Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sýslumennirnir

Úr Wikiheimild

Maður er nefndur Stefán; var hann til heimilis í Rangárvallasýslu. Mikill var hann og sterkur og allungur að aldri. Fór hann oft í eftirleit og tók fé bænda sem óvíst var, rak til byggða og fékk hvörjum sitt. Eitt haust fór hann að vanda sínum í eftirleit. Finnur hann lítið fé. Þess vegna fór hann lengra en hann var vanur þar til hann kemur að einu dalsmynni. Finnur hann þá megna reykjarlykt. Gengur hann þar til hann sér fjórtán reyki leggja upp úr dalnum. Þar næst sér hann mann mikinn og vasklegan, gengur til hans og heilsar hönum. Hinn tekur kveðju hans, spyr að tíðindum og erindum. Stefán segir sem var. Þá mælti fjallabúi: „Ekki þarf hér að kindum að leita, því þær hafa hér ekki komið, en bezt mun þér að fara ekki lengra. Líka mun þér bezt að snúa heimleiðis því hér hefur þú ekkert að gjöra lengur. En það ræð ég þér að láta engan vita þína ferð hingað eður hvað þú hefur farið; annars mun fyrir þér illa fara.“ Stefán lofar því. Að svo mæltu kvöddust þeir. Fór Stefán heimleiðis og þykist margvís orðið hafa.

