Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Grasastúlkurnar og fjallbúarnir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Grasastúlkurnar og fjallbúarnir

Það var einu sinni margt fólk er fór á grasafjall meðal hvurra voru tvær stúlkur og voru alltaf saman að tína grösin. Suddarigning var um daginn með þoku. Þegar kvöld er komið fer allt grasafólkið að tjaldinu og þá vanta þessar stúlkur. Það hugsar að þær muni koma seinna og fer allt að borða og þær koma ekki að heldur; svo óðum dimmir nú og allt fer út úr tjaldinu að vita hvort þær komi ekki, en það fer inn aftur því ekkert heyrir það né sér. Líður so af nóttin að þær koma ekki. Grasafólkið hugsar að þær muni hafa verið einhvurstaðar annarstaðar og það verður grasatínslan þess um daginn að það fer allt að leita að stúlkunum og það finnur þær hvurgi og fer so heim við so búið og segir frá þessu. Er þá fengið margt fólk úr sveitinni að leita að þeim og finnst önnur þeirra langt frá grasafjallinu og er hún so illa útleikin að hún er rekin í gegn og traðk í kringum hana eftir hesta. Þeir finna hina hvurgi og leita þar vel í kring. Fer so allt heim með dauðu stúlkuna og er hún greftruð og gerð veizla eftir hana, en foreldrar hinnar stúlkunnar leggjast í sorg.

Líða so mörg ár að ekkert ber til tíðinda. Einu sinni vantar mikið af fé hjá bóndanum sem vantaði dóttur sína. Hann sendir tvo vinnumenn sína að leita þess og býr þá vel út og biður þá að leita vel um alla afrétti. Þeir fara og finna mikið fé bæði frá sér og öðrum. Þeir reka það í hóp og ætla með það fram í sveit. Annar þeirra hét Bjarni, en annar Jón, báðir frískir menn. Þegar þeir eru komnir á stað með rekstrinn sjá þeir dálítinn [fjárhóp] og fer Jón að sækja hann, en Bjarni heldur áfram með rekstrinn. Kemst Jón að lokunum fyrir hóp þennan og ætlar að reka hann í hinn hópinn. Verður hönum þá litið við og sér hvar maður kemur hlaupandi á ettir hönum og ræðst þegar á Jón. Þá verður Bjarna litið við og sér þegar hvað um er að vera. Hleypur hann þá í skyndi til Jóns og er útilegumaður þá búinn að drepa hann. Ræðst Bjarni á hann og setur hann undir. Útilegumaður biður hann að gefa sér líf. Bjarni segir hann skuli fara sömu förina og Jón og drepur hann þegar, tekur síðan stöng hans og heldur á stað með rekstrinn og kemur þá maður á eftir honum hlaupandi og staðnæmist nokkuð hjá dauðu mönnunum, en herðir hlaupin þegar hann fer frá þeim. Bjarni sér hann muni ætla að finna sig og bíður hans og hlaupa þeir þegar saman. Bjarni kemur hönum undir. Útilegumaðurinn biður hann að gefa sér líf. Bjarni segist skuli gjöra það með því móti að hann hlaupi ekki í sig aftur og segi hönum til heimkynna sinna. Útilegumaður lofar því. Stóðu þeir so upp og settust so niður og fóru að skrafa saman. Útilegumaður segir að það sé af sér að frétta að hann sé vinnumaður hjá hjónum hér skammt í einum dal. Bjarni spyr hvort þau bæði væri þar upprunnin. Dalbúinn segir að bóndi sé það, en ekki konan; henni hafi verið stolið á grasafjalli og annari stúlku er hafi verið drepin og helzt af því að það var hugsað að þær mundu verða samtaka að strjúka í burtu. Bjarni vill fara í dalinn með hönum, en hinn eggjar hann ekki á það, en ef hann vilji koma seinna þá skuli hann gera hönum vísbendingu; hann skuli fara fram með féð er hann þekki. Bjarni tekur allt sem hann þekkir, en útilegumaður [fer] með það sem hann þekkir ekki. Skilja þeir so beztu vinir og segir útilegumaður Bjarna að sveitarstúlkunni líði vel, hún sé orðin ríkiskona í dalnum og eigi mörg börn. Bjarni dysjar Jón og setur þar upp vörðu og heldur síðan með féð fram í sveit og segir upp alla sögu og lætur bóndi sækja lík Jóns, en þá var hvorfið lík útilegumanns, og flytja fram í sveit og er hann greftraður.

