Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Jón bóndi og útilegumaðurinn

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Jón bóndi og útilegumaðurinn

Bóndi nokkur bjó eitt sinn á bæ norður í Skagafirði er Jón hét; fremur var hann fátækur og enginn búsýslumaður, en mikið hneigður til ferðalaga. Hann var kraftmaður mikill og ekki minni en tveggja maki til allrar karlmennsku. Það var eitt haust að hann var fenginn með bréf og sendingar suður í Reykjavík. Hann gengur suður fjöll og yfir Arnarvatnsheiði. Þegar hann kemur suður á miðja heiðina sér hann tvo menn á stóru vatni vera að veiða silung í vök. Með Jóni var rakki og rennur rakkinn á undan honum og til mannanna; grípur þá annar maðurinn hundinn og slær honum niður við stein og drapst hann þar. Nú grunar Jón hvað vera muni og á hverju hann sjálfur muni eiga von. Þegar hann á lítinn veg eftir til veiðimanna þá segir annar: „Eigum við ekki að slátra honum líka?“ „Það er sjálfsagt,“ segir hinn. Jón sér að annar maðurinn er gamall, en annar ungur. Hinn gamli maður tekur Jón fangbrögðum, en hinn hleypur aftan að honum. Jón hafði broddstaf með stórum broddi. Hann setur broddinn í brjóst hins gamla manns og inn úr brjóstinu svo að hann fellur dauður til jarðar. Þá snýr hann sér sem hraðast að hinum unga manni og glíma þeir lengi. Jón finnur að hann er karlmenni mikið, og er nú í óvissu um að hann muni koma honum niður. Þó verður það eftir langa glímu að Jón kemur honum í vökina og nú sezt hann hjá vökinni. Hann tekur eftir því að hann muni ekki dauður vera því hann sér öðru hvoru á höfuð hans í vökinni og hverfur jafnskjótt aftur. Hann grunar því að útilegumaður muni vera syndur og geta einhvern veginn haldið lífi sínu niðri í vatninu. Þegar Jón hefur setið þarna góðan tíma og kastað mæði stendur hann upp, tekur annan skóinn af hinum gamla manni og lætur hjá sér og fer síðan leiðar sinnar suður. Hann aflýkur erindi sínu og gengur síðan norður aftur og fer sama veg. Einskis verður hann var á leiðinni nema hann sér að líkami hins gamla manns er burtu frá vatninu á heiðinni. Hann gengur heim og getur um við engan mann hvað fyrir sig hafi borið.

Þess er getið að hið næsta vor fer Jón bóndi lestaferð suður, hefur með sér kaupstaðarvöru og ætlar að verzla fyrir sunnan. Hann kemur í Reykjavík og fer þar í vörubúð eina. Þar sér hann mann þann hinn unga er hann hafði glímt við á vatninu sem áður er getið. Hann sér að maður þessi er að taka út kaupstaðarvöru og hraðar sér og er þegar búinn. Jón mælti til hans: „Við sjáumst þá hérna núna, lagsmaður.“ Maðurinn jánkar því. Kaupstaðarmenn spyrja Jón hvort hann þekki mann þenna, en hann svarar því fáu, segist þó einhvern tíma hafa séð hann. Hinn ókunni maður biður Jón að finna sig afsíðis og það gjörir hann. Þá mælti hann: „Illa skildirðu við mig seinast þegar þú drapst föður minn, en skildir við mig dauðvona í vökinni, enda var þér vorkunn því þú áttir líf þitt að verja. En hefurðu sagt nokkrum frá viðskiptum okkar?“ Jón kvað nei við því. „Nú er það bón mín,“ mælti hinn ókunni maður, „að þú segir engum manni frá fundum okkar og gef ég þér nú átta spesíur og grjónatunnu þá sem þarna er til þess ég megi því fremur reiða mig á trúmennsku þína, og þar að auki verðurðu að koma á Arnarvatnsheiði í haust réttri viku fyrir vetur á sömu stöðvar sem við fundumst áður á og munum við þá hittast þar.“ „Mér er minna um að lofa því,“ mælti Jón, „því þú munt þá ætla að hefna föður þíns og drepa mig.“ „Ekki er það ætlun mín,“ mælti hinn ókunni maður, „en ég vil vara þig við því að komi ég ekki næsta dag við þann sem við nú ákveðum, þá þarftu ekki að bíða mín lengur.“ Jón lofar honum loksins að koma og nú skilja þeir. Fer nú Jón bóndi norður og heim. Eftir heimkomu Jóns bónda kemur kona hans eitt sinn að máli við hann og segir: „Það undrar mig, bóndi, hvað vara sú er mikil sem þú kemur með að sunnan; skil ég ekki hvað því veldur og vona ég að þú hafir ekki nú gjört það sem þú hefur ekki gjört fyrr, að auka vöru þína með óleyfilegu móti.“ „Öll er varan frjáls,“ mælti bóndi, „og þess vegna máttu skammta hana og borða með ánægju.“ Hættu þau svo tali þessu.