Þegar hann er heim kominn segir hann frá ferðum sínum og þykir mikils um vert. Fréttist víða af ferðum hans um sýsluna og loksins kemur allt þetta fyrir sýslumann. Um veturinn boðar hann Stefán til sín. Vill hann þá ferð ekki undir höfuð leggja og fer á fund sýslumanns. Fagnar hann Stefáni vel og spyr tíðinda. Stefán sagði slík sem voru. Um vorið fer sýslumaður á þing og rekur sýsluna. En er á líður að menn koma af þingi þá velur hann úr sýslunni tólf menn þá hraustustu sem fást kunnu. Meðal þeirra voru tveir Jónar ramir að afli svo hvergi fannst þeirra jafningi; vissi enginn þeirra afl. Reið sýslumaður og þeir þrettán saman til fjalls. Vísaði Stefán þeim leið. Fóru þeir þar til þeir koma að einum dalsmunna. Riðu þeir þá eftir dalnum og sáu að Stefán hafði rétt hermt. Sáu þeir í dalnum fjórtán bæi. Riðu þeir þá að bæ þeim sem fyrst varð fyrir. Var það mikill bær og reisuglegur og svo hár garður í kringum túnið að hvörgi sást inn yfir. Var hlið á þeim kantinum sem vissi til norðurs og í hliðinu járngrind ærið sterk. Var þó hliðið opið. Riðu þeir nú allir heim að bænum og kveðja dyra. Kom þá út ungur kvenmaður. Spyr sýslumaður að húsbónda; kveðst hann vilja finna hann. Stúlkan gengur inn. En að stundu liðinni kemur maður fram, mikill og vænn, á rauðum klæðum og var kjóll hans úr skarlati. Sýslumaður heilsar hönum virðuglega og þeir allir; hann tekur vel kveðju þeirra. Síðan leiðir bóndi sýslumann í stofu og félaga hans. Borð var um þvera stofuna og bekkir fyrir báðum megin með timburveggnum og eins fyrir gafli stofunnar og dyraþili. Leiðir búsbóndi þá með bekkjunum til enda hússins og setti þá alla á einn bekk fyrir gafli og sýslumann í miðið. Er þeim nú öllum beini veittur og setjast þeir undir borð. En er þeir voru mettir fer húsbóndi að spyrja sýslumann að erindum og játar sýslumaður hið sanna. Voru þá borð upp tekin og diskar inn bornir. Þá mælti fjallabúinn: „Þessu get ég ekki trúað, því yður varðar engu þessi sveit og vil ég fá að vita hið sanna.“ Sýslumaður svarar: „Úr því við vorum sannfærðir um að byggð væri hér vildi ég vita hvört hér væri þjófar eður ærlegir menn og hvört þeir menn sem hér væri hefðu nokkra kristna siði og kristin lög eður að öðru leyti hvört þeir mundu haga sér eins og ráðvandir og góðir menn.“ Þá mælti húsbóndi: „Hvaðan hafið þér fengið köllun til þess eður skipan?“ Hinn svarar: „Þar ég áleit þessa ferð embættisskyldu mína vildi ég hana ekki undir höfuð leggja.“ Húsbóndi mælti: „Þar ég er viss um að hvörki yður né öðrum kemur þetta við, þá getum vér ekki þessu trúað, en þó get ég látið í ljósi nokkurn vott þess að við erum kristnir og engu síður lærðir í trúarfræðinni en þið.“ Síðan lýkur hann upp einum stórum skáp í þilinu og sýnir þeim úr hönum bækur margar í alslags vísindagreinum sem þá voru tíðar svo sýslumaður undraðist og þeir allir. En er þeir höfðu skoðað bækurnar mælti húsbóndi: „Þetta vona ég sé nóg til að sýna að við erum kristnir. En hitt erum við saklausir af að hafa lagzt á fé manna og stolið því. Vil ég bæði mig og aðra hér undan bera því ámæli, því ég er hér sýslumaður eður sveitarhöfðingi og áttuð þér ekkert með að forvitnast um vort félag og trúi ég ekki enn.“ Sýslumaður segir það þó satt vera og bera þeir hönum allir meðvitni félagar hans. En er hann sagði þetta stóðu tólf menn upp undan borðinu. Spyr húsbóndi þá ens hins sama, en þeir játuðu því allir. Benti hann þá mönnum sínum og stökk sjálfur inn yfir borðið og ræður á sýslumann. Hvör fjallbúi tók sinn byggðarmann og verður nú harður aðgangur um alla stofuna. Gengur nú allt upp hvað fyrir þeim var og titraði stofan öll og var hún bæði mikið hús og ramgjört. Verjast byggðarmenn með kapphreysti mikilli, en hinir sóttu með æðigangi svo miklum að byggðarmenn féllu allir, þó eftir hrausta vörn. Var sýslumaður bundinn og hvör í sínu rúmi. Þurfti enginn fjallbúi öðrum að hjálpa og batt hvör sinn glímunaut í sínu rúmi. Voru þeir hjá fjallabúum hálfan mánuð. Eftir það stefnir sveitarhöfðingi fjallabúum saman á þing. Voru byggðarmenn þangað færðir. Segir höfðingi fjallbúa þeim erindi sýslumanns og manna hans. Fjallbúar kváðust óvanir slíkum gestum og heimsókn. Þá mælti fjallbúahöfðinginn: „Tveir eru kostir fyrir hendi: annar að vér látum þá vinna okkur trúnaðareið, en annar að vér drepum þá, hvört sem betra þykir.“ Lögðu það margir til að þeir væru drepnir og kváðu það rétt fyrir heimsku þeirra og forvitni. Þá mælti höfðingi fjallbúa: „Ekki er ég þess fýsandi því ég hygg að hér sé komið hið bezta mannval að hreysti og drenglyndi úr öllu Rangárþingi. Munu þeir ekki rjúfa eiða sína ef vér þeim líf gefum. En að öðrum kosti þar þetta er sýslumaðurinn og allir hinir gildir bændur mun verða eftir þeim leitað og getur þar mikið illt af hlotizt því þetta er ekki einstakur maður, heldur allt mannval sýslunnar.“ Kom svo um síðir að þingmenn báðu hann fyrir sjá. Talar hann þá til sýslumanns þessum orðum: „Viljið þér nú þiggja líf af okkur fjallabúunum?“ Sýslumaður játar því ef hann fái líf fyrir sig og menn sína. Fjallbúinn kvað svo vera skyldi ef hann og þeir allir vildi sverja þeim trúnaðareið að segja ekki nokkrum manni eður lifandi skepnu frá sinni ferð eður hvar þeir hefði verið síðan þeir fóru að heiman og ekki að segja til þessarar byggðar nokkrum manni. Þessu játar sýslumaður og unnu þeir allir eiðana. Síðan eru þeir leystir. Voru þeir nú af böndunum, fangbrögðunum og öllu þessu umfangi mjög þrekaðir og stirðir, bláir og marðir af handagangi fjallbúa. Býður fjallbúahöfðingi þeim nú gisting og eru þeir þar um nóttina í góðu yfirlæti. Töluðu þeir lengi margt sýslumaður og fjallbúi. Um morguninn voru þeim fengnir hestar þeirra og reiðtygi og það sem þeir þurftu við til ferðarinnar. Skildu þeir við fjallbúa með vináttu og er ekki sagt af ferðum þeirra fyr en þeir komu hvör til síns heimilis og sáu menn bandaförin á höndum og fótum; voru þeir víða bláir og þrútnir. Allir héldu þeir vel eiða sína og vissi enginn um ferðir þeirra. Um sumarið dó sýslumaður og sex aðrir og að ári liðnu voru þeir allir látnir nema Jónarnir; þeir lifðu nokkur ár og voru þeir fóstbræður. Höfðu þeir lofað að hvör sem lengur lifði skyldi leggja hinn á líkbörur og veita þjónustu.

Nú kemur að því að annar Jóninn deyr. Er hinn þá sóttur að veita hönum umbúð, hvað hann og gjörði; fór með hönum sonur hans fjórtán vetra gamall og var hjá föður sínum. En þegar hann lagði hendurnar í kross á brjóst eins og þá var siður sagði drengurinn: „Furðu digrir og vöðvaþreknir eru þessir handleggir, faðir minn, og mun langt áður slíkir menn finnast að hreysti og atgervi.“ „Já,“ segir Jón, „en miklar höndur voru það sem bundu þessar höndur einar.“ Drengur mælti: „Hefur það nokkurn tíma skeð?“ Já,“ segir Jón. „Nær var það gjört og hvör gjörði það, faðir minn?“ „Ég má ekki segja þér það, sonur minn.“ En þegar þeir fóru heim spurði sonur hans að því enu sama. Gengur þá Jón að steini einum og segir hönum söguna og því er hún hingað komin. Lifði hann skamma stund þar eftir. – Endar svo þessi saga.