Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Hólamannasaga

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Á dögum Steins biskups á Hólum[1] voru þar á staðnum meðal annara tveir vinnumenn sem báðir sér í lagi sóktu sjó á Suðurnesjum og gengu suður fjöll á vetrum þegar þeim þókti tækifæri og bezt gangfæri til.

Það var einn vetur að þeir lögðu enn á stað eftir vana sínum í frosti og heiðskíru veðri og voru búnir að ganga einn dag að loft tók bráðum að þykkna og því næst að drífa og það so mikið að engin skil sáust á lofti eða jörð, þó um tíma í logni, svo þeir fara bráðum villir vegar. Síðan fer að koma vindur af einhvörri átt, en snjór er kominn mikill og vita þeir ekki hvað þeir halda. Og þannin halda þeir eitthvað áfram so dægrum skipti unz að bráðum hallar undan fæti og fá tíðum klöngróttan veg. Samt koma þeir loks á jafnsléttu og eru nú orðnir dasaðir mjög.

Nú finna þeir reykjarþef og ganga á hann á móti veðrinu, en sama er kafaldið. Þó koma þeir á bæ einn og að bæjardyrum. Þá segir annar: „Á nú að berja á dyr?“ „Já, víst,“ segir hinn; „við erum jafndauðir úti hvað sem við tekur inni.“ En undir eins og þeir hafa dyra kvatt lýkur kvenmaður upp. Þeir heilsa henni og spyrja hvört hún eigi húsum að ráða. Hún kvað nei við. Þeir biðja hana að skila til húsbónda að þeir biðist húsa á meðan bylurinn sé. Hún gengur inn og kemur bráðum aftur og segir að faðir sinn hafi sagt að þeir skuli koma í bæinn. Þeir ganga í bæinn á eftir stúlkunni og koma (að þeim virtist) í baðstofu. Þar voru þrjú hús, sitt til hvörrar [handar] og eitt á móti dyrum. Baðstofugólf var mikið og rúmgott. Þeim var vísað í annað karmhúsið; þar var rúm uppbúið. Þar voru dregin af þeim snjóklæði og það sem vott var, og aftur fengin þur föt, en stúlkan fer með hin á burt. Þar næst kemur hún aftur með trog og hýran vatnsgraut með súru skyri ofan í og biður þá að borða og segir um leið að faðir sinn hafi sagt að fyrst að þeir hafi lengi í illviðri úti verið og séu innkulsa orðnir þá muni þeim óhollt að éta strax heitan mat. Af þessu borða þeir lyst sína; og á meðan er barið að dyrum og þegar upp er lokið koma inn tveir kallmenn heldur þreknir og fara að dusta af sér snjóinn. Þá er lokið upp húsinu sem var á móti gestahúsinu. Þar kemur út gamall maður stórvaxinn, í loðinni skinnpeysu og segir: „Komið þið sælir, drengir mínir! Funduð þið alla sauðina?“ Þeir anza og segja: „Sæll vertu, faðir minn! Ekki fundum við þá alla; við fundum hundrað og þrjátíu.“ Þá segir kallinn: „Það var ei von þið fynduð þá í slíkum byl fleiri. Það vanta þá fjörutíu; þeir geta víða verið. Farið þið að dusta af ykkur snjóinn.“ Og so gengur húsbóndinn aftur í hús sitt og þá sjá komumenn að þar sat öldruð kona í rúmi og sezt gamli maðurinn hjá henni. Litlu síðar er aftur dyra kvatt. Stúlkan lýkur upp og þá koma aftur inn tveir kallmenn heldur stærri en hinir. Þá kemur kall aftur og kveður þá eins og hina og spyr hvört þeir hafi fundið öll lömbin. Þeir anza eins og hinir – „en ei fundum við nema hundrað og fimmtíu“. „Þá vanta fimmtíu,“ segir þá gamli, „og verður þeirra ei leitað að so komnu.“ Nú fara þessir menn af snjóklæðum sínum, og brátt þar eftir er enn barið að dyrum, en jafnsnart sem upp er lokið koma inn tveir menn enn og eru þeir mestir á stærð. Brátt kemur kall til tals við þessa upp á sama máta: „Hafið þið fundið ærnar?“ Þeir segjast hafa fundið tvö hundruð. „Þá vanta áttatíu,“ segir bóndi. „Ykkur er mál að fá nokkuð að borða.“ Og bráðum þar eftir kemur stúlkan með tvö trog full af graut og skyri og borða sínir þrír úr hvörju troginu og sleikja innan.

