Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Jón frá Geitaskarði (2)

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Maður hét Jón sem var upp alinn á Geitisskarði og sonur bónda þar; ekki er getið um nafn hans.[1] Húsfreyja sem var móðir Jóns hét Helga og stóð bú þeirra hjóna með miklum blóma. Sonur bónda var snemma fríður sýnum, mikill og sterkur og hinn mesti atgjörvismaður svo hvergi fannst hans jafningi.

Líða svo fram tímar þar til hann var átján vetra. Í þann tíma voru hnefaleikar og glímur, skollaleikur, risaleikur og knappleikur mjög tíðir með mönnum. Reyndu margir við Jón og var hann þeim öllum meiri. Var enginn sá leikur að nokkur þyrfti við hann að reyna eður jafnaðist við hann, sérdeilis í glímum og hnefaleik. Fór hann á hverju hausti í fjárleitir með öðrum ungum mönnum fram á Eyvindarstaðaheiði. Leituðu menn fjárins viku fulla á haustum og þá voru leikar og glímur alltíðar með þeim yngri mönnum.

Á einu hausti fóru menn í fjárleitir eins og vant var og Jón frá Geitisskarði með þeim. Er ekki getið um ferðir þeirra fyrri en þeir ráku féð ofan hjá vörðu þeirri er Kurbrandur heitir; og er menn litu yfir féð sáu þeir ókunnugan sauð mórauðan, ómarkaðan í mikilli ullu. Meiri var hann og stærri en aðrir sauðir. Undraði menn þetta mjög, en ráku þó til rétta með öðru fé. Og er þeir komu ofan í Fossadal sáu þeir að maður kom framan að gangandi. Fór hann líka til réttar, en þó kippkorn frá þeim svo hann talaði ekki við aðra menn. Var þessi maður unglegur, hár og herðamikill og að öllu hinn harðmannlegasti. Var nú féð rekið norður á Lækjarhlíð sem er skammt fyrir sunnan réttina. Tóku menn þá hvíld nokkra og æja hrossum sínum og fé; settust síðan niður til að borða og hinn ókunni maður skammt frá þeim. Hélt hann á belg nokkrum sem hann leysti til og var það malur hans. Tók hann þá til snæðings. Varð nú margtalað um mann þennan; var sumum forvitni á að reyna þrótt hans. Töluðu menn við Jón að bezt mundi að bjóða hönum til glímu; voru menn þess þó ófúsir vegna vaxtar hans og vænleika. Eftir það ráðið gengur Jón til komumanns og kveður hann. Hinn tekur því, þó nokkuð stutt. Spurði Jón hann að nafni, en [hann] kveðst Guðmundur heita. Spyr Jón hvaðan hann hafi komið, en hinn kveðst vera framan að. Jón býður hönum til glímu, en hinn vill það ei. Komu þá fleiri og vildu tala við hann, en hann svaraði fáu. Vildi þá Jón láta hann glíma, en komumaður neitaði því þverlega. En er það tjáði ekki tók Jón í fætur hans og dró hann á fótunum ofan á jafnsléttu. Komumaður stendur upp reiður mjög og mælti: „Að hausti skal ég glíma við þig eftir réttirnar, en nú ekki.“ Tekur hann þá malsekk sinn [og] bindur, hleypur síðan að mórauða sauðnum, lyftir hönum á herðar sér og hleypur í burt með hann til heiðar upp og hverfur síðan, en þeir ráku féð til réttar og heimtist vel. Líða svo fram tímar þar til haustið eftir að farið er í göngur og var ekki til tíðinda. Heimtu flestir og vel nema bóndann frá Geitisskarði var vant sextíu geldinga; var þeirra víða leitað um haustið, en forgefins og spurðist ekki til þeirra. Leið mjög á haustið.

