Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Kynjadalur í Ódáðahrauni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Kynjadalur í Ódáðahrauni

Í Skagafirði var það eitt haust að illa viðraði mjög og gátu ekki menn farið í fjallgöngur fyrri en hálfum mánuði seinna en vanalegar fjallgöngur voru. Fóru þá duglegustu sex menn úr firðinum og frá einum bænum fór kona ein er Helga hét. Hún var duglegri en kallmennirnir, því hún var haldin margra manna maki og var því kölluð Graða-Helga. Gengu þeir í fjóra daga og fundu ekki nema fátt eitt. Fengu þeir nú so vont, því ýmist var slydda eða bylur og frost. Sögðust þeir allir til byggða vilja halda, en Helga vildi ekki og sagði það ódugnað að leita ekki þó vont væri. Fóru þeir nú ofan í byggð hvað sem hún sagði. Gekk hún í sex dægur ettir að þeir fóru; var hún orðin villt og nær dauða en lífi, því öll var hún klökuð frá hvirfli til ilja.

Settist hún niður undir stein einn stóran og ætlaði að láta þar fyrir berast; og síðan heyrði hún hó mikið og varð hún þá hálfhrædd og heyrði hún mannamál og að kallað var að ef þarna væri manneskja skyldi þeir drepa hana. Einn þeirra sagði að hann réði því hvurt hún yrði drepin eða lifði; sagði hann þeim nú hreint að þegja. Síðan gengur sá er fyrir þeim var til Helgu; getur hún valla talað. Hann spur hana að hvurt hún muni geta gengið, en [hún] kvaðst það eigi geta. Segir hann henni að standa upp og ber hana nú á herðum sér og gengur með hana þar til að hún sér stóran dal og liggur hann saman á tindum uppi, en er afar breiður að neðanverður og er sem hlaðið væri upp í báða enda. Ber hann hana þar til þau koma ofan í dalbotninn. Sér hún þá þrjá fjárhópa og hundrað [í] hvurjum fyrir sig. Hann segir hvurjum að taka sinn hóp, en hann segist ætla að fylgja stúlkunni heim og taka lömbin. Ber hann hana ofan ettir dalnum og sér hún þá enn fjárhóp og eru það hundrað lömb. Hann skilur við hana undir túngarðinum og segir henni að reyna að staulast heim og finna foreldra sína, og skilja þau síðan. Fer hún heim að bænum, ber þar að dyrum og kemur ung stúlka til dyranna. Hún spyr hvur úti sé, en Helga getur valla anzað og segir að það sé hrakin stúlka og biðjist húsa og sonur þessa manns er hér búi hafi gefið sér líf og segi hún seinna þar frá. Fer stúlkan inn og segir sem hin aðkomna sagði. Þetta var mesti bær í Ódáðahrauni og var sýslumannssetur; sýslumaðurinn var alltaf rauðklæddur, en prestar bláklæddir. Var nú Helgu fengið gott rúm og átta marka ílát til að borða úr þrisvar sinnum á dag; klæddist hún nú ekki í viku.

Ettir þetta allt fór hún nú að hressast. Nú spurði sýslumaður hvurt hún vildi ekki þvo innan úr í dag með stúlkum sínum. Spurði hún hvað margir skæru. „Þrír,“ segir hann. Hún hélt það væri ekki ofverk fyrir sig eina að gjöra þetta. Brosti hann og hélt hana ítæka um flest. Nú var búið um kvöldið að skera. Alltaf þurfti hún mikið að borða og ettir því var hún dugleg. Hún var látin vefa um veturinn og óf aldrei minna en þrettán hundruð um hálfan mánuð. Allir voru góðir við hana; þó var sonur sýslumanns henni beztur því hann lagði mikinn ástarhuga til hennar.

Þegar hjúatími var kominn var hún spurð hvurt hún vildi vera kyrr; játti hún því. En um sumarmál varð hún mjög leið og þung í skapi. Gengu allir fast að henni því hún daglega fá væri. Sagði hún [að hún] hefði iðrazt orða sinna og vildi heim fara í byggð. Fékk þetta mjög á sýslumannsson og varð minni kærleikur þeirra á milli. Fylgdu nú feðgar henni til byggða og gáfu henni af tíu hestum klyf af alslags er hún þurfti við að lifa; sögðu henni að koma á Stykkishólm og Stokkseyri, sitt sumar í hvurn stað; báðu hana so vel fara með mörgum fögrum orðum. Saknar hún þeirra mjög. Hún var auðnulaus fyrst og seinast. Sex ár fundust þau og so ekki framar og var hún þá viss um dauða þeirra. – Lýkur so henni.