Nú líður sumarið og kemur fram á haust. Jón bóndi biður nú konu sína um nesti og nýja skó, kveðst hann ætla suður á fjall að taka hvannarætur. Hún ræður honum frá þeirri ferð, en það gagnar ekki, og fer hann af stað, hefur tvo hesta til reiðar og ríður suður á fjöll, kemur á hinn tiltekna stað á ákveðnum degi. Hann bíður þar allan daginn og alla nóttina og hinn næsta dag fram undir miðaftan. Þá sér hann að maður kemur ríðandi og hefur tvo hesta til reiðar og ríður mikinn. Hann þekkir þar útilegumanninn sem hann beið eftir og nú heilsast þeir. „Nú bið ég þig þeirrar bónar,“ mælti útilegumaður, „að koma með mér heim til mín.“ „Þá muntu láta drepa mig,“ segir Jón. „Það ætla ég ekki að láta gjöra,“ segir útilegumaður. Það talast svo til á millum þeirra að Jón fer með útilegumanni og ríða þeir nú austur fjöll. Þeir ríða alla nóttina og allan hinn næsta dag og um kvöldið koma þeir í dalverpi nokkurt; þar er bær og stíga þeir af baki við bæinn.

Útilegumaður leiðir Jón inn og í afvikið hús og fer síðan út og læsir. Að stundarkorni liðnu kemur inn til hans stúlka; hún ber honum mat og er vel á borð borið. Hún vísar honum á rúm að hátta í og tekur í hann. Hann tekur til sín sokkana þegar hún hafði tekið í hann. Þá mælti hún: „Þeir áttu að vera kyrrir;“ annað orð talaði hún ekki. Nú vakir hann fram eftir nóttunni, en sofnar þó og sefur þangað til albjart er orðið. Þá klæðir hann sig og síðan kemur stúlkan og færir honum bæði mat og vín, en jafnsnart fer hún út aftur og læsir. Nú líður löng stund og kemur enginn til hans. Þá gengur hann út og litast um. Síðan gengur hann inn aftur og litast um í bænum; hann finnur baðstofu; þar sitja þrír kvenmenn, stúlkan sem hafði borið honum matinn, fullorðin stúlka og gömul kona. Hann tekur eftir því að þegar hin gamla kona sér hann þá sortnar hún í andliti. Jón bóndi mælti þá: „Hér er þögult fólk, en þó svipmikið;“ en enginn svarar. Síðan kveður hann og gengur út. Hann gengur upp fyrir bæinn; þar heyrir hann högg mikil. Hann kemur þar að smiðju; þar eru þrír menn að reka járn; einn af þeim var sá maður sem hafði sótt hann á heiðina. Unglingsmaður rak járnið. Jón mælti til hans: „Linlega er rekið.“ Unglingsmaðurinn sendir á hann sleggjuna og mælti: „Láttu mig sjá þú gjörir það betur.“ Jón bóndi tekur sleggjuna á lofti og rekur járnið og þótti hinum þá þreklega á vera slegið. Ætlar þá hinn ungi maður að ráðast á Jón, en sá útilegumannanna sem Jón þekkti tók hann þá höndum og aftraði því, og varð svo að vera sem hann vildi. Hann tekur Jón bónda afsíðis og mælti til hans: „Nú muntu vilja fara að halda heim; gef ég þér nú að skilnaði áttatíu spesíur og þar að auki mun ég senda þér litla sendingu fyrir jólin. Munum við nú ekki sjást aftur og bið ég þig að muna mig um það að segja engum til okkar hér. Menn þessir sem þú hefur séð hér eru bræður mínir og þar að auki á ég hér móður og tvær systur. Nú læt ég yngra bróður minn fylgja þér og vildi ég að þú talaðir ekki við hann að fyrra bragði, en gegndir því sem hann yrðir á þig.“

Þeir kveðjast nú í vinsemd og þakkar Jón honum rausnarlega gjöf. Taka þeir nú ferð heimleiðis Jón og hinn ungi maður og er ekki af ferðum þeirra sagt fyrr en þeir komu á Arnarvatnsheiði. Hinn ungi maður mælti aldrei orð til Jóns meðan þeir voru á leiðinni, en í því þeir kvöddust mælti hann: „Ég vona þú reynist bróður mínum trúr í því sem hann bað þig, og þenna gráa hest sem ég ríð áttu að eiga.“ Jón þakkar honum gjöfina, heitir honum að segja engum frá þeim eða viðskiptum þeirra og nú skilja þeir. Ríður nú Jón heim. Er nú ekkert til frásagnar þangað til á Þorláksmessukvöld fyrir jól, þá stendur Jón bóndi einn yfir fé sínu í dalverpi nokkru langt frá bænum. Hann heyrir þá hóað fyrir ofan sig í fjallinu og sér hvar maður rekur fimm sauði á undan sér. Maður þessi veifar hattinum og snýr aftur upp á fjallið, en sauðirnir renna til Jóns bónda og er einn á undan með skúf. Jón tekur sauðinn og skoðar; finnur hann þá að í skúfnum er bréf frá útilegumanni, kunningja hans, og þess þar getið að hann gefi honum sauði þessa. Síðan er sauðunum slátrað og voru þeir frábærir að vænleik bæði á hold og mör. Eftir því tóku menn að búhagur Jóns bónda fór að réttast eftir það, en aldrei sagði hann frá sögu þessari meðan hann lifði. Svo er sagt að þegar Jón bóndi var dáinn þá fyndu menn söguna eftir hann og að blaðið sem hún var rituð á væri hjá skónum sem hann tók af útilegumanninum. Endar svo saga þessi.