Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sagan af Guðmundi kaupamanni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Guðmundi kaupamanni

Hér um bil með byrjun nítjándu aldar var maður sá á Suðurnesjum sem Guðmundur hét. Hann var ungur og frískur, smiður og verklaginn og liðugur til flestra hluta. Hann fór norður til kaupavinnu nokkur sumur og vann vel og fékk gott kaup.

So bar við eitt sumar að hann lagði á norðurleið og einhvörra orsaka vegna varð einn á ferð norður óbyggðir. Það var einn dag að hann áði hestum sínum, því vandfengið var haglendi á þeim vegi, og sjálfur borðar hann af mat sínum. Hiti var og gott veður so hann sofnar. En þá hann vaknar er loft þykknað og þoka komin; sér þó hesta sína, tekur þá og ætlar samt að ferðast veginn áfram. Í því bili koma þangað tveir menn þreknir og miklir vexti, heldur dimmleitir í andliti í sauðsvörtum prjónafötum. Guðmundi verður heldur bilt við komu þeirra, en lætur ei á sér merkja, heilsar komumönnum og spyr þá að heiti. Annar sagðist Sigurður, en hinn Jón. Þar á mót spyrja þeir hann að heiti aftur og hvert hann ætli, og segir hann þeim það sanna þar til, en þeir spyrja hann hvert hann vili ekki koma til sín og vera hjá sér kaupamaður sumarlangt. Þeir segja að það varði sig lítið um – „þeir sem þú ert ráðinn hjá hugsa að þú hafir hindrazt með eitthvort slag sem margt getur verið“. Þeir segja hann skuli ei fá verra kaup hjá sér en öðrum. Guðmundi stóð stuggur af mönnum þessum og þar kom að hann lofar að fara með þeim og vera hjá þeim um sumarið. Síðan leggja þeir á stað og ferðast það eftir var dags og langt fram á nótt. Þá koma þeir í dal einn; þar er bær heldur ósélegur. Þar var útiskemma; þangað fara piltar þessir og láta þar inn farangur komumanns, þar eru rúm tvö, og segja Guðmundi að hátta í öðru, en hinir sofa saman. Mat færa þeir Guðmundi og biðja hann borða, hvað hann gjörir, og því næst leggjast þeir til svefns.

Um morguninn kemur þangað kvenmaður unglegur, heldur lagleg, og færir öllum þura sokka. Nú fer Guðmundur á fætur og vill gá að hestum sínum, en heimamenn segja hönum að hann skuli aldrei sér af þeim skipta, þeir skuli so passaðir að ekkert gangi að þeim og ekki brúkaðir og til staðar þegar hann þurfi þeirra við. Því næst fer hann að búa til verkfæri til sláttarins handa heimamönnum og því næst er til sláttar tekið, en ekki þykir hönum þessir menn liðligir í vinnu, ei heldur sérlega iðnir, en hneigðari til smalamennsku og veiðiskapar, því stöðuvatn var þar skammt frá og þangað fóru þeir með jafnaði til silungsveiða. Ei var þar fleira fólk en þessir tveir kallmenn og einn kvenmaður ungur, og þetta voru systkin, og kall og kelling foreldrar þeirra. Kall kom aldrei á tal við kaupamann, en kelling bar honum mat stundum og talar jafnan um hvað hann borði lítið, hann muni verða horaður, og leitast við hann á marga vegi ýmist með nýtt slátur, gamalt kjöt og líka steiktan silung. Þannig líður slátturinn. Seinast þegar hann er að ganga frá heyjum kemur kallinn í heygarðinn og þakkar Guðmundi fyrir sumarvinnuna og spyr hann hvað langur heyvinnutími sé vanur að vera í sveitum. Guðmundur segir hann jafnlega átta vikur. Kall spyr um kaupgjald og so ýmislegt þessu viðvíkjandi. So líða fáir dagar að lítið er starfað.

Um kvöld eitt kemur stúlkan með föt hans þur og hrein og segir hann muni nú eiga að fara á morgun; og so líður nóttin. Um morguninn er komið með hesta hans og búið er að binda plögg hans, en ei veit hann hvað sekkir hans hafa að geyma, en ei finnast hönum þeir ýkja-léttir. En áður hann kveður biður kall og kelling hann að koma annað sumar til þeirra ef hann verði ánægður með kaup sitt og skuli piltar sínir fylgja honum á veg. Því næst heilsar hann heimafólki og fylgja þessir menn hönum á sömu stöðvar og þeir hittust um sumarið. Þá endurnýja þeir aftur bónina að koma annað sumar og tilnefna vissan dag nær hann koma skuli á þessar sömu stöðvar, því þar ætla þeir að verða til taks að fylgja hönum heim. Og því næst skilja þeir og gengur Guðmundi vel ferðin suður, en þegar hann fer að skoða sumarkaup sitt þá sér hann að aldrei hefur hann jafngóða ferð farið, og sitt af hvörju sem hönum bezt hentaði.

Þangað fer hann annað og þriðja sumar og fer allt á sömu leið og líkar engu ver, en allt[af] urðu þeir að sækja hann á ákveðinn stað og fylgja hönum þangað, því ekki gat hann ratað í dal kunningja sinna einsamall. Og fjórða sumarið var hann þangað lofaður, en þá sagði hann upp vist sinni og fór vestur á Vestfjörðu og kom aldrei meir á sínar fyrri stöðvar og var meining manna að hann mundi hafa verið búinn að eiga nógu vingott við dalstúlkuna. Og endar so þessa sögu.