Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Oddur bóndasonur og fjallbúar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Oddur bóndasonur og fjallbúar

Svo byrjar þessi saga af bónda einum er bjó í Norðurlandi eða í Skagafirði; það er ekki sagt hvað hann hafi heitið. Hann átti son er Oddur hét og dóttur er Valgerður hét. Það bar til eitt sinn að fjármaður kemur til bónda (þetta var um haust) og segir sig vanti mikið af fénu og verði hann að fara að leita. Oddur segist vilja fara; faðir hans vill ekki að hann fari, en Oddur er því ákafari að vilja fara, svo faðir hans varð að leyfa honum að fara. Hann fer og gengur í fimm daga og finnur ekki. Hann kemur að bæ einum um kvöldið og ber dyra. Þar kemur maður út. Oddur biður hann gistinga. Heimamaður býður honum inn í stofu. Heimamaður spyr Odd að heiti. Oddur segir til nafnsins og hvaðan hann væri, „og hef ég nú gengið í fimm daga. Nú verður þú að segja mér hvað þú heitir“. Heimamaður segir: „Ég heiti Einar, og er ég hér hjá foreldrum mínum. Við erum þrjú systkin, bróðir minn heitir Árni, systir mín heitir Valgerður. Nú hefur þú gengið langt yfir skammt, því þú hefur nú gengið í fimmtu sýslu. Gjörðu svo vel og settu þig niður á meðan ég læt færa þér nokkuð að borða því þú munt vera matþurfi.“ Þá Oddur hefur setið þar litla stund kemur þar inn kvenmaður með mat og biður hann að borða. Oddur heilsar henni og spyr hana að heiti. Hún kveðst Valgerður heita og vera systir þeirra bræðra. Þegar Oddur er búinn að borða þá er honum vísað til rúms af Valgerði. Um morguninn, þá Oddur er kominn á fætur, fer hann inn í baðstofu og heilsar bónda og þakkar honum fyrir greiða. Það segir ekki meira af því; Oddur er hjá bónda í tvær vikur og áður en hann kveður fer hann til bónda og biður dóttur hans. Bóndi lofar því með því skilyrði að hann fari í fjallleitir að hausti með sonum sínum. Oddur lofar því og kveður bónda og þá bræður og unnustu sína. Síðan fer hann af stað og kemst heim og fagnar faðir hans honum. Oddur segir frá ferð sinni. Nú líður af veturinn og sumarið tíðindalaust.

Nú víkur sögunni þangað er bóndinn faðir þeirra Einars og Árna, um haustið það sama er Oddur átti að fara í fjallleitir, að unnusta Odds fór eitt kvöld út í fjós að mjólka, að hún hvarf og fannst hvurgi þó leitað væri. Um þessar [mundir] kvaðst Oddur verða að fara að heimsækja unnustu sína. Faðir hans gefur honum skyrtu og færir hann sjálfur í hana og strýkur ofan eftir honum í bak og fyrir og á hliðum og segir við Odd: „Þú mátt aldrei fara úr þessari skyrtu á meðan þú ert á þessu ferðalagi.“ Oddur lofar því og kveður föður sinn og fer síðan af stað og segir ekki af honum fyr en hann kemur til bæjar þess er kærasta hans átti heima. Þegar hann kemur þangað þá fréttir hann hvarf unnustu sinnar og fellur honum það mikið þungt, en segist þó fara vilja í fjallleitir með þeim móti að hann megi ráða ferðum. Bræðurnir lofa honum því. Oddur gengur í smiðju og smíðar öxi og sverð og spjót. Oddur gefur Einari sverðið og Árna spjótið og hefur sjálfur öxina, og fara af stað, og biður bónda að undrast ekki um sig þó þeir verði nokkra stund burtu, en verði þeir ekki komnir eftir hálfan mánuð, „þá munum við ekki teljast með hinum lifandi“.

