Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sagan af Hallgrími Þorgrímssyni

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Maður er nefndur Þorgrímur; hann ólst upp vestur undir Jökli. Hann var vel gáfaður og ógnarlega hægur og stilltur og fríður sýnum. Þorgrímur lagði mjög svo smíðar fyrir sig þegar hann var í uppvexti, og varð að lyktum bezti smiður, bæði á tré og járn. Hann var mjög náttúraður fyrir sjóarútgerð og fór oft á sjó og vandi sig á að drekka sjálfrunnið hákalslýsi sem honum gekk hægt og hvað eð hleypti kröftum í kögglana á honum. Þegar hann var tvítugur að aldri flutti hann sig búferlum í Húnavatnssýslu, en ekki er getið um á hvaða bæ hann flutti sig. Hann átti þrjú börn með konu sinni sem hétu Hallgrímur, Sigríður og Ingibjörg. Hallgrímur var fríður sýnum og ógnarlega hægur og stilltur eins og faðir hans. Hann vandi sig á alla vinnu og allra helzt á smíðar og varð allt eins góður smiður og faðir hans. Hann vandi sig þó meira á járnsmíði heldur en á trésmíði. Faðir hans vandi hann á að drekka hákalslýsi. Þegar Hallgrímur var átján ára var hann orðinn svo stór og sterkur að það var valla nokkur í allri Húnavatnssýslu er jafnaðist á við hann. Einu sinni kom faðir hans til hans þegar hann var í smiðju og var að smíða addgeir. Hallgrímur hafði oft heyrt talað um útilegumenn sem væru í óbyggðum og stælu fé manna af afréttum. Þorgrímur segir við son sinn: „Til hvers þénar þetta vopn?“ Hallgrímur segir: „Það er betra að hafa það í búi sínu en að láta það vanta ef á því kann að halda.“ Svo leið sumarið fram að gangnatíma. Þá kemur Hallgrímur að máli við föður sinn og segir: „Ég vil fara viku fyrir göngurnar inn fyrir féð, eitthvað inn á öræfi og vita hvert ég finn ekkert af því sem vantar, og þó ég finni það ekki lifandi þá trúi ég því ekki að ég finni ekki einhverjar líkur af því.“ Þorgrímur segir: „Mig grunaði það lengi þegar þú varst að smíða addgeirinn að þú mundir eitthvað ætla þér og vil ég ekki að þú farir þessa ferð; því ef svo fer að þú hittir fyrir útilegumenn þá held ég að þeir verði ekki lengi að drepa þig, því ekki er það hyski vant að vera svo góðhjartað.“ Hallgrímur segir: „Ekki er ég svo hræddur um að ég verði drepinn, því óhætt er mér að ætla dálítið upp á mig, því nokkuð er ég sterkur.“ „Að vísu ertu það,“ segir Þorgrímur, „en vísast er það að þú getir hitt jafningja þinn og ef að ég missi þig þá dreg ég hærurnar í gröfina með sorg.“ Svo voru þeir að akast á erindunum um þetta þangað til að Þorgrímur segir: „Hvað heldur þú að þú verðir lengi ef þér gengur eins og þú ætlast til?“ Hallgrímur segir: „Það get ég ekki um sagt, því ef allt gengur til eins og mér ímyndast og ég kem í það landspláss sem ég vil staðnæmast í og ég fæ eitthvað í aðra hönd þá getur það skeð að ég komi ekki svo fljótt.“ Þorgrímur segir: „Heldurðu að það skipti árum?“ „Vel getur það verið,“ segir Hallgrímur. Þorgrímur segir: „Ég aftek það hreint að þú farir nokkurstaðar fyrst þú verður svo lengi.“ Hallgrímur segir: „Ég skal þá fara þegar allir eru í svefni ef að þér þykir það betra.“ Síðan slitu þeir talið og líkaði Þorgrími miður.