Þar eftir fara þeir að glíma á gólfinu sér til hita, því þeir bera sig kuldalega og nú spyrja þeir komumenn með glensi hvört þeir vilji ekki koma að glíma líka. Kallinn gamli segir að þeir muni vera til þess of dasaðir eftir jafnlanga og harða útivist, en þeir segjast ekki vera uppgefnir og koma báðir [á] leiksviðið og glíma við þá bræður, og falla bræðurnir allir fyrir Hólamönnum. En einum bræðranna mislíkar að verða undir og ræðst í þrjár reisur á þann sama, en hefur þó alltaf miður. Þá kemur sá gamli og segir hann skuli hætta þessu og ekki níðast [á] manninum, því hann hafi ei við hönum að heldur og endar so þessi leikur, enda er líka farið að líða á dag. Þá eru borin inn tvö stór trog með heitt spað og eiga Hólamenn að borða með bræðrunum, en þeir kváðust þá ei svangir vera, en borða þó nokk[uð], en hinir klára trúlega það sem í trogunum var.

Um kvöldið er þar húslestur lesinn eins og venja er hjá kristnu fólki, og því næst er þar til hvílu gengið. Hólamenn eru látnir sofa í sama húsi og áður er um getið og verður þeim ekki ýkja-svefnsamt og líður so fram á nóttina. Þá heyra þeir að læðzt er að húsdyrunum og hljóðlega upp lokið og gengið að rúminu. Þá hefur sá hendur fyrir sér sem nær var og finnur að þar er maður kominn með exi í hendi. Hann talar hátt og spyr hvað um sé að vera – „eða hvað á að gjöra við öxina?“ En undireins og kallinn heyrir þetta kemur hann og tekur í hönd þess sem þar var inn kominn og leiðir á burt; en það var sá sem illur varð í glímunni um daginn.

Um morguninn kemur kallinn á fætur fyrstur og gáir til veðurs, kemur inn aftur, býður góðan dag og mælti enn framar: „Bylur er enn og bylur verður í dag og ekkert verður gjört til þarfa nema ef þið drengir gætuð náð kindum nokkrum til að skera, einkum ef Hólamenn vildu hjálpa ykkur til,“ en þeir kváðust þess albúnir. Því næst fara þeir til hellirs eins og reka þaðan þrjátíu sauði heim og skera þá um daginn. Um kvöldið er farið að hátta og þá segir gamli maðurinn við aðkomumenn: „Nú skal ykkur vera óhætt að sofa í nótt andvaralausum; ykkur skal engin ónáð veitast.“ Og varð það orð að sönnu, því nú sváfu þeir um nóttina með beztu náðum. Um morguninn fer húsbóndinn enn nú fyrstur á fætur og kemur inn aftur, býður góðan dag og segir: „Bylur er enn og bylur verður í dag og ætla ég að biðja ykkur að raka gærur þær sem liggja síðan í gær;“ og taka þeir til verka og raka allar gærurnar. Ekki skorti slátur til matar þessa daga. Þriðja daginn kemur kall enn til dyra um morguninn, kemur inn og segir nú komið heiðríkt loft og gott veður – „og er nú bezt að gefa piltum nokkuð að borða so þeir geti farið að gá að kindum, en Hólamönnum skal ég vísa til vegar þegar þeir eru búnir.“ Þegar þeir eru ferðbúnir spyr kall hvört þeir séu ei matlitlir. Þeir kváðu nei við. Hann kvaðst sjá vilja – „því langan veg eigið þið enn fyrir höndum“ – og lét sitt sauðarfall í hvörn pokann. Síðan fara þeir af stað. Kall gengur á veg með þeim og á hól einn háan fram í dalnum. Þá mælti kall: „Þar í dalmunnanum er fjall eitt og skulu þið ganga fyrir vestan fjallið og þar upp á næstu brúnir og so upp á öldur þær sem þá eru til vinstri handar. Vera má að ykkur sýnist þetta krókur, en þó skulu þið gjöra sem ég segi. Í dal þessum eru tólf bæir og hefi ég verið hafður fyrir yfirmann og hefi ég so heppinn verið að allir hafa hlýtt boði mínu og banni. Og þó mér sé skylt málið þá er ei víst að þið hefðuð annarstaðar hitt betri gisting, og farið þið nú heilir og sælir.“ Og nú skilja þeir að sinni og nú halda þeir áfram góðan tíma. En þegar þeir eru nýskildir lítur kallinn til baka og segir: „So lízt mér á baksvipinn ykkar, piltar, að þið muni nú ekki hlýða mér í öllu.“ En þeir kváðust það gjöra að hlýða honum.

