Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sagan af Ívari, Bjarna og Þorsteini

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Ívari, Bjarna og Þorsteini

Það er upphaf þessar sögu að Brynjólfur hét bóndi er bjó í Svartárdal; hann var ríkur og átti sjálfur jörðina er hann bjó á. Hann átti væna konu og með henni tvo syni og hét sá eldri Ívar, en sá yngri Bjarni. Ólust þeir upp hjá foreldrum sínum þar til þeir vóru fullorðnir. Þeir bræður vóru ólyndislíkir. Ívar var hæglyndur og góður og hafði vináttu af hvörjum manni er kynntust nokkuð við hann, en Bjarni skapbráður, harður og illur og ekki vinsæll.

Nú leið fram nokkur tími þar til bóndi lagðist mikið þungt, lá lengi þar til hann dó. Var hans útför gjörð vegleg. Nú eftir dauða bónda var farið að skipta eigum hans með þeim bræðrum. En fyrir það að Ívar var eldri og vinsællri en bróðir hans þá skiptist honum öll jörðin, en Bjarna lausafé. Af þessu varð Bjarni reiður við bróður sinn að hann þóttist verða undir í skiptunum. Litlu þar á eftir gifti Ívar sig og fór að búa á jörð sinni og bað Bjarna bróður sinn að vera hjá sér vinnumann. Bjarni gjörði það, en þó með illu og aldrei talaði hann eitt vinsamlegt orð við bróður sinn allt það ár sem hann var hjá honum þar til um vorið að hann fór í burtu. Hvarf þá Bjarni burt úr sveitinni og enginn vissi hvort hann fór. Var hans víða leitað og fannst Bjarni hvörgi og var mikið um það talað af alþýðu hvað af honum hefði orðið.

Nú víkur sögunni til Ívars að hann tók sér aftur vinnumann í staðinn bróður síns um vorið og líkaði Ívari vel við hann. Nú líður sumarið til gangna að allir bændur létu fara í göngur eftir vanda nema Ívar var tregur til þess. Samt lét hann vinnumann sinn fara. Nú komu menn úr göngunum nema maður Ívars kom ekki og hann vantaði fjölda af fé sínu framar venju, og varð Ívar mjög aumur af því.

Aftur um vorið tekur Ívar sér enn vinnumann og líður nú til gangna. Fóru menn í göngur nema Ívar vildi öngvan láta fara. En vinnumaður hans vill endilega fara og lét Ívar það eftir honum svo hann fór. Nú fór eins og fyrri að allir komu aftur úr göngunum nema maður Ívars og þriðjung vantaði af fé hans. Af þessu varð Ívar svo aumur að hann nærri lagðist.

