Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Hallgrímur eyfirzki

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hallgrímur Eyfirzki

Einu sinni voru rík hjón í Eyjafirði; þau áttu son er Hallgrímur hét; hann þótti afbragð annara ungra manna þar í sveit að afli og glímni. Hallgrímur kom eitt sinn að máli við foreldra sína og sagði þeim þá fyrirætlun sína að hann vildi ríða á fjöll og leita útilegumanna og um leið að fé því sem lifa hefði kunnað af um veturinn. Þetta var að vori um messur og þótti Hallgrími það hentastur tími til þessarar ferðar þar eð þá er lengstur dagur og björtust nótt. Foreldrum hans þótti þetta hið mesta óráð, því ef svo færi að hann fyndi útilegumenn þá mundu þeir drepa hann; en þeim tjáði ekki að letja áform hans. Hallgrímur fékk þann mann til fylgdar er Jón hét og var þar úr firðinum. Jón gekk næstur Hallgrími að afli og hreysti.

Þeir félagar bjuggust nú til fararinnar og tóku allt það með er þeir þurftu; meðal annars hafði Hallgrímur byssu til varnar ef á þyrfti að halda. Hesta höfðu þeir tvo þá er fljótastir voru taldir þar í firðinum; riðu nú á stað og yfir fjöll og firnindi í marga daga og urðu einkis varir. Einn morgun voru þeir komnir að einu felli og riðu þeir yfir það; þá koma þeir í lítinn hvamm og sjá þeir að hann hefur verið sleginn sumrinu áður. Hallgrímur mælti við félaga sinn: „Nú erum við komnir nálægt mannabyggðum.“ Þeir félagar héldu nú leiðar sinnar unz að fyrir þeim opnaðist dalur nokkur; þótti þeim hann grösugur mjög og ekki ólíklegt að þar gæti verið fé. Eftir dalnum rann dálítil á og riðu þeir fram með henni á sléttum bökkum. Þegar þeir eru komnir í miðjan dalinn breikkar hann og verður grösugri. Komu þeir þá á einn stekk; þar lá margt fé og sjá þeir að nýbúið er að færa frá. Þá mælti Hallgrímur: „Hér skulum vér staðar nema og hvíla oss og hesta vora.“ Sprettu þeir nú af hestunum og heftu þá. Hallgrímur mælti: „Við skulum eigi sofa báðir í einu, heldur vaka á mis og fara sem varlegast, því mig grunar að í kvöld um miðaftansbilið muni verða komið hingað og rekið saman féð.“ Nú sofna þeir félagar á mis og sváfu allt til miðaftans. Þegar þeir vakna heyra þeir að hóað er í dalnum. Segir þá Hallgrímur við Jón: „Nú er sem mig grunaði, nú er farið að reka saman. Nú skulum við taka það ráð að vera ferðbúnir, leggja á hesta vora og bregða taumunum upp á makkana, snúa þeim í áttina og standa upp við þá svo ekki þurfi nema stökkva á bak ef að oss koma fleiri en tveir.“