Einn dag kemur Jón að máli við föður sinn og bað hann fá sér tvo hesta aljárnaða með stálsköflum og íshöggum framan í skeifunum; – „þykir mér,“ segir hann, „mjög illt að finna hvergi geldinga þína; er líklegast að útileguþjófar hafi stolið þeim. Vil ég fá til leitarinnar með mér tvo menn duglega og hafi hvör þeirra tvo hesta skaflajárnaða sem ekki ver útbúnir séu en mínir hestar. Vil ég að hvör okkar fyrir sig hafi nesti sem vel endist í hálfan mánuð og líka séu allir vel búnir að klæðum og skóm.“ Fór svo það fram. Latti bóndi ferðarinnar, en Jón kvaðst fara mundi. Fékk hann menn með sér tvo af næstu bæjum. Fóru þeir síðan eftir leitarmannaveg fram Eyvindarstaðaheiði. Er ekki getið ferða þeirra fyrri en þeir koma í fremstu grös og æja þar hestum sínum, reisa síðan tjald sitt og eru þar um nóttina. Morguninn eftir var bjart veður. Sagðist Jón þá vilja fara og kanna nokkurn part af Hofsjökli. Tóku þeir þá hesta sína og riðu upp að jöklinum og suður með hönum að vestan og suður Blánípuver með Blákvísl og Jökulfallinu upp í suðurkrók jökulsins og þaðan á jökulinn. En er þeir komu á jökulinn dimmdi mjög af þoku þegar á daginn leið svo allir villtust. Fór svo fram um hríð. Vissu þeir ekki hvar þeir fóru. Nú líður að kveldi og koma þeir loks á eina dalsbrún og komust þeir ekki ofan í dalinn fyrir ísbröttum. Fóru þeir með brúninni þar til þeir komust fyrir enda dalsins. Finna þeir þá lítið einstig. Reyna þeir þar að komast ofan í dalsbotninn og tekst þeim það vel. Verða þá fyrir þeim fagrar eyrar. Rennur lækur eftir dalnum í suður. Fara þeir með læknum og dimmir þá mjög af nótt. En er þeir komu lengra ofan með læknum verður fyrir þeim hóll einn. Fóru þeir spölkorn suður og ofan fyrir hólinn og þar ofan með læknum og spretta af hestum sínum og tjalda á einnri grænnri flöt og eru þar um nóttina og sofa í góðum náðum. Um morguninn eru þeir snemma á fótum. Var þoka mjög svört og treystust þeir ekki burt að fara. Eru þeir þar þennan dag um kyrrt. En þegar á daginn líður heyra þeir að hóað er í hlíðunum með dimmri röddu og eftir það sjá þeir fjárhóp mikinn. Þekkir Jón þar sauði föður síns og vill nú taka þá. En er þeir verða varir við manninn hlaupa þeir burt svo snöggt að þeir ekki gátu fengið fang á þeim, út í þokuna, og vita þeir ekki hvað af þeim verður. Eru þeir nú þennan dag um kyrrt og nóttina eftir. Að morgni komanda eru þeir snemma á fótum. Var þá enn niðmyrkursþoka og voru þeir um kyrrt þennan dag. En þegar á leið dag sjá þeir að fer hjá tjaldinu fjárhópur mikill. Kennir Jón þar sauði föður síns. Vill hann nú taka þá, en fór á sömu leið og fyrra daginn. Eftir það heyra þeir að hóað er upp í hlíðinni með dimmri röddu. Líður svo þessi dagur. Morguninn eftir er þoka engu bjartari en fyrirfarandi daga; eru þeir um kyrrt. Þennan dag fer að öllu eins og fyrri dagana og ekki geta þeir náð sauðunum frá Geitisskarði. Hafa þeir nú verið þrjá daga þar um kyrrt og engu áorkað. Fjórða morguninn segir Jón við menn sína: „Nú vil ég þið haldið heim með hesta ykkar og útbúning, en ég vil vera hér eftir með hesta mína, hund og tjald. En ef þið hittið sama veg til baka skulu þið halda slóðunum og freista með því að komast sama veg ofan úr jöklinum og þaðan til byggða. Samt skuluð þið bíða mín í Blánípuveri sex daga; en verði ég þá ekki kominn þangað að þeim tíma liðnum megið þið heim fara.“ Þeim þótti nú allmikið fyrir að skilja við hann, en þó varð svo að vera. Tóku þeir hesta sína og bjuggu sig til heimferðar. Skildu þeir síðan með vináttu. Er ekki sagt frá ferðum þeirra fyr en þeir komu ofan úr jöklinum og tjölduðu; var þá dimmt af nótt.