Nú leið nokkuð fram eftir vetrinum þar til að einu sinni ber svo til að Ívar fór til messu ásamt fleira fólki. Þegar það fer aftur frá kirkjunni og Ívar með því og það er komið nokkuð á heimleið kemur til þess maður ókenndur. Hann heilsar upp á fólkið mjög kompánalega. Það tók vel kveðju hans og spyr hann að heiti, en hann sagðist Þórsteinn heita. Nú varð hann því samferða og gaf Þórsteinn sig á tal við Ívar og gengu þeir sér. Nú tala þeir um marga tilburði þar til að tal þeirra kemur að því að þeir fara að tala um manna- og kindahvarf Ívars. Þórsteinn spyr Ívar að hvað hann haldi að því muni valda. Ívar segir: „Ég veit það ógjörla, en svo lítur það út að það sé af manna völdum.“ Nú spyr Þórsteinn Ívar að hvört hann haldi nokkurn vinnumann. Ívar neitar því. Þá segir Þórsteinn við hann: „Viltu þá ekki að ég fari til þín fyrir vinnumann?“ Ívar segir: „Nei, ég atli mér ekki að halda fleiri vinnumenn en ég er búinn svo þeir fari ekki eins og hinir; mér hefur fallið það nógu þungt.“ Þá segir Þórsteinn: „Óhræddur máttu taka mig þess vegna að ekki er ég hræddur um að mér verði það að meini og vil ég að þú hættir á það.“ Og nú verður það að Þórsteinn vistast hjá Ívari. Nú fer hann heim með Ívari og er hjá honum nokkra daga og féll honum vel við Þorstein. Svo fór hann í burtu og skildu þeir með vináttu. Nú um vorið fer Þorsteinn til Ívars og tók hann vel við honum. Um sumarið var Þórsteinn hinn duglegasti og þarfasti í öllu og þótti Ívari mjög vænt um hann. Nú leið allt til gangna. Fóru þá menn í göngur eftir vanda sínum nema Ívar lét öngvan fara. Þegar Þorsteinn sér það kemur hann til Ívars og spyr hann að hvört hann ætli ekki að láta sig fara í göngurnar. Ívar segir: „Ég læt þig ekkert fara; það er nóg að ég er búinn að missa tvo vinnumenn mína þó ég missi þig ekki þann þriðja.“ „Það fer ekki svo um mig,“ segir Þorsteinn, „og vil ég fara.“ Og svo verður það að hann fer, en þó Ívari nauðugt. Nú ríður Þorsteinn á stað á eftir gangnamönnum.

Nú verður að yfirgefa Þorstein, en fylgja hinum eftir. Nú koma gangnamenn heim með sauði sína og höfðu allir heimt vel nema Ívar. Hann vantaði þriðjung af fé sínu og ekki kom Þorsteinn. Nú þótti Ívari fram úr hófi keyra með missir sinn og varð nú svo aumur að hann lagðist, því nú þótti honum mest fyrir að missa Þorstein ásamt öllu fénu, en allir vinir hans hresstu hann og hugguðu og sögðust skyldu bæta honum skaða hans með féð.

Nú verður að skilja við þá og fylgja eftir og ná Þorsteini. Það er nú frá honum að segja að hann gefur sig ekkert að gangnamönnum nema heldur aðra leið og ríður fram á fjöll og öræfi, heldur það hraðasta áfram hvað hann getur nætur og daga þar til hann kemur loksins að einu háu felli; hann ríður upp á það. Þegar hann kemur upp á fellið þá sér Þórsteinn fram í einn dal. Hann ríður þangað og fram í dalinn og eftir honum. Eftir dal þessum rann á ein. Þorsteinn ríður með henni þar til hann er kominn fram í miðjan dalinn, þá sér Þorsteinn tvo bæi, annan minni, en annan stærri. Sá stærri stóð fyrir handan ána, en sá minni þeim megin sem Þórsteinn var. Nú vill Þórsteinn komast yfir ána og fara á stærri bæinn, en hann gat það ekki því hann fann hvörgi vað á ánni svo hann mátti snúa heim á þann minni bæinn. Nú ríður Þorsteinn heim á hlaðið, stígur af baki og ber að dyrum. Það kemur út ungur kvenmaður; Þórsteinn heilsar henni og spyr hana að heiti. Stúlkan segist heita Þórgerður. Þorsteinn sér að hún er dauf, en lízt þó vel á hana. Þórsteinn spyr hana að hvör þar eigi húsum að ráða. Hún segir: „Faðir minn.“ „Skilaðu þá inn,“ segir Þorsteinn, „að ég vilji finna hann.“ Stúlkan gengur inn og kemur út aftur gamall maður, mikið stór vexti, grár af hærum, mjög daufur, en ekki var hann neitt ljótur. Þórsteinn heilsar honum og spyr þann gamla mann að heiti, en hann segist Jón heita. Þórsteinn spyr hann að hvar vaðið sé á ánni. Bóndi segir: „Það er ekkert.“ „Hvörnin er þá farið yfir hana?“ segir Þorsteinn. „Það er ferjað,“ segir bóndi. „Ferjaðu mig þá,“ segir Þorsteinn. „Ég er búinn að yfirgefa það,“ segir bóndi. „Hvör ferjar þá?“ segir Þórsteinn. „Dóttir mín gjörir það,“ segir bóndi.

