Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sagan af Hallgrími Guðmundssyni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Hallgrími Guðmundssyni

Saga þessi byrjar á bræðrum tveim; hét annar Jón, en hinn Guðmundur; þeir vóru bóndasynir, miklir fyrir sér og hinir mestu atgjörvismenn; þeir höfðu framazt utanlands og innan og numið margt er til nytsemda horfði fyrir þá og stétt þeirra; þar á meðal höfðu þeir numið smíðar og vóru þeir taldir hinir mestu þjóðhagasmiðir. Svo var kært með þeim bræðrum að þeir höfðu heitið því að skilja aldrei meðan þeir lifði. Þegar þeim þótti tími til kominn að staðfesta ráð sitt kvonguðust þeir báðir í einu og reistu bú báðir á sömu jörðunni, og þó hún væri hin mesta kostajörð var það með naumindum að hún gæti borið þá bræður því þeir vóru hinir mestu uppgangs- og gróðamenn.

Þeim bræðrum varð báðum barna auðið; eignaðist Guðmundur son þann er var nefndur Hallgrímur, en Jón dóttir er Sigríður hét. Vóru börn þessi bæði hin efnilegustu og er þess einkum getið um Hallgrím að hann væri afbragð ungra manna í þann tíma; var hann og til mennta settur og nam auk annars smíðar að föður sínum svo hann varð hinn mesti þjóðhagasmiður strax á unga aldri. Liðu svo fram nokkrir tímar til þess Guðmundur bóndi tók sótt þá er hann leiddi til bana; og með því Hallgrímur sonur hans var þá enn ekki frumvaxta tók Jón bóndi við jörðunni og búráðum öllum, en Hallgrímur var hjá honum öllum þeim stundum er hann vildi. Liðu svo fram langir tímar og varð Hallgrímur hinn mesti afbragðsmaður á vöxt og vænleik og allt atgjörvi.

Það var eitt kvöld að áliðnum vetri hjá Jóni bónda að tilrætt var um hvert nokkrir menn mundu þá hafast við á fjöllum uppi eður í óbyggðum eins og svo oft hafði áður átt sér stað; var það eins og vant er að sumir ætluðu að svo mundi vera, en sumir mæltu á móti. Var Hallgrímur bóndason einna frekastur að mótmæla tilveru útilegumanna og sagði að þeir sem teldu mönnum trú um slíkt færu með hindurvitni og hégiljur einar. Jón bóndi lagði fátt til, en sagði þó að þar mundi einhverju sinni koma að Hallgrímur fengi að ganga úr skugga um hvert útilegumenn væru til eður ekki. Hallgrímur lét sér fátt um finnast og féll svo tal þetta niður; leið svo af veturinn til vors að ekki bar til tíðinda.

