Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Frændsystkinin í Sæludal

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Frændsystkinin í Sæludal

Bræður tveir eru nefndir Grímur og Þorgrímur. Grímur bjó að Næfurholti á Rangárvöllum, en Þorgrímur á Hálsi, næsta bæ þar hjá. Grímur átti son er Bjarni hét, en Þorgrímur dóttur er Þóra hét. Báðir áttu þeir bræður fé margt. Þegar þau frændsystkin Bjarni og Þóra voru í uppvexti létu þeir bræður þau sitja ær sínar á sumrum. Brátt fengu þau góðan þokka hvort til annars; skemmtu þau sér við að tína blóm og grös og segja hvort öðru smásögur. Af þessu voru þau orðin svo samrýmd að þau hlökkuðu til að sitja yfir kvíánum og svo að aldrei máttu þau skilja.

Einhverju sinni bar svo við að Bjarni sat ekki svo Þóra vissi ekki, en annar var látinn sitja í staðinn. Henni féll það svo illa að ekki fór orð út úr henni og fékkst varla til að hlaupa fyrir kind sem annars var svo skemmtin og liðug. Daginn eftir þegar Bjarni kom hýrnaði yfir Þóru. Sagði hún honum þá að aldrei hefði hún lifað leiðinlegri dag en í gær og mætti hann ekki vera svona hvikull. Hétu þau þá hvort öðru aldrei að skilja framar. Þannig liðu æskuárin í saklausri barnaást og ekki reið Bjarni smalareið eða annað sér til gamans að Þóra færi ekki með líka. Um þessar mundir voru lög gefin út um það að ekki mættu systkinabörn giftast saman. Var Bjarni þá kominn að tvítugu og hinn efnilegasti maður; sömuleiðis var Þóra hin laglegasta stúlka og vel að sér, enda lék það orð á í sveitinni að ekki væri þar betri ráðahagur og töldu allir það víst að þau ættust Bjarni og Þóra. Þau höfðu heldur ekki rofið heit sín er þau í bernsku sinni gjörðu og aldrei hafði þeim dottið annað í hug en þau væru fædd til þess að gjöra hvort öðru lífið indælt og gleðilegt. Þegar Bjarni heyrði lög þessi varð hann mjög hugsi og þungsinna. Leið svo ár að ekki sást gleðibragð á honum nema þegar hann hitti Þóru. Fóru nú að tíðkast komur hans að Hálsi öllu fremur en áður og tjáði ekki þó faðir hans teldi hann af því.

Einhverju sinni þá vel voraði vantaði fé þeirra bræðra rétt fyrir burðinn; var leitað að því í tvo daga og fannst ekki. Töldu allir það víst að það væri á fjöll strokið. Gefur Bjarni sig þá til að leita fjárins og var nú heldur glaðari í bragði en vant var, fær sér nesti og nýja skó og bezta hestinn hans föður síns til reiðar; ríður nú sem mest hann má allt til Ódáðahrauns og var honum sú leið kunn, því áður hafði hann oft farið þangað að safna á hausti. Ríður hann um það í þrjá daga þar til hann kemst í klettaþrengsli og ógöngur. Stígur hann þá af baki og gengur lengi vel unz hann finnur gil eitt; eftir því rann á lítil. Hann fer með ánni um hríð; tekur þá gilið að þrengjast og dimma og er hann hefur svo haldið áfram stundarkorn í þrengslum þessum tekur aftur að birta og er hann kemst úr þrengslunum blasir við honum dalur og ekki lítill. Var hann með skógi vöxnum hlíðum og háir hamrar allt í kring. Niðrí honum lá grasið í legu, en innst í dalbotninum var stöðuvatn og rann á þessi úr því. Bjarni gekk í kringum vatnið og var það fullt af silungi. Fannst honum mikið um dal þenna og hafði hann aldrei séð þvílíka landkosti og þótti mjög álitlegt að setja bæ þar. Snýr Bjarni nú heim sem hraðast. En það er frá fénu að segja að þau Bjarni og Þóra höfðu rekið það í hellir nokkurn og geymt það til þess Bjarni kom heim, en hann þóttist hafa fundið það innst inn á afréttum. Eftir þetta fór Bjarni að verða glaðari, en hélt þó eins uppi ferðum sínum að Hálsi og varð þeim Þóru þá oft taldrjúgt. Leið svo veturinn að ekki varð til tíðinda.

