Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sagan af Harða-Lofti

Úr Wikiheimild

Loftur hefur maður heitið; hann þótti harðgjör og ófyrirleitinn um margt og var því oft kallaður Harði-Loftur. Við ýmsa klæki var hann kenndur, bæði þjófnað og fleira. Varð hann þá fyrir dómi og var hýddur. Eftir það var hann ýmist nefndur Harði-Loftur eða Hýddi-Loftur.

Segir það þessu næst frá honum að hann giftist og átti margt barna og bjó við fátækt mjög mikla. Bær hans stóð undir fjalli einu. Það var siður hans að vera til sjóróðra á sumrum og þurfti hann yfir fjöll að fara. Eitt vor varð hann mjög síðbúinn að heiman og lagði einn síns liðs á fjöllin og hafði tvo hesta, þann er hann reið og annan undir föggum. Segir nú ekki af hans ferð fyrr en kemur einn dag í gott graslendi meðfram á einni. Þykir honum þar vænlegt að beita hestum sínum, stígur því af baki, tekur reiðfærin af hestunum og sleppir þeim svo, en leggst sjálfur að sofa. Og er hann hefur sofið sem hann lysti rís hann upp og ætlar að fara að taka hesta sína; en þá er komin svo mikil þoka og dimm að hvurgi sá. Þó fer hann að leita hestanna, gengur víða og finnur ekki. Ráfar hann svo í þungu skapi heim að farangri sínum og sezt þar niður og er að hugsa um hvað þetta hafi tekizt slyslega til fyrir sér að hann skyldi tapa hestunum. En sem hann er að hugsa um þetta veit hann ekki fyrri til en maður allstórvaxinn kemur að honum og heilsar honum með nafni. Lofti verður mjög bilt við, en spyr þó hvur hann sé er heilsar honum með nafni. Aðkomumaður segir: „Engu skiptir þig um hvað ég heiti, en gjörla veit ég um ferðir þínar og eins hvar hestar þínir eru því þeir eru hérna upp með ánni, skammt frá er þú leitaðir. Nú er þér bezt að verða hjá mér kaupamaður í sumar og skal ég gjalda þér vel ef þú vinnur trúlega.“ Ekki var Loft meir en svo um að fara með manni þessum, og langaði mjög til að drepa hann, en þorði þó ekki að gjöra neina tilraun til þess og ekki heldur að mótmæla því að fara með honum. Fara þeir nú að skyggnast að hestunum og finna þá fljótt, leggja svo á þá og fara af stað. Ræður aðkomumaður ferðinni og er alltaf spölkorn á undan, en Loftur í hámót á eftir. Fara þeir þannig nokkuð lengi þar til fer að halla undan fæti, og birti þá þokuna. Sér Loftur að þeir eru að fara ofan í dalbotn einn. Þótti honum þar land fagurt, en ekki sá hann hvað stór dalur sá var, því að eins leit út og þoka lægi yfir honum þegar frá botninum dró. Þar sá hann líka í einum stað í brekkunum fjóra sauði, tvo gráa og tvo hvíta, og fannst honum hann aldrei hafa séð slíkar kindur að stærð. En er þeir hafa farið skammt ofan fyrir brekkurnar koma þeir að fjárhúsum nokkrum. Var þar umhverfis engi mikið og fagurt. Við þessi hús nemur dalbúinn staðar og tekur svo til orða við Loft: „Hér á þessum húsum áttu að hafa aðsetur í sumar og er byggð mín hér í þessum dal. Þú átt að vinna upp allar þessar engjar og koma í garð hér við húsin. Ekki máttu neitt forvitnast um þennan dal og hvurgi fara nema á engjarnar og þegar þú hugar að hestum þínum því þeim skaltu sleppa hér upp í brekkurnar. Dóttir mín kemur á morgun með rúm handa þér að sofa í og mat til að borða. Hún á að raka eftir þér á hvurjum degi í sumar, en heima hjá mér verður hún á nóttunni. Ekkert máttu eiga við hana sem til vansa horfir. Hvað sem þú með þarft til vinnunnar skaltu frá mér hafa. Ef þú leysir þetta allt vel af hendi, þá skal ég þér það fullu borga, en ef þú brýtur af í nokkru verður það þinn bráður bani. Get ég sagt þér það að ég veit gjörla um framferði þitt þó ég sé ekki hjá þér, og er því til sannindamerkis að ég veit að þig hefur langað til að drepa mig síðan við fundumst þó ekki hafir þú árætt það.“ – Loftur var sem milli heims og helju meðan kall lét dæluna ganga, og þorði ekki annað en að lofa öllu fögru. Fer svo dalbúinn frá honum, en Loftur sleppir hestunum og sefur svo í húsunum um nóttina.

Um morguninn snemma kemur til hans kvenmaður á rauðum fötum og var það dóttir bónda. Hún færði Lofti allt það er hann með þurfti, bæði verkfæri og rúmfatnað og matvæli. Tekur hann nú til verka og rakaði stúlkan eftir honum. Gengur svo fram eftir sumrinu og fer allt vel á milli þeirra Lofts og stúlkunnar. En engar mannaferðir sá hann; og virtist honum sem þoka mikil væri yfir dalnum ætíð.

