Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Jón bóndason frá Möðrudal

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
Jón bóndason frá Möðrudal

Ríkur bóndi var [á] Möðrudalsfjöllum; hann átti son sem Jón hét. Hann var snemma mesti atgjörvismaður og vel að sér í öllu. Bóndi hélt þrjá vinnumenn; átti hann fjölda sauða og gætti bóndason geldsauða um vetur, en einn vinnumanna fylgdi ánum á beit.

Einu sinni bar svo við einn vetur að bóndason lét út sauði og vinnumaður ær og ráku jafnt í haga. Loft var svo lagað að veður var þykkt og heldur ráðinn til hríðar og þorðu þeir ekki að yfirgefa féð, heldur stóðu hjá því. Þegar kom að miðjum degi brast á stórhríð með svo miklu veðri að þeir réðu ekki við neitt og misstu féð út í hríðina. Var hríðin svo dimm að þeir gátu ekki ratað og kölluðu sig saman og vildu halda til bæja. En þeir villtust þegar og vissu ekki hvað þeir fóru; samt héldu þeir áfram allan þann dag og nóttina á eftir og fram á dag aftur. Rofaði þá til í hríðinni og fundu þeir að þeir voru staddir undir einni fjallshlíð; var þá vinnumaður uppgefinn og mátti ekki lengra fara. Bóndason tók þá það ráð að hann bjó til snjóhús með rekunni[1] sem hann gekk við og lét vinnumann fara þar inn; sjálfur gekk hann um gólf úti fyrir snjóhúsinu – og fór svo fram um hríð. Leiddist honum bráðum og kom að máli við vinnumann um að leita ef hann fyndi einhverjar mannabyggðir. Þó kvaðst hann bráðum mundi finna hann aftur. Vinnumaður féllst á þetta; fór Jón á stað og gekk leiðar sinnar nokkuð lengi og kom loksins á gamlan harðspora, gekk eftir honum um tíma unz hann kom að fjárhúsum; var þá komið fast að kveldi. Rofaði þá til enn í hríðinni svo hann sá nokkuð frá sér, en engan bæ sá hann. Hann hugsar með sér að hann skuli bíða þangað til fjármaður komi að með féð og gekk hann um gólf úti fyrir dyrum, en gekk ekki inn.

í hálfrökkri var orðið hríðarlítið; sá hann þá hvar kvenmaður kom með mikinn fjárhóp og þótti Jóni það undrum gegna; því hann átti ekki því að venjast í sinni sveit að konur stæðu yfir fé um vetur. Hún rekur féð heim að húsunum og vildi láta það inn, en Jón varnaði henni þess. Konan spyr þá hví hann varni sér að mega hýsa féð og hver hann sé. Hann kvaðst [heita] Jón. Hún spyr hvaðan hann sé að kominn og hví hann sé hér staddur. Hann segir henni að hann sé af Möðrudalsfjöllum og hafi villzt þangað sem hann nú var, en viti ekki hvar hann sé staddur. Hún segir að honum var mun betra að fara inn í húsið úr hríðinni – og sé þar rúm – en að standa úti og varna sér dyrnar. Fer hann þá frá dyrunum og lætur féð inn með henni í húsin sem voru tvö og bæði stór. Þegar þau höfðu hýst féð fór hann að tala fleira við hana og spyr hvar hún ætti heima. Sagði hún bæ sinn standa þar allskammt frá fjárhúsunum í einum dal. „Er þar margt manna fyrir?“ segir Jón. Hún segir að þar voru foreldrar sínir, bræður sínir tveir og einn vinnumaður og vilji vinnumaður eiga sig, en hún vilji ekki og ekki faðir sinn; sé hann vondur maður og hafi svo spillt bræðrum sínum að þeir séu illir orðnir eins og hann. Hann biður hana ásjár og koma sér til bæjar. En hún vill ekki. Kvað hún það varða líf hans og mundu þeir – eða sjálfsagt vinnumaður – drepa hann ef hann vissi komu hans. Kvaðst hún ekki annað betra ráð sjá fyrir hann en að hafast við í húsunum fyrst þá nótt og segist hún muni koma þangað aftur á morgun og hafa með sér bæði mat og klæðnað handa honum. Jón tók þessum kosti vel, en kvaðst vilja vitja samferðamanns síns sem eftir væri orðinn af sér og bað að hún fylgdist með sér. Hún lét það vera í té og fóru þau bæði; var þá stytt upp hríðinni, en dimmt af nótt; þó var nokkurt tunglsljós. Fór Jón á undan unz hann kom að snjóhúsinu þar sem vinnumaður var. Hann talar til vinnumanns, en vinnumaður var mjög máttfarinn og þó mest þjáði hann kuldi og gat hann ekki gengið. Hlutu þau að bera hann til skiptis þangað til þau náðu aftur fjárhúsunum. Bjó konan vel um þá eftir sem föng voru á og hlúði að þeim og kvaðst hún mundi vitja þeirra að morgni, en lengur mundi hún ekki standa yfir fé, því það væri ekki sitt verk, heldur þeirra karlmannanna; hefði hún aðeins fengið að hafa þennan starfa þann dag sér til skemmtunar.

