Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Missögn um Guðmund kaupamann

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Missögn um Guðmund kaupamann

Það var eitt sinn maður sem hét Guðmundur; hann var vinnumaður á bæ þeim er Krókur heitir í Garði suður. Hann var vanur að fara norður í land á sumrum í kaupavinnu og var þangað ráðinn ár af ári.

Eitt sinn sem oftar býr hann ferð sína norður; en fyrir eitthvert atvik verður hann seinn og þess vegna tapar hann samferðamönnum sínum og verður einn; heldur so norður á fjöll og í einhvörjum stað æir hann hestum sínum, borðar sjálfur og sofnar síðan. En þegar hann vaknar er komin svartaniðmyrkursþoka svo hönum þykir óvíst að hitta veginn þar hann hafði lítið eitt út af honum vikið; fer þó og tekur hesta sína og leggur á þá. En á meðan hann er að leggja á hesta sína koma til hans tveir menn held[ur] miklir vexti og þreklegir. Þeir kasta kveðju á Guðmund hvörju hann tekur. Þeir spyrja hann að heiti og hvört hann ætli að fara og hvörra erinda. Hann segir þeim hið sanna. En þeir segja fyrst hann fari í kaupavinnu standi hönum á sama hvar hann vinni ef hann fái kaup sitt og skuli hann koma til þeirra og vera hjá þeim um sláttinn. Það segist hann ei mega, því hann sé öðrum lofaður sumarlangt; en þeir segja að ef hann vili ekki koma með sér þá sé óvíst hvört hann fari lengra. Guðmundi stóð stuggur af mönnum þessum og hyggur að hann sé jafndauður hvört hann fari með þeim eða ekki og ræður það af að hann segist skuli þá koma með þeim, og síðan leggja þeir á stað og ferðast það sem eftir er af deginum og langt fram á nóttina, en um síðir koma þeir í dal einn. Þar er bær einn og útiskemma og við hana taka þeir af hestum sínum og Guðmundar. Í skemmunni eru rúm tvö og í annað rúmið vísa þeir komumanni, en þeir segjast skuli sjá um hesta hans; hann skuli aldrei um þá hugsa, þeir skuli verða vísir þegar hann þurfi á þeim að halda.

Um morguninn kemur þangað unglegur kvenmaður heldur þrekleg. Hún tekur sokka þeirra og skóplögg, en kemur aftur með þura sokka bæði handa heimamönnum og hinum nýkomna. Matur var hönum borinn strax um nóttina: kjöt og ostur með smjöri og eins um morguninn og líka mjólkurmatur. Ei varð hann þann dag fleiri manna var. Þegar Guðmundur er á fætur kominn spyr hann hvað gjöra skuli. Þeir spyrja hvört hann sé hagur nokkuð eða hvört hann geti ekki smíðað þeim verkfæri til sláttarins, en hann hefur ei aftök um að hann kunni ei að geta það ef hann fái efni gott; maðurinn var heldur laglega hagur og gat vel búið sér og öðrum í hendur. Hann er so þann dag við amboðasmíði og lýkur því á næsta degi eftir. Síðan fer hann að dengja ljái sína og heimamanna og þykir hönum þeirra ljáir heldur klunnalegir; og síðan byrjar hann slátt hitt kvöldið. Bráðlega verður hann þess var að á bænum var karl gamall og kelling sem voru foreldrar pilta þessara og stúlkunnar. Þeir hétu Jón og Ólafur, en hún Signý. Báðir fóru bræðurnir að slá, en Signý rakaði. Heldur þókti Guðmundi menn þessir verkstirðir og ólagnir og oft voru þeir við veiðiskap í stöðuvatni einu er þar var skammt frá. En Guðmundur var sífellt að slá, ýmist mýri eða vallendi eftir sem veðri hagaði. Að þurru heyi starfaði hann ekki nema hlaða heyi þegar mikið var hirt. Skjaldan sá hann kallinn og illúðlegur leizt hönum hann, en oft kom kelling til hans og bauð hönum ýmsan mat og kvartaði um að hann borðaði so lítið, hönum mundi ekki falla fæðan eða hann legði vinnuna of mikið að sér og yrði so horaður. Stundum kom hún með steiktan silung og bar við nýtt kjöt, en tíðast var gamalt kjöt og silungur í átmat. Aldrei sá hann hesta sína og að engu eða fáu þorði hann að spyrja og því síður um nokkuð að forvitnast; en að öðru leyti undi hann þar allvel hag sínum.

