Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sagan af Helga Finnssyni

Úr Wikiheimild

Á Austurlandi bjó prestur einn og finnst hvorki getið um nafn hans né bústað. Hjá honum var vinnumaður er Finnur hét. Prestur átti dóttur eina sem ekki er heldur um getið hvað hét. Presti líkaði svo vel við Finn að hann gifti honum dóttur sína og útvegaði þeim jörð í sókn sinni. Í þennan tíma fóru menn kaupstaðarferð á Eyrarbakka og fóru þá miklar sögur af kaupmanni það hann vægi stórum af sveitamanna vörum. Finnur kvað það mundi af því menn færu illa að kaupmanni. Nú fer Finnur í ferðirnar og mætir mönnum er þaðan komu og bar öllum saman um kaupmanninn. Finnur fær hina sömu afvigt. Slær þá í orðahnippingar og slær Finnur kaupmann svo mikið kjaftshögg að hann hrýtur á búðarvegginn og heilaklofnar. Nú átti þegar að taka hann fastan, en félagar hans fengu honum lausan hest og reið hann hið hvatlegasta heim og tekur konu sína og eitt barn er þau áttu fjögra ára gamalt og hét Helgi og allt [er] fémætt var og flúðu til fjalla og er ei getið um þau fyrst um sinn.

Þess er getið að á Rangárvöllum bjó bóndi einn. Hann átti konu þá er Halldóra hét, en systir hennar var þar vinnukona hjá þeim. Þá fóru menn á grasafjall og átti vinnukonan að fara. Hún bað Halldóru sjá til þess hún þyrfti ei að fara því þar nærri var vinnumaður einn er fara átti líka og vildi hún því ei fara því hann hafði með frekju leitað samfara við hana, og hlaut Halldóra því sjálf að fara, en þá var hún þunguð. En er þau höfðu tínt nokkra daga datt á myrkaþoka svo menn sáu ekki hver annan. Villtist Halldóra frá fólkinu og er hún hélt sig halda til þess fór hún þvers úr leiðinni og svo lengi gekk hún að af henni voru slitnir skór og sokkar svo hún gekk á berum fótunum þar til hún kom að stórum steini. Undir hann lagðist hún og taldi sér dauðann vísan. Og er hún hafði legið um stund kemur til hennar hundur. Heyrir hún þá kallað: „Láttu hana vera!“ Þá kemur til hennar maður og segir: „Ætlarðu lengi að liggja hér, Halldóra?“ Hún kvaðst vænta þar dauða síns; hann segir: „Viltu ekki koma heim til mín með mér?“ Hún sagði: „Nei.“ Hann mælti: „Þú ert jafndauð hér allt eins og þó þú komir með mér.“ En hún vildi hvergi fara. Hann tekur hana þá á handlegg sér og ber hana lengi þar til hann kemur í einn lítinn dal. Þar sér hún lítinn bæ og laglegan. Þar sér hún og fjárbreiðu og vísar maðurinn hundinum á hana og hleypur hann í kringum hana og rekur féð þar til þau koma að kvíum. Maðurinn rekur féð inn. Skjóla stendur á kvíaveggnum. Skilur hann þar Halldóru eftir á meðan hann mjólkar. Síðan fer hann heim með hana, velgir vatn og þvær fætur hennar og ber á þær þar sem hún var orðin særð á fótunum, og [að] viku liðinni var hún orðin allgóð og fær [hann] henni síðan í hendur alla innanbæjarsýslun, fræðir hana um ætt sína og segir henni að faðir sinn héti Finnur, en nábýlismennirnir hefði einu sinni drepið föður sinn er hann hefði ekki verið heima. En hann segist samt ekki geta nagað sig í handarbökin að hann ekki hefði hefnt hans. Sjálfur segist hann heita Helgi.

Nú kemur sá tími að Halldóra leggst á gólf. Þá segir Helgi: „Nú kemur sá tími og það verk að höndum sem ég á bágast með, því þó móðir mín kenndi mér margt þá kenndi hún mér þó aldrei þetta.“ Hann fer nú í burtu og kemur bráðum aftur með kvenmann og skipar henni að láta sér fara[st] vel við Halldóru og barnið – „því annars drep ég þig“. Hún mælti: „Ekki geti ég að því gjört.“ Hann sagði það væri hið sama. Nú fæðir Halldóra barnið og gekk það vel. Síðan fer konan burtu, en Halldóra lá sængurvikuna; eftir það fékk hún góða heilsu.

Eitt sinn kemur Helgi að máli við Halldóru og mælti: „Hvort viltu heldur vera hér eða ég færi þig heim; ella fari ég og segi bónda þínum allt um hagi þína?“ Hún sagðist heldur fara vilja. Hann sagði hana mundu þess lengst iðrast. En er fólk var komið á grasafjall fer Helgi og finnur menn að máli og bað menn skila til bónda hvert hann megi vitja Halldóru og bað hann um leið gangast fyrir að hann mætti með frjálsu koma í byggðina án þess að hann fái gjöld fyrir afbrot föður síns. Þetta gengur eft[ir] því sem Helgi bað, að bóndi fer til sýslumanns og fær byggðarleyfi hjá honum. Nú fer bóndi og sækir Halldóru og fer Helgi með henni og fer til sýslumanns og var vinnumaður hjá honum í átta ár. Á þessum tíma var svo mikið hallæri að við manndauða lá. Þá segir Helgi við sýslumann það gangi mest yfir sig hvað fólkið sé atburðalaust svo mikil blessun sem í kringum landið sé. Sýslumaður segir að enginn hafi atburði til að ná því. Þá segir Helgi: „Ætli þú vildir láta mig hafa helfing af veiðinni hvort sem hún yrði mikil eða lítil?“ Sýslumaður segist það vilja. Nú fer Helgi að skjóta selinn og syndir eftir honum og aflar mikils og fær helfing af honum. En er hann hafði lengi að þessu verið lögðu menn honum minni þakkir til, heldur öfundu[ðu] hann af hagsmunum þeim er hann hafði af veiðinni og knurruðu yfir þessu, og þá er farið var að skipta urðu ill orð, áflog og ryskingar út af þessu. Segir Helgi þeir skyldu ekki oftar þurfa að fljúgast á út af veiði sinni.