Einn góðan veðurdag kemur Hallgrímur að máli við Jón bónda frænda sinn og segir sig fýsi að forvitnast í sumar um það hvert nokkuð sé tilhæft í því er hann hefði látið á sér heyra í vetur að menn mundu enn vera til og hafast við á fjöllum uppi; „hef ég haft viðbúnað til þessa í vetur, ráðið mér fjóra menn röskva til fylgdar og útvegað hesta og hvað sem hafa þarf til ferðarinnar“. Jón bóndi svarar: „Letja vil ég þig, frændi, fararinnar, því þó þú sért mikill maður og hamingjusamligur uggir mig þú fáir þig fullreyndan í ferðinni; er gæfuraun mikil að fást við fjallabúa.“ Hallgrímur segir ekki tjái að letja sig; fyrst hann hafi ráðið förina hljóti hún fram að ganga þótt hann viti vísan bana sinn. Er þar fljótast af að segja að för Hallgríms og þeirra félaga er búin sem hraðast og með hinu beztu föngum er til vóru; vóru þeir allir vel búnir að vopnum og klæðum og héldu af stað úr byggð á mánudag. Héldu þeir svo áfram í fimm daga og könnuðu fjöll og óbyggðir án þess að verða við nokkuð varir. Á sjötta degi komu þeir í dalsdrag nokkurt; vóru þar hagar góðir og áðu þeir þar hestum sínum; héldu þeir eftir draginu nokkra stund til þess fyrir þeim verður fjárbreiða mikil og því næst kenna þeir reykjarþef. Vita þeir þá með vissu að þeir eiga skammt til mannabyggða, enda leið ekki á löngu þar til þeir sjá bæ mikinn og reisuglegan standa í dal þeim er þeir höfðu farið eftir um hríð; sjá þeir að umhverfis bæinn er virki mikið; halda þeir nú áfram og stefna á bæinn. En þegar þeir eiga allskammt til hans sjá þeir að maður gengur frá bænum, lýkur upp virkinu og skilur það eftir opið; stefnir hann á þá félaga og sjá þeir að maðurinn er unglegur og hvatlegur og hinn vígamannlegasti. Hann hafði atgeir mikinn í hendi. Þegar þeir mætast verður ekki af kveðjum því heimamaður leggur þegar atgeirinum í gegnum einn félaga Hallgríms og dettur hann þegar dauður niður. Þegar Hallgrímur sér þetta snarast hann af baki og að heimamanni og ráðast þeir á allsterklega; finnur Hallgrímur það að heimamaður er ramur að afli; en þó lýkur svo að hann fellir heimamann; lætur hann þá kné fylgja kviði og ætlar að hann skuli ekki verða fleirum mönnum sínum að skaða. En þegar að svona var komið ræður heimamaður það af að biðja um líf; segist Hallgrímur muni gjöra það ef hann heiti sér því að reynast sér trúr og veita sér liðveizlu. Heimamaður mælti: „Því mun ég heita er ég mun enda að ég mun þér trúr reynast; en ekki má ég þér lið veita því ég veit þú ætlar að heimsækja föður minn sem hér ræður fyrir. Annars ræð ég þér að snúa aftur við svo búið; því þó þú sért gildlegur maður og hafir mig unnið er ei líklegt þú berir gæfu til að stíga yfir föður minn því hann er hið mesta afarmenni og þó nú hniginn á efra aldur.“ Hallgrímur kvaðst mundi hætta til funda við dalbúa og mundi auðna ráða skiptum þeirra; en seg mér hversu faðir þinn er margmennur fyrir“. „Hann er við þriðja mann heima og er annar þeirra bjartur á hár og hörund og hinn vænsti maður, en hinn svartur og illilegur; fari svo að þú eigir ráð á lífi þessara manna ræð ég þér að drepa sem skjótast hinn svarthærða mann því hann mun þér illa gefast, en hinum skaltú líf gefa, einnig föður mínum því hann mun þér það góðu launa.“ Lét þá Hallgrímur dalbúann upp standa og fór hann áfram leiðar sinnar, en þeir félagar héldu til bæjarins. Stóð ung kona og fögur í dyrum og heilsar komumönnum; þeir taka kveðju hennar og biður Hallgrímur hana að útvega sér og mönnum sínum að drekka. Hún gengur inn og kemur fljótt aftur með drykkinn; spyr hún komumenn að nafni og hvaðan þeir séu. En þeir segja til hið sanna. „Ráða vil ég ykkur,“ segir konan, „að hafa ykkur sem skjótast á burt því hér munuð þið ekki sagðir velkomnir“; heyrir þá Hallgrímur að sagt er innar í bænum að ekki muni þeir komast með öllu klaklaust á burt aftur.

