Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Jón Sigurðsson Skagfirðingur

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Einu sinni bjuggu hjón ein framan til í Skagafirði og hét bóndinn Sigurður. Ekki er getið um hvar helzt þau áttu heima. Þau áttu son einn er Jón hét. Hann var snemma bráðgjör að öllu og var hann knástur allra sinna jafnaldra í Skagafirði á þeim tímum.

Á næstu bæjum við Jón ólust upp tveir menn jafnframt Jóni og gengu honum næst að öllum listum. Voru þeir þrír hinir mestu vinir. Annar vina Jóns hét Árni, en annar Björn. Árni gekk næst Jóni, en Björn var þeirra lítilsigldastur, en þó knár vel.

Faðir Jóns var vanur að fara skreiðarferð suður á land á hverju hausti, en eitt haust lagðist hann veikur svo hann gat ekki farið, og bauðst þá Jón til þess. Þáði faðir hans boðið og fór nú Jón að búa sig til ferðar. Þeir Árni og Björn buðust til að fara með honum og tók Jón því feginsamlega. Héldu þeir nú af stað sem leið liggur suður á fjöll. Þegar þeir voru komnir langt suður á fjöll skall á þá blindhríð svo þeir villtust. Samt vildu þeir ekki setjast að strax, heldur gjörðu þeir það með sér að þeir skyldu ganga hér um bil einn klukkutíma og ef þeir væri þá ekki búnir að finna rétta leið þá skyldu þeir setjast að. Gengu þeir nú svo sem svaraði í einn klukkutíma og voru þá jafnvilltir eftir sem áður. Bundu þeir þá hestana á streng, byggðu sér snjóhús og settust að í því. Höfðu þeir stafi með sér inn í snjóhúsið og ráku þá út til þess að vita hvernig veðrið væri, hvert hríðin batnaði ekki. Síðan tóku þeir upp nesti sitt og fóru að snæða.

Þegar þeir höfðu etið dálitla stund kom hundstrýni að gatinu og snasaði inn. Jón tók þá kjötbita og rétti hundinum, en hann tók við og hljóp burtu. Eftir dálitla stund kom hann aftur; rétti þá Jón honum brauðköku sem hann hljóp strax í burtu með. Að dálítilli stundu liðinni kom hundurinn enn; sagði þá Jón að þeim mundi vera bezt að fylgja hundinum eftir og svo gjörðu þeir. Jón rétti hundinum kjötlegg og hljóp hann þá af stað og þeir á eftir. Tóku þeir með sér nokkuð af reipum. Gengu þeir nú æðilangan spöl á eftir hundinum þar til þeir komu að klettasprungu einni mikilli. Þar stanzaði hundurinn og lét kjötbitann detta niður í sprunguna. Var þá kallað neðan úr gjánni og spurt hvort nokkur væri þar uppi. Jón kvað svo vera. Sá í gjánni spurði þá hvort þeir hefðu nokkur bönd sem þeir gætu hjálpað sér [með] upp úr gjánni. Jón játaði því. Bundu þeir nú saman reipin og renndu þeim niður til hans; en þá vantaði svo sem hálfan þriðja faðm til þess að reipin næðu niður. Fór þá Jón úr treyju sinni og skar hana í lengjur. Síðan bætti hann því við reipin og náði þá maðurinn sem var niðri í gjánni í reipin og las sig upp á þeim. Þegar hann var kominn upp þakkaði hann Jóni lífgjöfina og spurði hann um ferðir hans. Jón sagði af hið sannasta. Sagði þá maðurinn að þeim væri bezt að koma heldur með sér; þeir mundu fá eins gott af því eins og þó þeir færi suður. Tóku þeir því boði og sóttu hesta sína og héldu svo á eftir manninum. Það var heldur roskinn maður. Á leiðinni sagði hann þeim að hann væri útilegumaður og ætti heima í dal einum þar skammt frá. Sagðist hann eiga ellefu sonu og eina dóttur. Synirnir sagði hann að allir hefðu verið í kaupstað svo hann sagðist sjálfur hafa mátt vera við féð og í smalaferðinni hefði hann dottið niður í þessa gjá sem hann hefði sjálfsagt dáið í hefðu þeir ekki komið honum til hjálpar. Sagði hann að þá skyldi ekki iðra þess að þeir hefðu bjargað honum.

