Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Raunir Helgu þjónustustúlku

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Raunir Helgu þjónustustúlku

Á einu prestssetri fyrir norðan var prestur einn er hét séra Jón. Hann hélt þjónustustúlku er Helga hét; hann unni henni so mikið að hann vildi aldrei láta hana vera frá augunum á sér. Hann hélt líka vinnumann er Guðmundur hét; hann lagði ástarhuga á Helgu, en prestur vildi það eigi. Eitt haust fór Guðmundur fyrir prest kaupstaðarferð og hafði reiðhesta prestsins þá beztu. Nú lengdi honum ettir Guðmundi heim attur.

Einn góðan dag þvoði Helga mikið af taui og lét það úti vera seint um kvöldið, en dálítið var farið að vaka og voru konur að spinna. Heyrði þá Helga á glugganum hjá sér að hríð var komin; kvaðst hún ætla að taka inn þvottinn og fer ofan. Presturinn var ekki heima, en stundu síðar kom hann og spretti af hesti sínum og fór so inn í baðstofu og spurði hann hvar Helga væri. Fólkið sagði að hún hefði fyrir litlum tíma ofan farið og tekið inn þvott sinn. Prestur mælti að allur þvottur væri á snúrum uppi. Fólkið sagði að rigning hefði komið, en hann sagði það ekki vera því frost væri. Varð hann nú hryggvari í huga en frá megi segja að vita nú eigi hvar Helga væri niður komin. Hann ímyndaði sér að Guðmundur hefði nú lagzt út og mundi hafa stolið Helgu eins og sannaðist. Guðmundur fór aldrei suður, heldur tók hann þrjá hesta í viðbót og stal so sitt af hvurju og flutti til fjalla og fór svo til byggða og gat nú náð Helgu; lét hana nú ríða flóa og keldur, fjöll og hæðar þar til er hestar uppgáfust; brá hann beizli um herðar henni og teymdi hana með sér til híbýla sinna. Þegar þangað var komið var þar hvurki vott eða þurrt. Var hann nú búinn að láta hana svelta í fjóra daga og sjálfur var hann hálfhungraður. Fór hann nú frá henni og sagði að hún skyldi nú þar drepast. Grét hún nú sáran langan tíma og so fór hún að reyna að hreyfa sig. Tók hún hníf og skar í sundur húð loðna er þar var; gerði sér sokka af loðnu skinni og skó þar utan yfir. Gekk hún nú á stað og fékk hún marga hretskúr áður hún komst til byggða. Hún komst til Hafnarfjarðar og hafði hún vafið sig alla í skinnum; komst hún því þessa leið ósködduð. Gekk hún so í púlsmennsku og var hin duglegasta.

Um vorið komu margir danskir á skipum, meðal [þeirra] einn spekúlant; hann var jafnan á landi. Hann sá Helgu dögum oftar og var hún ætíð í skinnklæðum sínum er hún aflaði sér í útlegðinni. Þessi maður hafði gott álit til Helgu. Einu sinni tók hann hana tali og spurði hana hvar fyrir hún gengi allajafna sona búin, og sagði hún honum alla sína raunasögu. Grét hann þá af gleði yfir henni og sagðist óska þess til guðs að geta gert hana lukkulega, tók hana með sér um borð, gifti sig henni og lifði hún í ævarandi lukku. Fór hann nú um sumarið í burtu. Hann spurði Helgu hvurt henni léki ekki hugur á að hefna sín á Guðmundi. Hún sagði sig langaði til að geta sagt presti hvar hún væri niður komin. Fór hann annað sumarið ettir til Stykkishólms, þá sem spekúlant líka, og Helga með honum; þangað átti séra Jón að kaupa vörur það sumar.

En frá Guðmundi var það að segja að hann fór þennan vetur til prestsins attur og þóttist hafa mætt dalbúum einhvurjum sem hefðu stolið hestum sínum og haldið sér í varðhaldi þangað til hann eitt skipti hefði getað stolizt frá þeim og linnt ekki fyrri en hann komst til heimilis síns. Varð prestur honum alls hugar feginn, en aldrei varð hann með sjálfum sér ettir missir Helgu. Þetta sumar fóru þeir nú í kaupstaðinn og þegar byrjaðist höndlun. Lét nú maðurinn Helgu búa lítið hús á dekkinu hjá sér; hún sá alla er upp á skipið gengu, en enginn hana. Fyrsta daginn og annan var óttaleg ös og alltaf var maðurinn hennar að koma til hennar og spurja hana hvurt presturinn og Guðmundur kæmu ekki. Þessa daga báða sá hún þá ekki, en þriðja daginn sá hún þá báða koma um borð; benti hún þá manni sínum. Hann tók þá tveim höndum með gleði og sagði þeim að koma með sér ofan í k[á]etu. Drukku þeir og borðuðu, þar til kvöld var komið. Kallar [þá] kapteinninn á konu sína að koma. Vill þá prestur að þeir allir drekki dús, en kapteinninn hvíslar að konu sinni hvurt hann ekki megi gefa Guðmundi eitur í sitt glas, en hún bað hann það ekki gera. Fer nú presturinn að virða Helgu fyrir sér og spyr kapteinninn hvurra manna hún sé, því hann segist ekki hafa séð líkari kvenmann en hana og þjónustustúlku er hann fyrir fáum árum misst hafi og olli það sér hryggðar til dauðans. Roðnar þá Helga mjög og segir prestur hvurt ekki geti verið sú sama, og segir hún að sama sé skinnið þó umbreytt sé orðið. Fellur þá prestur í faðm hennar með fagnaðartárum, en Guðmundur er ýmist svartur sem sót eða fölur sem nár. Má hann nú segja sem er um allan sinn ásetning.

Fer so prestur í land daginn ettir og gefur Helga honum summu peninga og skilja þau nú með mörgum fagnaðarorðum. En so fer nú kapteinninn í burtu og tekur Guðmund með sér og vill drepa hann, en Helga vill hann lifi og er hann í þrældómi til dauðadags.

Lýkur svo þessari sögu að þau komu ekki framar til Íslands.