Í þessu bili kemur út maður; hann var bæði hár og digur og hinn gildmannlegasti að sjá og þó nokkuð ellilegur. Einn hestur þeirra félaga stóð fyrir dyrum þegar bóndi kom út, og bregður hann undir hann lófanum og snarar honum fram af hlaðinu. Á eftir hinum mikla manni gengu út tveir menn, annar bjartur og fríður sýnum, en hinn svartur og illilegur. Veit Hallgrímur að það er sá maður er honum var til vísað að ráða af dögum og vill hann fyrir hvern mun vinna það verk sem fyrst; leggur hann því í gegnum hann atgeirinum er hann hafði að vopni og dettur hann dauður. En í sömu svipan ræðst hinn mikli maður á Hallgrím og fleygir hann atgeirnum, en tekur á móti; verða þar hinar hörðustu sviptingar og finnur Hallgrímur að hann hefur ekki hálft afl við dalbúa; kreisti hann hold hans frá beini og lá Hallgrími við falli: en með því hann var ungur og liðugur, en dalbúinn hniginn á efra aldur, mæðist hann fyrri, og fór svo að lyktum að hann fellur fyrir Hallgrími. Kemur honum í hug hvers hinn ungi maður hafði beðið hann og býður dalbúa líf ef hann vilji lofa því að reynast sér trúr. Þakkar dalbúi lífgjöfina og kveðst mundi heita honum því er hann mundi enda að hann mundi ekki svíkja hann: „ertu sá fyrsti maður sem mér hefur á kné komið“. Í sama bili kemur að hinn bjarthærði maður; hafði hann þá unnið á félögum Hallgríms og ætlar nú að vega að honum hið skjótasta. En dalbúinn bannar honum það og segir þá sátta; reisir nú Hallgrímur hann á fætur og býður bóndi honum inn með sér og segir honum muni mál á hjúkrun. Var Hallgrímur mjög lerkaður af aðgangi dalbúans og víða meiddur. Skipar hann hinni ungu konu að vinna Hallgrími allan beina og hjúkra honum sem bezt, og er honum matur borinn og síðan til sængur leiddur; og með því Hallgrímur var lúinn og þrekaður sofnar hann skjótt og sefur af til morguns. Var það sunnudagur og er þá bóndi snemma á fótum og allt heimafólk. Var nú maður sá heim kominn er Hallgrímur hafði fyrst fengizt við í dalnum. Ekki sá Hallgrímur fleira fólk á bænum en bónda, gamlan kvenmann er hann meinti vera konu hans, hinn bjarthærða mann, konuna ungu er honum þjónaði til rúms og hinn unga mann er áður var getið; vóru þau systkin og börn hjóna. Þess varð Hallgrímur var að á sunnudaginn komu fáar manneskjur á bæinn og að fram fór einhvörs konar guðsþjónustugjörð í afviknu þar til gjörðu húsi og var bóndi presturinn.

Hallgrímur hresstist nú skjótt undir umsjón bóndadóttur því hún var hinn bezti læknir, og þykir honum furðu skemmtilegt í dalnum enda er bóndi og allt heimafólk glaðvært og gjörir honum allt til skemmtunar. Líður svo allt að mánuður að Hallgrímur leitar ekki til burtferða og að ekkert ber til tíðinda. Það var einn dag að bóndi kemur að máli við Hallgrím og segir: „Þú hefur nú dvalið hér um hríð og hugnast mér vel þitt framferði; þú ert maður vel að þér gjör og óhnýsinn; hefur þú ekki forvitnazt um hagi vora dalbúa. Nú með því ég býst við þú viljir leita átthaga þinna þá ætla ég að segja þér það sem drifið hefur á daga mína og með hverjum atburðum ég er kominn í þennan dal; því það skaltu vita að ég er ekki hér borinn og barnfæddur.“ Hallgrímur segist það gjarnan vilja og byrjar bóndi sögu sína á þessa leið:

„Nafn mitt er Eiríkur og er ég prestsson af Vesturlandi; við vórum tveir bræður og hét hann Guðmundur; systir áttum við og er Helga hét; við bræður vórum til mennta settir og látnir í skóla; áttum við að verða prestar ef auðnan vildi svo vera láta og þóttum við gildlegir menn á þeim dögum; var ég talinn fyrir okkur bræðrum. Liðu svo fram tímar að ekkert bar á rekana til þess eitt haust að við bræður áttum eftir venjunni að fara í Skálholtsskóla, þá vill bróðir minn hvergi fara og kemur allt fyrir eitt hvert sem hans er leitað með blíðu eða stríðu að hann situr við sinn keip. Aflar þetta föður okkar hinnar mestu áhyggju. Eitt sinn tek ég bróður minn á einmæli og bið hann segja mér hverjar séu orðsakir þessarar fyrirtektar hans. Færist hann undan með fyrstu, en þó fór svo að hann segir mér hið sanna; hafði hann fengið óleyfilega ást til systur okkar og þau hvert til annars og var hún orðin barnshafandi eftir hann; segist hann nú engin ráð sjá til að umflýja dauða þeirra beggja nema ef hann áræddi að strjúka með hana til óbyggða og væru það þó neyðarúrræði; bað hann mig með mörgum fögrum orðum að vera sér nú liðsinntan og hjálpa upp á þau í þessu basli; og með því mér var einkar kært til þeirra systkina minna og rann mjög til rifja bágindi þeirra þá hét ég bróður mínum minni liðveizlu og lofaði enda að strjúka með honum ef þess væri kostur. En það sem mér þótti lakast í þessu efni var að ég átti kærustu sem mér var kærari en allt annað, og fann ég skjótt að mér mundi með öllu ómögulegt að skilja við hana; ég réði því af að finna hana sem fyrst og segja henni alla sögu; sagðist hún gjarnan vilja lifa og deyja með mér hvað sem á dagana drifi. Var því ferðin ráðin og bjuggum við á laun um alla dýrgripi okkar og það er við vildum helzt með okkur hafa og komum því öllu á afvikinn stað í veg fyrir okkur. Lögðum við svo af stað á ákveðinni nóttu svo engvir urðu við varir og héldum sem hraðast áfram til fjalla. En er við vórum komin í efstu afrétti tók veður að versna og dreif niður snjó svo ekki var fært að halda lengur áfram; réðum við því af að setjast að í hellir einum og búast þar til vetursetu. Gjörðum við það eftir föngum og drógum að það er hafa þurfti og hægt var að fá; en er þessu var lokið komu bjartviðri og stöðug tíð; réðum við bræður það því af að ganga á fjöll og leita að haldkvæmari aðsetursstað og tryggari en hér var því hellir okkar var of nærri byggðum og ekki gott heimkynni. Skildum við nú við konurnar í hellinum, en bjuggumst með svo mikið nesti sem gátum með komizt á fjöllin. En er við höfðum skammt farið tók veður að versna og gjörði á kafald með dimmviðri; var það í marga daga að við vissum ekki hvar við fórum og þraut okkur bæði nesti og skó.