Svo var farið að búa Hallgrím til ferðarinnar og var hann látinn hafa nesti til þriggja vikna og tveir menn voru látnir fara með honum til þess að hann gæti sent þá í byggð til að segja hvar hann væri niður kominn ef svo færi að hann staðnæmdist einhverstaðar. Svo héldu þeir á stað og segir ekkert af ferðum þeirra fyrr en þeir komu yfir stóran jökul og í hraun sem var með einlægum dældum og dældirnar allar grasi vaxnar. Svo komu þeir að á er kom úr jöklinum. Þeir gengu fram með ánni unz hún rann í stór vötn og í vötnunum voru allt einir hólmar, en hinumegin vatnanna sáu þeir hæðir og sýndist þeim þær vera skógi vaxnar. Svo gengu þeir fram með vötnunum þar til þeir sáu stóra eyju í vatninu og út í vatnið gekk tangi út til eyjunnar svo það var ekki nema örmjótt sund á milli eyjunnar og tangans svo hæglega mátti vaða úr honum og út í hana. Þeir sáu að hún var öllsömul skógi vaxin og trénaðir hvanngresisnjólar til og frá í henni. Svo héldu þeir þaðan þar til þeir komu í þykkva skógarmörk og úr skógarmörkinni runnu einlægir smálækir í þetta stóra vatn. Þeir gengu eftir skógnum unz þeir komu á sléttan hól, grasi vaxinn, en upp frá hólnum var hamar og úr hamrinum hafði hrunið grjót og sáu þeir að það var allra fallegasta grjót, ferkantað. En á miðjum hólnum stóð grjóttótt prýðisvel hlaðin og þóttust þeir vita að hún mundi hafa verið hlaðin úr þessu fallega grjóti. Tóttinni var skipt í allt ein skilrúm og þóttust þeir af þessu ráða mega að þar hefðu einhverjir menn haft aðsetur sitt. Svo gáfu þeir staðar hjá þessari tótt og voru þar um nóttina. En þegar lýsa tók af degi þá tóku þeir sér bita af fararnesti sínu, héldu síðan á stað og héldu leið alla þar til þeir komu á dalsbrún nokkra. Þeir sáu strax að byggð var í dalnum; en ekki sáu þeir nema einn bæ í dalnum, mjög stóran og sterklega byggðan, og háa girðingu í kringum túnið.

Ekki leið á löngu að þeir heyrðu hóað í dalnum og það heldur karlmannlega. Þeir sáu að féð rann í hnöppum saman ofan á sléttlendið. Svo sáu þeir hvar maður kom, mikill vexti, og stefndi rétt á þá. Honum fylgdi hundur sem var bæði stór og illilegur. En undireins og dalbúi mætti þeim þá atti hann hundinum á þá og segir honum að rífa þá í sundur. Hallgrímur leggur addgeirnum í gegnum hann og vo hann upp á addgeirnum og kastaði honum langt aftur fyrir sig. Þá segir dalbúi: „Nú er vopn mitt illa fjærri mér; ef það væri komið til mín þá skyldi ég hefna hunds míns.“ „Kondu ef þú þorir,“ segir Hallgrímur. Dalamaður segir: „Ætlarðu að níðast á mér vopnlausum?“ „Nei, fjærri fer því,“ segir Hallgrímur og fær mönnum sínum addgeirinn og segir þeim að geyma hann og lofa sér og dalbúa að eiga saman. Síðan tókust þeir fangbrögðum og glíma lengi og sterklega. Svo fór dalamaður að mæðast, en þá fór hinn að herða sín og svo fór að dalamaður féll á bak aftur. Þá sagði Hallgrímur: „Hvað heldurðu að þú hefðir gjört mér ef að ég hefði fallið fyrir þér?“ Dalamaður segir: „Ég hefði drepið þig.“ Hallgrímur segir: „Ekki er ofsögum sagt af fólsku ykkar útilegumanna þar eð þið drepið alla þá menn sem til ykkar koma, hvert heldur þeir villast eða gjöra sér ferð til ykkar. En ykkur þykir það ekki nóg, heldur stelið þið fénu af afréttum byggðamanna.“ „Því lýgur þú,“ segir dalbúi. Hallgrímur segir: „Á ég að sarga af þér hausinn með sjálfskeiðingnum mínum, því ég hef ekki annað vopn hjá mér?“ „Nei, það skaltu láta vera,“ segir dalamaður. „Lofaðu mér að glíma við þig tvær glímur til, því ekki er fullreynt fyrri en í þriðja sinni, og ef að þú fellir mig alltaf þá ætla ég að biðja þig að gefa mér líf.“ Hallgrímur segir: „Heldurðu að þú gefir mér líf ef að þú fellir mig?“ „Það getur vel verið,“ segir dalbúi. Svo hvíla þeir sig dálitla stund og svo glímdu þeir í öðru sinni og fannst þá Hallgrími að hann hafa liðkazt um allan helming við hvíldina svo honum gekk mikið hægra að fella hann þá en áður. Og svo glímdu þeir í þriðja sinni og gekk þá Hallgrími langhægast að fella hann. Þá gjörir Hallgrímur sig nokkuð alvarlegan og segir: „Piltar mínir! Ljáið þið mér addgeirinn; ég ætla að stinga hann í hjartað.“ „Æ, gjörðu það ekki,“ segir dalamaður, „gefðu mér heldur líf.“ „Viltu þá reynast mér trúr?“ segir Hallgrímur. „Já,“ segir hinn. Svo lét Hallgrímur hann standa upp. Dalamaður þakkar honum fyrir lífgjöfina og segir að hann sé margra góðra launa verður í staðinn. Síðan spyrja þeir hver annan að heiti; dalamaður sagðist heita Jón.