Líða so fram stundir þar til Bjarni fer eitt sinn í kaupstað. Þegar hann kemur í búðina sér hann þar margt fólk og sömuleiðis fjallabúann er hann flaugst á við. Var hann fyrir innan borðið hjá kjólmanni er hann þekkti ekki. Hann gengur innar að borðinu og hinn á móti hönum. Þeir takast í höndur brosandi og segir hvorugur neitt við annan. Bjarni er að horfa á þá þar sem þeir eru að pakka kramvörunni niðrí ílát. Og þegar þeir eru búnir að því þá biður kjólmaðurinn kaupmanninn um hundrað spesíur. Kaupmaðurinn telur þær orðalaust fram á borðið. Kjólmaðurinn skiptir þeim so í tvennt og fær helminginn af því manninum sem með hönum var. Maðurinn lætur þá í buddu og stingur henni í vasa sinn og gengur síðan út og tekur í Bjarna og ganga þeir spottakorn frá búðinni. Þar setast þeir niður. Útilegumaðurinn tekur þá upp budduna með peningunum í og fær Bjarna og segir að hann eigi að eiga það fyrir að hann hafi gefið sér líf, og hinn biður hann að binda með sér það er hann hafi meðferðis. Bjarni lofar því; ganga þeir síðan inn í búð og þá segir útilegumaður við kjólmanninn að hann sé búinn að fá mann að binda með sér so hann þurfi þess ekki. Kaupmaðurinn segir að ekki sé hann enn þá búinn að taka út á ullina sína og tólgina. Kjólmaður segir að hann þurfi líka að fá steinkol, járn og salt, og fær hann af því eins og hann vill og þá fer maðurinn að binda og Bjarni með hönum. Binda þeir upp á tólf hesta og er á fjórum hestum af því fiskur. Þeir eru að tala saman um það. Segir útilegumaður að hann sé vinnumaður hjá þessum kjólmanni; hann sé í einum dal og sé prestur yfir hönum og stúlkan sem stolið hafði verið á grasafjalli um árið sé nú konan hans, og spyr Bjarna hvurt foreldrar hennar lifi ennþá. Bjarni segir það vera og séu þau ekki jafngóð síðan þau hefðu tapað henni; þau hefðu legið nokkra stund í sorg þegar þau hefðu séð hvurnig hin stúlkan var útleikin. Fjallabúi segir að ef hann vilji koma í dalinn þá skuli hann hlaða upp vörðu skammt frá hönum og sagði að þegar hann hafi seinast viljað fara í dalinn, en hann hefði hindrað hann, hefði hann verið drepinn, en núna mundi hann ekki verða það þó hann kæmi. So leggja þeir á gráa og skjótta hesta og láta síðan upp. So kallar fjallabúi á kjólmanninn og segir að nú sé hann tilbúinn, þeir séu búnir að leggja á, Kjólmaður gefur Bjarna spesíu í staðinn fyrir að hann [hjálpaði til]. Þegar þeir eru komnir á stað kallar fjallabúi á Bjarna og biður hann heyra sig. Bjarni fer til hans. Biður hann hann þá að þegja um það er hann viti. Bjarni lofar hönum því. Fer hann so inn í búð og þá fer kaupmaðurinn að spurja hann hvaða menn þetta verið hafi. Bjarni segir það væri kunningjar sínir. Tekur hann so út vörur þær er húsbóndi hans sendi hann eftir og heldur so heim. Þegar úti er slátturinn biður Bjarni húsbændur sína að lofa sér að bregða sér bæjarleið. Þau segja það sé sjálfsagt. Hann biður um nesti og nýja skó og fær hann þá. Hann heldur so á stað, en segir við húsbændur sína að þau skuli ekki undrast um sig þó hann verði nokkuð lengi, en þau biðja hann að koma aftur, því þau ætli að gefa hönum eigur sínar. So heldur hann nú á stað og gengur