Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Fjalla-Eyvindur (2)

Úr Wikiheimild

Hér set ég neðan við hið helzta af því sem ég hef heyrt um Fjalla-Eyvind, til samanburðar fyrir þá sem vildu safna sögum um hann: Eyvindur er fæddur og upp alinn í Ytrahreppi. Bróðir hans ætla ég héti Jón; bjó hann lengi í Skipholti. Síðan hefur Grímur stúdent sonur hans búið þar í langa ævi. Lifir hann enn, örvasa og blindur og er hættur að búa.[1] Börn hans eru gift og búsett í báðum Hreppunum. Sagt er að Eyvindur muni stundum hafa átt athvarf hjá bróður sínum í Skipholti – og verið geymdur þar út á skemmulofti veturinn eftir að hann var gjörður upptækur í Arnarfelli. Það er sagt hann hafi í fyrstunni stolið frá sveitarkellingu og hún þá lagt á hann að hann skyldi aldrei verða óstelandi, en þó aldrei komast undir mannahöndur. Þessi álög er mælt að hafi ollað því að hann fékk ekki athvarf hjá útilegumönnum því hann stal líka hjá þeim. Halla kona hans var með honum og urðu þau að fyrirfara börnum þeim er þau áttu. Þó Halla yrði stundum tekin, þá slapp hún ætíð aftur og hitti Eyvind. Fyrst var Eyvindur á Hveravöllum í Norðanmannaafrétti. Var þar með þeim hjónum annar útileguþjófur er hét Arnarnes-Guðmundur. (Hann dó seinast í tukthúsinu í Reykjavík og var þar kallaður Arnes.[2]

Á Hveravöllum munu þeir Eyvindur hafa verið þegar þeir stálu eina haustnótt vistum og ýmsum fjármunum frá Magnúsi bónda í Gilhaga. Þar voru þeir líka eitt sinn þegar þeir ætluðu að ræna mann er var einn með skreiðarlest og unglingspiltur með honum. Maðurinn varð svo hræddur að hann skalf og sýndi enga mótvörn, en pilturinn greip klaufhamar og sló á kinn Guðmundi og kjálkabraut hann. Var hann síðan auðþekktur af hnút í andlitinu. Síðan sló hann til Eyvindar, en hann snéri undan og þeir báðir, en hinir sluppu. Á Hveravöllum suðu þeir í hverunum. En haust eitt komu Norðlingar að þeim og gjörðu forða þeirra upptækan. Eyvindur og Guðmundur sluppu, Eyvindur á handahlaupi, en Halla var tekin, og þykir mér ekki ólíklegt hún hafi þá lent í varðhaldi hjá Halldóri Jakobssyni, því frá honum slapp hún eitt sinn. Sumir segja að Norðlingar hafi tekið þar í það sinn þjóf þann er Abraham hét og hengt hann þar, en aðrir segja það hafi verið fyrr. Svo mikið er víst að Samson skáld Jónsson[3] sagði um mann einn í háðvísu nokkurri að sála hans mundi fara

Abrahams í opið skaut
upp á Hveravöllum.

Veturinn næsta áttu þjófarnir mjög bágt og lifðu mest á rjúpnaveiðum. Síðan voru þeir og Halla í Arnarfellsmúlum þangað til Ytrihreppsmenn röktu slóðir eftir fé er þeir höfðu stolið skömmu fyrir fjallsafn, austur sanda með jöklinum og að bústað þeirra. Urðu þjófarnir þar mjög naumt fyrir, því þeir voru að lesa húslestur. Eyvindur greip pott þeirra og sökkti honum í fen eitt svo hann fannst ekki, en öll sluppu þau upp á jökulinn úr höndum sveitamanna. Þeir fundu þar áttatíu kindaföll, geymd í lögum milli skógar í kesti, og lögðu þeir eld í allt saman. Menn höfðu áður fengið grun af því að bróðir Eyvindar hafði lagt óvenjulega mikla ull í kaupstað og ekkert leitað eftir feitum hesti er honum hvarf.

Síðan bjuggu þau öll móts við Arnarfellsver í Eyvindarkofahreysi og eru hreysin tvö. Þar voru þau lengst óáreitt og hefur þá illa verið leitað fjár á haustum, Sprengisandsvegur aldrei farinn eða þá beint upp úr Þúfuveri í landnorður og á sand upp sem þó er verra í alla staði. Ella hefði annað hreysið verið rétt á alfaravegi. Hef ég komið að skálatóft hans. Hún er fallin í sjálfa sig, en uppsprettuvatn rennur út undan henni á þrjá vegu og er vatnsrásin full af hrossbeinum er auðsjáanlega hefur verið höggvið í spað. Kindabein sjást ekki og eru þau máske fúin eða skoluð burt. Eitt sinn er sagt þau hafi verið öll komin þar í dauðann af hungri og verið matlaus heila viku. En á sumardagsmorguninn fyrsta stóð feitur eldishestur fyrir utan kofann. Drápu þeir hann í stað og átu hann fyrst hráan. Hesturinn var að norðan, en strauk að sunnan frá Einari Brynjólfssyni. Svo hafði Eyvindur sagt að frostvindar væru harðir stundum á Sprengisandi að röskum og fullklæddum manni væri ekki líft úti. Það var Einar Brynjólfsson er tók Eyvind í verinu eitt sinn þegar hann fór norður að vitja eigna sinna. Flutti hann Eyvind norður í Bárðardal, en hann slapp úr Eyjadalsárkirkju frá þeim er gættu hans.

Þingeyingar sögðu mér að hreysi eftir Eyvind væru líka vestanvert við Ódáðahraun og í efstu grösum upp af Múlasýslum, skammt þaðan er menn koma fyrst á haga vestan af Vatnajökulsvegi. Kemur það saman við það sem ég heyrði þegar ég var drengur, að Eyvindur hefði loksins gefið sig upp norður í Múlasýslum, viku fyrir andlát sitt. Hafði hann þá átt að segja að hann vildi engum svo illa að hann gæti óskað honum ævi sinnar. Allt bendir til þess að Eyvindur hafi alltaf verið að færa byggð sína lengra austur og norður eftir. Hvar eða hvenær Eyvindur og Arnarness-Guðmundur hafa slitið félag sitt hef ég ekki heyrt. Um afgang Höllu minnir mig ég hafi skrifað fyrr.

  1. Grímur Jónsson (f. 1779) dó 4. maí 1860.
  2. Arnes Pálsson dó í Engey 7. september 1805.
  3. Réttara: Sigurðsson. Samson skáld Sigurðsson (um 1750-1830) bjó víða í Húnavatnssýslu. Samson skáld Jónsson (1795-1852) bjó í Borgarfirði og mun hafa verið skyldur Samsoni Sigurðssyni (sjá ennfremur Eyvindur og Halla).