Nú víkur sögunni til Jóns að hann er þennan dag um kyrrt. Þegar á líður dag sér hann til sauðanna og annara fjárhópa eins og fyr, en fær þá ekki höndlað. Líður svo þessi dagur og verður ekki meira til tíðinda. Morguninn eftir var sama veður og þoka mikil. Er Jón þá snemma á fótum og tekur nú hesta sína, leggur á þá og ætlar nú að reyna að komast úr jöklinum til byggða. En er hann hafði bundið tjaldið og var ferðbúinn sér hann hvar maður gengur frá hólnum, mikill og rösklegur. Kennir hann þar Guðmund sem haustið áður lofaði hönum að glíma við hann og átti mórauða sauðinn. Gengur hann á veg fyrir Jón og kveður hann. Jón tekur vel kveðju hans. Þá mælti Guðmundur: „Nú er ég kominn til að glíma við þig eins og ég lofaði í fyrrahaust.“ Jón kvaðst það gjarnan vilja. Ganga þeir þá saman og tókust fangbrögð mjög harðfeng. Fann Jón það skjótt að Guðmundur var afburðamaður til glímu og krafta; sækir hann að í ákafa, en Jón varði sig hreystilega. Gekk svo lengi; var ósýnt um hvör sigra mundi. Varð Guðmundur nú móður mjög, en Jón varðist föllum. Þegar minnst varði bregður hann Guðmundi til sniðglímu og tók nú að sækja ramlega. Hnykkjast þeir nú fast og fellur Guðmundur af mæði. Jón lætur kné fylgja kviði; mælti hann þá: „Þú ert maður mikill og vænn eður hvörsu gamall ertu?“ „Átján vetra,“ segir Guðmundur. Jón mælti: „Veiztu hvað orðið hefur af sauðunum frá Geitisskarði?“ Guðmundur svarar: „Ekki þræti ég fyrir að ég hafi valdið hvarfi þeirra því ég vildi koma þér hingað og glíma við þig. Nú er ég kominn á þitt vald og átt þú kostum að ráða.“ Jón mælti: „Þá vil ég nú gefa þér líf og láta þig upp standa, þó með þeim skilmála að [þú] sért mér trúr og liðsinnandi í öllu sem þú orkað fær.“ Þessu játar Guðmundur. Lætur Jón hann þá upp standa. Setjast þeir þá niður og taka tal með sér. Spyr Jón ef hann geti fengið sér Skarðssauðina. Hinn kvað já við, – „og eru þeir mjög ólmir og óþekkir og sækja ákaft á jökulinn. Nú vil ég fá þér sauðina og fylgja þér héðan; en ég vil þú farir nú þegar, því ei mun gott að vera hér lengi.“ Jón mælti: „Hvað er fleira fólks hér í þessum dal?“ Hann kvað bræður sína vera hér tvo skammt í burt yfir fé og foreldra sína og systir í einu koti. „Eru þeir sterkir?“ segir Jón. Hinn játaði það, – „er ég þeirra yngstur og minnstur fyrir mér.“ Jón mælti: „Aldrei skal það spyrjast þar ég hefi menn fundið að ég fari héðan sem þjófur, og vil ég finna bróður þinn sem er þér næstur.“ Guðmundur latti þess – „því ég vil ekki þú sért drepinn fyrir augum mér.“ „Mitt er ekki óvænnra en hans,“ segir Jón, „og skal ég nú víst finna hann.“ Gekk þá Guðmundur með hönum þar til hann segir: „Nú fer ég ekki að sinni lengra og er hann hér skammt í burt.“ Gengur Jón þangað eftir tilvísan Guðmundar og sér mann heldur stórvaxinn. Finnast þeir á hól einum og verður fátt um kveðjur. Gangast þeir þá að og glíma mjög sterklega. Er þá Jóni fall búið þar fjallabúinn hóf Jón upp á bringu, en hann neytir nú mýktar og glímir með mikillri list og kemur fjallbúinn hönum ei af fótunum. Áttu þeir harðan og langan aðgang; tók þá fjallbúinn að mæðast og blása. Þá mælti Jón: „Fastara máttu að sækja ef þú vilt hefna bróður þíns.