Að litlum tíma liðnum sjá þeir hvar koma tveir menn og stefna til þeirra. Hallgrímur kvað þá nú skyldu bíða, því nú væri jafnt á komið. Þeir félagar sjá nú að sá er undan gengur er unglegur maður í blárri peysu; hann er þrekinn vexti og eigi illilegur ásýndum, en sá aftari er minni nokkuð og ellilegur, í dökkum klæðum. Ber þá nú fljótt saman. Hallgrímur kveður komumenn og taka þeir því lítið. Hinn yngri spyr Hallgrím hverjir menn þeir félagar séu, hvaðan þeir séu og hvert að fara og í hverjum erindum. Hallgrímur segir nafn þeirra og séu þeir að leita fjár þess er lifa hefði kunnað af veturinn og um leið að skyggnast eftir útilegumönnum. Þá kvað peysumaður að bezt mundi að þeir fengju að vita að nú hefðu þeir fundið útilegumenn og stekkur á Hallgrím í sama vetfangi. Hallgrímur verður hraustlega við og tekst þar hin snarpasta glíma. Þeir glímdu og í öðru lagi Jón og hinn eldri maður. Það er að segja af Hallgrími að hann þarf að neyta allrar orku, því hann finnur að peysumaður er öllu sterkari; en Hallgrímur er mýkri og brögðóttari og verst hann lengi. En loks kemur þar að peysumaður fellur og handleggsbrotnar við byltuna. Peysumaður biður nú Hallgrím gefa sér líf og kveðst Hallgrímur það gjöra skulu ef hann heiti sér hollustu sinni og gengst peysumaður undir það. Nú hefur Jón fellt hinn eldri fjallabúa og biður peysumaður honum griða og hét Hallgrímur því og býður Jóni að gjöra honum ekkert mein. Settust nú hvorir tveggju upp og ræddust við í mestu vináttu. Tekur þá Hallgrímur klút af hálsi sér og bindur um handlegg peysumanni. Annan klút tekur Hallgrímur af honum og lætur handlegginn í fatla. Að því búnu spyr hann peysumann að heiti og kveðst hann heita Sigurður, en ei er getið um nafn hins. Hallgrímur spyr og að heimili þeirra og hverjir fleiri séu í dalnum. Peysumaður mælti: „Hér í grennd er bær vor og búa þar foreldrar mínir, bróðir minn og systir og einn svartur maður er fyrir var í dalnum þá faðir minn kom hingað, og gafst upp fyrir honum, en fylgdarmaður minn er vinnumaður. Hinn svarti maður er svo sterkur og grimmur að ei er hann meðfæri þitt þó sterkur sért, en faðir minn hefur þó meira afl. Nú er það mitt ráð að þið snúið hér aftur og ríðið heim í skyndi svo enginn verði ykkar var, því ella er það bani ykkar.“ Hallgrímur mælti: „Ei vil ég það, en koma vil ég heim og sjá föður þinn.“ Og tjáði það ei þó Sigurður letti hann mjög. En er Sigurður sér að það tjáir ekki segir hann Hallgrími að fara að ráðum sínum. „Gangið þið félagar með mér heim að vallargarði; þar munum við skilja, því við dalbúar göngum þá til fjárins. Skuluð þið þá halda heim á bæinn og nema staðar á hlaði rétt við bæjardyr. Haf þú byssu þína hlaðna með þér. Nú munuð þið sjá tvo kvenmenn í dyrum og munu þær að strokka sinn strokkinn hver; önnur þeirra gömul, en önnur ung. Kveðja skuluð þið þær og biðja þær gefa ykkur að drekka, en þær munu þá að taka af strokkum sínum. Mun þá sú eldri strax hlaupa inn og segja frá ykkur, en hin yngri mun gefa ykkur drykkinn. Þegar faðir minn fréttir komu ykkar mun hann strax senda hinn svarta mann til að drepa ykkur, því hann mun treysta honum að mæta ykkur báðum. En er þú sér hann koma skalt þú hleypa af byssunni í hann, en ef það ei tekst verður það bani þinn.“ Hallgrímur þakkar honum góð ráð og kveðst þeim fylgja mundu.