Einn dag er Helgi var á gangi nærri bæ Halldóru þá kemur hún berfætt hlaupandi í veg fyrir hann og biður hann hafa einhver ráð með sig því systir sín og bóndi legðist á eitt og lægi við þau dræpi sig. Hann sagði sig það grunað hafa. Að nokkrum tíma liðnum hvurfu þau og vissi enginn hvað af þeim varð.

Mörgum árum seinna bar svo við einn vetur að menn fóru að norðan suður til sjóróðra fram á Seltjarnarnes. Með þeim var stúdent einn er Auðun hét. En er þeir voru komnir nokkuð áleiðis villtust þeir. Þrættust menn þá um hvert halda skyldi svo að þeir tvístruðust; urðu þrír í öðrum hópnum, en fimm í hinum og var Auðun stúdent einn af þeim fimm. Villtust þeir lengi þar til þeir komu að einu gili er var óyfirfaranlegt. Þá heyra [þeir] kallað hinumegin á gilinu: „Farið þið dálítið neðar!“ Þeir gjöra það og finna þar götu yfrum gilið. Eftir það komast þeir yfrum og upp úr því og sjá þar reisuglegan bæ og stendur þar maður úti. Þeir heilsa honum og tekur hann undir blíðlega. Þeir beiðast húsa, en hann veitir engin svör önnur en þau hann biður þá hjálpa sér til að láta inn hestana og ganga frá farangri þeirra og bera inn færur þeirra. Hann fylgir þeim inn í vænt hús að sofa í. Að litlum tíma liðnum kemur kona inn til þeirra með fullt trog af graut og skyri og segir að húsbóndinn vilji finna Auðun þá þeir séu búnir að borða. En er þeir eru mettir fer Auðun með henni og gengur í baðstofu; þar í rúmi sér hann tvö börn. Líka sér hann þar liggja mann þann í öðru rúmi er þeir hittu um kvöldið. Sá heilsar Auðuni með blíðu og bað hann velkominn og mælti: „Til þess vildi ég finna þig að ég ætlaði að biðja þig að skíra börn þau er þú sér hér, því ég læt vera þó ég haldi vöku fyrir þér því þú færð ekki ferðaveður á morgun hvort sem heldur er og gefst þér því nægur tími til að sofa úr þér stírurnar fram eftir á morgun. Börnin eiga vinnuhjú mín.“ Auðun mælti: „Mega ei samferðamenn mínir vera við?“ Hann kvað svo vera mega og var nú sent eftir þeim. Síðan skírir hann börnin. Þá biður bóndi hann lesa og gjörir Auðun það. Bóndi segir hann skuli liggja hjá sér. Auðun segist ekki vilja reka konuna úr rúmi. Bóndi segir: „Hún er ekki rekin er hún fer fúslega. Er mér ekki svo brátt um að ekki megi ég vera konulaus eina nótt. Konan heitir Sigríður og er ei nema sextán ára. Þókti mér hún of ung til giftingar, en ég fékk hana ekki utan með því skilyrði að ég giftist henni strax.“ Þá spyr Auðun hann að ætt og nafni. Hann segist Helgi heita og vera son Helga Finnssonar og Halldóru. Helgi segir að bær þessi heiti Mjóidalur, en bæirnir allir í kring séu nefndir Mjóadalssveit. Um morguninn sýnir hann Auðuni allt utan húss og innan og eru þar bæði hey-, hrossa- og fjárhellrar, úthöggvið fornmannaverk. Að fimm dögum liðnum kom gott ferðaveður og fylgdi Helgi Auðuni og félögum hans á rétta leið. En áður þeir skildu bað Helgi Auðun að koma við hjá sér er hann færi norður aftur og skildu þeir með hinni mestu blíðu.

Nú er aftur að minnast á hina þrjá reisufélaga Auðunar er við þá skildu á heiðinni. Þeir héldu fram ferð sinni þar til þeir komu að sæluhúsi því er á heiðinni var og stóð bylurinn í fimm daga svo þeir komust hvergi. Á þeim tíma varð einn þeirra svo veikur að hann var ekki ferðafær er upp létti. Skildu þeir hestinn eftir hjá honum heylausan og bundu hann við skrínuna. Þangað kom Helgi Helgason og lét færur hans upp á hest hans, en lét hann upp á sinn hest og fylgdi honum á rétta leið allt til bæja.

Það er frá Auðuni að segja að hann kom aftur til Helga og héldu þeir tryggð sín á milli svo lengi sem þeir lifðu.