Þeir fara til fjalls og þá þeir hafa gengið nokkuð lengi, þá finna þeir fjárhóp og þegar þeir hafa gengið til kvölds þá segir Oddur: „Nú skulum við tjalda og skaltu Árni vaka fyrst og Einar vakir miðpartinn og ég vaki seinast.“ Nú vaka þeir til skipta þangað til að kemur að Oddi. Það er að segja af honum að hann gengur um gólf fyrir utan tjaldið. Þegar hann hefur vakað litla stund þá heyrir hann hó og sér stóran fjárhóp; hann hleypur þangað og nær fimmtíu úr hópnum og rekur heim að tjaldi. Um morguninn þegar hinir vakna þá biður hann Árna að reka féð heim er þeir höfðu fengið, „en við Einar höldum áfram og komum þegar okkur sýnist.“ Árni fer heim, en Oddur og Einar fara til fjalls og ganga til kvölds; þá koma þeir í einn dal og í dalnum sjá þeir húsaþorp mjög reisuglegt og í kring mjög háan garð. Þeir ganga að garðinum og þá geta þeir ekki komizt yfir hann. Þá fer Oddur upp á herðarnar á Einari og kemst upp á garðinn og dregur síðan Einar upp. Þeir ganga lengra og sjá annan garð og komast yfir hann á sama hátt og yfir hinn. Síðan ganga þeir til bæjar og berja dyra. Þar kemur út maður. Þeir biðja um næturgistingu. Heimamaður segir það til reiðu og biður þá að ganga inn. Þeim er vísað inn í skála. Síðan er borinn matur til þeirra. Þegar þeir eru búnir að borða þá fara þeir að hátta; þegar þeir eru háttaðir þá kemur maðurinn inn í skálann til þeirra og vill taka föt þeirra, en þeir biðja að láta þau vera. Heimamaður segist hafa átt að taka þau, en fer þó án þess að fá þau. Þeir slökkva ljósið og láta sem þeir sofi; en þegar þeir hafa legið litla stund, þá heyra þeir fyrir framan að verið er að brýna axir og hnífa. Þá segir Oddur við Einar: „Það mun bezt að fara í föt sín.“ Þeir klæðast skjótt. Þegar þeir eru klæddir þá spyr Oddur Einar hvurt hann vilji heldur gjöra, standa upp á okunum á hurðinni og höggva þá sem inn koma eða draga þá inn [sem] drepnir verða. Einar segist heldur vilja standa upp á okunum og drepa þá sem inn koma.

Nú líður ekki á löngu til þeir sjá lokið upp hurðinni og látið aftur; þá heyra þeir vera sagt: „Þú verður að fara fyrst eins og þú ert vanur.“ Þá segir sá er talað var til: „Nei, ég vil ekki fara, því það eru kræfir kallar og mér býður svo hugur um að við höfum nóg með að vinna þá.“ Þá segir einn þeirra: „Ég skal fara,“ – og lýkur upp og hleypur inn; í því bili höggur Einar af honum höfuðið. Svo koma hvur af öðrum þangað til að þeir voru búnir að drepa fjórtán; þar með lauk í þetta skipti. Þeir hlaupa út og ætla að ganga út úr bænum, en sjá járnslá og hespu með kröftugum lás fyrir. Oddur spyr Einar hvurt hann ekki geti snúið hespuna í sundur. Einar kveðst ekki geta. „Þá skal ég,“ segir Oddur og snýr í sundur og ljúka upp og fara út. Þá spyr Oddur Einar hvurt hann ekki vilji vita hvurt hann ekki finni aðrar dyr á bænum, „en ég vil gæta þessara dyra“. Einar fer og finnur á suðurhlið bæjarins dyr og fyrir utan þær sér hann gróflega stóran köst af lurkum og hrísi. Hann ber mikið af þessu fyrir dyrnar og gengur síðan upp á hól er þar var hjá; þá sér hann að hóllinn lýkst upp og út úr honum koma níu menn, allir vopnaðir, og einn þeirra ber höfuðið yfir þá alla. Einar þrífur stóran lurk og fer síðan að berjast við þá og er búinn að drepa fjóra þegar Oddur kemur. Svo lýkur að þeir drepa þá alla utan þennan mikla mann; hann horfði bara á, og þá er þeir voru búnir að drepa þessa átta þá spyr Oddur hann því hann ekki hafi hjálpað lagsmönnum sínum. Útilegumaður mælti: „Mér eru tvær höndur við axlir fastar, Oddur, þú kemur að sækja festarmey þína er ég sókti í byggð og atlaði að eiga; og vil ég Oddur að við glímum um hana á morgun og sá sem dettur á að eiga hana.“ Oddur segir svo vera skuli. „Eitt er enn er ég vil segja þér og ukkur; ég hef aldrei drepið mann eða nokkra skepnu enn, því ég hef haft mestu óbeit á því og hef ég oft mætt álasi fyrir það af foreldrum mínum og mönnum þeirra er þið hafið drepið; en nú er ekki vert að tala um það meir. Komið nú inn og þiggið beina eftir þessar búsifjar.“