Svo sagðist Hallgrímur vilja fara heim, en Jón bað hann að gjöra það ekki, því það riði á lífi hans og þeirra sem með honum væru – „því þar eru þrír karlmenn hver öðrum sterkari. Ég á bróður og er hann mikið sterkari en ég og hefur nú þrjá um tvítugt, en ég er ekki búinn að fullfá mig ennþá því ég er nú rétt tvítugur. Föður á ég og er hann langsterkastur, en sá þriðji er svartur þræll sem er þvílíkt mak[a]laust fól að hann hlífir engum manni.“ Jón sá að Hallgrímur horfði einlægt ofan á bæinn. Þá segir Jón: „Langar þig til að koma heim?“ „Já,“ segir Hallgrímur, „mig langar eins til þess eins og að fá að drekka.“ „Þig langar þá til þess að deyja,“ segir Jón, „og fyrir Guðs skuld farðu ekki heim fyrr en ég, því ég get ekki farið heim fyrri en ég er búinn að finna allar ærnar; mig vantar níu ær. En það ríður á lífi ykkar allra ef þið komið heim á undan mér, því faðir minn heldur að þið hafið drepið mig fyrst ég kem ekki með ykkur og verður hann þá hreint óstillandi og er það mikill skaði að aðrir eins menn séu drepnir sem þið, því mér lízt mætavel á menn þína, en þó bezt á þig, því þú berð af þeim eins og gull af eiri. En það getur skeð að þú komist af, en þú missir sjálfsagt báða menn þína.“ „Ekki trúi ég því,“ segir Hallgrímur, „og vil ég sjálfsagt fara heim.“ Þá segir Jón og lá við að þykja: „Mikill bölvaður þrákjálki ertu af manni til að þú skulir ekki vilja fara að mínum ráðum og muntu samt manna mest iðrast eftir það og það verður til þess þrályndi þitt að þú verður drepinn og veit ég ekki hvað ég kann þá að hafast að. En fyrst þú vilt ekki annað en að fara heim þá ætla ég að vara ykkur við því að þið skuluð fara sem hljóðlegast. Og ef þið viljið fá að drekka þá getið þið beðið Helgu systur mína að gefa ykkur að drekka, því hún mun verða að skaka fram í bæjardyrum; því fleira kvenfólk er ekki á bænum, því móðir okkar dó í sumar. Og við erum rétt jafngömul, því við erum tvíburar. En þegar þið eruð búnir að fá að drekka þá skuluð þið flýta ykkar út að girðingunni og láta garðinn hlífa ykkur á bak til, en það verður ykkar óheppni ef að hundarnir fara að gelta, því þeir lögðu sig út af þegar ég fór að smala og ég held að þeir verði ekki vaknaðir. En ef þeir heyra hundgeltið þá munu þeir fara út og vita um hvað þeir eru að gelta að. Ef þið eigizt nokkuð við þá ætla ég að biðja þig að hlífa föður mínum og bróður, en svarta þrælnum bið ég þig ekki að hlífa.“