Gengu þeir nú þangað til þeir komu í dalinn; komu þeir þar að stóru fjárhúsi og voru þar tómir sauðir. „Sá er megandi sem á þessa sauði alla,“ [sagði Jón]. „Ekki væri það nú mikið ef ekki væri meira,“ sagði maðurinn um leið og hann leit inn í húsið. Þegar þeir höfðu gengið dálitla stund ennþá komu þeir að öðru fjárhúsi; þar leit maðurinn inn í og sagði: „Þarna eruð þið þá allar.“ „Sá er megandi sem á þessar ær allar,“ sagði Jón. „Og ekki væri það nú mikið ef ekki væri meira,“ sagði maðurinn. Enn gengu þeir dálítinn spöl; þá komu þeir að þriðja fjárhúsinu; var það lambhús. Þar leit maðurinn inn og sagði: „Þar eruð þið þá öll.“ „Sá er megandi sem á öll þessi lömb,“ sagði Jón. „Og ekki væri það nú mikið ef ekki væri meira,“ sagði maðurinn. Segir nú ekki af ferðum þeirra fyr en þeir komu heim að reisulegum bæ. Þar fór maðurinn inn, en kom að lítilli stundu liðinni aftur og sagði þeim að koma inn; fylgdi hann þeim í dálítið herbergi, þiljað í hólf og gólf. Þar skófu þeir af sér og fóru úr vosklæðum. Kom stúlka til þeirra með önnur föt, hrein og þur, en bar burtu hin blautu klæðin. Skömmu seinna var þeim borinn matur. Þegar þeir höfðu snætt kom bóndi inn og sagði þeim að synir hans væru komnir heim; einnig sagði hann þeim að þeim væri bezt að fara að hátta því að þeir mundu vera lúnir. Þeir játuðu því. Bóndi bað þá svo að grennslast ekki eftir heimilisháttum þar þá um kvöldið og lofuðu þeir því. Síðan fylgdi maðurinn Jóni í annað herbergi; var þar uppbúið rúm sem hann sagði Jóni að hátta í. Síðan bauð bóndi honum góða nótt og fór svo burtu. Þegar hann var nýlega farinn heyrði Jón söng í húsinu við hliðina á herberginu sem hann var í; þóttist hann þá vita að verið væri að lesa húslestur. Hlustaði hann um stund á sönginn, en sofnaði loks út frá honum.

Um morguninn kom bóndi inn til hans og bauð honum góðan dag og sagði brosandi að ekki væru þeir árrisulir sveitamenn. Jón svaraði því fáu, en sagði þó að ekki væri víst hvor fyrri hefði orðið á fætur hefði báðir verið jafnþrekaðir. Bóndi settist nú á rúmstokkinn hjá Jóni og spurði hann hvort hann vissi hver hann væri. Jón kvað nei við því. Þá tók bóndinn til máls og sagði:

„Ég heiti Sigurður eins og faðir þinn og er ég bróðir hans. Þegar ég var ungur um tvítugt varð systir mín þunguð af mínum völdum; og af því að ég varð hræddur um að okkur myndi verða hegnt grimmilega flýðum við í dal þennan með hjálp bróður míns, en föður þíns. Var hér þá einn maður er hét Illhugi. Hann vildi bægja mér burtu, en af því að ég átti í öllum höndum við hann þá þorði hann ekki að stjaka við mér til lengdar og höfum við síðan verið dágóðir kunningjar svona ofan á, en ekki líkar mér vel við hann því að stundum drepur hann menn sér til fjár; er hann æðiríkur og hefir arfleitt elzta son minn að öllu eftir sinn dag. Síðan ég flýði úr sveit hefi ég átt tólf börn með systur minni og líður mér vel. Ekki hefi ég afrækt trú mína því að á hverjum degi er lesinn húslestur og á hverjum sunnudegi er haldin opinber bænagjörð hér í dalnum. Eru níu bæir í dalnum því að síðan ég kom hér hafa ýmsir menn sem hafa orðið sekir í héraði flúið hingað. Á hverjum sunnudegi er haldinn hér glímufundur að aflokinni bænagjörð. Glíma þeir í húsi sem einasta er til þess; er bjálki um þvert húsið sem þeir reyna að fella hvern annan um; eru hér í dalnum þrjátíu og sex karlmenn er glíma á þeim fundi.“

Síðan sagði hann honum að honum væri bezt að fara að klæða sig; síðan fór hann burtu, en Jón klæddist og fór út; voru þá félagar hans komnir á fætur og komnir út. Þetta var á miðvikudag sem þeir komu þangað. Líður nú til sunnudags og eru þeir félagar hjá Sigurði bónda í góðu yfirlæti; líkaði Jóni vel við frændur sína, en einkum þó við bóndadóttur.