“ Við þessi orð ærðist fjallbúinn enn meir. Sviptust þeir þá mjög fast svo þeir rifu upp jörðina með fótum og lausamold. Var þá fjallbúinn yfirkominn af mæði svo hann tók að froðufella og við það linaði sóknin. Jón var þá móður mjög. Sækir hann þó af öllu afli og færðist undir fjallbúann, hóf hann á loft og rak hann niður mikið fall og var þá fjallbúinn nær í óviti af mæði. Lágu þeir svo kyrrir nokkra stund. Kemur þá Guðmundur og biður um líf bróðir síns. Jón kvað svo vera skyldi, samt með því móti hann væri sér trúr og þénustuviljugur. Fjallbúinn játaði því. Lætur Jón hann þá upp standa. Báðu þeir bræður nú Jón að fara úr dalnum, en hann neitaði því, – „vil ég finna bróðir ykkar og vita hvör meira má.“ Löttu þeir hann báðir, en það tjáði ekki. Síðan vísuðu þeir hönum þangað. En er þeir fundust verður fátt um kveðjur. Ræður fjallbúinn þegar á Jón með öskrandi grimmd; sviptust þeir fast. Finnur Jón það skjótt að hann muni verða aflvana fyrir fjallbúanum. Verða nú sviptingar harðar; glíma þeir mjög lengi. Hóf fjallbúinn Jón á loft og hélt hönum upp á bringspölum. Samt kom hann ekki Jóni af fótunum því hann var mjög liðugur og neytti listar sinnar. Varð aðgangur þeirra bæði harður og langur þar til fjallbúinn varð móður mjög. Þá mælti Jón: „Betur þarftu að berjast ef þú vilt hefna bræðra þinna.“ Við orð þessi ærðist fjallbúinn og sótti að í mikillri ákefð svo Jón fékk valla varizt föllum með því bann var móður mjög. Tók þá fjallbúinn að froðufella og sótti af hinu mesta ofurkappi. Þóttist Jón ekki fyr hafa fengizt við slíkan ófagnað og lá hönum við föllum. Kreistist þá hold hans í þrymla og blánaði, þar fjallbúinn sótti að hönum með svo miklum æðigangi að hann var engum mennskum manni líkur. Sá nú Jón að ekki mátti lengur svo búið standa og neytir nú allra bragða sinna og verst af öllu megni. Verður hann þá svo laus að hann setur á fjallbúann mjaðmarhnykk svo hann fellur mikið fall aftur á bak og lá þegar í óviti, því hann var að sprengi kominn. En er stund leið komu bræður hans og báðu Jón hönum líf gefa. Játaði hann því. Stóð hann þá upp og var mjög stirður af viðureign þeirra. En er fjallbúinn vitkaðist stóð hann upp og þakkaði Jóni lífgjöf. „Vil ég nú að þú farir burt úr dal þessum,“ segir hann. „Skulum við bræður fá þér meira fé til þess en sauði þína.“ Þessu neitar Jón og kvaðst vilja finna föður þeirra og spyr þá að hvört hann muni sterkur vera, en þeir kváðu hann bæði sterkan og trylldan; mundi hann vera víst sterkari en tveir af þeim. Bað hann þá nú vísa sér leið að bæ þeirra. Þeir kváðu svo vera skyldi; sögðu til bóta að karl væri seinn á fæti því hann væri gamall mjög. Báðu þeir hann að fara með læknum þar til fyrir hönum yrði leirtjörn; þar skammt frá tjörninni væri kotið. Vöruðu þeir hann mest við að láta kallinn ná sér, þar enginn mennskur maður mætti standast hans átök. Fer nú Jón eftir því sem hönum var fyrir lagt þar til hann sér tjörnina; var hún að mestu þur orðin. Sér hann þá kothreysi nokkurt skammt frá tjörninni og gengur þangað. Karl stendur úti. Hrísköstur var á hlaðinu og kofi þar úti sem hann áleit að væri geymslukofi. Hjá kallinum var úti kerling hans mjög ófrýnileg og dóttir. En er karlinn sér Jón hleypur hann inn og sækir atgeir sinn og kemur að vörmu spori með hann út aftur og rennur á móti Jóni og biður hann bíða sín; var hann bæði mikill og grimmlegur. En stúlkan dóttir karlsins fór út í kofa. Ekki treystist Jón að bíða og hörfaði undan ofan að tjörninni. Elti karlinn hann þar til hann varð móður mjög og biður hann að bíða. Ekki fór Jón harðara en að karlinn hafði von um að ná hönum og hjó til hans með atgeirnum. Hleypur Jón þá út í tjörnina. Þá mælti Jón: „Harðara máttu hlaupa ef þú vilt hefna sona þinna því ég hefi orðið þeim öllum að bana.