Það var eitt sinn að áliðnum degi að heldur hallaði undan fæti; fundum við að við gengum ofan grasi vaxna fjallshlíð; og er við höfðum gengið um hríð verður fyrir oss kotbær lítill; drápum við að dyrum og kemur út maður stór vexti og ekki illmannlegur; við heilsum honum og beiðumst næturgistingar. En hann tekur því líklega og segir næturgisting heimila; leiðir hann oss til baðstofu; eru dregin af okkur vosklæði og veittur góður beini. Spyrjum við manninn að nafni og kveðst hann Grímur heita og vera þar húsráðandi. Ekki var þar margt manna fyrir; sofum við af þessa nótt; en að morgni býður bóndi okkur þar að vera meðan við aflýjumst; segir hann að ekki sé ráðlegt að leita í burtu fyrri en tíð batnaði. Tókum við þessu boði bónda feginsamlega og vórum hjá honum nokkra daga vel haldnir. Þess urðum við varir að menn komu stöku sinnum á bæinn og vórum við þá ætíð faldir í framhýsi; en er sá tími kom að okkur þótti mál að leita á burtu köllum við bónda á einmæli og segjum honum hvernig á högum okkar standi og biðjum hann byggðarleyfis og ásjár. En hann mælti: „Það veit ekki svo við að ég geti nokkra ásjá veitt ykkur; hér er annar maður í dalnum sem einn ræður öllu; hann á þrjá sonu við konu sinni og er það allt hið mesta illþýði. Var hann hér fyrir í dalnum þegar ég kom og hef ég því aðeins fengið að vera hér að ég hef látið hann einn öllu ráða, og er það vís bani minn ef það kemst upp að ég hafi hýst ykkur.“ Þegar við heyrðum þetta sögðumst við mundum hætta á að finna dalbúa og vita hvernig hann tæki okkur. En Grímur bóndi taldi það hina mestu áhættu; „en þó eruð þið sjálfráðir,“ segir hann. Vísar hann okkur þá á leið til bæjar dalbúans og snýr svo heim aftur. Sáum við skjótt bæinn og var byggt um hann virki mikið og ramgjört; var þar á hlið og læst ramlega svo hvergi varð inn komizt; réðist ég þá upp á vegginn og gat komizt það með aðbeining bróður míns, en dró hann síðan upp og hlupum við strax að bænum. Stóð bóndi í dyrum og sýndist okkur hann mjög illilegur og hinn tröllslegasti; og er hann varð okkar var réðist hann þegar út á móti okkur; varð ekki af kveðjum, en við sóttum þegar að karli hið snarplegasta. Fór svo að lyktum að við gengum af honum dauðum; en rétt í sömu svipan kemur kerling að með sonu þeirra þrjá og sækja þau að okkur í ákafa; varð það hin snarpasta hríð og urðum við vandlega að gæta okkar fyrir aðgangi þeirra. En svo fór að lyktum að við urðum þeim öllum að bana enda vórum við þá bæði þreyttir og móðir. Nú leituðum við innar í bæinn til að vita hvers við yrðum varir; en er við komum innar heyrðum við barnsgrát; gengum við á hljóðið og komum loks í baðstofu; lá þar sveinbarn grátandi í vöggu; við könnuðum bæinn og fundum þar mikið fé; héldum við síðan aftur til Gríms bónda og höfðum drenginn með okkur. sögðum við honum hvar komið var og kváðumst nú vilja leita kvenna okkar og mundum við halda hingað í dalinn; þóttumst við rétt komnir að eigum dalbúans; en ef við kæmum ekki aftur gáfum við Grími bónda allt það fé og fólum honum drenginn til uppfósturs. Héldum við nú leiðar okkar og bar ekkert á rekana fyrri en við komum í hellirinn; urðu konurnar okkur harðla fegnar, því þær þóttust okkur úr helju heimt hafa; sögðum við þeim hvar nú var komið ráði okkar og hvar við hygðum til aðsetursstaðar. Létu þær sér þetta vel líka. Er þar fljótast af að segja að þegar veður leyfði lögðum við af stað úr hellinum og náðum með heilu og höldnu í dalinn. Settist ég að á bæ dalbúans, þess er við drápum, með kærustu mína og systir okkar og tók við búi öllu; en bróðir minn var hjá Grími bónda. Vildi ég ekki að þau systkinin væru saman og létu þau sér það vel líka. Varð systir mín bráðum léttari að sveinbarni eftir það hún kom í dalinn og er það hinn bjarthærði maður; en dreng þann er eftir lifði af illþýði dalbúans ól ég upp og var það hinn svarthærði maður sem þú drapst er þú komst hér fyrst; bæði systkin mín eru nú dauð fyrir nokkrum árum og hef ég grafið þau hér í dalnum.

