Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Símon á Hóli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Meðan dr. Hjaltalín var í skóla var hann vanur að gista hjá Símoni á Hóli í Hörðudal bæði haust og vor þegar hann fór í skóla og úr. Einu sinni þegar hann kom að Hóli hitti hann svo á að allir heimamenn voru venju fremur uppvægir, en vopn og verjur lágu hingað og þangað um húsin. Þegar hann spurði hvernig á þessu stæði sagði bóndi honum sem var bæði greindur maður og gætinn upp alla sögu sem hér segir: Fáum dögum áður höfðu börn Símonar mætt fjárrekstri sem voru í á að geta tvö til þrjú hundruð fjár; því þau höfðu farið lengra upp til óbyggða en vant var af því þau voru að leita að nokkrum kindum sem vantaði. Tveir menn voru með fénu og höfðu langa stafi í höndum og bönduðu stöfunum ógnandi að börnunum þegar þau komu nærri þeim. Við það hlupu börnin heim og sögðu frá því sem fyrir þau hafði borið. Urðu þá til sextán menn í sveitinni sem tóku sig saman um að elta rekstrarmennina vopnaðir því menn þóttust vita með vissu að féð mundi allt stolið sem þeir ráku. Þar sem graslaust var var hægt að rekja ferilinn eftir reksturinn og þá sást að fjórir menn höfðu fylgt rekstrinum. Var þeim svo veitt eftirför suður og austur hjá Baulu og allt austur í Baldjökul því þangað lágu slóðirnar. Var þá komin nótt þegar þangað var komið svo mennn urðu að hverfa þaðan heim aftur af því það þótti ekki ráðlegt að hætta sér í náttmyrkri á jökulinn þar sem menn þóttust geta búizt við að hitta fyrir útilegumenn.