Um vorið þóttist Bjarni ætla að fara suður að hitta kunningja sína og vini og Þóra með honum. Sáu menn að mikið búningssnið var á þeim. Höfðu þau þrjá hesta í taumi klyfjaða með sveitavarningi er þau ætluðu að láta inn í kaupstaðinn. Þau kvöddu foreldra sína svo tilfinnanlega að það var eins og þau byggjust við að sjá þau aldrei framar. Héldu nú Bjarni og Þóra allt þar til að þau fundu kunningja sína syðra. Dvöldu þau hjá þeim stutta stund, fóru síðan að hitta kaupmennina og lögðu inn hjá þeim vörur sínar, en tóku út það helzt er til búskapar þjónaði og eru það síðustu sögur af þeim. Þegar liðinn var sá tími er þau skyldu heim koma Bjarni og Þóra fór þeim að verða órótt foreldrum þeirra. Héldu þau spurnum fyrir þeim, en ekkert fréttist til þeirra síðan þau lögðu frá kaupstaðnum. Voru þá gjörðir menn út að leita þeirra, en það var allt til einkis. Lagðist þetta þungt á foreldra þeirra, því þau unntu mjög þeim Bjarna og Þóru og urðu ekki langlíf.

En það er frá Bjarna og Þóru að segja að þau héldu til Ódáðahrauns og í dal þann er Bjarni hafði fundið. Tók hann strax til byggingar og veiða og aflaði hann vel því fullt var vatnið af silungi. Hélt Bjarni kjurru fyrir þetta sumar og lét sér annast vera um byggingar og heyannir. – Um haustið þegar úti voru öll söfn gekk hann á fjöll að vita hvort ekki stæði eftir hjá bændum. Fann hann þá margt fé og kvígu með kálfi. Rak hann þetta allt í dal niður og þótti góð ferð sín. Lifðu þau vetur þennan í velsælu lukkunnar. En um vorið ól Þóra meybarn; var því nafn gefið og kallað Ásta. Vóx það og vel dafnaði; og eftir því sem aldur færðist yfir barnið vitkaðist það og var mjög efnilegt. Þau spöruðu sitt heldur ekki að venja það og uppfræða í öllum guðsótta. Þannig liðu nokkur ár að allt varð þeim að hamingju; hver skepnan bar tvöfaldan ávöxt, veiðin þverraði ekki og grasið lá í legu niðrí dalnum. En tíðast var vetrarríki mikið og varð að gefa allan vetrinn. Litla Ásta var efnileg og þæg og fór að taka snúninga af mömmu sinni. Þar allt lék þeim svona í lyndi og þau blómguðust svo ágætlega í dal þessum þá var það ekki uppnefni þó Bjarni kallaði dal þenna Sæludal. Þegar Bjarni var orðinn vel efnaður hætti hann að fara í eftirleit, en í stað þess fór hann fyrir söfn – þá byggðamenn voru vanir að fara í söfn – inn fyrir allt fé þeirra og rak það fram í göngur svo bændur heimtu fé sitt upp frá því á hverju hausti svo lengi að Bjarni bjó í dalnum.

