Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Jón frá Geitaskarði (1)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
Jón frá Geitaksarði

Á Geitaskarði [bjó] fyrir eina tíð bóndi nokkur fremur fátækur; hann átti son þann er Jón hét; var hann allra manna hraustastur og glímnastur. Eitt haust fer Jón í Eyvindarstaðarétt eins og hann var vanur og sér hann þá í almenningnum sauð einn mórauðan, vaninhyrndan, og ber sá af öllum öðrum. Jón handleikur sauð þennan og lízt vel á, en í því heyrir hann að maður kveður á almenningsveggnum:

„Mórauður, með mikinn lagð,
mænir yfir sauðakrans;
hófur, netnál, biti, bragð
á báðum eyrum mark er hans.“

Maður þessi bað Jón hirða fyrir sig sauðinn og geyma þangað til hann vitjaði hans og hvarf eftir það á burt. Jón hafði sauðinn heim með sér og geymdi um veturinn, en um vorið hvarf Móri og allir sauðir bóndans með honum; dreymdi þá Jón um nóttina eftir að maður sá koma til hans er hann áður sá á réttarveggnum, og sagði hönum að sauðir hans væru komnir til föður síns og mundi [hann] þá ekki lausa láta nema hann sjálfur sækti þá, og væri honum það í hug þá skyldi hann að haustinu halda með gangnamönnum suður í Hvítárnes og halda svo þaðan í norður með jöklum, en ekki skyldi hann vera einsamall því allþungt mundi veitast. Síðan leið af sumarið og um haustið var Jóni eins og vant var skipað í undanleit og ríður hann þá tveimur dögum fyrr en vant var suður í Hvítárnes og skilur þar við samferðamenn sína og heldur einsamall norður með jöklum þangað til hann kemur að þrepskildi einum, og þegar hann er kominn yfir hann sér hann útilegumann standa yfir stórum lambahóp, og undireins og útilegumaður sér hann hleypur hann móti hönum og ræðst á hann. Líður ekki á löngu áður Jón kemur honum undir og ætlar að drepa hann; biður þá útilegumaður sér griða og lofar honum að reynast honum trúr í öllu. Lætur Jón hann þá upp standa og spyr hvaðan hann sé. Þessi segist sonur þess er tekið hefði sauði föður hans og biður Jón nú aftur hverfa því honum sé dauðinn vís ef hann komist í höndur föður sínum. Jón vildi þó ekki hætta við óreynt og heldur enn áfram þangað til hann hittir annan mann er sat yfir ám mörgum; þessi réðist líka á Jón, en svo fór að Jón átti ráð á lífi hans og leyfði honum þó upp að standa. Þetta var bróðir hins og réði hann honum á sama veg að snúa aftur. Ennþá heldur þó Jón áfram þangað til hann hittir þriðja bróðurinn sem geymdi sauðanna; það var sá sami sem hann haustið áður hafði séð á réttarveggnum. Þessi réðist og að honum, en það fann Jón að hann var þeirra langsterkastur, en jafnframt fann hann að þessi leifði af afli sínu og vildi ekki neyta sín, og loksins féll hann, fremur af því að hann datt sjálfur en að Jón felldi hann. Útilegumaður bað hann þá griða og var það auðfengið; sagði hann að hann af látalátum hefði orðið að glíma við hann eftir vilja föður síns þar hann vildi Jón feigan, „og muntu nú,“ segir hann, „fá við ofurefli þitt að eiga ef þú ferð heim á bæinn því faðir minn er svo sterkur að við þrír stöndumst honum ekki. En taka skaltu sax mitt til merkis um það að þú hafir unnið mig, en komistu í nauðir mun ég reyna til að hjálpa þér.“

Síðan ríður Jón heim að bænum og ber að dyrum; kemur þá stúlka til dyranna, og spyr Jón eftir húsbóndanum. Hún gengur inn aftur og litlu síðar kemur karlinn út og hefur reidda exi um öxl sér, en þegar hann sér Jón með sax sonar síns verður hann afar reiður, kastar exinni og hleypur að Jóni. Jón kastar þá og saxinu og tekur á móti; karlinn gekk að með afli miklu, en Jón hugsaði ekki um annað en verjast, en karl kom honum ekki af fótunum; varð þá karlinn því æfari og hamaðist, en vegna ellinnar tók hann fljótt að mæðast og að lokunum gat Jón brugðið honum svo hann féll; bað þá karlinn hann að ráða sig sem fljótast af dögum þar sig fýsti nú ekki að lifa. Jón kvaðst vilja gefa honum líf, vildi hann sér trúr reynast. Karl kvaðst ekki mundi framar sitja um líf hans, en sagði að sér mundi nú lítið betra líf en hel. Lét Jón hann þá upp standa og bauð karl hönum í bæinn og segir honum síðan frá vandræðum sínum, að þangað hafi komið tveir galdramenn fyrir nokkrum árum og verið hjá sér kaupamenn á sumrin, sem beðið hafi eldri dóttur sinnar, en af því hann hafi synjað þeim hennar hafi þeir gjört henni gjörninga svo nú sé hún vitstola, og svo hafi þeir verið fjölkunnugir að þeir hafi látið amboðin vinna, en sjálfir setið inn á palli. Þeim hefði verið mjög illa til Jóns á Geitaskarði og staðið af honum einhver geigur og því hefðu þeir sett það upp í kaup að karl fyrirkæmi honum, en það væri nú svo komið að hann hefði átt ráð á lífi þeirra. Jón kvað bezt mundi að bíða og sjá hverju fram vindi. Dvaldist hann nú þar um veturinn og drógust saman hugir hans og yngri bóndadóttur svo hann mátti ekki af henni sjá.

Sumarið eftir komu galdramennirnir og var þá Jóni leynt, en með kænsku sinni fékk hann um sumarið náð frá þeim galdraskruddum þeirra; en er þeir urðu þess varir varð annar þeirra svo reiður að hann rak vitskertu stúlkuna í gegn, þá er hann áður hafði viljað eiga, og síðan stallbróður sinn í einhvers konar fáti, en í því kom Jón að. Og er galdramaðurinn sá hann þekkti hann hann og segir: „Þar ert þú kominn, Jón frá Geitaskarði; mæli ég um og legg ég á að þú aldrei héðan af festir yndi í sveit fyrr en þú ert áttræður orðinn ef þú annars verður svo gamall.“ En þegar hann hafði þetta mælt hjó Jón af honum höfuðið.

Haustið eftir gekk Jón að eiga karlsdóttur og féll vel á með þeim. En vorið eftir fýstist hann að vitja norður og vitja um foreldra sína. Reið hann þá norður Kjöl og Kúluheiði og kom ofan í Langadal og ríður heim að Skarði. Spyr hann þá heimafólk hver þar búi; segir það honum að það sé ekkja; ræður hann af því að faðir sinn muni dauður. Gerir hann þá boð fyrir ekkjuna og kemur hún fram í bæjardyrnar, en þekkir hann eigi. Hún býður honum inn, en hann finnur að honum er nú svo brugðið að hann getur ekki inn gengið. Fer hann þá ofan í tösku sína og fær henni bréf og stóra peningapyngju og segir: „Þannig mundi Jón frá Geitaskarði hafa viljað kveðja móður sína,“ – kveður hana síðan og ríður á burt. Í bréfi þessu var saga Jóns og það með að hann mundi ekki framar vitja í sveitir, og í pyngjunni voru peningar svo miklir að móður hans skorti eigi til dauðadægurs.