Í því kemur stúlkan út og stendur hjá þeim. Þorsteinn víkur sér að henni og biður hana að ferja sig, en hún neitar því. Þórsteinn segir: „Ég skal gjalda þér ferjutollinn“ – og tekur upp peninga og vill fá henni, en hún tekur ekki við þeim. Þorsteinn segir: „Hvörnin kemur það til að þú vilt ekki ferja mig?“ Þá anzar bóndi: „Það er ekki von að hún vilji gjöra það, því hér hafa komið tveir menn sitt haustið hvör og hefur hún ferjað báða, en hvörugur aftur komið.“ „Það tekst ekki svo til að ég komi ekki aftur,“ segir Þórsteinn og biður bónda að geyma hestinn sinn á meðan, og eftir langa jögun úr Þorsteini gengur stúlkan á stað, en Þórsteinn fær bónda hestinn, kveður hann og hleypur á eftir stúlkunni. Nú koma þau að ánni og setja fram ferjuna og fara upp í hana. Nú situr stúlkan kyr og tekur ekki til áranna og lætur hrekja ofan með bakkanum. Þorsteinn spyr hana að, því hún rói ekki, en hún anzar öngvu. Þórsteinn hafði aldrei róið, en samt út úr ráðaleysi tekur hann til áranna og svamlar upp að bakkanum, stekkur reiður upp úr ferjunni og segir um leið við stúlkuna: „Ekki get ég goldið þér ferjutollinn í þetta sinn, en þegar ég kem aftur þá skal ég gjöra það.“ Nú rær stúlkan yfir ána og þykir Þórsteini hún kunna að taka skarplega til ára. Svo setur hún ferjuna og gengur heim.

Nú heldur Þórsteinn heim að stærri bænum og ber þar að dyrum. Það kemur út ungur kvenmaður, mikið glaðleg, en samt lízt Þórsteini illa á hana. Þórsteinn heilsar henni og spyr hana að heiti; hún segist heita Matthildur. Þá segir Þórsteinn við stúlku þessa: „Skilaðu fyrir mig inn til þess sem hér ráða fyrir að ég biðji að lofa mér að vera, því ég er langt að kominn og orðinn lúinn, en komið fast að kvöldi.“ Stúlkan gengur inn, kemur strax aftur og segir við Þorstein að hann fái að vera – „og á ég að fylgja þér í skemmu“. Nú ganga þau til skemmunnar. Stúlkan lýkur henni upp og leiðir Þorstein inn í hana og setur hann þar á rúm; stóð það innarlega í skemmunni og var hálfdimmt á því og öllum innra hlut skemmunnar, en að framanverðu í henni var nokkuð bjart. Nú leysir stúlkan af Þorsteini. Hann biður hana að lofa skónum að vera hjá sér, en hún segir að hún skuli færa honum þá, þá hann sé vaknaður. Og í því hleypur hún í burtu með þá frá honum og út úr skemmunni, skellir henni í lás. Þetta þykir Þorsteini óviðkunnanlegt, leggur sig ekki út af, heldur situr hann uppi litla stund þar til hann fer ofan af rúminu og ofan á gólfið og þreifar fyrir sér og finnur ekkert nema reiðinga. Þórsteinn tekur einn þeirra og vefur saman í stranga, bindur utan um hann og leggur undir fötin í rúmið og er það líkast sem maður væri. En Þórsteinn fer upp á skemmubitann og situr þar fast við sperruna.

