Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Síðumaðurinn og heiðabúinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Síðumaðurinn og heiðabúinn

Á fyrri öldum á oss ókunnu tímbili bjó maður nokkur á Síðu austur. Hann var auðmaður mikill og hélt þrjá vinnumenn eða fleiri. Það var siður hans eins og annara í austursveitum (ᴐ: Skaftártungu, Síðu, Fljótshverfi, Meðallandi og Álftaveri) að fara til kaupstaðar á Eyrarbakka og í Reykjavík á stundum. Hann lét vinnumenn sína fara með lestina og ætlaði þeim tímann svo að hann kæmi í Reykjavík hinn sama dag og þeir, og dvaldi þar í Víkinni degi lengur í sínum erindagjörðum; nokkrir segja hann hafi verið sýslumaður í Skaftafellssýslu.

Svo var í eitt sinn sem oftar að hann fór degi seinna en lestin úr Víkinni og hafði þá eins og endrarnær tvo gefna hesta til reiðar. En er hann kom austur á suðurheiðarnar sér hann hvar maður stefnir að honum þvers af leiðinni. Sá reið brúnskjóttum hesti og fór mikinn og stefndi á hann, og fór sá öngva mannavegu; en er hann sá ferð hans hvatti hann sporið slíkt er hann mátti. En er hann sá að saman mundi draga allt að einu fer hann af baki og tekur upp hjá sér flösku og saup á. Bráðum kemur hinn að og fer af baki og fallast þeim kveðjur. Sá spyr Síðumann hvort hann hafi peninga á sér. Hann kvað það vera. Hinn bað hann þá leggja þá af við sig, en hinn neitaði og sagðist ei mundi þá af leggja að raunalausu. Réðust þeir þá á og glímdu heldur sterkliga. Síðumaður var glímnari og féll hinn. Brá hann þá vasakníf sínum í munn hins aðkomna og risti upp að eyranu og bað hann það mark hafa; spratt upp síðan og á bak þeim brúnskjótta og rak sína á undan sér þar til hann náði mönnum sínum austur á heiðinni og voru þeir búnir að kippa ofan af nokkrum hestum og ætluðu að á. Hann bað þá leggja á stað sem bráðast og fara til byggða. Þeir gjörðu svo; gekk þeim ferðin vel. Liðu svo mörg ár að ekki bar til tíðinda og hætti hann að fara til kaupstaðar um nokkurra ára bil.

Eitt sinn datt það í hann að fara til kaupstaðar og fór hann á Eyrarbakka; þá reið hann þeim brúnskjótta með annan í togi. Þar kom hann um miðjan dag og ætlaði í búðina, en hún var læst. Hann kvaðst vilja inn komast, en honum var sagt það fengist ekki bráðliga. Það sagði hann sér þætti skrýtið ef fólk fengi ekki að höndla um miðja kauptíð þá hæst væri dags. Honum var sagt að kaupmaður ætti tal við mann einn og yrði hann þess að bíða að því væri lokið. Hann sagði það ei vera skyldu og kvaðst mundu mölva upp dyrnar ef ei væri upp lokið, gengur að dyrum og lýstur mikið högg á dyrnar svo að hrikti í hurðunni. Var þá búðinni upp lokið, en hann snaraðist innar í búðina. Situr þá maður fyri innan borðið og kennir hann þar glímufélaga sinn. Hann ávarpar hann þá á þessa leið: „Já, já, þá hittumst við hérna!“ Í sama bili sló hinn höndunum undir knésbætur sér og sprettur fram yfir borðið og rekur Síðumanninum utanundir og segir: „Þú mátt eiga allt það sem ég á hér í búðinni ef þú þegir.“ Því næst er hann úti og sér þann brúnskjótta, hleypur á bak honum og ríður í burt. Þessi aðburður þótti kaupmanni kynligur og spurði Síðumann um það hvernig af sér stæði. Sagði hann þá upp alla sögu. Þessi maður átti þar mikið inni og skiptu þeir því með sér. Því næst höndlaði hann við kaupmann með vörur sínar og hélt heim og bar ekki til tíðinda um langa tíma.