Skilja þeir nú og halda dalbúar til fjár, en félagar heim á bæinn, ganga nú að dyrum, sjá konur tvær að taka af strokkum sínum. Kveðja komumenn þær og tóku þær ei undir. Hin eldri bregður skjótt við og hleypur inn, en hin yngri gefur þeim fulla ausu af mjólk og drekka þeir. En óðar en það er búið sjá þeir hvar hinn svarti maður kemur örar en kólfi sé skotið og ætlar að þeim, en Hallgrímur hleypir nú af byssunni og fellur hann dauður til jarðar. Í því sjá þeir hvar kemur gamall maður grár af hærum úr bænum og fylgir honum annar ungur. Er Hallgrímur sér kall finnst honum mjög um vöxt hans og hefur hann aldrei séð annan þreklegri eða illúðlegri. Gengur kall að Hallgrími og mælti: „Hverir eru gestir þeir er vekja svo illa komu?“ Hallgrímur segir til nafns síns og þeirra félaga. Kall mælti: „Það mun bezt vér reynum þá með oss nafnarnir og hefni ég manns míns.“ Gangast þeir nú að heldur sterklega. Finnur hinn yngri að hann muni skjótt bera lægra hlut því dalbúi er miklu sterkari. Tekur hann það ráð að hann gjörir ei annað en verja sig, en lætur kall sækja. Gengur svo langa hríð þar til kall mæðist og ætlar að springa; linar þá harðasta atsóknin. Neytir nú hinn yngri þess og kemur á hinn bragði, og fellur nú kall. Kall mælti: „Ei hugsaði ég það að ég mundi falla fyrir einum manni úr sveit og þannig fer ellin með alla og ertu sá mesti maður er ég hef átt við og gef þú mér nú líf.“ Hallgrímur heitir því ef hann reynist þeim félögum trúr og heimamenn hans og því lofar kall. Það segir af Jóni og hinum yngri dalbúa að þeir sækjast hraustlega, en svo lýkur að Jón fellur. Biður nú Hallgrímur honum griða og kveður líf kalls í veði ella. Gjörir hinn yngri það fyrir orð föður síns að hann sleppir Jóni. Nú rísa glímumenn á fætur og biður kall þá félaga gista þar þá nótt og kasta þreytu og mæði. Í því bili koma smalar heim og hafði Sigurður horft á allan leikinn. Sagði hann nú föður sínum frá viðskiptum þeirra Hallgríms og að hann hafi gefið sér líf og vinnumanninum. Þetta gladdi kall mjög og þakkar hann Hallgrími drengskap hans. Þeir félagar eru nú leiddir inn og gefinn matur og fengið gott rúm og urðu þeir fegnir því. Þeir voru dasaðir mjög, einkum Hallgrímur. Um morguninn var Hallgrímur sjúkur og ollu því átök kalls því hold allt var nú hlaupið í þrymla. Dóttir kalls var læknir góður og sat hún löngum hjá Hallgrími og græddi hann og bróður sinn.

Að hálfum mánuði liðnum voru þeir Sigurður heilir. Býður þá kall Hallgrími setjast að hjá sér og eiga dóttur sína. Hallgrímur þáði boðið, en segir að fyrst ætli hann heim og sækja tvær systur sínar handa sonum kalls og líkar það öllum vel. Fara þeir nú félagar og Sigurður með þeim. En áður Hallgrímur kveður biður dóttir kalls hann fara varlega með sig því ei muni hann jafngóður af tökum föður síns; hann skuli ei drekka kalt þegar hann sé heitur, en ef hann verði vesæll láti hann vitja sín. Ei segir frá ferðum þeirra fyr en þeir koma á heimili Hallgríms og taka foreldrar hans honum fegins hendi og lízt öllum vel á Sigurð og þykir hann mannborlegur. Hallgrímur lætur og það bezta af þeim dalbúum. Jón fer til heimilis síns og er hann nú úr sögunni. Hallgrímur biður foreldra sína lofa sér að fara með systur sínar í dalinn og segir þeim fyrirætlun sína með giftingar þeirra, og verður það. Þær systur búast til ferðar og bíða þeir Sigurður nokkra daga unz þær eru búnar. Fara þau með klyfjar á fjórum hestum og eru öll ríðandi. Héldu þau nú leiðar sinnar í dalinn og er þeir eru komnir eina dagleið sprettu þau af hestum sínum og sváfu af um nóttina. Um morguninn risu þau árla, tóku hesta sína og bjuggu upp á þá. Veður var milt og hægt. Við þetta hitnaði Hallgrími mjög og gengur hann að læk og drekkur, en þá verður hann dauðsjúkur og leggst þar fyrir í tjaldinu. Sigurður ríður þá í skyndi í dalinn og sækir systur sína. Er þau koma í tjaldið var Hallgrímur nær dauða en lífi. Sat þar fólkið yfir honum í þrjá daga og var hann þá ferðafær af aðgjörðum kallsdóttur. Nú ríða þau í dalinn og er þeim þar vel fagnað. Sezt Hallgrímur nú þar að í dalnum í mesta yfirlæti. Átti hann dóttur kalls og bræður hennar systur Hallgríms. Þar voru reistir þrír bæir í dalnum að nýju svo þeir urðu fjórir. Bjó þetta fólk þar meðan það lifði, í einingu og hafði mikil kynni af sveitamönnum.

Lúkum vér svo sögunni af Hallgrími eyfirzka.