Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Guðmundur og Þorsteinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Guðmundur og Þorsteinn

Guðmundur er maður nefndur, prestssonur að Glæsibæ; hann þótti fyrirtak allra ungra manna í Eyjafirði, bæði fyrir sterkleika og liðugleika sakir. Þorsteinn hét stallbróðir hans, sonur fátæks bónda þar í grennd; hann gekk Guðmundi næst að öllum íþróttum.

Það var einn vetur þá allir sjóróðramenn voru suður farnir að Þorsteinn kom að máli við Guðmund og spurði hann hvort hann vildi eigi ráðast með sér til suðurferðar þótt seint væri orðið; skyldu þeir fara beint suður fjöll og vita hvort þeir ekki kæmust jafnsnemma og aðrir. Guðmundur vakti þetta mál við föður sinn og var það hönum móti skapi, en þó gaf hann loksins samþykki sitt til ferðarinnar. Héldu þeir síðan af stað Þorsteinn og Guðmundur og fóru beinustu leið suður fjöll. En þegar þeir komu suður undir jökla gerði á þá þoku mikla; villtust þeir þá og vissu ekkert hvað þeir fóru. Síðan skall á stórhríð með ofsa miklum, en þó héldu þeir áfram til þess að halda á sér hita. Vissu þeir þá ekki fyrri til en þeir ráku sig á bæ; var hann vel húsaður og skipulega byggður; gengu þeir þá að karldyrum og drápu á dyr. Ekki leið á löngu áður til dyra væri gengið og kom út aldraður maður á dökkum slopp; en er hann sér komumenn skellir hann hurðinni í lás. Guðmundur stekkur á hurðina og klýfur hana og heldur inn á eftir karlinum og Þorsteinn með honum. Koma þeir þar inn í baðstofu og var þar ekki annað manna en karlinn og kona hans. Karl sat við borð og var að skrifa, en kerling sat við tóvinnu. Þeir Guðmundur settu sig þar niður á flet eitt og var ekkert á þá yrt.

Að góðum tíma liðnum komu tveir menn inn sterklegir og stórvaxnir og sögðu: „Sæll veri faðir góður.“ „Hvað voru lömbin mörg?“ spurði gamli maðurinn; þeir svöruðu: „Liðugt hundrað.“ „Eitthvað hefur þá vantað,“ segir hann. Nokkrum tíma þar á eftir komu inn tveir menn aðrir; voru þeir enn stærri og þreklegri. „Sæll veri faðir góður,“ sögðu þeir eins og hinir fyrri. „Hvað voru ærnar margar?“ spurði gamli maðurinn; þeir svöruðu: „Tvö hundruð.“ „Eitthvað hefur þá vantað,“ segir hann. Þar næst komu ennþá inn tveir menn; þeir ávörpuðu hinn gamla mann og sögðu: „Sæll veri húsbóndi góður.“ „Hvað voru sauðirnir margir?“ spurði hann; þeir sögðu: „Þrjú hundruð.“ „Eitthvað hefur þá vantað,“ segir hann. Þeir Þorsteinn voru svangir mjög og illa til reika og er enginn ávarpaði þá spyr hann hvort það sé ekki siður hér eins og á öðrum bæjum að draga vosklæði af ferðamönnum og gefa þeim að borða. Honum var engu svarað, en litlu seinna gekk konan fram og var þeim þá fært fullt trog af hangikjöti, og eins hverjum hinna tveggja. Þeir Þorsteinn mötuðust og urðu mög fegnir mat sínum en þó luku þeir ekki nærri úr troginu, en allir hinir luku. Þar eftir var borið inn fullt trog af súru skyri og sett fyrir þá Þorstein, en þeir þökkuðu fyrir og kváðust nú ekki geta neytt meira. „Svona eru skræfurnar úr sveitinni,“ segir hinn gamli maður; „það gengur enginn matur í þá og því verða þeir aldrei að manni.“ Hver hinna tvímenninganna sleiktu innan súrskyrstrogin. Þegar þeir höfðu neytt segir hinn gamli maður að nú skuli leita sér nokkurrar skemmtunar og skuli sveitamenn glíma við drengi sína. Guðmundur sagðist ekki hafa undan því skorazt, hefði hann verið óþreyttur, en nú væri hann ekki vel við því búinn vegna þreytu og vosbúðar. „Svo þótti mér,“ segir hinn gamli maður. „Er þú í kvöld klaufst bæjarhurðina að þú ekki þættist örmagna og skal nú víst reyna fangbrögðin.“

