Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Halla bóndadóttir

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Einu sinni fóru margir Skagfirðingar á grasafjall. Voru þar bæði karlar og konur og lágu þeir við tjald suður á heiðinni. Ein af stúlkunum hét Halla. Hún var dóttir bónda eins í Skagafirði. Var hún fríð sýnum og á tvítugs aldri. Svo bar við að hana syfjaði mjög í einni göngunni og lagði hún sig fyrir á rúst einni, en fólkið var þar í kring. Bað hún kvenmann einn að vekja sig bráðum aftur. Halla sofnaði skjótt, en þoka var mikil. Þegar Halla vaknaði þá sá hún engan mann og varð hún þá hrædd og ætlaði að hlaupa til grasafólksins, en hljóp í allt aðra átt. Fór hún svo lengi. Kemur þá að henni maður ríðandi. Hann var mikill vexti og þreklegur. Hann spyr hana því hún sé ein. Hún segir að þeir sem hún sé með séu skammt þaðan, „eða sástu ekki fólk á leið þinni?“ „Jú,“ segir maðurinn, „það er skammt héðan og er ég að leita að hestum sem struku frá mér því ég er hér líka á grasafjalli. Viltu ekki,“ segir hann, „að ég fylgi þér til fólksins?“ „Jú, það vil ég,“ segir Halla. „Seztu þá á bak fyrir aftan mig,“ segir aðkomumaður. Halla vildi það ekki því henni stóð stuggur af manninum. Gekk hún svo með honum stundarkorn. Sagði hann þá að hún skyldi koma á bak með sér svo þau yrðu fljótari. Halla lét þá til leiðast og settist á bak hjá manninum. Hleypti hann þá hestinum og reið slíkt sem af tók. En er langur tími var liðinn segir Halla að sér þyki æði langt til fólksins. Maðurinn segir að það fari nú að styttast. Lét hún hann þá ráða, því hún sá að hér var eigi til góðs að gjöra.

Riðu þau svo þar til er þau komu í dal nokkurn eigi alllítinn. Þar sá Halla bæi marga og þó einn mestan. Þangað héldu þau. Þegar þau komu í hlað stigu þau af baki og gengu inn. Var þar margt manna fyrir og þar á meðal sá hún menn tvo unga og vígamannlega. Segir þá maðurinn sem hafði tekið hana við þá: „Takið nú við meyjunni og geymið hana ei verr en ég hef aflað hennar.“ Þeir tóku þá við Höllu og fengu hana stúlkum tveimur unglegum. Þær voru glaðar og kátar og vildu allt gjöra Höllu til skemmtunar, en hún undi sér illa og neytti hvorki svefns né matar. Stúlkur þessar höfðu sterkar gætur á Höllu og létu hana sofa á milli sín. Halla sá konu eina gamla á bænum og skipti hún sér af engu er fram fór. Um sumarið gekk Halla að heyvinnu með hinum stúlkunum og leið svo fram á sláttinn.

Einn góðan veðurdag lá hey mikið flatt hjá dalbúum og voru allir önnum kafnir að hirða og binda heyið. Þá kemur gamla konan að máli við Höllu og segir: „Þú unir þér illa stúlka mín og er það von. Skal ég nú kenna þér ráð til að komast á burtu. Þú skalt vita að þú ert nú komin í Ódáðahraun og eru hér sjö dalir í hrauninu. Er þessi dalurinn mestur og fjölbyggðastur og liggur nær því í miðju hinna dalanna. Þessir þrír karlmenn sem þú hefur séð hér og eru meiri öllum hinum ætla nú innan fárra daga að halda brúðkaup sitt og eiga yður, þig og stúlkurnar sem hafa geymt þín í sumar. Veðjuðu dalbúar um það að engin stúlka væri jafnfögur og þú í Ódáðahrauni og ræntu þér svo. Er þér nú vorkunn þó þú unir þér illa hjá útilegumönnum og hef ég sjálf reynt það að verða að skilja við alla mína því ég er líka rænd úr sveit. Nú uni ég mér allvel og mun ég líka skammt eiga eftir ævi minnar. En ég ætla nú að kenna þér ráð til að komast í burtu. Skaltu í kvöld ganga til hvílu á undan öllum öðrum og látast þegar sofna. En þegar allir eru háttaðir skaltu reyna að fara á fætur og þá mun ég hafa til nesti og skó handa þér og segja þér til vegar.“ Slíta þær nú talið og þótti Höllu vænt um þetta. Kepptist hún nú við um daginn og var hin kátasta.

Um kvöldið fór Halla heim á undan öllum og gekk til hvílu og lézt hún sofa þegar fólkið kom. Héldu menn að hún væri lúin orðin og því hefði hún gengið svo snemma til hvílu. Stúlkurnar háttuðu hjá henni og sofnuðu fast. En þegar allir voru sofnaðir rís Halla upp og klæðir sig. Finnur hún þá kerlingu og hefur hún þar nesti og skó og fær Höllu. Segir þá kerling: „Nú skaltu ganga hér austur dalinn og upp hjá felli því sem þú sérð við dalbotninn. Þú skalt fara að sunnanverðu við fellið og þar muntu finna fyrir þér götuslóða. Þá skaltu ganga og mun þá verða fyrir þér jarðfall mikið og þar kemur þú á breiðan veg ruddan. Þann veg skaltu fara þangað til þú kemur í byggð. Að jarðfallinu muntu verða komin um sólaruppruna og skaltu þar fela þig á morgun því þú skalt vita það að leitað mun þín verða, og ef þú finnst ekki munu dalbúar berjast um veð sitt því þá hafa þeir þig ekki sjálfa og vita svo eigi hver unnið hefur. Farðu heil dóttir góð og far þú varlega og flý hið skjótasta,“ segir kerling. Halla þakkar henni ráð sín og skildu þær með tárum. Fer þá Halla af stað eftir leiðsögu kerlingar, en kerling fer inn aftur í bæinn.

