Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Jón og Nikulás (2)
Jón og Nikulás
Af því svo margar útilegumannasögur hafa spunnizt út af álfta- og grasaferðum þeirra Nikulásar bónda Pálssonar á Minnahofi og Jóns bónda Ólafssonar á Þjórsárholti († 1856 eða 7) þykir tilhlýðilegt að geta þeirra hér. Þeir fóru árlega báðir saman á grasa- og álftafjall og var sjaldan að aðrir færi með þeim. Oftast fóru þeir upp úr byggðinni um nótt og eins komu þeir oftast heim um nótt og vissu menn ekki hvað þeir höfðu meðferðis til né frá. Af þessu héldu menn að þeir hefði mök við útilegumenn og það vissu menn að þeir flökkuðu víða í ferðum sínum og voru allra manna kunnugastir í óbyggðum, en aldrei sögðu þeir frá ferðum sinum. Í sinni seinustu ferð voru þeir miklu lengur en þeir voru vanir og var haldinn fundur og fengnir menn að leita þeirra, en næstu nótt eftir komu þeir og var mál manna þeir hefðu þá haft lítið meðferðis sem óvenja var. Og þá lagðist Nikulás strax og lá um hríð eftir og þótti aldrei verða samur að heilsu. Jón gekk ekki heldur að vinnu hina næstu viku og þótti það undarlegt, því Jón var áhuga- og atorkumaður. Er og sagt hann hafi ekki farið af nærfötunum þann tíma, og þegar einhvur kunningi hans kom þar einu sinni er sagt Jón hafi rétt höndina fram á borðið eftir einhverju, svo uppgekk ermin, þá sýndist manninum bandaför sjást á úlfliðum hans, en hann varð fljótur að kippa erminni fram aftur. Hvort sem þetta er satt eða ekki er hitt alsagt að hann var mjög var um hendur sínar þann tíma. Ekkert sögðu þeir enn um ferðir sínar, en svo sagði Nikulás seinna drukkinn að heppilegast skot hefði hann skotið aftur úr handarkrika sínum á hraðri reið, og var hann þó hinn heppnasti skotmaður.
Annað sem eftir þeim er haft mun á litlu byggt. Þó má hér geta einnar sögu. Nikulás var smiður mikill og fékk Ólafur bóndi Þórðarson á Skriðufelli, seinni maður Guðrúnar Þorláksdóttur, hann eitt sinn að smíða hjá sér um vetur. Um kvöldið bað Ólafur hann að segja sér sögu, helzt útilegumannasögu. Hann færðist undan, en lét þó til leiðast um síðir og sagði fylgjandi sögu: „Tveir menn voru á rótafjalli og ferðuðust með jökli einum þangað til fyrir þeim varð dalur. Þeir fóru inn í hann og fundu hvönn mikla í gili og grófu þar mikið af rót. Annað gil var þar hjá og hryggur á milli. Þangað fór nú annar að grafa rót. Hinn fór að kampa það sem grafið var í fyrra gilinu. Sá sem fór að grafa vissi ekki fyrr en maður mikill vexti kom að honum með atgeir og ætlaði að reka hann í gegn, en hann sló rótagreflinum á handlegg hans svo leggurinn brotnaði. Þá þreif dalbúi manninn með hinni hendinni og snaraði honum undir sig eins og vindli. Hann kallaði. Dalbúi greip þá fyrir kverkar honum, en í því kom Jón.“ Þá tók Ólafur fram í og sagði: „Þið hafið þá verið þetta?“ Nikulás hljóðnaði og ekki fekkst af honum að tala um þetta meira.
Nikulás dó úr brjóstveiki fáum árum eftir seinustu ferð þeirra. Jón sagði aldrei frá neinu, en þykktist jafnan þegar hann heyrði fullyrt að engir útilegumenn væri til, og sagt er hann hafi boðizt til að sýna þá ef einn maður færi með sér, en ekki fleirum; það þáði enginn. Jón fekk í elli sinni óbærilega kvöl í handleggina, einkum annan sem varð blár eða lifrauðblágrár og ólæknandi, og mun það meðfram hafa dregið hann til dauða. Það vita Tungnamenn gjörr, því Jón dó í Bræðratungu. Hafði hann búið þar lengi.