Nú líður tímakorn þar til Þórsteinn heyrir að gengið er hljótt að skemmudyrunum og henni lokið upp; gengur þar inn maður með exi í hendinni. Tunglsljós var úti og lagði það inn í skemmuna að neðanverðu svo Þorsteinn sá vel manninn. Nú gengur maður þessi inn gólfið og að rúminu og sýnist honum eitthvað liggja þar og ætlar komumann vera. Reiðir hann þá upp öxina tveim höndum og ofan í hann, en ekkert kom hljóð af þeim sem höggvinn var. Það gremst hinum og segir: „Fannstu ekki til, djöfullinn þinn?“ og reiðir upp aftur í annað sinn af öllu afli, en ekkert kom hljóðið að heldur. Hinn furðar þetta og fer að skoða. Þá sér hann að það er reiðingur sem hann hjó í. Verður honum mjög bilt við og gengur fram gólfið. En þegar hann kemur fram fyrir skemmubitann stekkur Þórsteinn á herðar honum, setur fætur í knésbætur honum, setur hann niður undir sig, þrífur af honum exina. Þá segir Þórsteinn: „Nú skal ég drepa þig. Ég veit hvör þú ert; þú ert Bjarni Brynjólfsson sem hefur drepið menn bróður þíns og stolið kindum hans og það sama ætlaðir þú mér.“ Nú reiðir Þórsteinn upp öxina og ætlar að höggva af Bjarna höfuðið, en hann biður Þórstein grátandi að drepa sig ekki. Þá segir Þórsteinn: „Ég skal ekki drepa þig ef þú lofar því að leggja niður öll þín vonzkuverk og senda bróður þínum eins margar kindur og þú ert búinn að stela frá honum og senda honum pening í manngjöld fyrir menn þá er þú hefur drepið fyrir honum og fáir mér það allt strax á morgun og ferjir mig svo yfir ána.“ Bjarni lofar þessu með eiði. Svo lætur Þórsteinn hann upp standa og verður Bjarni því feginn og þakkar Þorsteini fyrir lífgjöfina. Nú fara þeir að tala saman í mestu vináttu. Þá spyr Þorsteinn Bjarna að, því hann hafi breytt svo illa við bróður sinn. Bjarni segir: „Fyrir það gjörði ég það að mér varð svo illa við hann fyrir það sem hann fékk alla jörðina þá skipt var á milli okkar föðurarfinum, og þangað til ætlaði ég að stela frá honum og drepa menn hans þar til hann kæmi sjálfur, og drepa hann, en mér tókst það ekki.“ Nú segir Þorsteinn: „Er margt fólk á bæ þínum?“ Bjarni segir: „Ekki nema ég og stúlkan sem þú sást í gærkvöldi.“ „Nú skaltu fara inn og sofa,“ segir Þórsteinn, „það sem eftir er nætur og kondu svo í fyrramálið strax og færðu mér skóna mína, en ekki fæ ég þér öxina þína.“ Bjarni játar þessu og svo gengur hann í burtu og inn til stúlku sinnar, en Þórsteinn er eftir í skemmu sinni; leggur hann sig út af og fer að sofa.

Nú um morguninn vaknar Þorsteinn og kemur út og er gott veður. Í þessu kemur Bjarni og býður Þorstein[i] góðan dag og færir honum skóna og býður Þorsteini mat að borða. Þorsteinn vill það. Fer þá Bjarni inn og kemur aftur með matinn og færir Þórsteini. Þeir fóru inn í skemmuna og borðaði Þorsteinn þar og var Bjarni hjá honum á meðan. Þegar hann er búinn að borða segir Þorsteinn við Bjarna: „Nú vil ég að þú afgreiðir mér peningana og kindurnar.“ Bjarni tekur því vel og gengur inn, kemur bráðum aftur og færir Þorsteini sextíu spesíur. Svo gengur Bjarni og Þórsteinn með honum nokkuð frá bænum; þá sér Þorsteinn fjölda af kindum. Bjarni rekur það saman og lætur það inn í eina rétt. Þekkir Þorsteinn þar sumt af fé húsbónda síns. Nú fær Bjarni Þorsteini eins margar kindur og hann hafði tekið frá bróður sínum. Nú reka þeir það að ánni og svo ferjar Bjarni Þorstein með allt féð yfir ána og með það skildu þeir og fer Bjarni heim og er hann svo úr sögunni.

