Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Jón prestur blóti drepur útilegumann

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Jón prestur blóti drepur útilegumann

Þess er getið að á Austurlandi bjó einu sinni prestur sá er Jón hét og var hann kallaður blóti. Svo bar við að síra Jón ætlaði að ferðast suður og fór hann Fjallabaksveg suður og ofan á Rangárvelli. Hann var með kofortahest og fylgdi honum drengur einn. En er hann er langt á leið kominn mætir hann manni einum. Þeir kasta kveðju hvor á annan. Býður komumaður síra Jóni glímu. Hann segist enginn glímumaður vera. Hinn kvað hann skyldi þó mega til. Síðan glíma þeir og hafði síra Jón hann undir. Þá segir síra Jón: „Viltu að ég gefi þér líf?“ „Ekki til annars en ég drepi þig,“ segir maðurinn og í því greip hann hníf fram undan erminni, en um leið og prestur greip hann skarst hann á úlfliðnum. Síðan stakk hann útilegumanninn í hjartastaðinn og drap hann; huldi síðan hræ hans. Eftir það fer hann ofan í kofort sitt og tók þar upp smyrsli og bar á skurðinn, batt um og hætti þá að blæða. Síðan hélt hann áfram ferð sinni. En er hann hefir riðið um stund hittir hann aftur annan mann; sá hafði tágarhatt á höfði riðinn sem körfu. Sá heilsar Jóni og hvor öðrum. Sá spyr Jón prest hvort hann hafi engan mann fundið. Prestur kvað það ei vera. Hinn segist ekki trúa því; – „því þeir voru að safna og höfðum við ætlað að finnast á þessu svæði og skil ég ekki hvað syni mína tefur“. Prestur tók upp hjá sér stúlkuglas fullt af brennivíni og gaf honum. En er hann hefir drukkið verður hann himinlifandi. Síðan gaf prestur honum glasið með því sem eftir var á því og þókti honum mjög vænt um. Hann spyr Jón prest hvert hann ætli. Hann kvaðst ætla að halda áfram. Hinn kvaðst ráðleggja honum að hitta [ekki] á félaga sína, en ríða heldur sem hvatlegast fram í byggð. Jón segist ei rata þangað. Hinn sagðist skyldi fylgja honum þar til hann kæmist klaklaust af; og gjörir hann svo og skildu þeir með virktum. Síðan reið síra Jón hið hvatlegasta til byggða. Það sagði síra Jón mundi hafa orðið ljótar harmatölur er karl hefði þulið er hann fann útilegumanninn þannig dauðan sem áður er frá skýrt; því hann taldi víst eftir orðum útilegumannsins að það mundi sonur hans verið hafa er presturinn drap, en lítil sonargjöld ein brennivínsflaska.