Þannig leið slátturinn til enda og varð heyskapur nokkuð mikill. Þegar seinast var hirt biðja þeir hann að ganga frá heyjum og láta fara vel hvað hann gjörir og er að því heilan dag. Þá kemur kallinn og talar við hann vingjarnlega og þakkar hönum vinnu sína og segist aldrei hafa átt jafnmikil hey og spyr hann hvað langur sláttutími sé vanur að vera í sveit. Guðmundur segir hann jafnaðarlega vera átta vikur. Kallinn spyr hann hvað mikið kaup hann sé vanur að fá. Hinn segir hönum það. Kall spyr hvaða vara honum komi bezt eða sitt af hverju. So líður einn dagur sem Guðmundur sýslar ekkert sérlegt. En um kvöldið fær stúlkan hönum föt sín öll hrein og bætt þar sem þess þurfti og segir að á morgun muni hann fara eiga.

Um morguninn eftir er komið heim með hesta Guðmundar og hafði hann ekki séð þá allan þann tíma sem hann þar var og voru sem náttúrlegt var hjólspikaðir. Búið var að ganga frá plöggum Guðmundar og búa upp á hestinn og vissi hann alls ekkert hvað þar var í, en mjög voru klyfin þung svo hann kom þeim vart til klakks; líka var malpoki hans allhnellinn. Og nú ætla bræðurnir að fylgja hönum á veg, en um leið og hann kveður biður kallinn hann að koma þangað næsta sumar ef hann verði ei mjög óánægður með kaupið. Síðan fer hann á stað og þeir með hönum og ferðast í fyrnefndan áfangastað. Og nú biðja þeir hann að koma þangað aftur að sumri upp á sama dag og hann hafi komið í sumar – því þá muni þeir verða þar til staðins að fylgja hönum heim. Því næst kveðjast þeir og heldur Guðmundur heimleiðis og gengur ferðin greiðlega. Þegar hann fer að skoða sumarkaupið er það nærri tvöfalt við það venjulega. Ekki sagði hann frá hvar hann hefði það sumar verið, en hann sagðist ekki hafa komizt þangað sem hann hefði ætlað; en þar sem hann hefði verið í sumar þangað færi hann aftur ef hann lifði.

Og so leið til næsta sumars. Þá fór Guðmundur aftur og hitti kunningja sína á fyrnefndum stað og kom aftur að hausti. Þannig fór fram þrjú sumur samfleytt og ætíð komu þeir móti hönum á sama stað og fylgdu hönum þangað aftur.

Fjórða vorið breytti hann ráði sínu og réðist alfarinn vestur undir Jökul og fór aldrei í kaupavinnu síðan. Og um það leyti eða áður hann fór vestur sagði hann söguna eins og hér greinir og líka að hann hefði verið beðinn að koma aftur og þar hefði hann átt bezta ævi. En ágizkun manna hafði verið að hann mundi hafa vitað sig verða nógu nærgöngulan stúlkunni. Og um það hafði hann getið að hún hefði sér alltaf vinveitt verið og átt hefði hann hana ef hún hefði í sveit verið; og líka það að aldrei hefði hann treyst sér í dalinn að rata eða úr hönum fylgdarlaust vegna einhverrar huldu sem sér hefði fundizt yfir sér vera á þeim vegi sem bræðurnir voru með hönum.