Eitt kvöld er stúlkan var komin heim fór Loftur að huga að hestum sínum þar upp í brekkurnar; og sem hann var búinn að finna þá, hugsar hann með sér að ekki muni dalbúinn vita þó hann fari upp á næstu brekku; og þegar hann kom upp á brekkuna þótti honum sem sér birti fyrir augum; sá hann þá stóran og fagran dal og marga bæi. Tekur Loftur nú (er hann hafði þetta séð) á rás og heim til húsanna og leggst til svefns.

Um morguninn kemur stúlkan að vana og segir við Loft er þau fundust: „Nú hefur þú illa gjört er þú hefur brotið á móti boði föður míns og farið lengra upp í brekkurnar en þú þurftir; er hann þér allreiður. En sökum þess að þú hefur sýnt mér þægilegheit skal ég allt kapp á leggja að hann láti þig þess ei gjalda.“

Lofti þóttu þetta ei góð tíðindi. Halda þau nú fram verkinu af alefli, svo að um haustið vóru upp unnar allar engjarnar. Segir þá stúlkan við hann eitt kvöld er hún ætlaði heim: „Nú er svo komið að lokið er heyverkum og kem ég ekki oftar; en faðir minn kemur á morgun að finna þig. Varðar þá miklu hvursu honum líkar. En mundu mig um það að breyta ekki af ráðum hans í hvurju sem er; og mun vel fara ef þú svo gjörir.“ Síðan kveðjast þau og þakka hvurt öðru fyrir góða samveru og skilja að því afloknu. Fer stúlkan heim og getur ekki um hana framar, en Loftur sefur af nóttina.

Um morguninn snemma kemur dalbúinn og hefur með sér gráan hest mjög vænlegan og á honum strokka tvo allmikla. Hann heilsar upp á Loft og fer svo að litast um; og er hann hefur nákvæmlega yfirlitið allan verknað Lofts tekur hann þannig til orða: „Það kalla ég, Loftur, að þú hafir leyst verk mitt vel af hendi og ekki brotið á móti boðum mínum það teljandi er. Nú er eftir að greiða þér kaupið; kom ég hér með strokka tvo er ég ætla þér, og er smjör í báðum; og vænti ég að þér mundi ei vera annað hagkvæmara. Einnig gef ég þér sauði þá fjóra er þú sást í sumar er þú komst hingað, og munu þeir enn verða á leið þinni er þú ferð héðan.“ Loftur segir: „Mjög miklar þakkir kann ég þér bæði fyrir sauðina og smjörstrokkana. En þó sé ég að mér er ómögulegt að koma þeim til byggða minna því hvurki geta hestar mínir borið þá né ég sjálfur tekið þá ofan eða látið upp.“ Dalbúinn mælti: „Ég skal ljá þér gráa klárinn til að bera þá; hann mun rata og er þér bezt að láta hann ráða ferðinni, og ekki muntu þurfa að hvíla hann. Þegar þú kemur þar sem sauðirnir eru er þér bezt að víkja þeim á eftir klárnum og vona ég þá að þér verði ekki óhægt að reka þá. En þar sem klárinn nemur staðar skaltu taka af honum strokkana, því þér mun ei hægt að koma honum lengra; enda hefurðu ekki mitt leyfi til þess; og verður þér sjálfum til hins versta ef þú þreytir við hann.“ – Loftur lofaði öllu fögru, þakkar svo dalbúanum með mörgum fögrum orðum og kveður hann vinsamlega. Labbar þá Gráni af stað, en Loftur heldur á eftir. Og er þeir koma þar sem sauðirnir vóru fór Loftur fyrir þá og veik þeim á eftir Grána og runnu þeir það viljugt; og er svo ekki sagt af ferð Lofts fyrr en hann kom á brúnina fyrir ofan bæinn þar sem hann átti heima. Þar nemur Gráni staðar, en Loftur gengur að honum og leggst þá klárinn á hnén með framfæturnar eins og hann vildi gjöra Loft hægra fyrir að ná ofan strokkunum. Loftur hugsar þá með sér að óskemmdur sé klárskrattinn þó hann fari með hann heim að bænum og ekki muni dalbúinn vita stórt af því, rekur hann svo á fætur aftur og vill koma honum af stað heim að bænum, en Gráni stóð sem jarðfastur klettur hvursu sem Loftur barði hann. Verður þá Loftur æfar reiður og hugsar með sér að dalbúinn skuli ekki heldur hafa not af honum og veður að klárnum með hníf og ætlaði að reka í hann. En Gráni brást þá við fljótar en Loft varði og sömu leið til baka aftur. Loftur ætlaði að komast fyrir hann, en það var ekki til neins, og sá hann eftir honum með strokkana og þótti súrt í brotið, en varð þó svo búið að hafa; fer nú og rekur heim sauðina og gjörði sér gott af þeim með hyski sínu.

Vorið eftir lagði hann á fjöllin og ætlaði að finna dalbúann á nýjan leik. Kom þá niðmyrkur af þoku og komst hann með illum leik heim aftur og fann ekki dalbúann framar. Og endar svo þessa frásögu.