Hún skilur við þá og fer heim. Um morguninn eftir kemur hún aftur snemma, gengur inn í húsið til Jóns og kvaddi hann og spyr hvernig þeim félögum líði. Jón lét vel yfir vellíðan sinni, en af félaga sínum væri það að segja að hann var örendur. Kom hún þá með mikinn kjötbelg og tvenn föt og fær Jóni; skuli hann njóta hverttveggja er hinn þurfti einkis með. Hefur Jón klæðaskipti og etur að þörf sinni úr belgnum af kjötinu. Hresstist þá Jón og varð frískur. Biður hann hana að fylgja sér á rétta leið heim. Hún tók því vel, en kvaðst mundi reka féð á beit um leið. Rak hún nú féð og skilur við það og fylgir Jóni nokkuð á veg og var þá mjög liðið á dag. Veður var hríðarlaust og nokkurn veginn bjart. Þá sagðist hún ekki mega fara lengra og þyrfti hún að vitja fjárins aftur, en sýnir honum hvert hann skuli halda.

Jón þakkar henni fylgdina og skiljast þau með blíðu. Fór Jón leiðar sinnar og gekk til kvelds eins og mest hann má; dimmdi þá að með hríð og um dagsetursbil var hann staddur hjá einum steini og treysti sér ekki til að halda lengra áfram og settist þar að, gerði sér snjóhús og fór inn og tók að eta úr belg sínum. Að því búnu vildi hann fara að sofa, en hafði enga ró til þess því vinnumaðurinn dauði ásótti hann svo mjög, og kom honum ekki dúr á auga alla þá nótt, og áður lýsti af degi fór hann á fætur og eirði ekki í snjóhúsinu. Var þá snjór fallinn mjög, en bjart, svo vegljóst var fyrir hríð. Hélt hann leiðar sinnar, gekk knálega og ætlaði að hann væri á réttri leið. En er kom á miðjan dag fram gekk að með stórhríð; villtist þá Jón og vissi ekki hvað hann fór.

Seinast um kveldið vissi hann ekki fyrr en hann var kominn að þeim fyrri fjárhúsum. Þóttist Jón þá illa staddur og vissi ekki hverjum brögðum hann var beittur, en hugði þó að bíða þar stúlkunnar. Um dagsetursbil kom hún heim með kindahóp og var þá hríðarlítið. Þegar hún kom leit hún þar Jón og var sem henni brygði við og spyr hví hann væri kominn þar aftur eða hví hann gat ekki ratað. Hann segir að ekki mundi sjálfrátt um hríðina og villu sína, að hann mátti hvergi komast nema að þessum hinum sömu húsum. Hún sagði það mundi aðeins valda óvizka hans. Láta þau nú féð inn. Biður Jón hana nú duga sér eða fylgja sér heim til bæjar hennar. Sagði hún að því fór fjarri að hún fylgdi honum heim, en í húsunum mætti hann vera; þó muni hún ekki aftur koma að morgni því sér væri synjað um að geyma fjárins lengur; mundi vinnumaður nú koma að morgni til að standa yfir fénu og yrði hann að verja sig fyrir honum hvað hann gæti.

Svo skilja þau; fer hún heim til bæjar, en hann lagðist til svefns þar í fjárhúsinu og svaf af um nóttina fram til dags. Vaknar hann snemma, klæðist og gengur út; var veður hríðarlítið; fór hann upp á fjárhúsin og skimar um ef hann sæi einhvern. Þegar hann hafði lengi hugað sá hann hvar maður kom; hann var bæði hár og digur. Þegar sá kom nær sá Jón að hann gekk við mikinn atgeirsstaf. Hljóp Jón þá inn í húsin og lét aftur eftir sér og lét eigi á sér bera. Hinn kom að dyrunum, tók opið, kallar inn hvert nokkur væri þar, en Jón anzar engu. Ætlar hinn þá að ganga inn og rak atgeirsstafinn undan sér. Jón sér þetta og ræður það af að hann greip um stafinn og tók fast á móti. Fór svo um stund að þeir héldust á um stafinn, en þar kom að Jón kippti af hinum stafnum. Þegar dalbúinn missti stafinn varð hann hræddur og tók á rás frá húsunum, en Jón á eftir unz hann náði dalbúanum og var þá ekki að sökum að spyrja að Jón lagði atgeirnum á honum og féll hann dauður til jarðar. Jón tekur þann dauða og dysjar hann heim undir húsveggnum, og að því búnu lét hann féð út, rak það á beit og stóð yfir því til kvelds. Er nú hríðarlítið um daginn.