lengi þar til hann sér eina háa vörðu. Hann gengur að henni og allt í kringum hana þar til hann sér eitt hulstur úr hellu. Hann skoðar í það og finnur þar í bréf og er það frá útilegumanni og segir hann í því að hann skuli halda til norðurs og austurs og þá muni hann koma á eina dalbrún og sjá þar fjóra bæi og skuli hann fara að stærsta bænum, en ef hann hitti nokkurn áður hann komi að bænum þá skuli hann gefa hönum peninga. Heldur hann so frá vörðunni og hefir bréfið með sér þar til hann kemur á þessa dalbrún og sér hann þar fjóra bæi. Gengur hann so ofan í dalinn og að einum læk. Hann sér þar tvö börn og eru þau að ausa vatn[i] í skjólu. Hann spyr af hvaða bæ þau séu. Þau segja þau séu af stærsta bænum. Hann gefur þeim sína spesíuna hvoru og býður þeim að bera vatnið fyrir þau heim. Börnin þiggja það og segja smalinn gerði það stundum á heimleiðinni. Fer hann so heim að þessum stóra bæ. Fara so börnin inn og segja það sé maður kominn er þau þekki ekki og hafi gefið sér spesíu og borið fyrir sig vatnið. Þeim er skipað að kalla á þennan mann inn. Þau gera það og er hönum vísað upp á eitt loft. Bjarni sér þar margt fólk. Þegar hann er búinn að sita stundarkorn hjá fólkinu kemur kona framan úr húsinu og þakkar hönum fyrir börnin sín; þau séu óvön að fá þetta þegar þau séu að sækja vatnið. Fer hún so ofan og kemur með mat handa hönum og kallar á hann inn í húsið er hún kom út úr. Þar sér hann stálpaða stúlku og er hún að sauma. Lætur hún hann so setast niður og fær hönum að borða. Hann þekkir þar öngvan nema þessa konu að hönum þykir hún vera lík þeirri er hvarf af grasafjallinu, og líka sagði hún við hann: „Hvað segirðu í fréttum, Bjarni minn, úr sveitinni?“ Bjarni segir að ekkert sé að frétta utan það að enn þá tóri foreldrar hennar. Þegar hann er búinn að vera nokkra stund kemur upp á kjólmaður reykjandi og er það sá sami er hann sá fyrir innan búðarborðið. Þeir heilsast og þakkar kjólmaður Bjarna fyrir börnin sín. Er hann þar so um nóttina og um morguninn sér hann vin sinn koma inn til sín, og verða þar fagnaðarfundir og dvelur hann þar nokkra stund í góðu yfirlæti. Að lyktum er honum heitið stúlku þeirri er hann sá að var að sauma í húsi því er hann mataðist fyrst, og var það systir prestsins. Og þá hann fer aftur í burt úr dalnum fylgir hún honum heim útleyst með miklum gjöfum og henni fengið mikið fé hvört hann rekur til byggða. Og þegar hann fer fylgir honum útilegumaður vinur hans og á leiðinni hitta þeir sauðahóp mjög stóran er hann segist sjálfur eiga og ætli hann nú að gefa honum hann því hann eigi honum líf að launa, og fylgir honum og stúlku hans fram undir byggð og snéri þar aftur og skildu með hinni mestu vináttu. Kemur hann svo heim til húsbænda sinna og fagna þau honum og stúlku hans forkunnar vel. Á næsta vori gáfu þau upp bú sitt og reisti hann þar bú og giftist stúlkunni og urðu þau hjón hinir mestu bjargvættir í sveitinni. Fóru þau hjón oft kynnisferð í dalinn og héldu ætíð vinskap sín á milli. Þau bjuggu á jörð þessari til ellidaga og áttu börn mjög mannvænleg og urðu eftir foreldra sína mestu bjargvættir í sveitinni. – Og endar þessa sögu.