Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Kaupamaðurinn

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Í Biskupstungum bjó ríkur bóndi. Hann var kvongaður og átti [með] konu sinni son einn barna og efnilegan. Ekki tímdu þau hjón að sjá af syni sínum og óx hann þar upp í foreldrahúsum þangað til hann var sextán ára.

Það var eitt sumar að tveir menn þar í nágrenni sem vanir voru að fara í kaupavinnu norður í land komu að máli við bónda að hann léti son sinn fara með þeim og framast þannig. Var bóndi tregur til í fyrstu, en lét þó til leiðast; var og drengnum mikill hugur á förinni. Þegar liðnar voru fráfærur og kaupamenn vildu byrja ferð sína bjó bóndi son sinn, fekk honum gott fararnesti og þar á meðal fall af gömlum sauð. Kvaddi drengur foreldra sína, en þau hjón báðu honum allra heilla, og lagði af stað með kaupamönnum norður á fjall. Þeir áðu fyrir ofan Þjórsá og höfðu þá farið tvo áfanga. Þá var það að kaupamennirnir tóku sig saman um þegar þeir höfðu tjaldað að taka nesti drengsins undir sig og eftirskildu honum aðeins mjaðmarstykkið af sauðarfallinu. Undi hann þessu mjög illa, en mátti það svo búið hafa. Þegar þeir tveir félagar höfðu matazt lögðust þeir til svefns, en drengurinn gat hverki neytt matar og ekki heldur svefn fest; var honum og þungt í skapi við stallbræður sína.

Þegar hann hafði vakað um stund varð það að mórauður rakki kom þar að tjaldinu, snuðraði kringum það og lyfti loksins upp tjaldskörinni með trýninu; snaraði þá drengurinn mjaðmarstykkinu, sem hann nú átti eitt eftir af nesti sínu, að rakkanum, en rakkinn greip það og hvarf á burt.

Þegar drengur hafði enn setið nokkra stund í tjaldinu í þungu skapi og svefninn firrtist hann hafði hann sig á kreik úr tjaldinu og hvarf til hesta sinna sem voru þar á beit skammt frá. Sér hann þá hvar maður fer, heldur stórvaxinn, og stefndi þangað sem hann var, og fylgdi komumanni mórauður rakki. Komumaður kvaddi dreng vingjarnlega og spurði hann ýmsra tíðinda, og leysti drengur úr því með greind og stillingu. Þar kom loks að drengur sagði komumanni allt um hagi sína eins og þá var komið. Bauð þá karlinn honum að fara í kaupavinnu með sér um sumarið og þekktist drengur það. Tók hann þá hesta sína, lagði á söðul sinn og fór leiðar sinnar með komumanni án þess að kveðja samfarendur sína sem sváfu í tjaldi sínu. Ferðuðust þeir þann dag allan og fram á nótt þvers frá alfaravegi – og var karlinn sporadrjúgur – unz þeir komu að litlum bæ í dal einum; voru þar fögur sléttlendi umhverfis bæinn, en svo var sem þoka einhver feldi útsjón alla í fjarlægð. Þegar þeir komu að bænum stóð kvenmaður einn í dyrum úti; hún heilsaði á föður sinn og hvarf til hans; bæði var hún ungleg og fríð.

Karlinn vísaði nú bóndasyni til gistingar í skemmu einni og sagði dóttir sinni að bera honum mat og þjóna honum til rúms. Svaf hann vært það eftir var nætur. Kom þá karlinn til hans um morguninn og kvaðst nú þegar hafa hugsað honum fyrir verki. Reis þá bóndason hið snarasta úr rekkju og kippti skóm á fætur sínar og gekk út. Sýndi karlinn honum þá engjateiga allmikla, en slétta og grösuga, og mælti svo fyrir að bóndason ætti að vera búinn að ljúka því verki að slá þá um fjallgöngur. Leizt bóndasyni þetta með sjálfum sér að mundi verða sér óvinnanda. Karlinn fékk honum síðan orf og ljá; voru það hverttveggi góð verkfæri. Karlsdóttir átti að raka eftir honum. Um það lagði karlinn ríkt á við hann að hann forvitnaðist ekkert um heimilishagi sína.

Þarna var nú bóndasonur um sumarið og gekk til sláttar hvern dag nema sunnudaga og svaf í skemmu sinni um nætur. Sá hann allan þann tíma engan mann nema þau feðginin; ekki heldur varð hann þar nokkurs penings eða kvikfénaðar var. Hann sló, en hún rakaði; en það var með undrum að hey allt hvarf þegar sem slegið og rakað var. Þótti honum að vísu einvera sín kynleg og þó hin skemmtilegasta.