Eftir hvarf þeirra Bjarna og Þóru er sagt að Grímur í Næfurholti hafi tekið svein ungan til uppfósturs; sá hét Sturli. Hafði Grímur spáð fyrir honum að hann mundi finna Bjarna son sinn þó ekki yrði fyrri en eftir sinn dag. Arfleiddi Grímur svein þenna og dó skömmu síðar. Þá Sturli var orðinn fullþroska fór hann í söfn sem aðrir á haustum. Þótti honum það undarlegt að á hverju hausti skyldi afréttaféð vera í hópum í innstu göngum eins og búið væri að smala því. En með því Sturli var fríhuga og frískur drengur vill hann forvitnast um þetta og fer viku fyrir fjallreiðardag eitt haust. Ríður hann þar til komið er inn úr innstu göngum. Sér hann þá féð fer að renna fram eftir. Fer hann þá til þess er hann heyrir að hóað er. Hann rennur á hljóðið og hittir mann ekki ólíkan byggðamönnum, en því líkastan sem Bjarni var. Þeir spyrja hvern annan að heitum og segja til hið sannasta og tekur Bjarni á móti honum sem blíðlegast, leiðir Sturla heim og býður Bjarni honum þar að vera þar til safnmenn komi. Situr Sturli í Sæludal í góðu yfirlæti og þótti ekki illt að tala við Ástu. Leizt Sturla vel á í dalnum og þótti ekki óvænt þar að vera og gaf helzt í skyn að hann vildi þar vera alla sína ævi. Þegar að þeim degi var komið að Sturli skyldi í burtu fara vaknar Bjarni snemma um morguninn og segir Sturla að tygja sig sem hraðast því hann ætli að fylgja honum á veg, en gefi ekki um að hitta hina aðra byggðamenn. Þegar Sturli er búinn og kveður þær mæðgur sást það á að honum þótti mikið fyrir að skilja við Ástu. Þegar þeir hafa lengi gengið sezt Bjarni niður. Segir hann Sturla þá alla ævisögu sína og það með að hann hafi vitað allt hvernig heima gekk í héraði. „En héðan af,“ segir hann, „fer að styttast ævi okkar Þóru og eigum við ein þrjú ár eftir. En með því að þú ert efnilegur maður og mér sýndist þú hafa góðan huga til dóttur minnar vil ég að þú takir hana að þér, en ekki skaltu hér staðnæmast, heldur fara í byggð með allt sem við eigum og getur þú þar látið reyna Ástu og vitað hvort hún er ekki eins vel að sér sem flestir í sveit.“ Gjörist það þá með þeim að Sturli lofar að koma aftur að þrem árum liðnum og var þetta mál auðsótt við hann. Að svo búnu skilja þeir og biðja hvor vel fyrir öðrum.

Ekki er tíðinda getið næstu þrjú árin nema Sturli hefur fengið Næfurholtið til ábúðar og eflzt vel og þykir hann vera efni í röskan mann. Um vorið þá þrjú ár voru liðin frá fundi þeirra Bjarna leggur Sturli af stað með marga hesta og hugsa allir að hann ætli í skreiðaferð. Fer hann þá á fjöll og þar til er hann kemur í Sæludal. Er þá Bjarni og Þóra enn á lífi og fagna þau honum vel. Síðan er farið að tygja sig til ferðar og fara þau með það sem þau geta og nýtilegast er af ýmsum fjármunum og allan fénað er var mjög fallegur og gervilegur en ekki svo margur að tölu. Sagt er að þeim Bjarna og Þóru hafi þótt mikið fyrir að skilja við Sæludal. Undireins og þau öll voru komin að Næfurholti var Ásta reynd í sínum kristilegu fræðum og þótti hún vera afbragð annara ungmenna og í alla staði vel upp alin. En sjálf beiddu þau Bjarni og Þóra prestinn um að sakramenta sig og dóttur sína og rétt á eftir dóu þau bæði. Tók Sturli síðan Ástu sér til konu og unntust þau bæði vel og lengi. Ekki er Sæludals getið eftir þetta og hefur hann ekki fundizt enn í dag, enda kvu Sturli hafa sagt að Bjarni hafi sig þess lengst beðið að segja aldrei til hans, og hefur hann það trúlega ent. – Lýkur hér svo þessari sögu.