Nú hef ég sagt þér sögu mína og kýs ég mér til launa að þú farir með son minn til byggða og útvegir honum sæmilegt kvonfang því slíks er ekki kostur hér í dalnum. Fyrir dóttur mína ætla ég ekki að biðja því mig grunar hún hafi komið sér svo við þig að hennar bænir megi sér mest hjá þér.“

Hallgrímur mælti: „Gjarnan vil ég gjöra það er þú beiðir og geturðu rétt í vonirnar að dóttir þín er sú kona er ég mundi mér helzt kjósa; vil ég nú vita hverju þú mundir svara ef ég færi þeirra mála á leit við þig.“ Bóndi mælti: „Ekki mun ég draga þig á svarinu og mun dóttur minni ekki auðið að fá vænni mann en þig; en ekki er þess að vænta hún fari héðan úr dalnum meðan ég lifi og hlýturðu því að flytja þig hingað, en hvað þú gjörir þegar ég er dauður ertu sjálfráður um.“ Hallgrímur kvað þetta mundu ekki fyrir kaupi standa, „og vil ég nú sem fyrst vitja átthaga minna svo ég geti komizt hingað á þessu hausti; vil ég að Jón sonur þinn fari með mér og hef ég helzt hug á að biðja honum til handa einkadóttur Jóns föðurbróður míns.“ Bóndi kvað sér þetta vel líka.

Er nú ferð þeirra Jóns og Hallgríms búin sem bezt að föng eru á og segir ekki af þeim fyrri en þeir komu til Jóns bónda. Fagnaði hann vel Hallgrími frænda sínum og þóttist hann úr helju heimt hafa. Sagði Hallgrímur frá ferðum sínum og þótti hann mikið hafa vaxið við þrekvirki þau er hann hafði unnið; hefur þá upp bónorð fyrir hönd Jóns dalbúa til frændkonu sinnar og var því ekki tekið í fyrstu; en fyrir aðfylgi Hallgríms og þess annars að mörgum leizt vel á manninn vannst það þó um síðir. Var þá ferð þeirra félaga búin aftur í dalinn því þeir vildu ekki dvelja lengi. Höfðu þeir með sér konuna og mikinn fjárhlut í lausafé; gekk þeim ferðin vel í dalinn og settust þeir nú um kyrrt næsta vetur. En að vori var prestur sóttur í byggðir til að vígja hin ungu brúðhjón. Tók Hallgrímur þar á eftir við búráðum í dalnum og hafði þau meðan tengdafaðir hans lifði, og er þess eigi getið hvað lengi það var. En að honum látnum hélt hann aftur í byggð, en Jón tók við búsráðum í dalnum. Var þá föðurbróðir hans dauður og tók hann við jörð þeirri er hann hafði á búið og þeir faðir hans og bjó hann þar til ellidaga; þótti hann æ hinn mesti maður.