Nú halda þeir leið sína nokkra stund þangað til annar segir: „Mikill krókur er okkur þetta, lagsmaður, að fara vestan megin fjallsins. Hvað mun hönum hafa gengið til að láta okkur fara þar megin?“ Og so fer tal þeirra að báðir verða á það sáttir að fara hina leiðina. Og nú koma þeir langt fram með fellinu að þeir þykjast nær því úr allri hættu sloppnir þegar að þeim ríða tólf menn alvopnaðir og hlaupa þegar af baki fyrir framan þá og spyrja þá hvörir þeir séu og hvaðan og hvar þeir hafi dvalið af bylinn eður hríðina; en þeir segja sem orðið hafði og leyna engu. Hinir segja að nú séu þeir komnir undan hans handarjaðar og sé þeim bezt að búast við dauða sínum, því héðan fari þeir aldrei lifandi. En sem þeir eru með miklum rembilátum þetta að ráðgera koma sjö menn úr hinni áttinni allir vel ríðandi og vel vopnaðir og er það kallinn sem áður er getið með sonum sínum sem hafði haft gát á ferðum þeirra og séð þegar þeir sneru af leiðinni. En þegar hinir útilegumennirnir sjá þá bregða þeir skjótlega við og ríða á burt snarlega og vilja hans ekki bíða, en kall gjörir Hólamönnum snarpa áminning fyrir óhlýðni sína og segir verðugt þó hann láti slíta af þeim höfuðin, en sökum þess að hann áður hafi verið búinn að gefa þeim grið þá vilji hann nú ekki níðast á drengskap sínum og því skuli þeir enn nú fara í friði, hvað þeir og gjöra og komast með heilu og höldnu suður í Njarðvíkur og fá til hlutar níu hundruð hvör um vertíðina.

Um sumarið á lestum fara þeir norður og eru nú margir í ferð saman. Þegar þeir koma norður á fjöll fara Hólamenn að tala saman og ráðgjöra að koma nú í dalinn til vinar síns og lífgjafara. Þeir taka nú einn hest með góðum fiskklyfjum, en biðja samferðamenn sína að annast lestina á meðan þeir fari að finna kunningja sína lítið úr vegi. Ofan á milli láta þeir átta potta kút með brennivín, taka sér síðan stefnu og hitta dalsendann og fara fyrir vestan fellið er fyr var um getið, koma síðan heim á bæinn um næturtíma og er þá fólk í svefni. Þeir berja á dyr og bráðum er komið til dyra og lokið upp og er það sama stúlkan sem um veturinn var þar. Hún fagnar þeim vel, fer síðan til föður síns og segir þeim til komumanna. Hann klæðist snögglega og kemur út á nærklæðum og heilsar komumönnum með mestu vinalátum og segir þá velkomna og biður þá að ganga í bæinn, en hinir ekki handseinir að grípa fiskabaggana og fá kalli og spyrja um leið hvört hönum sé ei skjaldsmakkaður fiskur og skuli hann hafa þetta til skjaldhafna í sumar. Og nú fá þeir hönum kútholuna líka og segja hann skuli hressa sig á þessu, en kall fellur í forundrun yfir þessara manna aðbugun og segist með engu geta þetta þeim endurgoldið, því nú séu líka drengir sínir í kaupstaðarferð. Hólamenn kváðust enga borgun þiggja vilja, því þetta geti engin þakklætisendurminning heitið fyrir umliðnar velgjörðir. Því næst fara þeir í bæinn og er þar þá enginn góðgjörðaskortur af þeim hlutum sem í þann tíma tíðkaðist að fagna með vinum sínum. En þegar þeir eru ferðbúnir þá er kallinn kominn með tvo tólgarskildi og var klyf hvör þeirra sem þeir skulu aftur láta á hestinn; þar til kemur hann líka með stóra fiðursæng og mælti: „Ef þið farið oftar til sjós þá snarið þessu undir ykkur; það er ei verra en bálkinn og ei þungt að leggja það ofan á milli. En þegar þið fari suður þá eru þið so kunnugir orðnir að ykkur er lítill krókur að ganga hér um.“ Og því næst skilja þeir með vináttu mikilli og fara Hólamenn leið sína.

Því næst liðu nokkur ár að þessir sömu menn heimsóktu þennan kunningja sinn vetur og sumar og höfðu jafnan góðar viðtökur og færðu líka kunningja sínum ýmislegt úr sveit það sem hann girntist, og borgaði þeim ríkuglega. Eitt sumar að skilnaði segir kallinn við menn þessa: „Þó þið farið suður í vetur þá skuluð þið ekki koma hingað, því nú er ég feigur og verð ég þá dauður; en ég þori ei að treysta so sonum mínum að þeirra vinátta verði ei byggðamönnum hvikul þó þeir hafi ei gjört á hluta ykkar á meðan ég hefi setið uppi. Kann vera að hér eftir slái þeir sér meir saman við aðra dalbúa og leiðist so til að breyta eftir þeim með eitt eða sérhvað.“ Að so mæltu kvöddust þeir með tárum og sáust aldrei síðan, og aldrei komu Hólamenn í dalinn framar. Og endar so sagan.


  1. Steinn Jónsson (1660-1739) var biskup á Hólum frá 1712 til æviloka.