Svo slitu þeir talið, en Hallgrímur fór heim og menn hans. Þegar þeir komu heim þá sáu þeir fríða og vænlega stúlku í dyrum og var að skaka. Hallgrímur segir: „Væna stúlka, gefðu okkur að drekka.“ Helga segir: „Farið sem fljótast í burtu, því hér er ykkur bráður bani búinn.“ „Ég fer ekki fyrri en þú gefur okkur að drekka.“ Þá hleypur hún inn og kemur út aftur og fær Hallgrími fulla rjómakönnu, en hinum mjólk. En þegar þeir voru búnir að drekka segir Hallgrímur að þeir skuli flýta sín út að girðingunni. Svo hleypur hann á stað og hinir á eftir. En þegar hann ætlaði út úr girðingunni þá leit hann aftur og sá þeir komu hlaupandi á eftir sér sem voru á bænum og þrællinn á un[da]n feðgum með uppreidda öxi og var búinn að drepa báða menn Hallgríms og ætlaði að setja öxina í hann, en Hallgrímur rak addgeirinn í hann miðjan og vo hann á addgeirnum upp fyrir höfuð sér og fleygði honum út fyrir girðinguna; en addgeirinn hafði orðið fastur í honum svo að hann fór með. Í því komu feðgar og réðust á Hallgrím, því þeir voru vopnlausir. Þá iðraðist Hallgrímur þess að hann skyldi ekki hafa hlýtt ráðum Jóns; en það var um seinan þar þeir voru báðir dauðir. Svo glímdi hann lengi við þá feðga og svo var hann mjúkur að þeir fengu hann ekki af fótum fært. En það fann hann að hvar sem þeir snertu hann að þar murðist hold frá beini; en hann lét garðinn hlífa sér á bak til. Svo gekk þessi leikur lengi að hann senti öðrum um koll þegar hinn stóð upp. Þá kemur Helga hlaupandi og biður þá að gefa þessum mikla manni líf. Karl segir: „Á ég að gefa honum líf sem hefur líkast til drepið hann bróður þinn. Eða fannstu mann hér skammt í burtu?“ segir hann við Hallgrím. „Jú,“ segir Hallgrímur, og ég drap hann því hann átti engan rétt á sér.“ Þegar karl heyrði þetta þá varð hann hreint vitlaus, en Helga segir: „Þó þið drepið þennan mann þá lifnar bróðir minn ekki upp fyrir það.“ En karl var hreint óstillandi. Rétt í því heyrði Hallgrímur svoddan undrahljóð svo tók undir í fjöllunum, en karl var svo reiður að hann tók ekki eftir því. Og rétt í því kemur Jón hlaupandi og stökk jafnfætis yfir girðinguna og segir þeim að snáfa þessum manni kyrrum og muni þeir nóg búnir að gjöra honum, því þeir séu búnir líkast til að myrja hold frá beini á honum, og svo segir hann að þessi maður hafi gefið sér líf. Karl verður hvumsa við og segir: „Honum er lítið betra að lifa en deyja. En því komstu ekki heim með honum, því þá hefði betur farið?“ Jón sagði honum af hverju það var. En strax sem Hallgrímur hætti áflogunum þá þyrmdi svo yfir hann að hann komst valla nokkurstaðar. Svo fóru feðgar heim með hann og létu hann fara ofan í gott rúm; og svo fóru þeir að skoða hvert hann væri til skaða skemmdur og sáu þeir að hann var skaðlega skemmdur. Lærin á honum voru öll blámurin og eins voru handleggirnir, og hann var nokkuð skemmdur á brjóstinu og eins á bakinu. Svo böðuðu þeir hann úr köldu vatni. Svo spurði karl [hvort] hann fyndi nokkuð til innvortis, en hann sagðist ekkert finna til innvortis. Svo lá hann þarna rúmfastur nærfellt í þrjár vikur.

