Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Jón bóndason og dalbúinn

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Ríkur bóndi bjó eitt sinn við Skagafjarðardali og átti margt fé; meðal annars fjár átti nann hundrað sauði gamla. Eftir veturnætur vantaði alla sauðina og fundust hvergi. Bóndi átti son sem hét Jón; hann var mesta karlmenni að kröftum og að því skapi glíminn. Bóndi biður son sinn að fara í sauðaleit því smalamaður var hættur. Góðan veðurdag fer Jón snemma morguns og leitar allan dag til kvölds; er hann þá kominn í daldrög og ásetur hann sér að liggja úti. Hann gengur eftir dalnum þar til hann finnur reykjarþef; gengur hann enn nokkuð þar til hann finnur kotbæ; þar ber hann að dyrum. Stúlka kemur til dyra. Hann heilsar henni. Hún tekur því. Biður hann skila við húsráðanda um næturgisting. Hún fer burt þegjandi, kemur litlu síðar og segir honum að ganga inn. Ganga þau inn og koma þar sem tveir pallar eru til beggja enda, en autt pláts á miðju gólfi. Karl og kona sátu á öðrum palli. Hann heilsar þeim. Þau taka því. Bóndi segir honum að setja sig upp á pallinn hjá stúlkunni. Hann gerir það. Að stund liðinni segir karl: „Seint koma synir mínir,“ en litlu þar eftir kemur inn maður og heilsar föður sínum. Hann tekur því. Fer þá stúlkan strax og sækir kjötfat og færir honum að borða. Ekki var Jóni neitt gefið. Þegar hann var búinn segir karlinn honum að taka fang við Jón. Þeir fara á gólfið og glíma og fellir Jón hinn strax. Kallar þá faðir hans og segir honum [að] hætta; hann hafi ekki við. Jón fer upp líka og segir stúlkan honum þessi bróður sinn sé minnstur bræðra sinna, en sá sem síðast muni koma sé mestur og þó yngstur. Litlu síðar kemur annar. Gekk allt til með hann sem þann fyrri. Að því búnu segir stúlkan honum að búast vel við og færa sig af nema nærklæðum og það gjörir Jón. Nú kom sá þriðji og var sá þreklegastur; borðar hann sem hinir og segir karlinn honum til Jóns. Þeir taka saman sterklega og gátu menn ekki séð hvur bera mundi hærri hlut. Loksins kemur Jón honum á annað kné. Kallar þá faðir hans: „Auðséð er enginn ykkar hefur við Jóni; er því bezt að hætta þessu.“ Jón fer upp á pallinn, en stúlkan sækir Jóni að borða og býr upp rúm handa honum. Varð hann feginn að hvílast því hann var orðinn þrekaður. Að morgni kemur karlinn, býður góðan dag og segir Jóni ekki leiti hann sauða í dag enda megi hann vera í dag og þækti sér gott ef hann vildi þæfa einskeftu, „því synir mínir vilja annað gera en þæfa“. Hann skipar dóttur sinni að vinda voðina og fylgja Jóni til fjóss til þófarahellu. Hún gjörir það. Þæfir Jón svo kerlingu líkar vel. Næsta dag var mesta frosthríð; fór allt á sömu leið að Jón þæfir aðra voð og líkar öllum vel. Þriðja daginn stóð sama veður. Biður karlinn hann enn að þæfa, en þá var ekkert til utan nærpilssmokkar sem stúlkan átti. Jón kvaðst mundi reyna til og þæfði hann þá svo stúlkunni líkar vel. Færði hún honum þá magál af sauð og bað hann borða, sagði það var af sauð sem hún hefði átt sjálf.