Það var viku fyrir fjallgöngur að hann hafði lokið ætlunarverki sínu. Kom þá karl að máli við hann, þakkaði honum fyrir sumarvinnuna og var glaður í bragði. Kvað hann honum mundi og mál að fara heim til sín svo hann yrði ekki eftir af þeim félögum sínum; sagði hann þá hafa sofið í tjaldi sínu þar sem þeir skildu þangað til nú fyrir tveimur vikum að þeir hefðu vaknað og farið norður um Sprengisand, en enga kaupavinnu fengið þegar svo var áliðið sumars í Norðurlandi, og væru því á suðurleið aftur við svo búið. Afhenti nú karl bóndasyni sumarkaupið; voru það tveir belgir stórir og tuttugu og fjórir fjórðungar smjörs í hverjum, fekk honum líka að gjöf tvo sauði gamla og gott ferðanesti. Síðan leiddi hann fram hesta hans og þar með einn hest gráan sem var mesta gripsval; kvað hann þenna klár mundi bera bagga hans; kvaðst hann og mundi sjálfur fylgja honum þangað sem þeir hittust í fyrstu.

Þegar þeir voru búnir til burtferðar kom karlinn með dýrshorn mikið og rétti bóndasyni og bað hann bergja á. Tók bóndason sér einn teyg af því og þótti honum sem sér yxi við það megin. Þá bauð karlinn honum til glímu, en ekki leið á löngu áður bóndasonur féll. Bauð karlinn honum þá að taka sér annan teyg af horninu og skyldu þeir svo taka fangbragð aftur. Bóndason gjörði eins og karlinn sagði og stóð hann nú mun lengur áður en hann félli. Lét þá karlinn hann taka í þriðja sinn teyg af horninu og reyndi við hann fangbragðið í þriðja sinn, og var það þá lengi að bóndasonur stóð. Sagði þá karlinn að nú mundi bóndasonur ekki verða uppnæmur þó hann mætti tveimur fullröskvum mönnum á leið sinni.

Nú kvaddi bóndason karlsdóttir og minntist við hana, steig síðan á bak hesti sínum sem söðlaður var, en teymdi hinn og hestinn gráa með klyfjunum. Gekk karlinn með honum, en hundurinn Móri rak sauðina á undan þeim. Fylgdi karlinn þangað til þeir komu á veginn sunnan undir Sprengisandi. Þá kvaðst hann ekki mundi lengra fara, en léði bóndasyni hestinn og hundinn heim til sín. Bað hann bóndason áður þeir kvöddust að ráðast til sín á næsta sumri í kaupavinnu, og hét hann því. Mæltu þeir mót með sér á næsta sumri þar sem þeir nú skildu; síðan kvöddust þeir.

Þegar bóndason hafði haldið áfram ferð sinni um hríð urðu tveir menn fyrir honum á leiðinni áður hann kæmi í áfangastað. Fóru þar þeir félagar hans um sumarið og höfðu lítinn farareyrir. Þeir köstuðu á hann kveðju sinni og tók hann því. Þótti þeim hann ekki fara tómhentur úr kaupavinnunni og spurðu hann hvar hann hefði alið manninn um sumarið, en hann kvað þá það engu skipta. Þeir kváðu hann mundi nú skipta með þeim kaupi sínu, en hann neitaði; sögðu þeir þá að afl mundi hljóta að ráða og kvaðst hann þess albúinn og muna í fornan fjandskap við þá. Stigu þeir þá þegar allir af hestum sínum og hugðu þeir félagar tveir að hafa allan flutning bóndasonar höndum, en hann greip sinni hendi hvern þeirra og sveiflaði þeim langar leiðir frá sér svo þeir meiddust og varð þeim ekki greitt að komast á fætur aftur, enda þótti þeim óvænlegt að eiga við heljarmanninn og hélt bóndason áfram ferð sinni.

Þegar hann kom heim til foreldra sinna sleppti hann hestinum sem rann á leið til baka og rakkinn mórauði með. Þeim hjónum þótti vænt um heimkomu sonar síns og hve vel honum hefði gefizt kaupavinnan. Undruðust og allir sauði þá er hann rak heim og höfðu þvílíkir aldrei séðst í sveit að stærð og gæðum. Fátt vildi hann segja af ferðum sínum eða hvar hann hefði dvalið um sumarið. Næsta vetur var hann heima hjá foreldrum sínum og um vorið fram um fráfærur. Þótti hann nú fremstur manna í sveitinni sakir afls og atgjörvis. Bjóst hann þá til ferðar í kaupavinnu á ný og hafði til þess gott orðlof foreldra sinna.

