Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Feðgar koma úr sjóróðri

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Feðgar koma úr sjóróðri

Maður nokkur á Vestfjörðum fór frá heimili sínu snemma morguns og ætlaði yfir fjallveg. En þegar hann var kominn nokkuð á leið þá datt á hann niðaþoka svo hann villtist og vissi ekki hvað hann fór; en á áliðnum degi fann hann að það fór að halla undan fæti. En þegar hann var búinn að ganga ofan í móti litla stund sá hann ofan í vík, því þokan náði þar ekki nema ofan í miðjar hlíðar. Hann sér bæ einn í víkinni sem stóð allskammt frá sjónum. Svo gengur hann heim og sér að kvenmaður er á hlaði, en nokkuð stórvaxinn, en leit þó ekki neitt illa út, og er að saga tré. Hann gengur til hennar og heilsar henni og biður hana að gefa sér að drekka. Hún gengur inn og kemur út aftur með fulla könnu af hákalslýsi og fær honum. Hann segist vera óvanur þessum drykk og fær henni aftur könnuna. Þá segir hún: „Því eru nú svo margir dáðlausir að þeim þykir betra að drekka blátt vatnið en þetta.“ Svo biður hann hana að lofa sér að vera því hann sagðist vera villtur og hvurgi rata; hún neitar því og segist ekki eiga hér ráð á húsum; hann segist þá verða hér samt. Hún biður hann að fara því nú fari faðir sinn og tveir bræður sínir að koma af sjónum. „Það gildir mig eina; ég hræðist þá ekki,“ segir hann. En rétt í því sér hann bát koma upp víkina og þrjá menn á honum. Svo sér hann að feðgar fleygja upp aflanum og setja síðan bátinn. Svo fór karl að gjöra upp veiðarfærin, en bræður taka ás sem var þar á bakkanum og fara að ríða kort. En þegar tími var kominn til að ganga til hvílu fór stúlkunni ekki að lítast á að bræður voru að vega kort, en karlinn að gjöra upp veiðarfærin. Svo var maðurinn hjá henni um nóttina. En morguninn á eftir var karl að gjöra upp veiðarfærin og bræður að vega kort. Þá segir maðurinn við stúlkuna: „Hvort viltu heldur vera hér eftir og ég leysi feðga þegar ég er kominn á stað eða fara með mér og ég leysi þá ekki.“ Hún segir: „Ég vil heldur fara með þér því ég er orðin leið á manndrápi þeirra.“ Svo taka þau það fémætasta sem í bænum var og héldu svo á stað og segir ekki af ferðum þeirra fyrri en þau komu á heimili mannsins og sagði hann þá frá ferð sinni og svo hvað honum fénaðist í ferðinni og þókti mörgum gaman af að heyra ferðasögu hans þó hún væri ekki langorð. En að nokkrum árum liðnum giftist hann stúlkunni. En um feðga getur ekki meira en þetta og er líkast til að gamla karltötrið sé að greiða veiðarfærin, en strákagreyin að vega kort á ásnum enn í dag.