Nú er að segja frá Þórsteini að hann heldur með fé sitt heim til bónda. Hann stendur úti. Þorsteinn heilsar honum og segir: „Nú er ég kominn aftur og fór nú eins og ég sagði þér.“ Bóndi segir: „Mér þótti vænt um að ég sá þig aftur lifandi og kalla ég þig mesta lánsmann að þú komst lifandi frá Bjarna og ertu nú velkominn að vera í nótt og hvíla þig. Ég skal láta dóttir mína passa fé þitt.“ Þórsteinn vill það og þakkar bónda fyrir. Nú reka þeir féð skammt frá bænum í eina hlíð. Svo ganga þeir heim og bóndi leiðir Þorstein inn og í baðstofu; þar sér hann gamlan kvenmann sitja á rúmi. Veit Þorsteinn að það muni vera kona bónda og þar situr hjá henni dóttir hennar, kunningjastúlka Þorsteins. Hann heilsar þeim; þær taka því mjög glaðlega og nú er hann settur þar á rúm. Nú biður bóndi dóttir sína að passa fé Þórsteins; hún játar því og gengur í burt. Nú fóru hjónin að tala við Þorstein og spyrja hann að heiti og hvaðan hann sé og hvörnin þeir hafi skilið Bjarni og hann. Nú segir Þorsteinn þeim það allt og eftir það fer konan fram, kemur aftur og færir Þórsteini nógan mat að borða og var það kjöt, brauð og ostur. Þegar Þorsteinn var búinn að borða var honum vísað til rúms og var þá komið kvöld. Nú háttar Þórsteinn og hjónin, en ekki kemur stúlkan inn. Þorstein furðar á því. Nú sofna hjónin, en Þorsteinn vakir tímakorn þar til að hann verður var við það að stúlkan kemur inn og fer hljótt og tekur ask sinn og etur úr honum, og þegar hún er búin að því læðist hún fram aftur og kemur ekki inn alla nóttina fyrri en um morguninn að foreldrar hennar voru komin á fætur. En Þorsteinn liggur kyr í rúmi sínu og biður bónda að lofa sér að vera um kyrrt í dag: „Ég er veikur,“ segir Þorsteinn, „og treysti mér ekkert að fara.“ Bóndi lofar því og kennir í brjósti um hann. Nú liggur Þórsteinn um daginn og er sáraumur og er konan að hjúkra að honum og bóndi líka, en stúlkan passar féð. Nú líður dagur að kvöldi að ekki batnar Þorsteini.

Nú fara hjónin að hátta og sofa, en Þórsteinn vakir þar til hann heyrir að stúlkan kemur inn og tekur ask sinn og borðar úr honum; og að því búnu ætlar hún að ganga fram. Þórsteinn setur fyrir hana fótinn, grípur til hennar og fleygir henni upp fyrir sig. Hún leggur ekkert til þess nema liggur kyr og er hjá honum um nóttina og fer vel á með þeim. Um morguninn áður en hjónin fóru á fætur fer stúlkan frá Þórsteini og til kinda hans. Nú fara hjónin á flakk; kemur bóndi út, fer inn aftur og kemur til Þorsteins og býður honum góðan dag. Þorsteinn tekur því og spyr bónda hvörnin [veðrið sé] úti. „Það er bjart og gott veður,“ segir bóndi. Nú spyr hann að: „Hvörnin líður þér nú, Þorsteinn minn?“ Hann segir: „Mér líður vel, því nú er mér batnað.“ „Það fer vel.“ segir bóndi. Nú klæðir Þórsteinn sig og kemur út; er þá bóndi hjá honum. Nú býður Þórsteinn honum góðan dag og segir: „Nú er gott veður og nú ætli ég að halda á stað í dag.“ Þá segir bóndi: „Þú ert velkominn að vera lengur.“ Þórsteinn segir: „Ég má það ekki, því húsbónda mínum leiðist eftir mér; hann líklegast hugsar að ég sé dauður.“ Svo skilja þeir talið.

