Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sagan af Hóla-Þorsteini

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Sagan af Hóla-Þorsteini

Það var einn tíma þá er biskup var á Hólum í Hjaltadal að þar voru margir skólapiltar, meðal hverra var einn er Þorsteinn hét. Var hann mikill og sterkur og enn mesti listamaður til hvervetna. Líka var á Hólum systir hans; lærði hún þar alls konar kvenlegar íþróttir. Var mjög kært millum þeirra systkina; unnu og Þorsteini bæði biskup og flestir er til þekktu. Fola átti Þorsteinn rauðan. Bar það til einn vetur að Þorsteinn biður bóndann á Kálfsstöðum í sömu sveit að taka þann rauða af sér til eldis frá jólum og ala hann vel það eftir væri vetrar, líka að ríða honum so hann yrði ei stirður þegar Þorsteinn þyrfti að taka hann til brúkunar. Hafði Þorsteinn ærið fé því foreldrar þeirra systkina voru dánir og höfðu eftir sig látið ærna fjármuni. Vetur þenna enn sama seldi Þorsteinn ýmsa hluti sína fyrir peninga. Var vetur sá og vor ið blíðasta. Var um veturinn haft í flimtingum að systir Þorsteins mundi fara með barni. En að liðnum sumarmálum þegar komið var á fætur á Hólum vóru þau systkin hvorfin. Lét þá biskup leita hans og var þá komið að Kálfsstöðum og hafði ena sömu nótt hvorfið hestur Þorsteins. Lét þá biskup vitja hesta sinna; voru þá tveir af þeim horfnir. Sendir þá biskup menn bæði í Kolbeinsdal og víðar. En enginn vissi til ferða þeirra Þorsteins. Lét þá biskup fara fram Blönduhlíð. Komu leitarmenn að Flugumýri. Hafði þar verið vakað um nætur. Sagði vökumaður að þá fyrir skömmu hefðu karlmaður og kvenmaður riðið fram fyrir Réttarholt og mundu þau hafa farið yfir á Grundarferju því öll vötn vóru þá orðin íslaus. Fóru Hólamenn þá fram til Mælifellsdals. Á dalnum fundu þeir hesta biskups. Héldu þeir þá fram og vestur til Blöndu. Sáu þeir Þorstein og systir hans langt á undan. Herða þeir þá reiðina og litlu áður en þeir komu að Blöndu sáu þeir að Þorsteinn bindur systir sína og það þau höfðu meðferðis ofan á hestinn, rekur síðan hestinn í ána og hélt sér í tagl hestsins, en annari hendi hélt hann á staf sínum. Skolaði þessu öllu upp hinumegin. Leysir Þorsteinn þá af hestinum og tekur systir sína af baki. Hefur hann þar fataskipti. Taka þau systkin þá til matar. Komu þá Hólamenn á nyrðri bakka árinnar. Kallar Þorsteinn til þeirra og spyr hvort þeir vilji ei yfir ána, en segir þeim að meðan sér endist fjör muni hann verja þeim landið. Og með því þeir sáu sér öngan kost að komast yfir ána sneru þeir aftur og fara heim til Hóla. Þótti biskupi linlega eftir leitað. Lögðu og margir þeim til ámælis að þeir skyldu sjá þau og hverfa aftur við so búið. Varð nú so að vera sem komið var. Urðu þá fullkomnar meiningar manna að Þorsteinn mundi vera valdur að þunga systur sinnar. Skrifar nú biskup og sendir um allt land lýsingar þeirra. En að áliðnu sumri kom lýsing þessi austur í Hreppa. Var þar á bæ einum kona er sagði að um vorið hefði komið til sín karlmaður og kvenmaður og hefðu haft koffort á einum hesti rauðum. Hefði maðurinn beðið fyrir stúlkuna í tvær vikur, en verið sjálfur þann tíma í burtu. Að hálfum mánaði liðnum sótti hann stúlkuna og fór með hana og það sem þau höfðu meðferðis. Vissi enginn hvaðan þessar persónur vóru eður hvert þau fóru. En það þóttust menn vita að stúlkan hefði með barni verið. Spurðist ei til þeirra framar þó lýsingar gengju. Leiddu menn ýmsar getur um hvað hefði orðið af þeim. Héldu sumir þau hefðu lagzt út, aðrir að þau hefði komið sér í skip. En biskupi féllst mikið um hvarf hans því hann unni honum mikið.

