Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sýslumannsdóttirin frá Munkaþverá

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Sýslumannsdóttirin frá Munkaþverá

Það var einu sinni sýslumaður á Múkaþverá; hann átti tvo sonu og eina dóttir; hún hét Sigríður. Ólust þau nú öll upp hjá föður sínum þar til þau voru komin um tvítugt, og þótti Sigríður mikið afbragð í öllu er hún átti að sér að hafa. Vildi þó faðir hennar koma henni til enn meiri mennta og koma henni suður, og fór hann þessa ferð snemma sumars með dóttur sína og fóru bræður hennar með þeim.

Lögðu þau snemma morguns upp á langan fjallveg. Þegar leið á daginn varð hiti mikill og áðu sýslumaður og synir hans á flöt einni, en Sigríður lét hest sinn labba hægt á undan þangað til hún var komin yfir leiti sem bar á milli hennar og feðganna. Fór hún þá af baki í litlum hvammi og hélt í hest sinn og lét hann bíta. Sigraði hana þá so sætur svefn að hún hneig niður og sofnaði. Ettir litla stund hrökk hún upp við hestaspark mikið og sér hún þá hesta föður síns og bræðra koma fyrsta og með reiðtygjum þeirra, og sér hún föt þeirra bundin í hnakka þeirra og sér þau vera öll ötuð í blóði. Eru nú hestarnir reknir í lofti so sem þeir geta farið. Síðan sér hún koma tólf menn ríðandi þar á ettir. Verður henni mjög bilt við þetta allt og er hún sem í draumi, veit eigi neitt til ráða. Fara þeir nú af baki og taka Sigríði, binda hana í söðul sinn og reka nú áfram. Er þeir koma í dal mikinn sér þar stóran bæ og ríða þeir þar heim og fara af baki og fara nú inn með stúlkuna. Eru þeir henni mjög góðir og þó einn þeirra helzt. Er hún þar um sumarið.

Þegar líður að réttum fóru þeir að tala um fjallgöngur og var það hálfum mánuði fyrr en gengið var í byggð. Voru þeir vanir að ganga þeim tíma fyrri en byggðarmenn. En einn af þessum mönnum varð so veikur að hann gat ekki í fötin farið; mátti hann til og heima vera og beiddu þeir hann að gæta Sigríðar og eins hana að annast hann veikan. Fara þeir nú eins og vanir voru. Var hann þá so veikur að valla hugði hún honum líf. En er þeir voru farnir rís hann úr rekkju og klæðir sig, fer til Sigríðar og segist hafa gert sér upp veiki – „til þess að geta talað við þig; og skaltu nú vita allt hið sanna. Þetta eru útilegumenn er hafa stolið þér; eins hafa þeir stolið mér og bróður mínum. Við höfum þó ekki unnið nein ódáðaverk nema tekið fjallafé með þeim. Við bræður erum utanlandsættar og vorum að reisa og fleiri er vísuðu okkur veg. Þeir drápu þá, en handtóku okkur. Vil ég nú segja þér ráð það er ég hefi um hugs[að] að frelsa okkur úr þessum vandræðum sem er það að þegar þeir eru nú nýkomnir þá skaltu fara út þangað er eitt lítið hús er. Þar skammt frá er hrosshaus einn; Skaltu vera að leika þér að honum og munu þeir gæta að þér og láta klóklega. Munu þeir þá segja að hún sé að leika sér við haus þennan, og þegar þeir eru farnir skaltu segja: „Upp Gráni, upp að Múkaþverá!“ Takist nú þetta ráð er ég hefi sagt þér hljótum við að binda tryggðir með okkur.“ – og tók hún því vel og sagðist hann ætla að gefa henni til tryggðamerkis hálfan hring á móti sér og þar [með] linda ofinn úr silki og hári og gaf henni hann hálfan á móti sér, og ef hann héldi lífi mundi hann koma aftur ettir þrjú ár.

Leið nú þar til þeir ellefu komu með þrettán hundruð fjár – hundrað á mann – og var þá þessi eins veikur og hann var þá er þeir fóru. Og er allir vóru setztir að borða fer Sigríður út ettir áðurnefndu umtali og fór allt eins og henni var sagt. Víst vissi hún ekki af sér fyrri en hún kom á hlaðið á Múkaþverá. Lofaði hún hátt og í hljóði lausn sína þó mikið væri ettir. Gekk hún í bæinn til móður sinnar og urðu fagnaðarfundir fyrir þeim mæðgum. Sagði hún móður sinni raunasöguna alla af bræðrum og föður sínum og sjálfri sér. Grét móðir hennar mjög af ógæfu sinni. Fóru þær síðan suður og fyrir yfirréttinn og sögðu frá öllu eins og til gekk. Voru þá sendir sextíu menn, allir vel hraustir og fór Sigríður líka. Urðu þeir nú handteknir og var farið með þá alla suður og voru dæmdir til dauða og dysjaðir allir, en Sigríður beiddi um að gefa bræðrum líf og voru þeir sendir út, en þeir höfðu fengið náð að ganga til biskups nokkurs í Kaupmannahöfn. Og er þeir sáu hann gekk hann á móti þeim og umfaðmaði þá blíðlega og mælti hvílíkur gleðidagur þetta væri. Þeir voru dæmdir sýkn saka af öllu. Gekk nú Grímur að læra og ettir fimm ár var hann útlærður sýslumaður.

Er nú að segja frá Sigríði að hún og móðir hennar fóru heim og sátu um kyrt. Komu margir og beiddu hennar, en hún kvaðst eigi vilja giftast og varð móðir hennar aum út úr þvergirðing hennar. Og er þrjú ár voru liðin sá hún gerla að Grímur mundi ei aftur koma; var hún í rólegheitum í tvö ár og vildi jafnan ein vera.

Einu sinni kom maður þangað mjög tíðuglegur og beiddi Sigríðar sér til handa, því hann sagðist vera búinn að fá þessa sýslu og vildi því gera hana lukkulega. Hún mælti: „Ég gifti mig ekki hvur sem mín biður.“ Gekk móður hennar þar að máli og mælti: „Dóttir góð, ég dey gerir þú ekki þessa manns vilja.“ En Sigríður var hin sama; hún kvað[st] vera búin að heita því að giftast ekki. Hann sagðist þá taka hana með valdi og eiga hana og gekk so ríkt að henni að hún mátti til; talaði hún ekki orð, en grét og var því nær sprungin. Hann afklæddi hana og lagði í hvílu hjá sér og gat hann ekki með neinu móti huggað hana; og að síðustu mælti hann: „Mín elskulega, grát ekki lengur“ – og tók upp gripi þá áðurnefndu og sýndi henni og bað hana að koma með á móti. Nú getur hver getið nærri gleðifundum þeirra.

Endar so þessi saga.