Nú gengur Þórsteinn inn og býr sig til ferðar. Er hann nú búinn vel á stað með nesti og það sem hann þurfti með til heimferðar og að því búnu kveður Þórsteinn þær mæðgur og báðu þær vel fyrir honum. En bónda biður Þorsteinn að fylgja sér; hann tekur glaðlega undir það. Nú halda þeir til kindanna og reka það saman og halda svo af stað. Þegar þeir eru búnir að halda nokkuð á leið segir Þorsteinn við bónda: „Nú ertu búinn að gjöra vel að fylgja mér ásamt öðru og skaltu nú ekki fara lengra. Nú skulum við setjast niður; ég þarf að tala nokkuð við [þig].“ Þeir gjöra það. Þá segir Þórsteinn við bónda: „Nú ætli ég að biðja þig bónar sem er það að gifta ekki neinum dóttur þína á meðan ég kem ekki til þín og ef svo kann að fara að hún verði ólétt þá er það af mínum völdum, og láta hana ekki gjalda þess.“ Bóndi svarar: „Þetta skal ég allt veita þér og ertu velkominn að fara til mín það fyrsta þú vilt og þó þú viljir strax.“ „Það get ég ekki að sinni,“ segir Þórsteinn, „ég kem ekki til þín fyrri en að þrem árum liðnum, því ég þarf að búa mig vel undir ferðina áður en ég kem til þín.“ Nú hætta þeir talinu; svo standa þeir á fætur. Kveður þá Þórsteinn bónda og þakkar honum með mörgum fögrum orðum fyrir sig; skildu þeir með mestu blíðu. Fór bóndi heim, en Þórsteinn hélt leið sína og er þess ekki getið hvörnin honum gekk heim á leiðinni.

Nú kemur Þórsteinn og varð Ívar honum mjög feginn og gladdist við komu hans og þóttist hann úr helju heimt hafa. Fær nú Þorsteinn Ívari féð og peningana frá bróður hans og segir honum öll viðskipti þeirra og samtal. En þegar Þorsteinn er búinn að enda sögu sína þá segir Ívar: „Mikill gæfumaður ertu, Þórsteinn, og öngvum hef ég eins gott upp að unna eins og þér“ – og þakkar Þórsteini fyrir alla framgönguna á milli þeirra bræðra. Eftir það fór Ívar að skoða fé sitt sem bróðir hans sendi honum og hafði hann aldrei séð feitara fé en það. Af þessu varð Þorsteinn svo vinsæll í sveitinni að allir unntu honum hugástar. Eftir þetta var Þórsteinn hjá Ívari í þrjú ár. En seinasta sumarið þá tók Þorsteinn allra handa varning í kaupstaðnum og vissi enginn hvað hann ætlaði að gjöra með það. Margir báðu Þórstein um haustið að fara til sín þegar þeir vissu það að hann færi frá Ívari, en það dugði ekki.