Seint um kveldið rak hann féð heim til húsa og lét það inn. Gengur hann þá til rúms síns og fer að sofa. Morguninn eftir vaknar hann snemma – sást aðeins dagur – klæðist skjótt og kemur út; er þá nokkuð bjart veður. Hann gengur upp á fjárhúsið og hyggur hvert ekki sjáist til manna, og sér hann hvar kemur mikill, bæði hár og digur maður – var sá öllu meiri en hinn fyrri – og hefur staf í hendi. Jón gjörir sem fyrri að hann hleypur í húsið og lét aftur eftir sér. Kemur aðkomumaður að dyrunum, tekur opið og kallar inn hvert þar sé nokkur, en Jón anzar engu. Hinn ætlar inn að ganga og lætur stafinn ganga undan sér, en það var atgeirsstafur. Jón greip um og tók sterklega í móti og urðu strax harðar sviptingar; finnur Jón að þessi var sínu sinni sterkari en sá fyrri. Þó lauk svo að Jóni vannst betur og náði hann af honum stafnum. Sá sem úti var, er hann missti af stafnum, flúði hann hið hraðasta, Jón á eftir og elti hann lengi þar til hann nær honum og leggur hann í gegn með atgeirnum og er sá dauður. Jón tekur þann dauða og dysjar hann hjá hinum. Hleypir hann þá fénu út, rekur á beit og stendur yfir; var allgott veður um daginn og nokkurn veginn bjart. Um dagsetursbil rak hann féð úr haga, hýsir það, neytti af nesti sínu, því sem stúlkan gaf honum fyrr, og fór að sofa.

Hann vaknar snemma um morguninn. Þegar hann er klæddur kemur hann út og skoðar til veðurs; er þá vel bjart. Gengur hann upp á húsið sem hann var vanur og sér hvar kemur stór maður og sýnist honum að þessi var mestur þeirra; gekk þessi við stóran atgeirsstaf. Jón gerir sem fyrr, fer inn í húsið, lætur hurð falla að og ekkert á sér bera. Kemur þá dalbúi að húsdyrunum, tekur opið og kallar inn hvert nokkur sé þar, en Jón gegnir engu. Ætlar þá hinn að ganga inn og hafði stafinn fyrir sér. Jón gerir sem fyrr að hann grípur um stafinn og tekur á móti; finnur hann þá að þessi er sterkastur sem úti fyrir er og verður Jón að neyta allrar orku. Þó kemur þar um síðir að Jón kippir af honum stafnum, en dalbúinn tekur til fóta og flýr, en Jón á eftir honum með stafinn í hendi og eltir hann lengi áður hann nær honum. Ver þá dalbúinn sig karlmannlega; þó um síðir getur Jón unnið á honum og fær hlaðið honum. Jón tekur þennan sem hina og dysjar hann hjá húsinu eins og lagsbræður hans. Eftir það hleypir Jón fénu út, rekur það á beit og stendur hjá allt til kvelds. Þennan dag var veður hið bezta og bjartasta. Við dagsetur rekur hann féð heim að húsum og lætur inn sem hann var vanur, fer svo að sofa.

Um morguninn vaknar hann snemma, klæðir sig og kemur út; er þá nokkuð ídimmt veður, en hríð lítil. Jón gengur upp á fjárhúsið og sér hvar kvenmaður fer, og veit hann að hún muni vera sú sama sem hann hafði áður fundið. Gengur hann þá að húsdyrunum og stendur úti. Stúlkan kemur og kastar á hann kveðju og þó heldur þurrlega. Jón tekur vel kveðjunni. Hún spyr hann eftir bræðrum sínum og vinnumanni. Jón segir eins og þá var komið, að hann hafði drepið þá alla, því hann hafi haft hendur sínar að verja. Hún varð heldur stygg við þetta og kvað hann ills verðan fyrir að hafa drepið bræður sína, en um vinnumann hirti hún ekki. Hann segir að það hlaut svo búið að vera og biður hana af nýju að fylgja sér, en hún sagði að um það mundi fara sem fyrri að það kæmi honum fyrir ekki. Segir hún samt að hann mátti koma með sér um leið og hún reki féð í hagann. Láta þau nú út úr húsunum og reka féð á beit með lengra móti.

