Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Pétur sýslumaður og útilegumennirnir

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Pétur sýslumaður og útilegumennirnir

Það er sagt að Pétur sýslumaður sem var í Krossavík í Vopnafirði hafi einu sinni farið verzlunarreisu til Akureyrar því honum hafi þótt þar betri verzlun en heima í Vopnafirði; lest hans hafði farið á undan, en hann hafi ekki verið tilbúinn fyrr en dægri síðar og lagt þá einsamall eða fylgdarmannslaus á Mývatnsöræfi. Sló þá yfir þoku og reið hann í henni lengi rétta leið þar til hann villtist lítið eitt af veginum, en um sama leyti létti í þokuna so hann varð strax afvilltur og sneri til réttrar leiðar. Sér hann þá hvar tveir menn koma flugríðandi suðvestan af öræfunum, annar á skjóttum hesti, en annar á brúnum, og var sá sem Skjóna reið langt á undan, því hann var miklu vakrari. Þeir stefndu beint á sýslumann og þykist hann sjá hvörjir vera muni, nefnilega útilegumenn eða fjallbúar. Sér hann að sér dugir ekki að ríða undan þeim fremra því hans skjótti hestur var so vakur. Fer hann því af baki og leysir upp reiðpoka sinn, tekur úr hönum þriggja pela flösku fulla af brennivíni; er sagt hún hafi verið sterk og þung og þykkt gler í henni. Hann drekkur ofan í hana hálfa og heldur so á henni í hendinni. Nú ber hinn bráðum að og án nokkurra orða stökkur af baki og ætlar að ráðast á sýslumann, en hann rekur flöskuna af öllu afli utan á vangann á þeim aðkomna upp við gagnaugað so hann rauk út af í rot, en flaskan fór í mola. Hleypur nú sýslumaður á hest sinn og heldur sinn veg, en gáði ekki að taka þann skjótta. Bráðum sér hann að hinn kemur þangað sem hans fallni stallbróðir liggur. Fer sá þá af baki þeim brúna og tekur þann skjótta og eltir sýslumann. Dregur þá bráðum saman með þeim.

Nú sér sýslumaður að sér hjálpar ekki undan að ríða, fer af baki við einn lækjarfarveg og velur sér þar nokkra steina. Nú sem hinn kemur hleypur hann af baki og vill ráðast á sýslumann, en hann lætur einn steininn fjúka og handleggsbrýtur þann aðkomna. Síðan ganga þeir saman og glíma og hafði sýslumaður sagt síðar, þegar til orða komst, að hann hefði séð sitt óvænna fyrir hinum einhentum, og hafði hann þó verið metinn tveggja maka maður að fjöri. Þó fór so um síðir að sýslumaður kom hinum undir og fara ekki sögur af viðskiptum þeirra eftir það nema hinn mun aldrei hafa staðið á fætur upp frá því.

Nú að þessu afstöðnu litast sýslumaður um og sér að sá rotaði er kominn á fætur og farinn að taka Brún. Tekur nú hann þann skjótta og fer hönum á bak, en rekur sinn, og dregur þá í sundur þar til algjörlega skilur með þeim. Kemst sýslumaður leiðar sinnar og veit ekki um hinn meira.

Nú er sagt liðið hafi nokkur ár þar til Pétur sýslumaður hafði enn nú farið verzlunarreisu til Akureyrar. Þá er sagt að í búðinni hafi verið að taka út maður með hring á kinninni því líkast sem eftir flöskubotn. Sýslumaður þekkir hann strax og segir: „Ertu hérna, kunningi?“ Hinn hafði öngu svarað, en gengið strax út. Sýslumanni varð dvöl í búðinni (líklega að frétta hjá kaupmanni hvað þessi hefði heitið og hvaðan hann væri). Fer hann þá að grennslast eftir hönum og er hans leitað um allan kaupstaðinn og fannst hann hvörgi, en sjö hestar fundust þar sem enginn kannaðist við og vörur að því skapi innlagðar í höndlunina sem svaraði af þeim sjö hestum, og er sagt að sýslumaður hafi tekið út á það í sinn reikning – og endar so þetta ævintýr.