Nú leið tíminn þar til um vorið að þurrir voru vegir og gott að fara. Þá fór Þórsteinn að búa sig til ferðar og þegar hann var ferðbúinn kveður hann húsbændur sína og vini alla; báðu allir hann vel fara. Fór svo Þorsteinn leið sína fram á fjöll og segir ekkert af ferðum hans fyrri en hann kemur að bæ bónda í dalnum. Þar stígur Þorsteinn af baki og ber að dyrum. Þá kemur út lítill drengur. Þórsteinn heilsar honum og spyr hann að heiti, en hann segist heita Jón. Þórsteinn spyr: „Hvað heitir móður þín?“ Drengur segir: „Hún heitir Þórgerður.“ „En hvað heitir faðir þinn?“ segir Þórsteinn. „Ég veit það ekki,“ segir drengur. Þá fer Þorsteinn ofan í vasa sinn, tekur upp spesíu og gefur dreng. Honum þykir um hana ógnarlega vænt og hleypur inn hlæjandi. Strax þar á eftir kemur bóndi út. Þórsteinn heilsar honum. Bóndi tekur því blíðlega og fagnar vel Þórsteini og segir hann velkominn. Svo leiðir bóndi Þórstein inn og í baðstofu; þar sátu þær mæðgur. Þórsteinn heilsar þeim; þær taka vel Þórsteini. Nú sezt hann að hjá bónda. Daginn eftir eru allir inni og litli drengurinn situr hjá móður sinni. Þá segir bóndi við Þórstein: „Þetta er nú drengurinn sem þú áttir með dóttir minni; hvörnin lízt þér á hann?“ Þorsteinn segir: „Vel, og áttu nú að gefa mér dóttir þína.“ „Það skal ég gjöra,“ segir bóndi, „því ég veit að hún vill það.“ Og nú verður það að Þorsteinn á Þorgerði og þykir honum vænt um hana. Eftir það þau voru komin saman var Þorgerður aldrei nema þur og óþýð við bónda sinn; honum féll það illa. Einu sinni spyr Þorsteinn konu sína að hvört henni hafi ekki þótt vænt um spesíuna sem hann hafi gefið drengnum hennar. Hún segir: „Mér var engin þægð í því og máttu fá hana aftur ef þú vilt.“ Þorsteinn anzar öngvu nema gengur í burtu.

Nokkru eftir þetta voru báðir bændur úti, en þær sátu inni mæðgur. Þórgerður var að falda klút. Hún segir við móður sína: „Ég vildi að ég ætti mér tvinna til að falda klútinn minn.“ Í þessu kemur Þórsteinn inn og heyrir hvað hún sagði. Fer hann fram aftur og sækir fallegan silkiklút með alla vega litum tvinna innan í og gefur konu sinni. Hún tekur höstuglega við af Þórsteini og fleygir upp í veggjarskot, en Þorsteinn gengur í burtu þegjandi og þykir fyrir.

Nokkru þar á eftir eru enn bændur úti. Þórsteinn gengur inn og sér að kona sín liggur upp í rúmi og snýr sér upp. Hann hugsar hún sofi og leggur sig upp fyrir framan hana og klappar á kinnina á henni. Við þetta bregður hún hart við og stekkur ofan úr rúminu og setur um leið Þorstein flatan á gólfið og svo hleypur hún fram. Þórsteinn stendur upp, ógnar þetta, gengur fram og fer að gráta. Þá kemur hún og segir við Þorstein; „Þetta var þér mátulegt. Ég hugsaði þér það að ef við yrðum nokkurn tíma saman þá skyldi ég gjöra þér eins mikla hugargremju og þú gjörðir mér þá þú neyddir mig til að ferja þig yfir ána, því þó ég hefði átt að drepa þig þá hefði mér ekki verið það nauðugra; og svo lengi sem ég sæi ekki að þér þætti fyrir þá ætlaði ég að halda því sama áfram við þig. Nú skal ég ekki gjöra þér neitt hugarangur framar.“ Og frá þeim degi var Þórgerður Þórsteini hin bezta.

Nú bjó Þórsteinn í dalnum þar til að gömlu hjónin voru dauð; þá vildi ekki Þorsteinn vera þar lengur, heldur flutti sig aftur í sveitina til vina sinna og kunningja og var Þorsteini þar vel tekið af öllum – einna helzt Ívari. Nú fékk Þorsteinn sér jörð og fór að búa á henni og varð ríkur bóndi og átti mörg börn með konu sinni og varð mjög gamall maður og dó með góðan orðstír.

Og ljúkum vær svo þessari sögu af Þorsteini, Ívari og Bjarna.