Á sunnudaginn komu þangað margir menn og var þar haldin bænagjörð eins og Sigurður hafði sagt Jóni. Að aflokinni bænagjörð gengu allir dalbúar í eitt stórt hús sem aðeins var ætlað til glímanna. Settust þeir allir niður hringinn í kring í húsinu, en þeir félagar sátu sér á bekk. Glímdu nú dalbúar fyrst dálitla stund einir sér; fóru þeir svo að óska að sveitamenn vildu glíma líka. Gekk þá Björn fram og einn af dalbúum móti honum; glímdu þeir nokkra stund unz Björn fellti hann; gekk svo að hann fellti fjóra af þeim. Þá gekk hann til sætis síns aftur. Þá fór Árni fram á gólfið og vildi svo til að Illhugi karl kom á móti honum; glímdu þeir dálitla stund þangað til Illhugi hóf Árna á loft og keyrði hann niður fall svo mikið yfir bjálkann að sundur gekk hryggurinn. Reiddist þá Jón og stóð upp. Gekk hann fram á gólfið og kvaðst vilja hefna félaga síns. Ögraði hann Illhuga lengi unz hann stóðst ekki lengur, heldur þaut á fætur og undir Jón; Jón var mjúkur fyrir svo karl gat ekki að gjört þótt hann færðist í hraukana það sem hann gat. Þegar hann tók að mæðast fór Jón að neyta bragða og um síðir gat hann komið svo smellnum mjaðmarhnykk á Illhuga að hann gekk úr augnaköllunum og var hann þegar dauður. Fáir dalbúa sýndust taka sér þetta nærri; voru skrokkarnir dregnir út og menn glímdu eftir sem áður. Gekk nú hver af öðrum dalbúa á móti Jóni og létti hann ei fyr en hann hafði skellt þeim öllum; en engan lék hann svo hart sem Illhuga. Þegar hann hafði fellt þá alla kom dóttir Sigurðar bónda og bauð honum til glímu. Jón lézt ekki þar kominn að glíma við kvenfólk. Hún kvað það ekkert gjöra til þó þau reyndu. Gat nú Jón ekki skorazt undan því lengur og tóku þau saman; glímdu þau lengi og kom Jón aldrei bragði á hana og hættu þau að því að bæði stóðu. Var nú hætt glímunum og fór hver heim til sín.

Á mánudaginn vildi Jón halda áfram ferð sinni suður, en Sigurður sagði að hann myndi ekki sækja gull suður því að þar væri nú fisklaust með öllu. Jón vildi þá halda heim, en Sigurður bauð honum þar að vera um veturinn; sagði hann að veður væru farin að versna og vegir að spillast svo honum væri bezt að vera þar um veturinn. Varð það þá úr að þeir félagar urðu þar um veturinn í bezta yfirlæti.

Um vorið þegar snjór var upp tekinn fór Jón að búa sig til ferðar. Áður en hann fór bað hann dóttur frænda síns og fékk jáyrði; síðan gaf hann honum í heimanmund dóttur sinnar fimmtíu sauði, fimmtíu ær og fimmtíu lömb, tíu hesta og það sem á þá gat komizt af tólk, ull og hangikjöti; einnig gaf hann honum fjórar kýr. Hélt nú Jón af stað með unnustu sína og Björn; fylgdu fimm synir Sigurðar honum, þangað til þeir sáu niður í Skagafjörð.

Sigurður föðurbróðir Jóns gekk á leið með honum og sagði honum að Sigurður bróðir sinn hefði ætíð verið vanur að koma á ákveðinn dag og stað til móts við sig á hverju hausti og eins bað hann Jón gjöra; sagði hann að sér þætti gaman af að fá fréttir úr byggðinni við og við. Enn fremur sagði hann honum að ef hann kæmi einhvern tíma ekki sjálfur þá myndi hann dauður og myndi þá verða komið með kistu sína sem hann bað Jón að flytja niður í sveit og sjá um að hún yrði grafin á helgum reit. Síðan kvaddi hann Jón og dóttur sína með blíðu og snéri svo heim aftur. Hélt nú Jón heim með brúði sína og fjárhlut. Þegar hann kom heim varð faðir hans mjög glaður bæði yfir því að sjá son sinn heilan á hófi aftur kominn og líka að sjá bróðurdóttur sína og tilvonandi tengdadóttur sína.

Næsta haust fór hann að finna Sigurð gamla; spurði hann þá margs og sagði aftur Jóni margt. Það sama haust giftist hann frænku sinni og reisti bú á jörð föður síns og bjó þar til elli; þótti hann æ hinn nýtasti og bezti drengur. Eitt haust þegar hann ætlaði að finna tengdaföður sinn var þar komin líkkista hans; flutti hann hana til kirkju og lét jarða hana í kirkjugarði.