Nú yfirgefur hún féð og fylgir Jóni. Fer hún fyrir og hann á eftir og talast ekki orð við á leiðinni allt til þess hallar degi. Hafði hún þá fylgt honum lengra en hið fyrra sinn; dimmdi þá þegar að með hríð og var hann ráðinn til stórhríðar. Segist hún þá ekki lengra fara hvað sem um hann verði því hún þurfi að hverfa aftur til fjárins. Segir hún honum að ef dimmt verði þegar af hríð er hann komi þar sem steinninn var, þar sem hann var nótt áður fyrr, skuli hann setjast þar að.

Þau skilja og þakkar hann henni alla hjálp við sig. Fer hún heim á leið til sín, en hann áleiðis og gekk í skerpingi allt þar til hann kom að steininum. Var þá farið að dimma af nótt og hríðin hin mesta og treystist hann ekki til að fara lengra. Bjóst hann nú vel um aftur í snjóhúsinu, tekur upp mat sinn og snæðir og að því búnu ætlar hann að fara að sofa. Tók þá ekki betra við að allir þeir hinir dauðu sóttu að honum. Hafði hann engan frið né ró í snjóhúsi sínu, og strax um morguninn er hann sá að dagur var hafði hann sig til ferðar; var þá nokkuð bjart, en snjór kominn mikill svo hann átti bágt með að glöggva sig á hvert hann átti að halda. Þó hélt hann áfram þangað sem hann ætlaði að stefna skyldi í byggð sína, fór svo allan daginn þar til um kveldið í lítilli skímu að hann kom heim að sömu húsunum. Hann verður ráðalaus og veit ekki hvern hann skal upp taka. Þykir honum þó helzt ráð að bíða stúlku sinnar.

Litlu seinna sér hann hvar hún kemur með sauðahópinn. Þegar hún kemur að húsunum og sér hann heilsar hún á hann og spyr hvert hann sé þar kominn enn. Hann segir það vera og kvaðst ekki framar mundi halda heim á leið til sín því sér sé það með einhverju móti fyrirmunað og biður hana enn að hjálpa upp á sig og fylgja sér til bæjar. Hún kvað þess nokkra von nú framar en áður og biður hún hann að hýsa með sér kindurnar, og þegar að því búnu segir hún honum að koma með sér. Ganga þau bæði tímakorn og hún á undan þangað til hann sér reisuglegan bæ. Þar gengur hún heim með hann; hún gengur innar og leiðir hann með sér og í eitt hús; þar er dimmt inni. Hún setur hann þar á rúm og segir að hann verði að vera þarna þangað til hans verði vitjað. Stúlkan gengur svo í burtu og læsir eftir sér húsinu. Jón situr þarna eftir aleinn í myrkrinu og kann illa við sig enda var hann hálfhræddur fyrir karlinum.

Þegar hann hafði setið tímakorn heyrir hann að gengið er að húsdyrunum og lokið upp. Sér hann þá hvar aldraður kvenmaður kemur; var hún bæði há og gild, en ekki ljót að sjá, með ljós í annari hendi, en fat í hinni fullt með kjöt og brauð. Hún gengur inn í húsið þegjandi, setur fatið á borð sem var í húsinu nálægt rúminu er hann sat á og segir um leið: „Þú nýtur dóttur minnar, en ekki sona.“ Gekk hún svo burt með ljósið og læsti húsinu. Jón þorir ekki að eta matinn og hugsar að eitthvað megi vera í honum sem sér sé meinlegt. Situr hann nú tímakorn kyrr á rúmi sínu. Heyrir hann þá að gengið er hljótt að dyrunum, lokið upp húsinu og gengið inn og veit hann ekki fyrri til en að er þrifið til hans, annari hendi í brjóstið og hinni milli fóta, og hann keyrður á loft og færður svo flatur á gólfið og lagzt ofan á hann. Þykist Jón illa beygður er hann mátti engri vörn koma fyrir sig, og segir: „Hver sem þú ert þá dreptu mig strax, en kveldu mig ekki.“ Er honum þá anzað aftur með dimmri rödd: „Það áttu skilið að ég dræpi þig fyrir syni mína og vinnumann, en þú nýtur dóttur minnar að ég gef þér líf.“ Veit Jón þá að þetta muni karl vera. Karl segir þá að hann skuli standa upp og koma inn með sér og leiðir hann með sér inn í baðstofu. Þar logaði ljós fyrir og sá Jón um alla baðstofuna og leit þar tvo kvenmenn. Var önnur þeirra sú er fyrr færði honum kjötfatið, en hin var stúlkan hans. Ekki sá hann þar fleira manna. Báðar konurnar tóku honum þá blíðlega og setur karl hann nú á rúmið hjá dóttur sinni og er þegar hinn kátasti. Karl segir við Jón að hann yrði að vera hjá sér í vetur og standa yfir fé sínu í staðinn fyrir menn þá er hann hefði drepið; gæti hann ekki eftir minna mælzt í sonabætur. Segir hann að dóttir sín skuli þjóna honum og annast nauðsyn hans að öllu leyti, en matur sé honum heimill frá sér. Jón tekur þessu vel og þykir vænlega á horfast eftir sem komið var og þakkar karli fyrir. Þarna sat hann um veturinn í sóma og eftirlæti og var mesti blíðleiki milli hans og karlsdóttur. Leið nú veturinn allt til sumarmála og stóð Jón yfir fénu á hverjum degi og líkaði karli vel við hann og þótti hann vera nýtur drengur.

