Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Litlisjór

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Litlisjór

Maður heitir Teitur Finnbogason (hins ríka frá Reynifelli). Hann hefir lengi búið í Skarði á Landi, en er nú búinn að gefa frá sér og er þar húsmaður. Hann er nokkuð undarlegur í skaplyndi, en þó einfaldur í tali og hreinskilinn. Á fyrri árum sínum þótti hann nærgætari um margt en aðrir menn og sagt var hann væri skyggn. Ef hann er nú um það spurður svarar hann á þá leið að „lítið var, en lokið er“. Einu sinni sem oftar var hann við Fiskivötn með öðrum mönnum. Einn morgun í góðu veðri og þykkvu lofti fór hann og með honum Jón Árnason yngismaður frá Galtalæk, nú bóndi að Lágafelli í Landeyjum, bróðurson Teits, og Eyjólfur bóndi Jónsson á Minnivöllum í forvitnisferð inn með Litlasjó að vestan. Þar eru slétt hraun og sandar. Þar fundu þeir braut eftir tvo hesta samsíða er lá inn eftir. Þeir voru á henni öðru hvurju. Veður þykknaði og gjörði sudda, og sá skammt frá sér. Litlisjór liggur í ótal bugum til austurlandnorðurs, hvurgi mjög breiður. Þeir riðu nú lengi dags og var Teitur ávallt fremstur. Um síðir komu þeir á öldu eða hrygg. Lá vatnið austur fyrir hrygginn, þeir sáu ekki hvað langt. Þeir Jón og Eyjólfur bundu hesta sína, og Teitur tyllti sínum þar við og gengu upp á hrygginn. Þaðan sjá þeir tjörn, hömrum umkringda, að þeim sýndist, og nokkru norðar háva öldu með grjóthrúgu eða vörðubroti upp á. Nú verður fyrir þeim fjallagrasaflekkur þar á hryggnum og var nýtekið úr miðju hans það sem hreinast hafði verið, en eftir var utan með það sem mosi vóx innan um. Jón og Eyjólfur fara að tína grösin, en Teitur gekk lítið lengra. Allt í einu kom hann aftur og hljóp til hests síns og tók hann. Eyjólfur vildi fara upp á hávu ölduna og vita hvort mannaverk væri á grjóthrúgunni. Teitur aftók það og riðu þeir síðan til baka.

Þetta sagði Eyjólfur sjálfur Brynjúlfi Jónssyni. Hann spurði síðan Teit og bar þeim saman um þetta. Brynjúlfur spurði Teit því hann færi svo fljótt til baka. Teitur brosti og sagðist ekki hafa viljað vera lengur, því þeir hefðu átt óupptekin netin, en það sagðist hann ætla að hvur sem í heiðskíru veðri kæmi upp á grjóthrúguna mundi sjá í Stórasjó, væri hann til, sem enginn veit nú fyrir víst. Brynjúlfur kvað gaman að forvitnast betur um þetta (nl. Stórasjó). Teitur kvað það ekki sitt ráð. Brynjúlfur ráðgerði að reyna það. Teitur svaraði alvarlega: „Þú hefir ekkert gott af því.“ Brynjúlfur: „Ætli ég hafi illt af því?“ Teitur: „Ég sagði það ekki, ef þið farið ekki margir, en ekkert hefurðu gott af því; það er óþarfi.“ Brynjúlfur: „Þú getur víst frætt mig betur um þetta?“ Teitur: „Óekkí.“ Hættu þeir talinu.

Karl nokkur úr Skaftártungu hafði eitt sinn veiðistöð í Litlasjó og gerði þulu um veginn þangað. Segja menn að hana kunni séra Benedikt í Guttormshaga.