Liðu so átján ár þangað til biskup sendi eitt sinn mann með bréf austur að Skálholti. Er ei getið um ferðir hans fyrr en hann á leið til baka í illviðri fór villur vega. Hittir hann þá í kafaldinu mann. Spyr hann ferðamann hvaðan og hver hann sé. Segir hann hið sanna frá. Hólamaður spyr hinn hvaðan hann sé. Segist hann vera austan úr Hreppum og sé ei langt til bæjar síns. Býður hann Hólamanni með sér fara. Vill hinn því aðeins þiggja það að hann fái loforð um fylgd næsta dag hvurju hinn lofar. Fara þeir síðan til þess þeir koma að laglegum en litlum bæ. Leiðir bóndi komumann þar inn. Sér komumaður þar konu roskinlega og mær unga og unga sveina tvo. Ei sér hann annað fólk. Biður bóndi að veita gesti góðan greiða, segir hann það vera sendimann frá Hólabiskupi. Fekk gestur þar enn bezta beina. Spurði bóndi hann margra tíðinda, einkum frá Hólum og Skagafirði. Leysti hinn vel úr öllu. Spyr þá bóndi hvurt hann hafi ei heyrt um getið að maður hafi frá Hólum hvorfið, Þorsteinn að nafni, og systir hans. Sagði komumaður að sagnir einar hefði hann af því, því hann kveðst hafa verið barn er það skeði. Spyr bóndi hann hverjar getur liggi á hvað af þeim hafi orðið. Segir komumaður slíkt er áður er ritað. Var so sendimanni fylgt til hvílu. En um morguninn var veður fagurt og fylgir bóndi honum þar til þeir eru komnir á réttan veg. Biður bóndi Hólamann að taka nákvæmlega eftir vegum þeim. Þykir honum það undarlegt að hann þurfi þess, en lætur so vera, og að skilnaði fær bóndi honum bréf sem hann biður færa biskupi. Hvarf bóndi heim síðan.

Segir nú af ferðamanni að hann kemur heim til Hóla. Afhendir hann biskupi þau bréf er hann tók í Skálholti og síðan afhendir hann bréfið það er hann tók á leiðinni. Les biskup það. Sá enginn honum bregða utan menn heyrðu hann segja: „Þó fyrri hefði verið.“ Vissu menn ei hvernig á orði því stóð. En um vorið sendi biskup þann enn sama með tólf hesta ásamt öðrum tveimur mönnum; átti einn þeirra að fara austur að Skálholti. En þegar þeir koma suður á fjöllin fer sá sem sendur var að Skálholti leiðar sinnar, en hinir fara þangað til þeir finna bónda þann er Hólamenn vóru til sendir. Hafði þá biskup sent þá eftir manni þeim og fjölskyldu hans og varð þá bert að þar var Þorsteinn sá sem áður er getið og systir hans. Taka þeir þá upp alla fjármuni þeirra. Spyrja Hólamenn hvert Þorsteinn vilji ei rífa bæinn. Neitar hann því og segir að gott hefði sér þótt fyrrum að hafa skýli til að dveljast í og kunni líkt til að bera fyrir öðrum síðar. Er ei getið ferða þeirra fyrr en þau komu öll heim á Hóla. Fagnar biskup þeim með enni mestu blíðu. Segir Þorsteinn biskupi að en unga mær sé barn það er systir sín hafi verið þunguð að og sveinarnir séu tvíburar. Yfirheyrir biskup börnin og voru engin er jöfnuðust við þau að menntun eftir aldri. Lét biskup þá sveina ná so miklri menntun sem auðið var. Fóru þeir báðir til útlanda og er þeirra ei framar getið. Bauð biskup Þorsteini hvert hann vildi vera hjá sér á staðnum eður láta hann fá jörð til ábúðar. Kaus Þorsteinn að vera hjá biskupi. Menntaði Þorsteinn fyrr umgetinn sendimann biskups, gaf honum síðan dóttur sína. Var Þorsteinn hjá biskupi og systir hans vel metin. Og lýkur hér að segja frá Þorsteini á Hólum, útlegð hans og afturkomu.