Fjórða daginn var komið gott veður. Býst þá Jón burt til að leita að sauðunum, en þegar hann fer á stað fylgir karl honum á leið og segir honum frá að hann sé gagnkunnigur í hans héraði. Spurði hann um marga menn sem vóru lifandi, en sumir dánir. Sagðist hann vera búinn að vera í dal þessum í nítján ár, segir hann muni fara til suðurróðra í vetur og biður hann koma við hjá sér þegar hann fari að sunnan. Vísar hann honum til að götustígur liggi þar til suðurs af veginum hjá hraunhólum háum; liggi hann „að tjörn þeirri sem gjörir upptök ár þeirrar sem rennur um dal þennan. Þessum götuslóðum áttu að halda unz lækurinn kemur í annað gil sem kemur frá vestri; þessum giljalækjum saman komnum áttu að halda unz þú kemur í dal þennan. Mælist ég nú til að þú komir hér við þá þú fer norður; mun ég þá segja þér frá kringumstæðum mínum. Er hér nú rétt undir hjallanum niður frá okkur; þar eru allir sauðir föður þíns; hefur sonur minn beitt þeim í hríðinni, en af mínum völdum hvurfu sauðirnir; vildi ég ná tali af þér því ég vissi ekki annan fræknari í byggðum en þig. Farðu nú vel og bregztu mér ekki að koma við hjá mér þegar þú fer norður.“ Þeir skilja nú þegar. Heldur Jón heim með sauðina og þykir öllum honum hafa vel farnazt. En ekki gat hann um mannfundinn. Fór hann um veturinn og reri suður og farnaðist vel.

Um vorið fer hann norður og fór að öllu sem ráðgert var. Varð honum auðfundið býli karls; gefur hann honum ýmsa hluti úr kaupstað. Varð karl glaður við. Segir hann honum frá að hann hafi flúið úr byggð vegna barneignar með konu þeirri sem hann sjái hér; þau hafi verið systkinabörn og hafi hann átt að missa lífið. „Gat ég komizt um nótt í burt með kelfda kvígu, hryssu og tvo hesta; var ég svo heppinn að gjörði svartaþoku í fjögur dægur nótt og dag; man ég enn þá hræðslu sem stúlkan hafði er við heyrðum tvívegis til manna sem voru að leita að okkur, en þó heppnaðist okkur að komast burt. Var ég lengi á flækingi um fjöll þar til ég fann þennan dal. Vóru í honum átta kindur og vóru marklausar. Þegar gras var orðið slægt fór ég að slá; hafði ég ljái og önnur áhöld til heyskapar, en það varð skammvinnt því ég gat ekki dengt fyr en árið eftir; þá gat ég það þó við móeld. Ég fékk bezta vetur, en ég var so heppinn að kvígan bar viku síðar en konan. Kindurnar allar lét ég lifa; voru þær ellefu um veturinn. Hryssan átti hestfolald, en allt gat gengið úti um veturinn nema kvígan; er það sá bezti sem ég hef fengið hér. Nú þykir mér þú launað hafa freklega dóttur minni greiðann; kann ég segja þér að hún er með barni þínu; þykir mér það ekki, þar ég ætlaði mér að gefa þér hana, en ég vona þér farist manndómlega. Eru nú mín ummæli að þú styrkir okkur að komast héðan. Vona ég þú komir hér í haust og vitir hvað í gjörist. Legg ég það ráð að þú takir stúlkuna að vori komanda og segir hana að austan.“ Skilja þeir nú talið; fer Jón leið sína til byggða og er hann það sumar hjá föður sínum, en að hausti fer hann til róðra sem fyrr og kemur hann við. Er honum þá vel fagnað. Hafði hann þá eignazt dóttur og var nefnd Dalmey. Um vorið kemur Jón og sækir stúlkuna og barnið. Fara þá allir bræðurnir með honum og eru í kaupavinnu um sumarið, en að hausti fara þeir og sækja þau hjónin og alla búslóð þeirra; giftist Jón um haustið. Einn bróðirinn eignaðist systir Jóns, en hinir fengu sér góð kvonföng. Vildu karl og kerling ei hjá öðrum vera en Jóni dótturmanni sínum og er nú þessi saga ekki lengri.