Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Karlinn við kirnuna

Úr Wikiheimild

Einu sinni kom ferðamaður að koti einu á Vestfjörðum og beiddist gistingar. Var honum fylgt í baðstofu. Þar sat stúlka á palli ærið fögur. En er hún sér að manninum er heimiluð gisting fer hún að gráta. Karlinn fer fram til kerlingar sinnar. Þá fer komumaður að spyrja hana hvers vegna hún sé að gráta, en hún gegndi lítt orðum hans. Loksins lét hún það uppi að það væri orsök til harma sinna að foreldrar sínir mistryggðu alla um sig er þar væru til gistingar; hefðu þau drepið alla með því að skera þá á háls sofandi. Bað hún hann vera varan um sig. Hann bað hana vera glaða og skemmta sér um kvöldið. Um kvöldið koma hjónin inn með kirnu og sveðjuhníf ærið stóran og fara í hinn enda baðstofunnar og seta kirnuna í holu í gólfið og fara að setja hana rétta. En hvernig sem þau fara að, geta þau ekki gengið svo frá kirnunni að þeim líki. Eru þau að þessu fram eftir kvöldinu. Um kvöldið háttar hann hjá stúlkunni og sefur með værð. En er hann vaknar um morguninn eru þau enn að hagræða kirnunni. Fer hann svo burtu með stúlkuna. Segir hann frá þessum starfa þeirra er hann kemur til bæja. Fóru menn á vit við þau og fundust þau dauð við kirnuna. Maðurinn flutti stúlkuna til átthaga sinna og giftist henni. – Hér af er það dregið að það sem seint gengur og illa er sagt að fari sem karlinum með kirnuna.