Svo er ekki að orðlengja það að hann var í þrjú ár á þessum bæ. En um haustið á þriðja árinu voru þeir ekki nema báðir saman karl og Hallgrímur eitthvað að gjöra. Þá segir karl við hann: „Það hef ég séð að ykkur Helgu dóttur minni er vel á milli og gleður það mig mikið, því þú ert einhver hinn vænlegasti maður sem hingað hefur komið og er það grunur minn að þú sért út af göfugum ættum kominn. Ég meina að þú eigir tvær systur og væri það vel til fallið að synir mínir ættu þær.“ „Vel mætti það takast,“ segir Hallgrímur, „því vel hefur mér líkað við þá síðan ég komst í kunningsskap við þá og veit ég ekki hvort þær fá betri giftingu. En ég veit ekki hvurnin ástatt er heima hjá mér þar ég hef aldrei haft tómstundir til að finna foreldra mína og veit ég ekki nema það sé búið að biðla til systra minna.“ Svo segir karl: „Mér þykir þú ekki forvitinn maður að þú á þessum tíma sem við erum búnir að vera saman skulir aldrei hafa spurt mig um það hvernin því sé varið að ég sé í þessum dal.“ Hallgrímur segir: „Það er af því að ég hef aldrei séð mér færi á því þar eð við höfum svo sjaldan verið einsamlir.“ „Hefurðu þá gaman af [að] heyra það?“ segir karl. „Já,“ segir Hallgrímur. Síðan tekur karl til máls og segir: „Ég er bóndason úr Húnavatnssýslu. Faðir minn átti mörg börn og dóu þau öll á unga aldri nema ég og systir mín. Þegar við vorum komin um tvítugt þá varð ég svo ólánssamur að falla með systur minni. En um vorið áttum við að fara bæði í grasaheiði og áttum við að vera í henni hálfan mánuð og sagði systir mín mér þá að hún væri veik eftir mig og komu þá yfir mig meiri ósköp en ég megi frá segja, því ég vissi að það var dauðasök okkar beggja. En af því ég unni meira móðir minni en föður mínum þá sagði ég henni frá högum okkar. Hún lét illa yfir því og sagði að það væri ekki annað ráð að koma okkur undan straffinu en það að við strykjum til óbyggða. Svo sauð hún í nesti handa okkur og hafði það rúmlega til hálfs mánaðar. Svo fékk hún okkur nokkuð af fiski og skyri og svo af ýmislegum mat sem lengi mátti geyma án skemmda. En föður minn furðaði mikið á því að við skyldum vera látin hafa svo mikið nesti til hálfs mánaðar. En áður en við fórum á stað þá fór ég til drengsins sem hafði fjárgeymslu á hendi. Hann var fóstursonur foreldra minna og ég bað hann þegar ég væri farinn á stað að láta ærnar okkar systkinanna inn í hús og gjöra það svo enginn vissi og ég sagði honum hvenær ég ætlaði að sækja þær. Svo fórum við á stað og vinnukona sem var látin fara með okkur sem átti að koma með hestana aftur er við riðum á og nestið var á. En þegar hún var komin heim þá tókum við hesta sem voru í heiðinni og faðir okkar átti. Og á annari nóttu frá því við fórum að heiman þá fórum við heim og ég tók pál og reku. Svo tókum við pott og byssuna mína tók ég og það sem henni fylgdi. Systir mín átti tvo dúnsvæfla hverjum hún náði og eins rekkjuvoðunum úr rúminu sínu og svo hinu og öðru sem við hnupluðum úr föðurgarði og ég nenni ekki að telja upp; svo fór ég til drengsins og fékk hann mér ærnar. Síðan héldum við á stað og héldum áfram dag og nótt þar til við komum undir jökul nokkurn; þar áðum við. Svo gekk ég á jökulinn til að vita hvort ég yrði nokkurs vísari, en systir mín var eftir hjá farangrinum. Ég sá að það var skammt yfir jökulinn og sneri ég þá aftur til systur minnar og sagði henni hvers ég var vísari. Síðan héldum við á stað og gekk okkur allvel ferðin yfir jökulinn og gáfum við svo hvurgi staðar fyrri en við komum á einn grasi vaxinn hól. Þar byggðum við okkur grjótbyrgi og er það sama tóttin sem þú náttaðir í þegar þú varst á ferðinni hingað í dalinn og í þessu byrgi vorum við í eitt ár. Ég bjó mér til net úr hampi þeim er ég stal úr föðurgarði og veiddi með því silung úr stóra vatninu sem eyjurnar eru í og þú munt hafa séð og á því lifðum við mestpart. Nokkrar kindur komu þar, en við tókum ekki nema þær sem við sáum fyrir víst að enginn hafði not af. Um haustið varð systir mín léttari og ól hún þá sveinbarn og skírðum við það skemmri skírn og nefndum Jón; það er hann eldri Jón sonur minn.