Þegar hann [kom] upp fyrir áfanga fyrir norðan Þjórsá hitti hann þar þegar húsbónda sinn hið fyrra sumar og urðu með þeim kærar kveðjur. Fór hann með honum til bæjar síns. Var þar allt eins og hið fyrra sumarið. Sá hann þar engan mann nema dóttir karls eina sem fagnaði komu hans. Þegar hann hafði tekið á sig náðir og hvílzt eftir ferðina fékk karlinn honum orf og ljá og vísaði honum til engjateiga þeirra er hann skyldi slá það sumar og hafa lokið fyrir göngur. Voru þeir sýnu stærri en hið fyrra sumar. Tók bóndason þá til verka, og gekk svo um sumarið að hann sló, en dóttir karls rakaði, en heyið hvarf jafnótt af enginu. Voru teigarnir nú allir uppslegnir er hálfur mánuður var til gangna. Kom þá karlinn og hitti bóndason þar sem hann sat í skemmu, og þakkaði honum sumarvinnuna; kvað hann sér og þykja verkið hafa greiðlega gengið, svo mjög sem sér hefði sýnzt honum tefjast við að standa á tali við dóttur sína; sagðist hann og sjá að þeim félli vel samvinnan. Bóndason bar ekki á móti því. Karlinn kvað honum hafa vel farizt er hann enga hnýsni hefði haft um hagi hans svo undarlegt sem honum mætti sýnast um háttu þar hjá sér. Sagði hann nú og bóndasyni greinilega frá að hann héldi mikið bú á bæ sínum og margt vinnufólk; hefði hann átt tólf dætur með konu sinni og væru ellefu þeirra giftar og konur þar í dalnum, því svo margir bæir væru þar, en sú tólfta dóttir sín sem hann hefði séð væri yngst og ógift og mundi hann gefa honum hana er sá væri vilji þeirra beggja. Tók bóndason þessum kosti með mesta fagnaði. Til að sanna sögu sína tók karlinn upp hjá sér gler eitt og sagði bóndasyni að líta í. Sá hann þá víða um dalinn sem bæði var mikill og fagur; voru þar og bæir allmargir, ekki færri en tólf, og fólk hvívetna margt að heyverkum. Þar sá hann og alstaðar um haglendi fjölda af nautum og hestum og um hlíðar dalsins miklar sauðahjarðir. Sá hann nú líka að margt fólk starfaði að heyvinnu á jörð karlsins sjálfs. En er hann horfði ekki lengur í gegnum glerið sá hann ekki nema eins og fyrr.

Daginn eftir bjóst bóndason til ferðar ásamt unnustu sinni og bjó karlinn ferð þeirra. Gaf hann þeim nú sextíu sauði og voru þeir afbragðsvænir; átti hundurinn Móri að reka þá heim til bóndasonar. En í góðum gripum fekk hann þeim margt sem hesturinn grái sem fyrr er getið átti að bera og var hann fullklyfjaður. Sjálfur kvaðst karlinn mundi fylgja á veg jafnlangt eins og hið fyrra sumarið. Lögðu þau nú þrjú af stað úr dalnum og héldu áfram þangað til þau komu í áfangastað fyrir norðan Þjórsá. Þá sagðist karl mundi heim snúa, en hestinn og hundinn skyldu þau hafa heim til sín og mundu þeir svo heim til hans hverfa. Bað karlinn bóndasyni og dóttur sinni alls velfarnaðar og minntist við þau bæði með mestu blíðu og fór heimleiðis til sín.

Nú hélt bóndason ferð sinni áfram með unnustu sína heim til sín. Hesturinn bar þangað flutninginn og hundurinn rak þangað sauðina og þá hurfu þeir. Var þeim bóndasyni og unnustu hans vel fagnað hjá foreldrum hans. Þótti hún afbragð flestra kvenna og bezti kostur þar í sveit. Líka þótti heimanmundurinn fagur. Að liðnu missiri gekk bóndason að eiga karlsdóttir og byrjuðu þau búskap á jörðu foreldra hans. Unntust þau vel og lengi og voru kölluð göfug og rík í því héraði. Er og mikil ætt frá þeim komin.