Eitt sinn um jólaföstubil þá er hann var farinn að eldast kom að honum sú fýsi að fara á rótafjall með mönnum sínum. Hann fór á stað með þremur vinnumönnum sínum norður í heiðar. Þeir höfðu í hendi göngustafi, en hann sterkan rótagrefil. En er þeir höfðu skamma stund á fjalli verið féll á þá blindbylur; féll á þá villa mikil og villtust lengi. Um síðir varð mikið bratt á fótinn. Gengu þeir samt áfram og fóru villir vega þar til þeir komu á dalbrún eina. Þar í dalnum var logndrífa, en skarfjúk á brúnunum. Þeir komu að skarði einu og gengu þar ofan; gengu áfram þar til þeir komu að fjárhúsi miklu. Þeir gengu þar inn og biðu, því hann sagði féð mundu heim rekið um kvöldið. Þeir biðu lengi þar til þeir heyrðu hund geyja og mann hóa. „Hér mun ei vinum að fagna,“ segir Síðumaðurinn, „og heyrist mér svo á hljóðinu sem miklu sé hundur þessi verri viðureignar en maðurinn; og kjósið hvert þér vilið: að fást þrír við hundinn eða manninn.“ Þeir kváðust mundu taka á móti hundinum. En er féð var allt inn komið – það var lambahópur mikill – kemur smalinn á eftir og ætlaði að telja. En er hann kemur inn setur Síðumaðurinn grefilinn í höfuð honum og fær hann bana; en félagar hans ráðast á hundinn og eiga fullt í fangi, því hann var grimmur mjög og stór, en hann fulltingir þeim. Síðan fara þeir þaðan og komu að öðru húsi og biðu þar. En er hann heyrði manninn hóa og hundinn geyja segir hann svo fyri að þeir skuli tveir á hundinn – „en ég með öðrum á manninn“. Ráðast þeir nú að og lauk svo að þeir drápu hvorutveggju og voru þeir þá særðir eftir hundana. Þaðan fóru þeir enn og komu að hinu þriðja sauðahúsi. En er þeir voru inn komnir heyra þeir til sauðamanns og þykir Síðumanni sem hann muni þrekmikill – „og skulum vér þrír á móti honum og mun þó ei af veita að því er ég held, en einn skal á móti hundinum“. Eftir þannig fyriskipað snarast þeir út úr húsinu og eiga harðan leik; samt lauk svo að þeir báru hærri hlut. Þaðan héldu þeir og komu að bæ einum miklum og reisugligum. Þeir gengu að dyrum og logaði þar ljós. Þar sáu þeir kvenmann; sú var að berja marga fiska. Þeir báðu hana að gefa sér að drekka. Hún fór inn og sagði piltarnir væru komnir og vildu fá að drekka. En á meðan hún var inni kastaði hann tölu á fiskana og sá þeir voru þrjátíu og þrír. En er hún kom aftur með drykkinn og sá þá bað hún guð að hjálpa sér, en þá að forða sér því þeir yrði drepnir ef við þá yrði vart; sögðu henni af drápi smalanna, en kváðu ei hægt að forða sér. Hún sagði það satt vera og segist vera búin að reyna slíkt – „þar ég er úr sveit og hefi þrisvar reynt til að strjúka, en alltaf náðst og er ég nú búin að gefa mig upp.“ Þeir báðu hana skila til búsbændanna að lofa sér að vera. Hún fór og kom aftur og kvað það til reiðu. Enga menn sáu þeir um kvöldið nema hana. – Síðan fylgdi hún þeim í hús eitt og í annað hús þar út af; þar var í loft eitt og annað loft þar af upp. Þar vísaði hún þeim til rúma og dró af þeim klæði, en sagðist ei ætla að bera þau í burtu og bað þá vera hina vörustu um sig. Síðan fór hún.

Þar á loftinu var hleri fyri gatinu að neðan og var fellt undir hann stífa. Þeir lágu nú þarna. Hann bað þá ei sofna og ei á sér bæra þó um þá væri vitjað. En er nokkuð var á nótt liðið verða þeir þess varir að hleranum var frá hleypt; létust þeir þá í fastasvefni. Þá var hljóðliga inn í loftið gengið. Sá maður var með öxi allmikla og biturlega í annari hönd, en ljós í annari. Hann gekk að rúmi hins fyrsta og annars og þriðja og lagði hönd á brjóst þeim og mælti við hvern þeirra í hljóði: „Lint hjarta og deigt og hann skal lifa.“ En er hann kom að foringjanum og lagði hönd á brjóst hönum þá mælti hann: „Hart hjarta og hreint og skal hann deyja.“ Og í sama bili hjó hann til hans og ætlaði á hálsinn er fram lá á stokkinn, en hann hljóp upp á móti og greip fyrir framan höndur honum og brá honum hælkrók um leið. Varð honum þá laus öxin er hann féll, en Síðumaðurinn reiddi að honum öxina og hjó af honum höfuðið; þekkti hann þar glímufélaga sinn. En í því er öxin reið að honum mælti hann: „Upp, upp mínir þrjátíu úr hvílugólfinu í andskotans nafni!“ Þá kallaði Síðumaðurinn: „Upp, upp mínir þrír í Jesú nafni!“ Var þá mikið um að heyra þar niðri, en hann bað lagsmenn sína kippa upp hverjum kropp er hausinn af færi – „en ég mun annast hausana.“ Svo var þar þröngt um að ekki komst upp nema einn í senn og lauk svo að hann drap þá alla þrjátíu; biðu síðan litla stund því þeir voru hræddir um þar mundu fleiri vera. En er þeir urðu einkis varir fóru þeir ofan, fundu þar fátt eitt af kvenfólki, en þær mæðgur, dóttir og kona dalbúans, stukku út nærri allsberar úr rúmunum og fundust dauðar um morguninn. En að morgni létu þeir allt kvenfólkið segja sér ævisögu sína, en þær sem ei vildu segja drápu þeir. En kvenmaður sá er þeir hittu um kvöldið sagði þeim þetta hefði verið sýslumaður þeirra dalbúanna.

Um morguninn söfnuðu þeir saman fénu og héldu á burtu; það var fjöldi mikill og fór kvenmaðurinn með þeim. En því höfðu þeir svo mikinn hraða á að aðrir dalbúar skyldu ei við varir verða; héldu svo til byggða, og bætti það mjög auðlegð þeirra.

Sumir segja þeir hafi farið tómhentir nema með kvenmanninn, en safnað her manns og eyðilagt dalinn um vorið.