“ Við þetta eiskrar kall mjög grimmlega og manar Jón að bíða ef hann þori; tekur þó mjög að mæðast. En er þeir koma út í tjörnina sökkur karlinn ofan í leirinn til hnjánna og verður nú þungt um göngu; en Jón var léttari og liðugri í snúningum; sökk hann ei dýpra en liðugt í ökla. Verður nú karlinn svo móður að hann froðufellir og dregur úr hönum. En er minnst varir hleypur Jón undir hann sem fastast. Var þá karl svo móður að hann missti atgeirinn og féll á bak aftur máttvana og Jón lætur kné fylgja kviði; treður hann karl ofan í leirinn og vatnið sem fastast hann getur og setur leirinn utan um hann þar kallinn má sig hvörgi hræra fyrir mæði. Þegar karl er þannig kominn og hann sér [sér] ekki muni verða sigurs auðið bað hann Jón að drepa sig sem fljótast. Jón neitaði því og kvað hönum það of gott; mundi hann kvelja hann mikið áður, en karl vill það með engum móti. Nú komu bræðurnir þrír á tjarnarbakkann og standa þar meðan þeir eigast við. En er karl sér syni sína mælti hann: „Drengir, sjái þið ekki hvörnin ég er kominn? Ef hann hefur ekki fundið ykkur vona ég þið hjálpið mér.“ Sá elzti og mesti svaraði: „Við höfum allir þegið líf okkar af hönum.“ Karl blæs þá mæðilega og mælti: „Nú vil ég þiggja líf ef kostur er á fyrst synir mínir eru lifandi.“ Jón mælti: „Á það verður nú að hætta, þó með því skilorði að þið ekki svíkið mig og ráðizt á mig þá þú ert laus.“ Karl mælti: „Aldrei hefi ég gengið á grið mín. Þarftu ekki að ætla mér þann ódrengskap.“ Nú lætur Jón karl upp standa. Var hann þá svo móður og hrumur að þeir studdu hann úr tjörninni. Nú býður karl Jóni heim, og var þá komið kvöld, og það þiggur hann. En er heim kemur leiðir karl hann inn og nú sér hann hvergi stúlkuna. Spyr kall þá eftir dóttir sinni, en kerling kveður hana vera út í kofa og vera að gráta þar, því hún vilji ekki láta drepa mann. Karl sendir eftir henni, en hún trúir ekki Jón sé lifandi og kemur ekki þar til Jón fer sjálfur og sækir stúlkuna. Verður hann þar um nóttina í góðu yfirlæti. Var hann víða blár og þrútinn og mjög stirður af aðgangi þeirra. Dvaldi hann þar viku fulla og féll vel á með hönum og bóndadóttir. Ekki er getið um fleira fólk á heimilinu eður fleiri manna þar í dalnum. Þegar hann var heilbrigður orðinn býr hann sig til burtferðar, en er hann var albúinn fer hann á stað snemma morguns; fylgir fólk hönum á veg. En að skilnaði mælti bóndi: „Nú læt ég þig fara með geldingana frá Geitisskarði og fær þú Guðmund, yngsta son minn, til fylgdar. Muntu komast vel heim og vera þar í vetur. Ekki muntu segja hvar þú hefur verið því þú munt sjálfur aftur koma þegar vorar og eignast dóttir mína. Ann ég þér hennar bezt að njóta og far nú heill og vel, Jón minn.“ Eftir það skilja þeir með hinni mestu blíðu. Guðmundur fylgir Jóni norður úr jöklinum og ofan í fremstu grös. Voru þá samferðarmenn hans komnir heim og kváðu Jón mundi dauður eður kominn í tröllahendur. Þótti öllum það hinn mesti skaði sem von var, – ekki sízt foreldrum hans.

