Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Gunnar Flóafífl

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Gunnar Flóafífl

Það er sagt að í fornöld hafi einu sinni, þegar prestaskóli var á Hólum í Hjaltadal, þá hafi verið illt að fara milli Skálholts og Hóla með bréfin og gekk illa að fá pósta. Í þennan tíma voru margir skólapiltar á Hólum. Þar var einn smaladrengur er Gunnar hét og var kallaður Flóafífl. Skólapiltar voru illir við hann, enda var hann þeim óþarfur því ætíð var hann að lesa í bókum þeirra, og vildu þeir að hann færi í burtu og báðu biskup að láta hann fara með bréfin. Biskup spyr Gunnar hvert hann vildi það gjöra, en hann kvað það ei árennilegt þar sem svo margir hefðu horfið á þeirri leið, en sagð[ist] þó fara skyldi. Skólapiltar hæla þessu og sögðu það líklegt að hann yrði þeim ei þar til ills.

Hann fer nú af stað með bréfin og gengur á fjöllin sem leið liggur. Og er hann hefur lengi gengið fer að drífa og versna veðrið og villist hann brátt; og er hann hefur lengi gengið kemur hann að einum húsabæ. Hann fer upp á glugga og sér hvar kerling og kall sitja í öðrum baðstofuendanum og sýndist honum þau illileg; en í öðrum enda baðstofunnar sér hann unga og fríða stúlku. Hann guðar nú og biður að lofa sér að vera. Þau sögðu stúlkunni að ganga til dyra. Hún kemur fram og segir honum að vera var um sig; eftir það fylgir hún honum inn. Hann heilsar hjónunum, en þau tóku því þurrlega. Hann setur sig niður; og er hann hefir setið um stund fara hjónin fram og eru frammi um stund. En er þau komu inn komu þau með skál og öxi og trog. Gunnar spyr hvað það skyldi, en þau svöruðu honum ekki. Kall tekur upp úr pallinum lok og mælti til kerlingar sinnar að hún skyldi láta skálina þar ofan í. En er hún ætlar að gjöra það missir hún skálina úr höndum sér og veltur hún um pallinn. Kall bölvar úr henni klaufaskapnum og kvað hana það so oft gjört hafa að það væri líklegt að hún kynni það héðan af. Gunnar hlær að þessu og spurði hvert það væri oft gert. Kallinn tekur nú skálina og vill láta í holuna, en það fer á sömu leið; hjónin fara nú að jagast og síðan fljúgast þau á og drepa hvört annað. Gunnar tekur þau og brennir á báli. Hann spurði stúlkuna að heiti. Hún sagðist Guðrún heita og vera dóttir Hólabiskups, sagði að þegar hún var á fimmtánda árinu þá hefði hún einu sinni farið út að sækja þvott; þá hefði komið maður og farið með sig hingað og ætlað að eiga sig, en drepa kerlingu sína. Hann sagði henni að hún skyldi bíða meðan hann færi með bréfin suður í Skálholt; hún kvaðst svo gjöra mundi.

Hann fer nú þar til hann kemur á fund biskups og afhendir honum bréfin. Biskup spyr hvert hann hefði einskis orðið var. Hann kvað það lítið, tekur nú við bréfunum og fer, heldur nú áfram þar til hann kemur til stúlkunnar. Hún býr sig til ferðar. Þau taka nú það sem fémætt var í kofanum og brenndu síðan. Þeim greiddist vel og komu um kvöld í Hóla. Hann lét stúlkuna vera á bæ skammt þaðan. En er hann fann biskup fagnar hann honum og spyr hann af ferðum hans. Hann segist einskis var orðið hafa. Hann spyr biskup hvert hann hefði ekki átt barn. Hann sagði honum sem var. Gunnar spurði hvað hann myndi vilja gefa þeim sem kæmi með dóttir hans lifandi. Biskup kvaðst gefa skyldi honum hvað sem hann kysi úr eigu sinni. Gunnar sókti þá stúlkuna og leiðir fram fyrir biskup. Þar varð nú fagnaðarfundur með þeim. Biskup spyr hann þá hvernin hefði farið um ferðir hans. Gunnar sagði af hið ljósasta og sagðist nú vilja kjósa. Biskup bað hann það gjöra; Gunnar sagðist kjósa dóttir hans. Biskup varð heldur daufur og sagðist ekki hafa ætlað að gifta hana ólærðum manni. Gunnar sagði að hann mundi líklega geta lært. Biskup vill nú vita hvernin hann væri að sér og fann hann það brátt að hann var ei síður að sér en hver annar stúdent og vígir biskup hann til prests. Þar eftir giftir hann honum Guðrúni dóttir sína og veitti honum sæmilegt brauð, en skólapiltar voru í burtu reknir. Gunnar átti mörg börn með konu sinni þó hér séu ekki nefnd, bjó til ellidaga og þótti hinn bezti drengur og er mikil ætt frá honum komin.