Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Guðmundur Brandsson

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Næstliðið sumar (1860) var Guðmundur Brandsson, bróðurson Jóns í Ósgröf, lítill þrifamaður, við Fiskivötn með konu sinni. Þau voru þar fyrst viku og veiddu ekkert vegna storms. Nú lygndi og fór að veiðast. Þá heyrðu þau til manna um nótt og jafnvel sáu menn, urðu hrædd og fóru fram. Halda menn þau hafi satt sagt, því þau komu sviplega fram frá veiðinni þegar hún var þó farin að verða líklegri. Það segja Fiskivatnamenn að hrafnar komi oft úr norðurátt til Fiskivatna, og í norðanátt þykjast þeir á stundum finna viðar(birki)reykjarlykt.