Þegar sumarið kom og snjó leysti og vegir bötnuðu fýsti Jón að halda heimleiðis. Þegar karl merkir það að í Jón væri komin heimfýsi segir hann einu sinni við hann að nú hafi hann þjónað sér í vetur með trú og dyggð, kallar hann með sér fram í hús eitt í bænum; þar gengur karl inn og Jón með honum. Tekur karl þar upp kistilkorn úr kistu, lýkur upp kistlinum og er hann fullur með peninga; síðan segir hann við Jón: „Kistil þenna vil ég gefa þér fyrir vinnu þína í vetur og ætla ég nú að segja þér að þegar þú villtist í vetur í hríðinni þá var það mér að kenna, því ég vissi hvert afbrigði þú varst ungra manna í sveitinni og því villti ég þig hingað og ætlaðist til að gefa þér dóttur mína því ég unni henni mest barna minna og svo til þess að hún fríaðist frá að eiga vinnumanninn – og vann það til að þú banaðir honum og báðum sonum mínum.“ Jón tók vel á öllu og kvaðst vilja eiga stúlkuna og þakkar karli fyrir peningana, en þó sér í lagi stúlkuna. „Nú skaltu,“ segir karl, „fara heim til foreldra þinna og vera þar í sumar og láta ekki á bera hvar þú hefur verið, en í seinasta sinni munum við nú sjást lifandi því ég á skammt ólifað, en dey rólegur er ég veit að dóttir mín fær góða giftingu, en þess vonast ég að þú vitjir hingað á hausti stúlkunnar og haf þá með þér líkkistu og flyt mig til mannabyggða dauðan og komdu mér í kristinna manna legstað.“

Nú býr Jón sig til heimferðar, kvaddi karl með mestu kærleikum og konu hans og dóttir. Segir ekki af ferðum hans fyrr en hann kom heim til foreldra sinna. Fögnuðu þau honum vel og þóttust hann hafa úr helju heimt. Ekki gat hann þess hvar hann hafði verið um veturinn, en vinnumann sagði hann hafa látizt af sér, en sjálfum sér hefði liðið vel. Fénaður hafði enginn tapazt um veturinn hjá honum. Hann var heima um sumarið, en um haustið lét hann smíða líkkistu, útvegaði sér sex hesta með reiðing, tvo með söðlum og þrjá menn til fylgdar, hélt svo í dalinn. Var þá karlinn dauður fyrir fáum dögum. Mæðgur tóku honum vel og förunautum hans. Bjó hann sem bezt mátti um lík karls og tók sig upp úr kotinu ásamt þeim mæðgum og öllu sem þar var nýtilegt og flutti heim til foreldra sinna. Lét hann jarða karlinn og fórst allt vel við útför hans, gekk síðan að eiga stúlkuna, reisti bú á Fjöllum og varð bezti bóndi.

  1. Fjármenn á Norðurlandi hafa oft litlar rekur og handhægar sem þeir ganga við í staðinn fyrir staf. Með þeim létta þeir fyrir fénu að krafsa þar sem þeir moka ofan af fyrir því. Í harðveðursbyljum bera þeir veðrið af andlitinu með rekunni og grafa sig í snjó með henni ef svo ber að að þeir komist ekki til byggða.