Er það nú af Höllu að segja að allt fer eins og kerling hafði sagt henni. Kemur hún á slóðana hjá fellinu og svo að jarðfallinu. Er þá sól á loft komin og fer Halla niður í jarðfallið og leggst undir skúta einn við bakkann. Að lítilli stundu liðinni heyrir hún dyn mikinn og mannamál. Sér hún þá fjölda manna ríða niður með jarðfallinu. Þeir fóru geyst og voru að tala um Höllu. Sögðu sumir að hún hefði líklega hlaupið suður í hraunið og drepið sig. Líður svo dagurinn. Um kveldið koma þeir aftur. Stígur þá einn þeirra af baki við jarðfallið þar sem Halla lá. Það var unglegur maður og ekki ólaglegur. Hann segir: „Hér mun Halla vera,“ og hleypur yfir jarðfallið og skyggnist undir bakkann. Verður þá Halla hræddari en frá megi segja, en liggur þó kyrr. Maðurinn hleypur aftur yfir jarðfallið og segir: „Ekki er Halla hér.“ Ríða þeir síðan burt, en Halla rís upp og hefur sig til ferðar. Gengur hún þá brautina eins og kerling hafði sagt henni og fer nú það er hún má unz hún kemur til byggða. Kemur hún þá að prestssetri einu. Hún finnur prest og biður hann að taka við sér. Segir hún honum alla sína raunasögu. Prestur tók við henni fúslega og var Halla þar um veturinn.

Sumarið eftir réðist hún til ársvistar hjá presti. Prestur hélt og aðra vinnukonu og voru þær mjög saman hún og Halla. Um sumarið komu menn tveir til prests og báðu hann að taka sig fyrir kaupamenn. Prestur gjörði það. Annar þessara manna var hniginn mjög á efra aldur og var hann illilegur mjög. Hinn þar á móti var ungur maður að aldri og fagur sýnum. Hann hét Björn. Það var siður um sumarið að vinnukonur prests báru kaupamönnum litlaskattinn til skipta. Einu sinni þegar Halla fór með matinn segir hinn gamli maður: „Gott væri að skera, gaman væri að rista.“ Þá segir Björn: „Þegi þú eða ég drep þig.“ Halla varð hrædd þegar hún heyrði þetta, og fór heim. Sagði hún þá presti frá orðum kaupamanna og kvaðst ekki þora að vera þar á meðan þeir væru þar kaupamennirnir. Prestur sagði að hægt væri að ráða bót á því, „og skal ég hafa á þér kvennaskipti.“ Kom hann þá Höllu til næsta bæjar í kvennaskiptum. Þar stóð svo á að Halla átti að mjólka ærnar með annari stúlku, en klettur hár var í túninu milli kvíanna og bæjarins svo ekki sáust þær að heiman.

Einu sinni bar svo við að vinnukonan hin fór heim af kvíunum með fyrirmjöltina, en Halla var að hreyta eftir. Gjörði þá regnskúr svo vinnukonan kom ekki aftur. En er Halla fór heim fór hún undir klettinn og ætlaði að standa þar af sér skúrina. Kemur þá að henni kaupamaðurinn Björn og heilsar henni. Hún tekur kveðju hans og verður nú hrædd mjög. Björn segir að hann var sá er hljóp yfir jarðfallið, „og sá ég þig, en vildi ekki segja til þín. Karlinn sem með mér er vildi drepa þig því hann missti son sinn í bardaganum sem varð milli dalbúa út af fegurð þinni. Skal ég nú verja þig fyrir honum, en þó með þeim kosti að þú launir mér nú þagmælskuna þá er ég sá þig í jarðfallinu og heitir mér tryggðum.“ Halla þorði ekki annað en gjöra vilja Bjarnar. Síðan skildu þau, en oft fundust þau eftir þetta um sumarið. Þegar úti var slátturinn fóru kaupamennirnir burtu og Halla til prestsins.

Um veturinn kemur Björn til prests og biður hann að útvega sér jörð í sveit sinni og bústýru því hann kveðst vilja vera þar. Halla hafði sagt presti hvernig farið hafði um sumarið og það að hún var með barni af Bjarnar völdum. Segir þá prestur við Björn hvort hann sé ekki ánægður ef hann gæti fengið Höllu um vorið og taka þar jörð í sveitinni. En um veturinn átti hann að láta foreldra Höllu fá að vita það allt hvað um hana var orðið og vita hvernig þeim liði. Björn fór því næst burtu og norður í Skagafjörð. Sagði hann foreldrum Höllu alla hennar hrakningasögu og svo hvar hún þá væri. Fékk hann þá leyfi foreldranna til að eiga Höllu. Um vorið kom hann austur aftur. Tók hann þá Höllu og átti hana og settist þar að í búi í sveitinni. Um haustið sótti hann mikinn fjölda sauða inn í Ódáðahraun, en um vorið hafði hann komið með ógrynni ásauðar. Hann átti tvo sonu við konu sinni og voru þeir ójafnaðarmenn miklir og ódælir.