Nú segir ekki af ferðum Jóns fyrri en hann kemur ofan í Svartárdal og áir í Lækjarhlíð. Settust þeir niður og tóku til matar; skildu síðan með vináttu. Segir ekki af ferðum Jóns fyrri en hann kemur heim og urðu menn hönum fegnir, einkum foreldrar hans, og þóttust hann úr helju heimt hafa. Var hann þar um veturinn mjög fálátur. En um vorið tók hann tvo hesta járnaða og ríður fram dal og vissi enginn hvað hann fór. Ekki vildi hann segja nokkrum manni frá ferðum sínum. Kom Jón ekki aftur og hvörgi hefur til hans spurzt síðan. Liðu svo fjórtán ár; var víða leitað, spurt og skrifað. Deyr nú bóndinn faðir hans og móðir hans verður ekkja, en býr þó búi sínu. Að þessum fjórtán árum liðnum var barið á Skarði. Griðka gekk til dyra og sér hvar úti stendur maður mikill og ógurlegur. Engan hafði hún slíkan séð fyrir vaxtar sakir. Heilsar hann henni og kvaðst vilja finna Helgu, ekkjuna. Griðkona gekk inn og sagði húsfreyju. Hún tekur menn með sér og gengur fram í dyrnar. Maðurinn heilsar henni og biður að finna sig út á hlaðið, en hún tekur kveðju hans, en vill hitt með engum móti. Eigast þau við um þetta um stund. En er hann sér að hann muni ekki fá hana út þá tekur hann stóran belg sem hann hafði undir hendi sinni og kastar til húsfreyju inn í dyrnar og mælti: „Hafðu þetta, Helga, fyrir uppfóstrið á mér.“ Síðan stökkur hann á hest sinn, kastar kveðju sinni til hennar og fólksins og ríður í burtu skjótt og hefur ekki síðan til hans spurzt. Hún tekur belginn, leysir til og finnur í hönum bréf og mikið af peningum svo hún fékk valla borið. Les hún síðan bréfið hvörs innihald var að Jón sonur hennar væri kominn í þennan dal og giftur þessari stúlku, byggi búi sínu og annar eldri bróðirinn á móti hönum og Jón væri búinn að eignast þrjú börn með konu sinni, en karl var þá dauður. „Líður mér að öllu vel,“ segir hann, „svo ég óska ekki eftir meiri vellíðan.“ Var á bréfinu ferðasagan öll og því er hún á loft komin. Kvaðst hann hafa ætlað að ná henni og flytja hana heim til sín ef hún hefði út komið, en nú mundu þau aldrei meir aftur sjást. Hirti hún svo peningana og bréfið og bjó búi sínu til ellidaga á Geitisskarði.

Og lúkum vér svo þessari sögu.


  1. Sumir hafa heyrt hann nefndan Jón. J. G. [Hdr.]