Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Hestadrengurinn í Skálholti

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hestadrengurinn í Skálholti

Brynjólfur biskup er var í Skálholti var talinn maður fjölkunnugur. Einhverju sinni kom að Skálholti piltur nokkur er hafði heyrt getið um kunnáttu biskups, gjörir boð fyrir hann og nær fundi hans. Erindi drengsins er þá ekki annað en að biðja biskup að kenna sér galdur. „Hvað ætli þú lærir galdur,“ segir biskup, „þú ert ekki óþvílíkur.“ Drengur segir að ekki dugi ófreistað. Biskup segir hann megi fá að vera þá nótt ef hann vilji, en í fjósinu verði hann að vera, og tekur drengur það allt með þökkum.

Um kvöldið fer drengur í fjósið. En skömmu eftir komu hans þangað sér hann að það glórir í eitthvað frammi á flórnum. Drengur er að virða það fyrir sér og mælir fyrir munni sér: „Skrýtið er þetta.“ Það sem glórir í færist einlægt nær og nær, en drengur dáist að hvað skrýtið það sé, en líkast virtist honum það vera mannsstrjúpa. Þegar þetta er komið nærri tekur drengur upp moðtuggu og ætlar að fleygja í það, en þá hverfur það. Eftir þetta fer drengur að leggja sig til svefns og sefur vært um nóttina. Um morguninn finnur hann biskup að máli. Biskup spyr hvernig hann hafi sofið og lætur drengur vel yfir. Biskup segir honum þá að hann megi vera hjá sér um veturinn ef hann vilji. Drengur tekur því með þökkum.

Um vorið kemur biskup einhverju sinni að máli við drenginn og segir honum að hann sé nú búinn að læra nóg svo hann megi fara burt ef hann vilji. En drengur kveðst miklu fremur kjósa að mega vera smala- og hestadrengur hjá biskupi og það fær hann líka fúslega.

Þegar drengur hafði verið ennþá eitt ár í Skálholti kemur biskup að máli við hann og segir að hann muni gæfumaður verða ef hann geti ráðið af dögum útilegumenn nokkra er liggi á fjöllum uppi og grandi mönnum. Þeir hafi ekki alls fyrir löngu stolið einhverri helztu bóndadótturinni þar úr sókninni og hafi ekki síðan spurzt til hennar.

Um vorið sendir biskup tvo vinnumenn sína norður öræfaveg og fer drengurinn með þeim í því skyni að hann snúist við hesta í áfangastöðum, beizli þá og hjálpi til eftir megni. Þeir halda leið sína í tvo daga og er drengur hinn liðugasti. En að morgni sefur drengur þegar þeir ætluðu að leggja upp og geta þeir ekki vakið hann eða komið honum á fætur. Þeir tala harðlega til hans og hóta honum hörðu, en það stoðar ekki. Vinnumennirnir leggja nú upp og halda af stað, en gefa þó gætur að hvort drengur fari ekki að hreyfa sig. Þeir sjá það einungis að drengur stendur upp og leggst undireins aftur milli þúfna.

En er vinnumennirnir voru komnir úr augsýn stendur piltur upp og býst til ferðar. Heldur hann þá þvert úr vegi; fer hann þá sakir kunnáttu sinnar beina leið að urðarholu einni og guðar þar. Það líður löng stund að enginn gegnir svo hann guðar aftur og aftur. Loksins kemur út laglegur kvenmaður. Hann heilsar henni og tekur hún kveðju hans. „Það er ekki mjög heimamannlegt hérna,“ segir drengur, „ég hef lengi staðið hér og verið að guða, en enginn hefur gegnt.“ „Ég vildi óska,“ segir stúlkan, „að þú legðir sem fljótast af stað aftur því ég óttast að þú munir annars verða drepinn.“ „Ekki held ég að ég hræðist það,“ segir drengur og biður stúlkuna að ganga inn svo hann komist á eftir henni. Hún gengur síðan inn og hann kemur á hælana á henni. Ganga þau nokkuð löng göng og koma síðan inn í baðstofukofa. Þar situr karl og kerling á rúmi. Hann kastar upp á þau kveðju. En þau gegna ekki og líta heldur óhýru auga til hans. Hann sér að rúm er fyrir gafli og tekur hann þar sæti óboðið. Fyrir neðan stokkinn sér hann að er nokkuð stór steinn og laut ofan í hann. Hann fæst ekki neitt um þetta. Allir þegja og stúlkan er til og frá. Loksins segja þau karl og kerling að stúlkan skuli koma með matinn til að borða. Að vörmu spori kemur hún með kettrog; virðist honum ketið vera tvenns konar, bæði manna- og sauðaket. Karl og kerling fara að snæða og gefa stúlkunni bita með af sauðaketinu. Þegar máltíðinni er lokið, gengur karl og kerling fram; eru þau nokkra stund frammi, en koma síðan, karlinn með hníf í hendi, en kerling með skál, og lætur hún skálina í steininn sem áður er getið. Drengur lætur sér ekki bilt við verða, heldur fer að dást að hve haganlega þessu sé fyrir komið. En þau gömlu geta aldrei komið skálinni fyrir eins og þeim líkar og eru lengi að stríða við það. Þau eru eins og dæmd við þetta, og þegar það hefur lengi gengið fer drengur fram, sækir eldivið og ber hann utan um þessi gömlu hjón, leggur síðan eld í og brennir þau þar. Þegar kalt var orðið í þessum kolum fer pilturinn og stúlkan að leita innan um kofana og finna þá bæði peninga og aðra gripi sem teknir höfðu verið af ferðamönnum er karl hafði náð í. Þetta allt bera þau út úr greninu og leggja svo eld í kofana.

Nú fer drengur heim í Skálholt með fjármunina og stúlkuna; var hún bóndadóttir sú er stolið hafði verið þar úr sókninni. Drengur segir biskupi allt hvernig farið hafði, en biskup lætur í ljósi að þetta sé upphaf gæfu hans. Stúlkan gjörir þá grein fyrir því hvers vegna hún hafi haldið lífi hjá karli og kerlingu, að þar eð þau hafi verið farin að eldast þá hafi kerling orðið fegin að hafa sig til snúninga heima við. Eftir þetta koma vinnumennirnir úr ferðinni og ásaka dreng harðlega fyrir óþægð sína. En biskup segir að hann sé kominn og sé hann ekki vítaverður. Síðan eru drengurinn og stúlkan í Skálholti þangað til þau giftast; fengu þau góða jörð hjá biskupi, bjuggu vel og lengi og voru jafnan talin gæfumenn.