Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Kaupamennirnir

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Kaupamennirnir

Tveir menn voru einhvurju sinni á Suðurnesjum; þeir vóru vanir að fara í kaupavinnu norður í sveitir. Eitt sumar fóru þeir sem oftar, en þegar þeir vóru komnir norður á heiðarnar kom á þá þoka mikil; villtust þeir nú brátt, en héldu þó áfram lengi þar til þeir komu í dal nokkurn er þeir þekktu ekki. Tvo bæi sáu þeir í dalnum, sinn hvurjumegin áar sem rann eftir dalnum; fóru þeir nú heim að öðrum bænum og börðu þar að dyrum. Karl kom til dyra; þeir heilsa honum. Hann tekur því vel. Hann spyr þá frétta og hvurt þeir væru að ferðast. Þeir sögðu honum það ljósasta af því. Hann sagði að þeir mundi koma of seint í kaupavinnuna af því þeir væru komnir langt afvega og bauð þeim að vera þar í dalnum og sagðist skyldu taka annan þeirra, en ráðlagði öðrum að fara yfir á hinn bæinn. Þeir þáðu þetta og valdi karlinn annan þeirra til sín, en hinn fór nú yfir á hinn bæinn; vóru þeir nú þar um sumarið og sáu hvur til annars. Ei er þess getið hvað margt fólk verið hafi þar eða hvurt þeir hafi fundizt um sumarið.

Seinasta heyskapardaginn snemma morgun kom karlinn til kaupamannsins síns og bauð honum góðan dag og segir að mál muni að gjalda honum kaupið og biður hann ganga með sér út; segir karlinn að nú sé verið að gjalda félaga hans kaupið í hlaðbrekkunni á hinum bænum. Sýndist honum vera verið að skera hann á háls. Fer karlinn inn í skemmu eina og kaupamaðurinn á eftir; var þar trog og hnífur í. Tekur karlinn kaupamanninn og leggur hann niður við trogið. En hann gat ei neitt. Síðan bar karlinn hnífinn að barka hans, en hikaði þó og leit í augu hans og sagði: „Þú hræðist ekki dauða þinn.“ Kaupamaðurinn sagði: „Ég á einu sinni að deyja og er mér sama hvurt það kemur að nú eða síðar.“ Þá sleppti karlinn honum og fór kaupamaðurinn að búa sig af stað. Karlinn sagði: „Ég mun nú mega enda það er ég hét að gjalda þér kaupið, en ekki lízt mér so á hryssur þínar að þær muni mikið bera, en ég á svartan klár er ég skal ljá þér.“ Síðan batt hann bagga af smjöri allmikla og lætur upp á hest sinn og segir kaupamanninum að hann skuli ekki taka baggana af honum þegar hann ái á leiðinni, „og mun hann þola það,“ sagði hann. Síðan gaf hann kaupamanninum ýmislegt á hestinn er hann hafði sjálfur, nesti til ferðarinnar og annað sem ekki er getið. Síðan bjóst kaupamaðurinn til ferðar. Þá mælti karlinn til hans: „Þegar þú kemur heim skaltu sleppa hesti mínum og mun hann rata til baka og þætti mér gott að þú kæmir hingað í dalinn aftur að sumri og værir hér í kaupavinnu hjá mér, og bið ég þig að gefa mér að smakka fisk ef þú kemur aftur; og skal hestur minn verða kominn þangað sem þú sleppir honum og skaltu flytja á honum fiskinn hingað.“ Kaupamaðurinn þakkaði honum fyrir allt þetta og lofaði honum að koma aftur. Síðan skildu þeir með mestu vináttu og fór kaupamaðurinn heim til sín og breytti eins og karlinn sagði honum. Aldrei vissi hann neitt meira um félaga sinn.

Þegar hann kom heim tók hann ofan af hesti karlsins og sýndist honum hann ekki vera lúinn. Síðan sleppti hann hestinum og vigtaði baggana og var hvur þeirra 24 fjórðungar.[1] Engum sagði hann af ferðum sínum. Nú safnaði hann fiski þangað til hann hafði fengið sex vættir. En um sumarið er hann vildi af stað fara var hesturinn karlsnautur kominn undir vallargarðinn. Tók hann nú hestinn og lét á hann baggana og fór so af stað og tók ekki ofan af honum á leiðinni; kom hann nú í dalinn og fann karlinn og varð þar fagnaðarfundur og þótti karli vænt um fiskinn, og var kaupamaðurinn þar um sumarið. En um haustið borgaði karlinn honum fiskinn og galt honum eins mikið kaup og hið fyrra sumarið og léði honum hestinn, og fór allt sem áður hafði farið.

Eftir þetta fór hann á hvurju ári í dalinn til karlsins í kaupavinnu á meðan hann vildi ferðast og fór jafnan eins, að hann færði honum fiskinn og karlinn galt honum kaupið eins mikið og áður er sagt. Og lýkur hér so frá þeim að segja.


  1. Það þykir meðalkaupamannskaup í sveit að fá 16 fjórðunga smérs fyrir átta vikna vinnu; betri verkmenn hafa þó fengið 20 fjórðunga og hinir beztu 24; eftir þessu hafa vinnulaunin verið tvígild við það sem nú er bezt goldið.