Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Jón og Nikulás (1)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Jón og Nikulás

Jón hét maður sem nú er nýdáinn; hann bjó síðast í Bræðratungu í Biskupstungum í Árnessýslu og var bæði vel metinn og áreiðanlegur. Hann bjó áður i Þjórsárholti í Eystrahrepp og var vanur að fara inn á afrétti á sumrin með öðrum manni sem hét Nikulás til að drepa álftir og grafa hvannarætur. Einu sinni voru þeir burtu fullar þrjár vikur og komu þá heim illa útleiknir með hestana dauðmóða og staðuppgefna, Jón með stórt sár á herðarblaðinu og Nikulás enn sárari og alblóðugur og gott ef sú ferð dró hann ekki til dauða; en Jón varð læknaður og lifði þangað til 1860 að ég ætla. Hvorugur þeirra félaga vildi neitt segja frá því sem fyrir þá hafði snúizt þó bæði prestur Jóns séra Björn Jónsson og dr. Hjaltalín gengju á hann um það. Þó sagði Jón presti svo mikið að víst mundu útilegumenn vera til í dölunum hjá Köldukvísl og bar ekki á móti því að hann hefði einhvern tíma séð þá. Dr. Hjaltalín sagði hann ekki aðeins hið sama og presti, að útilegumenn væru til, heldur bauðst hann til að sýna honum þá ef hann væri ekki með fleiri með sér en þriðja mann og hundinn sinn og vildi hlýða sér í öllu. Menn þóttust fulltrúa um það að Jón og Nikulás hefðu komizt í klærnar á útilegumönnum og orðið að lofa þeim launung.

Það var fyrir þrettán eða fjórtán árum að menn voru í fjárleitum annaðhvort á Holtamanna- eða Landmannaafrétt; þar var með einum flokki leitarmanna unglingspiltur frá Guttormshaga í Holtum. Þegar leitarmennirnir byrjuðu gönguna um morguninn fólu þeir piltinum að fylgja hestum þeirra um daginn og fara með þá í tiltekinn stað. Þegar hann var nýskilinn við þá mætti honum maður; hann var í mórauðri prjónúlpu og gekk við atgeirsstaf með stórum fjaðrabroddi. Piltinum stóð geigur af manni þessum enda lét hann ófriðlega og sagðist mundi drepa hann ef hann hefði tíma til þess og hann óttaðist ekki hina leitarmennina að því. Fleygði hann piltinum af baki og hvarf síðan, en pilturinn varð dauðhræddur og ekki mönnum sinnandi lengi á eftir.

Það er haft eftir sýslumanni Kristjáni Kristjánssyni að Runólfur á Maríubakka í Fljótshverfi í Skaftafellssýslu hafi einu sinni séð sex menn í flokki inni hjá Fiskivötnum og var það auðséð að þeir gátu ekki verið byggðamenn; hann rakti og förin eftir þá og lágu þau upp til fjalla, en ekki fram til byggða.