyrir húsbónda sinn. Jafnan fór hann einn manna og kom ekki sú hríð að hann villtist. Einn vetur sem oftar gjörði hríð á hann á fjöllum og brást honum að rata svo hann villtist af réttri leið. Hann hafði verið vanur að fara fjöll því sú leið er styttri. Einar hélt áfram ferð sinni eitthvað út í óvissuna; gengur hann svo dægrum skipti. Loksins kemur hann í dalverpi eitt, hittir fyrir sér bæ, ber þar að dyrum. Stúlka kom til dyra ung og fríð. Einar heilsar henni. Hún tekur því. Það sá Einar að stúlkan var mjög hnuggin. Hann biður hana skila inn til húsbænda að hann beiðist gistinga. Þá féllu tár á kinnar hennar og mælti hún á þessa leið: „Bið ekki þessa, maður, og reyn heldur að fá þér annað fylgsni yfir nóttina, því ef þú ert hér muntu ei heill burtu fara.“ Einar kvaðst ekki hræðast það og bað hana skila erindi sínu. Hún fór nauðug inn, kemur brátt aftur og segir honum sé leyft inn að ganga. Einar fór inn með henni og bar mal sinn með sér í baðstofu. Var þar allt þegjandi; myrkur var þar, því dimmt var orðið. Einar heilsar og tóku undir karl og kerling. Nú er kveikt og sér Einar pall; er þar karlinn með kerlingu sína upp á. Á gólfinu var steinn mikill flatur ofan og ker í hann miðjan. Einar hafði ritblý og skrifar staf í kerið, gengur síðan upp á pallinn og sezt þar niður. Ekki var við hann mælt. Stúlkan settist við vinnu sína og var mjög óglöð. Einar spur hvurt konan ætli ekki að gefa sér neitt að borða. Hún gegndi litlu, en gekk fram. Sækir hún mat. Borðar nú Einar og var ekki hræddur neitt. Sýndist honum þó hjónin gefa sér illt auga. Nokkru eftir að Einar hafði lokið máltíð sinni segir karl að bezt muni vera að ljúka störfum sínum, gengur síðan fram og kerling á eftir. Fór þá stúlkan að gráta. Brátt koma þau aftur; er þá karl að hvetja hníf eða sax, en kerling heldur á stórri skál, gengur að steininum og setur hana þar, ætlar að skorða hana í kerinu, en getur ekki. Karl fer þá til með henni og fer á sömu leið. Einar býðst nú til að festa skálina og gengur til þeirra, skrifar staf í skálina. Þá festist skálin við steininn og þau bæði við skálina; brjótast þau um fast, en kom fyrir ekki. Eftir þetta sezt Einar í sæti sitt. Biður hann stúlkuna að fara og sjóða handa sér hangið sauðakjöt því það mundi þar til vera; þyrfti hún ei að óttast húsbændur sína framar. Hún gjörir nú eftir skipun hans og sauð ketið, færir honum fullt trog. Hann fór nú að borða og biður hana gjöra eins; borðuðu þau bæði nægju sína. Síðan háttar hann í rúmi hjónanna og svaf vel um nóttina. Daginn eftir var komið bjart veður. Býst nú Einar að fara leið sína. Hann spur stúlkuna hvaðan hún sé. Hún leysti úr því; höfðu illmenni þessi stolið henni úr byggðinni (ei veit ég hvaða byggð) og haft hana hjá sér í sjö ár; höfðu þau drepið níu ferðamenn og tekið það sem þeir höfðu meðferðis.

Einar fékk sér öxi og höggur höfuð af þeim báðum og brenndi þau síðan. Hann tók alla peninga er þar vóru og stúlkuna, snéri síðan til baka og norður aftur; varð ei meir af róðrum hans í það sinn. Kom [hann] heim að Brúnastöðum, var þar um veturinn það eftir var. Um vorið giftist hann stúlkunni, fékk sér jörð og fór að búa. Hann sótti í dalinn allt er að gagni var í kotinu, bjó síðan til elli með konu sinni.