Nokkru þar á eftir sagði ég systur minni að ég ætlaði að ganga á sjónarhæð nokkra sem var þar nokkuð langt í burtu, og sagði henni að undrast ekki um mig þó ég kæmi ekki fyrri en daginn á eftir. Síðan hélt ég á stað og fór leiðar minnar. En á áliðnum degi kom ég á dalsbrún og í dalnum sá ég stóran og sterklegan bæ og háa girðingu í kringum bæinn, en utar í dalnum sá ég lítinn bæ og þókti mér ráðlegast að fara heim að litla bænum. Þegar ég kom þar þá barði ég á dyrum. Þar kom út aldraður kvenmaður og var mjög augnadöpur. Ég heilsaði henni og spurði hana að hvert mér væri óhætt að beiðast þar gistingar. „Já,“ segir kerling. „Við karlinn minn erum ekki vön að drepa þá sem til okkar koma. En á bænum hérna fyrir innan er allt annað því þar eru ekki nema þrælar sem öngum manni hlífa og væru þeir fyrir löngu búnir að drepa okkur, en karlinn minn er svo kunnáttusamur í forneskju að hann villir fyrir þeim sjónir, en hann er nú ekki heima því hann er að smala ánum.“ Svo spurði ég hana að heiti, en hún kvaðst heita Sæunn. Síðan fylgdi hún mér inn og gjörði mér vel til góða. En undir vökulokin kom karl og þókti mér hann ekki hýr í horn að taka, en kerling mælti um fyrir mér svo karl hætti rausinu. Síðan spurði ég þau að hvernin stæði á því að þessir þrælar séu hér í dalnum. Þau segja að það hafi komið tólf svartir þrælar á einu skipi hing[að] til landsins – „og höfðu stolið góss á skipi sínu og svo kváðust þeir vera skipbrotsmenn. Svo struku þeir með varning sinn til jökla og óbyggða og eftir tveggja ára hrakning komust þeir í þennan dal og var hann þá krökur af fé sem þeir slógu eign sinni yfir. Þeir hafa einn kvenmann hjá sér sem þeir stálu úr byggð og eru einlægt að fljúgast á um hana.“ Svo sagði kerling: „Þeir eru einlægt að bera sig að drepa okkur, en karlinn minn gjörir þeim svoddan missýningar að þeim sýnist allra handa ósköp kringum bæinn okkar svo þeir þora ekki heim.“ Svo slitum við talið og sváfum af um nóttina. En snemma daginn á eftir fór ég á stað og báðu þau mig vel að fara og óskuðu þess að ég gæti drepið þrælana. Síðan hélt ég heim til systur minnar og sagði henni tíðindin.