Nú leiðir hann þá til stofu og sækir þeim mat og vín og sér Oddur þar unnustu sína er kom með mat til þeirra. Þeir heilsa henni. Hún fagnar þeim vel. Þá þeir hafa ent máltíð þá ganga þeir til hvílu og sofa; en þegar þeir vakna þá kemur útilegumaður til þeirra og biður Odd að ganga út með sér „og skulum við nú glíma“, Oddur fer út og þeir báðir og taka til glímu.

Nú er að segja frá Einari að hann fer að kanna bæinn og sér þar húsloft og fer upp stigann og ætlar inn. Þá heyrir hann vera sagt inni: „Það sér á að ég er orðinn gamall, því hefði ég nú það er ég hafði þá er ég var á mínum yngri árum, þá skyldu ekki tveir menn úr byggð hafa gjört oss þvílíkan skaða sem þeir hafa gjört.“ Í sama vetfangi hleypur Einar að hurðinni og hrindir henni upp. Þar sér hann karl og kerlingu fyrir ofan hann í einu rúmi. Karlinn bröltir fram úr rúminu og hleypur á Einar og þar urðu sviptingar og lauk svo að Einar heggur af karli höfuðið. Jafnskjótt kemur kerling og þrífur Einar hryggspennu og færist leikurinn fram úr húsloftinu og missir Einar öxina ofan á gólf. Þau glíma lengi og lýkur svo viðskiptum þeirra að kerling dettur. Nú var Einar í vandræðum hvurnin hann ætti að drepa kerlingu og tók það til bragðs að hann bítur hana á barka og hleypur ofan og sækir öxina og höggur af henni höfuðið. Svo fer hann út og sér hvar þeir eru að glíma. Glímu þeirra lyktar svo að Oddur fellir fjallbúa og biður hann að afsala sig stúlkunni. Fjallbúinn lofar því. Oddur biður hann upp standa. Síðan ganga þeir til stofu og eru þar það sem eftir var dagsins og um nóttina. Um morguninn eru fjörutíu baggahestar fyrir utan dyrnar og þrír reiðhestar og einn þeirra með söðli. Oddur spyr fjallbúa hvað allt þetta hafi að þýða. „Þú gafst mér líf og verð ég að borga lífgjöfina með einhverju. En þess bið ég þig Oddur og ykkur báða að koma hingað í vor með fjörutíu hesta og mun ég valla láta standa á mér.“ Hann sækir inn Valgerði og kveður hana og þá Odd og Einar.

Það segir ekkert af þeirra ferðum fyr en þeir koma heim, að þá segja þeir af ferðum sínum. Og þegar Oddur hefur verið þar í hálfan mánuð, þá giftist hann Valgerði og er þar um veturinn.

Um vorið fara þeir og sækja fjallbúa þeirra. Þegar þeir þar koma sjá þeir að hann er að ganga um gólf á hólnum. Þá þeir koma nær þá gengur hann á móti þeim og segir þá velkomna og leiðir þá inn í stofu. Hann ber á borð fyrir þá magála og lundabagga. Þá þeir hafa matazt leggja þeir á hestana og fara af stað. Þá þeir koma heim sendir Oddur eftir systur sinni og gefur fjallbúa hana og jörð með henni. Oddur fer til föður síns og býr á jörð hans, en Einar býr á föðurleifð sinni og fjallbúi á jörð sinni er hann keypti — og lyktar hér þessari sögu.