Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Nítján útilegumenn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Nítján útilegumenn

Á Vestfjörðum var það eins og annarstaðar siður að allt fólk á hverjum bæ fór til helgra tíða á jólanóttina. En venja var þó að einhver væri heima að gæta búsins. Á einum bæ þar var það orðið að venju að á jólanóttina meðan fólkið var við kirkju var sá er heima var drepinn og bærinn rændur mörgu, bæði mat og öðrum fjármunum. Þetta hafði við gengizt fleiri jólanætur hverja eftir aðra, en aldrei ella, og enginn vissi hvað til kom. Enginn fekkst orðið til að vera heima um jólanóttina og hver þóttist hólpinn sem hjá því slapp.

Einu sinni sem oftar líður að jólum og nú vill enginn á bænum vera heima þangað til bóndadóttir býðst til þess. Bóndi vildi ekki að dóttir sín gjörði það því að hann hugsaði að það færi fyrir henni eins og öðrum er heima hefði verið hinar næturnar, og heimilisfólkið tímdi ekki að sjá af henni, en eigi að síður fór svo að hún varð ein heima.

Þegar fólkið var farið bjó bóndadóttir vel um allar dyr, lokaði þeim og læsti svo nú gat engin skepna inn komizt nema því aðeins að skriðið væri inn um rennu sem lá út úr eldhúsinu. Við rennu þessa sezt bóndadóttir og bíður nú átekta. Skömmu síðar heyrir hún úti fyrir hark mikið, hávaða og mannamál. Það er gengið að dyrunum, en allt er lokað og læst; nú er komið að rennunni sem bóndadóttir sat við með stóra öxi við hlið sér. Síðan heyrir hún að einhver kemur skríðandi á maganum inn um rennuna og þegar hann er kominn með höfuðið svo langt að það er komið inn í eldhúsið alveg þá heggur bóndadóttir hausinn af honum með öxinni, en dregur búkinn alveg inn á eldhúsgólf. Síðan heyrir hún að annar kemur á eftir, og hann fær sömu útreið, og á þessu gengur þangað til átján eru komnir. En í því hinn átjándi rekur höfuðið inn kallar hann upp „Við erum sviknir.“ En hann gat ekki snúið aftur því bæði var rennan þröng og bóndadóttir snör að stýfa höfuðið af.

Nú líður og bíður þangað til fólkið kemur heim; þegar það kemur tekur bóndadóttir á móti því heil heilsu og róleg eins og ekkert hefði í skorizt. Fólkið undrast þetta og segir hún þá frá öllu, en bætir því við að hún sé hrædd um að einn hafi orðið eftir af þessum ræningjum eða útilegumönnum sem ekki hafi komið af því hinn átjándi kallaði. Eftir þetta vita menn ekkert af þessu að segja. Margir komu að biðla til bóndadóttur því hún var kvenkostur góður og vel að sér, en hún neitar öllum og segir alltaf að einn muni hafa orðið eftir við rennuna forðum.

Einu sinni kastar útlent skip, mjög glæsilegt, akkerum þar í grennd við bæinn, og foringinn á skipinu er mikið stórmenni, voldugur og ríkur. Hann kemur oft til bónda sem tekur sér það til æru; og eigi leið á löngu áður hann biður bóndadóttur. Bóndi tekur því vel sem von var, en bóndadóttir vill ekki taka honum. Eftir fortölur föður síns játar hún honum loksins og þau, hún og þessi skipsforingi, eru pússuð saman og veizla mikil og vegleg haldin hjá bónda því hann var ríkur og hafði vel hýst. Síðan eiga hjónin að sofa upp á lofti þar sem enginn manna var, og foringi skipsins lét flytja upp í svefnherbergi sitt stóra kistu járnslegna. Þegar allur umgangur er úti segir hann við bóndadóttur konu sína að nú skuli hann launa henni fyrir lagsmenn sína forðum við rennuna, lýkur upp kistunni, tekur þar upp járnteina, fer út með þá og ofan til að hita í eldi, en á meðan býr hann svo um hurðina að bóndadóttir kemst ekki út. Bóndadóttir sér hvað verða muni, þrífur sæng úr rúminu, brýtur gluggann, sveiflar um sig sænginni og fleygir sér út um gluggann. Hún kemur niður og handleggsbrotnar því hátt var fallið. Hún hleypur á gluggann til föður síns og segir honum að taka fantinn, og bóndi rýkur upp til handa og fóta, kallar húskarla sína með sér og þeir hitta karlinn í stiganum með sjóðheita járnteina. Bóndi tekur hann þar og bindur. Síðan er hann píndur til sagna og að því búnu var hann drepinn. En bóndadóttir sá ekki eftir honum og giftist innan skamms aftur vænum manni og lifði vel og lengi með honum.