Síðan var gengið fram í skála einn mikinn og skipar hinn gamli maður yngri sonum sínum á móti sveitamönnum. Glímdu þeir lengi áður sveitamenn fengju jarðvarpað þeim. Þá eggjar hinn gamli maður eldri sonu sína og biður þá að hefna hinna yngri. Hlaupa þeir þá að sveitamönnum með mikilli illsku og tóku á heldur ómjúklega, en vegna liðugleika síns fengu sveitamenn varizt þeim og loksins kom svo að Þorsteinn gat ráðið niðurlögum þess sem móti honum var skipaður, en Guðmundur kom sínum á hnéskít. Skipaði þá karl að hætta leiknum og hét sveitamönnum að þeim skyldi ekkert mein gjört. Síðan var þeim skipað til hvílu og sváfu þeir gegnt þeim hjónum, en það sá Guðmundur um kvöldið að karlsson sá er hann hafði varpað hnéskítinn leit mjög illilega til þeirra, og grunaði að honum mundi búa illt í skapi og hafði því andvara á sér um nóttina. Enda var það svo að um miðnættið heyrir hann að einn þeirra bræðra fer fram úr baðstofunni; læðist Guðmundur á eftir hönum og heyrir að hann tekur exi ofan af skálaveggnum og syngur við í henni. Læðist þá Guðmundur inn aftur og vekur félaga sinn og lætur hann fara ofan úr rúminu. Rétt á eftir kemur heimamaður og heggur með exinni ofan í rúmið og ætlar að Guðmundur skuli fyrir verða. En í sama vetfangi hleypur Guðmundur á hann og rekur hann niður fall mikið; vaknar þá karlinn og spyr hvað á gangi. Guðmundur segir honum hið sanna. Karl bað hann að hlífa syni sínum og kvaðst mundi honum góðu launa. Lét Guðmundur þá karlsson lausan og drattaðist hann í rúm sitt.

Þeir Guðmundur voru þar hríðarfastir í fjóra daga og gerði enginn þeim mein, en á fimmta degi var hríðin stytt upp, og kvað karl þá vera ferðaveður og vísaði þeim á veginn suður, en sagði að ef þeir sæju nokkuð kvikt í skarðinu suður undan bænum skyldu þeir ganga upp á hól einn sem í skarðinu væri og mundi hann sjá þá þaðan. Þeir þökkuðu síðan karli góðar viðtökur og kvöddu hann.

Gengu þeir upp í skarðið og er þeir voru upp komnir sjá þeir þar tvo menn sem stóðu yfir fé, og suður í skarðinu allt að tuttugu bæjum. Þegar fjármennirnir sáu til ferða þeirra tóku þeir á rás til bæjanna. Grunaði þá Guðmund að illt mundi undir búa og gengu þeir upp á hólinn sem karl hafði vísað þeim á. En það var jafnsnemma að þeir sáu karl koma og 80 manna komu hlaupandi að þeim frá bæjunum. Þegar karl kom sagði hann sig hefði grunað þetta að þeir mundi verða hér einhvers varir, en bað þá vera óhrædda því hann sagðist vera sýslumaður þessara og mundu þeir ekki gjöra móti sínu banni. Þegar flokkurinn var kominn að þeim ávarpaði karl þá blíðlega og bað þá að lofa mönnum þessum að fara leiðar sinnar því þessir væru hinir vöskustu menn sem hann hefði hitt úr sveit. Útilegumenn sögðu brotin lög á sér er hann í fjórar nætur hefði hýst sveitamenn og lofaði þeim síðan að fara í friði; mundu þessir segja til heimkynna sinna og væri það illt ef yfirvald þeirra stofnaði þeim í slíkan háska. Karl kvaðst mundi svo til sjá að þeim af þessum mönnum yrði engin hætta búin. Lét hann þá sveitamenn sverja sér eiða að því að þeir skyldu engum segja til heimkynna sinna og unnu þeir eiðinn fúslega. Lögðu þá útilegumenn á burt og fór hver heim til sín. En áður en karl kvaddi þá Guðmund bað hann þá að selja sér fiskinn á vertíðarlokum upp á Hofmannaflöt, kvaðst hann þá skyldi verða þar fyrir og klyfja hesta þeirra aftur með ull og tólg. Þeir játuðu þessu og skildust síðan með blíðu.

Síðan héldu þeir leiðar sinnar og bar ekki fleira til tíðinda; komu þeir suður á undan öllum öðrum Norðlingum og fengu góð skiprúm og öfluðu vel. Um vorið fluttu þeir fisk sinn á átta hestum upp á Hofmannaflöt og var þar karl fyrir með jafnmarga hesta klyfjaða með ull og tólg, og höfðu býttin eins og ákveðið var. Varð þeim þetta hinn mesti gróðavegur. Í átta ár höfðu þeir þessa verzlun við karlinn, en níunda árið kom hann ekki. Ímynduðu þeir sér að hann þá mundi dauður; voru þeir þá orðnir sterkríkir menn, byrjuðu búskap og farnaðist vel. Þeir þóttu mætastir bændur í Eyjafirði og héldu vináttu sinni til dauðadags.