En karl sagði mér að koma að þrem vikum liðnum, því hann sagðist vita hvenær mundi vera bezt að ráðast að þrælunum. Og á tilteknum tíma fór ég til karls og tóku þau vel á móti mér. Svo fékk karl mér biturlegt sax og sagði mér að fara á bæinn til þrælanna og fara hljóðlega og staðnæmast öðrumegin við bæjardyrnar; en hann sagði að þeir mundu allir vera í svefni. Svo sagðist hann skyldi sjá svo til að það gengi einn og einn út í senn þangað til allir væru komnir, en hann sagði að ég skyldi högga þá alla á háls um leið og þeir færu út. En að því búnu sagði hann að ég skyldi taka alla skrokkana og fleygja þeim í gjá sem væri skammt frá bænum og kveikja svo í öllu saman. Síðan fór ég á stað, gjörði allt eftir því sem karl lagði fyrir mig; en að því starfi búnu fór ég inn í baðstofu og fann ég þar barn í vöggu sem var orðið nokkuð stálpað og var svart að yfirlit, en stúlkuna fann ég hvurgi og hefur hún sjálfsagt annaðhvort strokið í byggð eða þrælarnir drepið hana. Svo fór ég til karls og þakkaði honum liðveizluna og sagði að honum væri velkomið að flytja sig á þenna stóra bæ og ég sagðist skyldi sjá fyrir þeim; svo karl þáði það, flutti sig og eignir sínar á þenna bæ. En ég fór og sókti systur mína og þær litlu eigur sem í kofanum voru og settist svo í búið sem þrælarnir áttu og tók barnið til fósturs og ól það upp; og það var svarti þrællinn sem þú drapst. Þrælarnir áttu allra mesta urmul af fé sem þeir stálu af afréttum byggðamanna og á það sló ég eign minni. En þegar ég var nokkurn tíma búinn að búa hér þá átti ég með systur minni yngri Jón og Helgu. En það er þér að segja af gömlu hjónunum að þau útentu sína tíð hjá mér og lýkur nú ævisögu minni.“

Síðan tekur Hallgrímur til máls og segir: „Ég vil nú fara í byggð og finna foreldra mína, því þeim mun þykja mál á að sjá mig lífs og systrum mínum og ég vil fara með Helgu með mér og gifta mér hana ef þér er það ekki á móti.“ Karl lætur sér það vel líka. Svo segir Hallgrímur að það sé bezt „að bræður fari með mér.“ Síðan býr það sig á stað, en karl klyfjaði marga hesta með alls konar varningi og sagði Hallgrími að færa það foreldrum sínum. Svo setur Hallgrímur unnustu sína á þann bezta gæðing sem til var á bænum. Síðan heldur það allt á stað, en karl var einn eftir. En þegar það var komið spölkorn frá bænum þá stökk hestur Hallgríms yfir grafning, en um leið fékk hann óstillandi blóðuppgang svo honum lá við köfnun. Þá var hætt ferðinni því Hallgrímur komst hvurgi. Svo var slegið niður tjaldi, en Jón yngri var sendur eftir karli. Þá tekur Helga til máls og segir: „Dæmalaust ertu þrályndur, Hallgrímur, að þú skyldir ekki segja okkur frá því að þú kenndir til innvortis þeg[ar] við spurðum þig að því.“ En rétt í því kom karl og segir: „Lengi hefur mig grunað að svona mundi fara og útlit þitt hefur líka sýnt það þar þú hefur einlægt [verið] fölur sem nár og hefur þó svo gott velt þér í matnum, og hefði þér verið nær að dylja okkur þess ekki, því þá hefði betur farið, því nú er ósýnt að þér batni til þessa lífs.“ Síðan fór karl og Helga að lækna hann og batnaði honum ekki minna af lækningu Helgu en karls. Svo voru þau þarna yfir honum í þrjá sólarhringi og var þá honum nokkuð vægra. Þá heldur karl heim til sín, en þau halda leiðar sinnar og segir ekki af ferðum þeirra fyrri en þau komu til Þorgríms bónda. Urðu þá foreldrar og systur Hallgríms honum mjög fegin. Faðir hans segir við hann að það líti svo út eins og hann hafi haldið að þau hefðu önga foreldrarækt til hans að hann skyldi vera svona lengi í burtu án vilja þeirra og vitundar. Vel leizt þeim á konuefni sonar síns, en þeim var ekki um að gifta bræðrum dætur sínar þar eð þeir veittu Hallgrími báðir atgöngu. En Hallgrímur gat talað svo til að yngri Jón fékk Ingibjörgu, því hún var yngri, en hinn Sigríði. Svo var öllum veizlunum slegið saman og var þar mörgu stórmenni til boðið. En að veizlunni endaðri greiddi Þorgrímur heimanmund dætra sinna mestallan í peningum og áskilaði bræðrum og þeim öllum að finna sig tvisvar á hverju ári. Síðan héldu þau á stað og linntu ekki ferð sinni fyrri en þau komu í dalinn og varð karl þeim feginn. Svo reistu þeir sér þrjá bæi í dalnum og bjuggu sinn á hverjum bæ. Svo ráku þeir saman féð í dalnum og skiptu því jafnt á milli sín. En að nokkrum árum liðnum andaðist karl. En skömmu eftir andlát hans fluttu þeir allir bú sín úr dalnum og á Vestfjörður og bjuggu þar til dauðadags.

Og endar hér svo sögu þessa.