Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sagan af Guðrúnu Jónsdóttur

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Sagan af Guðrúnu Jónsdóttur

Einu sinni var prestur sem hét síra Jón, framarlega í Eyjafirði. Hann átti dóttur fagra og væna, Guðrúnu að nafni. Svo vildi til eina jólanótt að þegar átti að fara að messa varð Guðrúnu illt og bað prestur einhvern að vera inni hjá henni; var og svo gjört. Þegar fólk var komið í kirkju varð henni reikað fram, og fannst hún ekki né kom inn aftur fyrr en undir dögun. Var henni þá ekkert meint, en fátt sagði hún af ferðum sínum. Aðra jólanótt fór á sömu leið og fór nú að þykja fremur tortryggilegt. Vorið eftir kom stúdent og bað hennar, en hún neitaði honum. Þetta bætti ekki um grunsemdina og þegar þriðja jólanótt nálgaðist gerði prestur boð um sóknina að ekki yrði messað um nóttina. Á aðfangadaginn bað prestur fjármann sinn að vera snemma að, og þegar allt fólk var komið inn um kvöldið, lokaði hann sjálfur bænum og lét síðan kveikja ljós í göngum og hafa bjart í baðstofu, bað síðan fólk sitt að taka guðsorðabækur, vaka og lesa fram eftir nóttunni, og fer svo fram litla stund. Nú fer Guðrúnu að verða illt, en prestur gat ekki haldið sér uppi fyrir svefni. Lagðist hann þá upp í rúm og kona hans og höfðu Guðrúnu dóttur sína á milli sín. Biður nú prestur fólkið fyrir alla muni að vaka. En þegar hann er lagztur út af sofnaði allt fólkið og svaf fram á dag og prestur eins. Þegar fólkið vaknaði um morguninn var Guðrún horfin, og varð presti mikið um. En fólkið sagði að hún mundi koma eins og vant væri. Það kvaðst prestur ætla að færist fyrir. Fór og svo.

Nú liðu þannig fimm ár að ekki spurðist til Guðrúnar. Þá var það um haustið að prestinn vantaði allt geldféð í göngunum; liðu svo allar göngur. Loks fékk prestur til tvo menn unga og röska að fara í eftirleit. Fóru þeir nú með nesti og nýja skó og gengu fjöll og firnindi unz þeir komu að einu dalverpi, tók þá mjög að syrta að með kafald. Ráða þeir þó af að halda áfram og koma loks að stórum bæ og berja að dyrum. Þar koma út tvær stúlkur; þeir biðja að skila að þeir biðji að lofa sér að vera. Þær segja þess þurfi ekki, leiða þá inn og setja á stafnrúmið í baðstofunni, taka af þeim vosklæðin og færa þeim slátur að borða. Þeir sjá þrjú rúm hvorumegin og einn kvenmann á hverju rúmi auk stúlknanna sem til dyra komu.

Að lítilli stundu liðinni heyra þeir stappað af sér. Þá þjóta þrjár ofan og koma upp með þrjá menn og setja á rúmin hjá sér. Þegar þeir koma upp á pallinn kom maður tíguglegur fram úr húsi og segir: „Komiði sælir, piltar mínir; hvernig hefir ykkur gengið í dag að vakta féð?“ „Okkur hefir nú gengið það með bezta móti; það er nú loksins farið að spekjast,“ segja þeir. „Já, þið hafið líka nokkuð tekið út með því,“ segir hann. Nú fer kjólmaðurinn inn í hús og litlu síðar komu aðrir þrír menn inn, og sóktu hinar þrjár stúlkurnar þá. Nú kemur grænklæddi maðurinn fram úr húsi og segir: „Komiði sælir, piltar mínir; hvernig hefir ykkur gengið að höggva skóginn?“ „Okkur hefir gengið það bærilega, en þegar hríðin fór að koma gekk okkur illa að svíða.“ – „Já, það verður nú að vera svo í þetta sinn,“ segir hann, og með það heldur hann aftur. Nokkru síðar er enn lokið upp húsinu, og kemur grænklæddi maðurinn fram og með honum ósköp fallegur kvenmaður prúðbúin og tvö börn á rauðum kjólum, og nú fer hann að lesa og les guðsorð. Síðan fara þau ásamt börnunum inn í hús aftur og nú er háttað. Háttar hver af sex mönnunum hjá sínum kvenmanni. Að morgni spyrja gestirnir tveir stúlkurnar um plögg sín, en þær sögðu að nú væri ekkert fjallaveður. Næsta kvöld var eins lesið, og annan morgun sögðu þær ekki væri nú heldur fjallaveður.

Þriðja morgun kváðu þær sýni til fjalla og fært veður, færðu þeim svo plögg sín og nú ætluðu þeir á stað. Þegar þeir komu út var grænklæddi maðurinn og konan prúðbúna úti. Hún spyr þá hvort þeir beri engin kennsl á sig. „Annað er að þekkja, annað að hugsa,“ segja þeir. „Jú, ég er nú prestsdóttirin sem hvarf um árið, en maðurinn svarna“ – hún leit til grænklædda mannsins – „er maðurinn minn. Hann er sýslumaður í þessari byggð. Hann var orðinn ekkjumaður þegar hann kom til mín á jólanóttina um árið, og þókti mér ólíkt að gangast honum á hönd eða hinum sem bað mín. Rauðklæddu börnin þau arna eru börn okkar og villti ég nú um ykkur til þess að sjá einhvern úr mannabyggðum og til þess að láta vita hvað af mér er orðið. En þetta er huldubyggð og skal ég nú sýna ykkur bæina.“ „Ég skal sýna ykkur meira,“ segir sýslumaður, „ég skal sýna ykkur kirkjuna okkar, því það er svo gott að vita að þetta fólk er eins vel kristið og mannbyggðafólk.“ Síðan fylgir sýslumaður þeim heim á kirkjubólið og sýnir þeim kirkjuna og er hún einkar skrautleg og fögur. Voru þeir nú hjá sýslumanni um daginn. Sýslumannskonan sagði þeim að kindur föður síns væru hjá sér og skyldu þeir fá þær að morgni, „og mun ekki upp á þær vanta, séu þær ekki fleiri“. Að næsta morgni fékk hún þeim féð og bréf og sendi þrjá hesta klyfjaða með gersemar heim til foreldra sinna og léði þeim fylgdarmann heim undir byggð. En áður en þeir fóru á stað sagði sýslumaður þeim þeir yrðu að koma næsta haust, „því þið vitið,“ sagði hann, „hvernig þið hafið skilið við dæturnar mínar“. Enda hurfu þessir tveir menn haustið eftir í göngunum.